SÍBS blaðið - 01.06.2024, Blaðsíða 22
forsenda þess að jafnvægi náist í heilsufarslegum þáttum er
félagslegt öryggi og jafnvægi í daglegu lífi.
Að festa í sessi nýjar og bættar venjur getur oft reynst
hægara sagt en gert. Við erum mörg hver gjörn á að byrja
af miklum krafti og ætlum okkur að breyta mörgu. Sumir
kannast við að byrja vel, kaupa sér kort í ræktinni og taka
mataræðið í gegn. Það gengur vel fyrst í stað en fer oft í
gamla mynstrið aftur. Mikilvægt er að setja sér raunhæf
markmið og að forsendurnar fyrir breyttum venjum séu af
réttum ástæðum. Sem dæmi má nefna að bæta heilsu og
auka vellíðan frekar en að einblína á þyngdartap. Þyngdar-
tap og heilsa haldast ekki alltaf í hendur. Bættar lífsvenjur
geta haft heilsufarslegan ávinning og bætt lífsgæði fólks óháð
þyngdartapi.
Gott er að huga að eftirfarandi atriðum:
• Raunhæf markmiðasetning: Tökum fyrir 1 – 2 atriði í einu
og setjum þau í forgang. Það tekur tíma og krefst þolin-
mæði að gera breytingar á lífsvenjum. Dæmi um raunhæfa
markmiðasetningu gæti til dæmis falið í sér að fara klukku-
stund fyrr að sofa og hreyfa sig þrisvar sinnum í viku. Svo
er hægt að bæta við nýjum venjum koll af kolli.
• Svefnvenjur: Mikilvægi svefns er vel þekkt sem ein af
grunnstoðum heilsusamlegs lífs og hefur áhrif á þyngdar-
stjórnunarkerfin. Þekkt áhrif svefnleysis eru til dæmis
orkuleysi og sterk löngun í orkuríkan mat. Að mörgu þarf
að huga þegar kemur að svefninum og eru góð ráð að
finna í bókinni ,,Þess vegna sofum við” eftir Matthew
Walker. Sem dæmi má nefna að halda sig við fastan svefn-
tíma, takmarka drykki sem innihalda koffín, borða reglu-
lega yfir daginn og finna tíma fyrir hvíld.
• Fæðuvenjur: Það er ekki bara hvað við borðum sem skiptir
máli heldur einnig hvernig við borðum og hvernig okkur
líður varðandi mataræðið. Mikilvægt er að borða reglulega
(ca. 3 máltíðir á dag og 1-3 millibitar) og æfa að borða með
athygli og ánægju. Einnig er mikilvægt að borða hægt og
tyggja matinn vel, setjast niður og gefa sér tíma. Mikil boð
og bönn í mataræði skila oft lélegum langtímaárangri. Því
er gott að setja sér frekar þau markmið að bæta rólega inn
næringarríkum og fjölbreyttum mat.
• Þjálfun svengdarvitundar: Það er gagnlegt að hlusta eftir
merkjum líkamans, hvernig er líðan fyrir og eftir mál-
tíðir, hvað fer vel í okkur og hvað illa? Hversu svöng
erum við þegar við byrjum að borða og hversu södd þegar
við hættum? Gagnlegt er að meta sig á svokölluðum
„svengdarmæli“ (sjá hér að neðan). Best er að halda sig
innan gula svæðisins. Að staðsetja sig á svengdarmælinum
krefst þjálfunar og getur tekið tíma og þolinmæði. Margt
getur valdið truflunum á svengdar- og sedduskilaboðum
líkamans. Í þeim tilfellum er erfitt að treysta á þau skilaboð
í upphafi. Gott er að tímasetja máltíðir og til dæmis nota
símann til áminningar.
• Samkennd og mildi í eigin garð: Að mæta sjálfum sér með
mildi og sanngirni er líklegra til árangurs en getur verið
þáttur sem þarf að þjálfa og styrkja. Hrósum okkur fyrir
hvert skref í rétta átt og þau skref sem þegar hafa verið
tekin. Slíkur hugsunarháttur er margfalt líklegri til að færa
okkur þangað sem viljum fara en of háleit markmið, dóm-
harka og óþolinmæði.
• Andleg líðan: Einn af grunnþáttum heilsunnar og mikilvægt
að skoða hvort þurfi að vinna með. Andleg vanlíðan og
óunnin áföll geta verið orsök eða afleiðing þyngdaraukn-
ingar. Matur getur auðveldlega blandast inn í tilfinningalíf
okkar og verið eitt bjargráð til að takast á við erfiðan til-
finningavanda. Um þriðjungur fólks sem fer í offitumeðferð
greinist með átröskunina lotuofát (binge eating disorder).
Ef átröskun er til staðar getur þurft sértæka meðferð við
átröskun. Ef stefnt er að efnaskiptaskurðaðgerð er mikil-
vægt að vinna með átröskunina áður en farið er í slíka
aðgerð
• Hreyfing og virkni: Það er vel vitað hve jákvæð áhrif
líkamleg hreyfing hefur á heilsu okkar. Það felur í sér bæði
skipulagða hreyfingu, göngutúra, vatnsleikfimi, badminton
og einnig almenna virkni svo sem garðvinnu, að leika sér
og margt fleira. Að tengja vellíðan við hreyfingu og áhuga-
svið er mikilvægt til að halda áfram á þeirri vegferð að
viðhalda sem bestri heilsu. Verum sanngjörn og heiðarleg,
setjum okkur raunhæfar kröfur og horfum á það sem vel er
gert. Aðalmálið er að halda áfram líkamlegri og félagslegri
virkni og hætta ekki þótt á móti blási.
Af framansögðu er ljóst að heildræn sýn á heilbrigði og að sjá
tækifæri til góðra breytinga á sínum lífsstíl eru farsæl skref að
stíga. Á Reykjalundi starfar þverfaglegt teymi sem styður fólk
í að vinna heildrænt með sinn lífsstíl. Mikilvægt er að gefa sér
góðan tíma, sýna sér samkennd og mildi á þessari ævilöngu
vegferð.