Morgunblaðið - 25.11.1984, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 25.11.1984, Blaðsíða 17
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 25. NÓVEMBER 1984 81 sem er óskaplega mikilvægur. Þannig stjórnandi þarf yfirleitt ekkert að segja, þarf ekki að eyða tíma í útskýringar. Hann tendrar eitthvað í manni með nærveru sinni. Þetta er gáfa sem ekki nærri allir hafa. Þeir geta verið mjög góðir stjórnendur samt. Þeir vinna öðruvísi, tala, eru mjög skýrir og koma verkunum oft mjög fallega til skila. En ég kýs hina. Þú spilar í hljómsveit, en svo leik- urðu líka einleik. Er það nauðsyn- legt fyrir þig að fá að leika einleik? EJ: Já, það er það. Ég hugsa að ég gæti ekki þrifist sem hljóð- færaleikari, nema ég hefði þetta svolitla svigrúm sem einleikari. Það fullnægir einhverri þörf, hvort sem það er nú exhibisjón- ismi eða þörf fyrir að leyfa öðrum að taka þátt í því sem maður hefur sjálfur sterkar tilfinningar fyrir. Kannski er það spurning um að finnast maður hafa eitthvað að segja. Meðan svo er þá langar mig að spreyta mig sem einleikari. Það er mikið frelsi sem felst í því, en líka mikill agi. Hann heldur manni ákaflega vel við efnið. En vitaskuld er mjög æskilegt að hljómsveitarfólk spili annað en bara hljómsveitarverkin og þar finnst mér kammermúsík mikil- vægust, tríó, kvartettar eða ann- að, bara til að halda eyranu við, hlusta á hvað næsti maður er að gera. Kammermúsík byggist mest á því að gefa og þiggja, hlusta. í hljómsveit er heilmikið slíkt frelsi þátt fyrir að stjórnandi heldur um taumana. Hann treystir svo mikið á þetta næmi hljóðfæraleikaranna og sú hljómsveit er ekki góð hljómsveit sem er ekki eiginlega alltaf að spila sem kammerhljóm- sveit. Það er stjórnandinn sem sér um heildina og horfir á hana en við í hljómsveitinni erum öll í litl- um deildum, sem skiptast á boð- um. Því meifa sem kammermúsík er leikin, því betra. En svo eru einleikarar í hljómsveitinni. Það eru einleikshlutverk, stuttar stróf- ur og til að koma þeim til skila þarf vissan einleikaraþankagang. Það eru þessar laglínur, sem hefja sig upp úr öllu og til að þær nái að komast á flug, þá verður viðkom- andi að hafa tilfinningu fyrir ein- leik. Það er munur á undirbúningi und- ir einleik og hljómsveitarleik. Get- urðu lýst þessum mun? EJ: Þetta eru að mörgu leyti svo ólíkir hlutir, maður setur sig í allt aðrar stellingar, hugsar allt öðru- vísi um einleiksverk. Fyrir utan hversu miklu meiri vinna það er að læra kannski eins og hálfs eða tveggja tíma prógramm og allar þær sviptingar sem eru innan þess prógramms, allar þessar andstæð- ur i tilfinningu og stúlkun, þá er maður svo mikið einn. í hljóm- sveitinni finnur maður mikið fyrir vissri vernd, að sitja í hljómsveit- inni og allir eru að búa til músík. Já, ég nota mikið þetta hugtak, að búa til músík, sjálfsagt er þetta aðeins léleg þýðing úr ensku. Þetta er eitthvað sem við gerum saman. Stundum er enginn ein- staklingur til, stundum er bara heildin. Þá er það ein hljómsveit og í stóru, miklu hljómsveitar- verki, þá er það ægilega gaman. Hljómsveitarlitteratúrinn er magnaður, það er svo margt í þessum bókmenntum, sem er gam- an að spila. Það er t.d. alveg stór- kostlegur hlutur að spila Beethov- en-sinfóníu. Þessi verk eru svo meitluð, hver einasta nóta sú eina rétta og það má engu skeika. Hljómsveitarundirleikur er líka oft skemmtilegur, t.d. í píanókon- sertum Mozarts. Þar eru stundum unaðslegir samleikskaflar milli pí- anósins og einstakra hljóðfæra í hljómsveitinni. En einleikurinn, já, ég virðist haldinn þessari áráttu að þurfa að kvelja mig við og við, standa einn og spila ... Svo hefurdu unniö með hóp, sam- anber Ld. hópinn sem þú varst með á listahátíð. Hvað viltu segja um slíka vinnu? EJ: Já, það er kammermúsíkin, kannski það bezta af þessu öllu. Hún er svo manneskjuleg og int- ím, oft það bezta í tónlist í hnot- skurn. Mér finnst gaman að setja saman prógramm með fólki, sem er gott að vera nálægt og vinna með, og flytja