Bæjarblaðið Jökull - 01.07.2021, Qupperneq 1
Síðastliðinn laugardag fór
Snæfellsjökulshlaupið fram. 249
keppendur hlupu frá ráslínunni á
Arnarstapa, yfir jökulhálsinn og í
mark í Ólafsvík. Metskráning var
í hlaupið í ár eða 300 manns,
hins vegar varð eitthvað um
afföll og voru 249 hlauparar
sem mættu til leiks. Aðstæður á
jöklinum voru krefjandi, mikill
snjór, hvasst, skafrenningur og
haglél á tímabili. Björgunarsveitin
stóð vaktina á hlaupaleiðinni
með drykkjastöðvar með 4 km
millibili auk þess sem þau voru
keppendum innan handar ef
eitthvað kom uppá. Þrátt fyrir
erfiðar aðstæður skiluðu hlauparar
sér þó í mark og fyrir vikið voru 22
kílómetrarnir meira afrek en ella.
Þegar keppendur komu í mark
biðu þeirra þátttökuverðlaun og
hressing í Sjómannagarðinum
auk þess sem Sker var á svæðinu
með súpur og salöt til sölu.
Verðlaunaafhendingin fór einnig
fram í Sjómannagarðinum en það
var Þorsteinn Roy Jóhannsson sem
sigraði hlaupið á 1 klukkustund
og 43 mínútum. Andrea
Kolbeinsdóttir var fyrst kvenna og
kláraði hún á 2 klukkustundum
og 2 mínútum. Þorsteinn og
Andrea hlutu bæði bikar en
einnig voru veitt verðlaun fyrir
efstu þrjú sætin fyrir bæði karla og
kvennaflokk hjá 39 ára og yngri,
40 til 49 ára, 50 til 59 ára og svo
60 ára og eldri. Mikil ánægja var
með vel heppnaðan dag bæði hjá
skipuleggjendum og keppendum
sem eins og sannir íslendingar
létu veðrið ekki á sig fá.
sj
981 tbl - 21. árg. 1. júlí 2021
Ólafsbraut 55, Ólafsvík
Sími: 436 1212
Vindur og snjór í erfiðu hlaupi
Vegna sumarleyfa kemur
Bæjarblaðið Jökull ekki út næstu 5 vikur.
Næsta tölublað Jökuls
kemur út 12. ágúst.
Jökull kominn í frí
Það voru ekki allir keppendur með stuðningsmenn sem fylgdu þeim en þessi
áhorfandi kvatti ömmu sína áfram með skilti sem hann málaði sjálfur.