verk, sem okkur langar að leyfa öðrum að njóta líka. Þá er svona hópur tilvalinn. Hann er í rauninni ekki til, aðeins nafn sem ég dreg upp úr skúffu og nota við hentugleika. Já, við vor- um með tónleika í vor. Það var aðallega kynning á verkum eftir enska tónskáldið Peter Maxwell Davies. í vetur langar mig að flytja tónlist eftir amerískt sam- tímatónskáld, Alan Hovhaness. Hann er af armenskum ættum og hefur eytt mörgum árum í Aust- urlöndum. Hvernig fylgistu með í tónlist, hvar kynntistu Ld. verkum eftir Hovhaness? EJ: Ég kynntist honum í gegn- um amerískan píanóleikara, sem er búsettur hér, Martin Ber- kovsky. Við spiluðum saman einu sinni heima hjá Martin eitt eða tvö verk. Þetta er óvenjuleg sam- tímatónlist. Hún er eiginlega róm- antísk, sensuous, hvernig sem við eigum að þýða það. Tilfinninga- þrungin, tilfinninganæm, ekki hörð, heldur mjúk. Mjög sterk og áhrifamikil. Hún er andstæða við svo margt sem ég hef flutt af nú- tímatónlist, sem er hörkuleg, speglar þetta harða og kalda. Þegar kemur að því að þú átt að spila einleik, hvernig býrðu þig und- ir? EU: Æ, ég er alltaf að leita að töfraformúlunni. Maður finnur hana líklega aldrei. Ég hef stund- um flaskað á því, að vinna of mik- ið og of nálægt flutningi. Það er taugaspenna. Þá er verið að reyna að leiða hann hjá sér, gleyma, með því að vinna. Þá gætir maður þess ekki nægilega vel að hvilast, vera vel upplagður. Það var reyndar einu sinni haft eftir Rudolf Nur- eyev að hann færi yfirleitt inn á sviðið alveg örmagna, hamaðist þangað til hann gæti varla meir. Þá kæmi alltaf þetta extra, sem allir eiga þarna einvers staðar fyrir innan, en er stundum erfitt að finna. Að minnsta kosti á ég oft erfitt með að særa það fram þegar helzt skyldi. Stundum þegar ég fer inn á svið, finnst mér ekki vera nokkur kraftur eftir í mér. En svo fara hjólin að snúast þegar maður byrjar og er búinn að hrista af sér skjálftann. Þetta er hlutur sem er alltaf að lærast, maður verður að læra á og lærir af mistökunum. Ég reyni núorðið að hugsa aðeins um augnablikið, láta ekki hugsunina um tónleikana, kvíðann, ná tökum á mér. Trúin með stóru téi, gefur styrk sem er annars erfitt að finna. Og svo er það gamla sagan að kunna. Við sem stöndum í þessu hér erum iðulega í svo mörgu öðru. Oft er undirbúningurinn ein- faldlega ekki það góður að manni líði nógu vel af þeim sökum. Stundum er verið að skrifa ný verk og við fáum þau rétt fyrir tónleikana. Þá hefur kannski stað- ið í tónskáldinu að koma þessu frá sér. Annars býst ég við að ég þríf- ist á spennu. Ég hef svo oft reynt að slappa af, láta þetta ekki snerta mig, reyna að vera áhyggjulaus, en það kemur alltaf niður á því sem ég er að gera. En mikil spenna getur verkað neikvætt og komið illilega niður á flutningi. Þá vonar maður að áheyrendur fyrir- gefi og reynir að gera betur næst. Þegar þú stendur á pallinum, veiztu af áheyrendum, eða öllu held- ur hvernig veiztu af þeim? EJ: Já, mér er ekki vel við að aðskilja mig og þá. Að vissu leyti verður maður að vera það en ég Yfirleitt er svo mikið antíklímax, þegar mað- ur er búinn að spila, maður er svo skelfing tómur. Mér fínnst alltaf erfítt þeg- ar fólk kemur bak við og þakkar fyrir eða hrósar, það er erfítt að taka á móti hrósi. Helzt vildi ég, og vil alltaf, bara fara eitthv- að, vera einn. Oft er óánægja, maður er aldrei ánægður. verð að hafa tilfinningu fyrir ein- hverri heild, einbeitingarinnar vegna, kannski salnum í heild, hljómsveitinni, fólkinu í salnum og telja mér trú um að þetta séu vinir sem styðja mann í huganum, frekar en að þeir bíði eftir mistök- um. Maður veit nú reyndar að það hlakkar alltaf í einum og einum yfir feilnótum. En mér finnst nauðsynlegt að finna salinn. Stundum, t.d. í kirkjum við jarðarfarir, þá verður þessi nær- vera fólksins svo yfirþyrmandi. Það er kannski ekki rétt að tala um það sem að hljóðfæraleikaran- um snýr þegar fólk er í kirkju að syrgja en það getur verið svo átak- anlegt að finna straumana í kirkj- unni. Þá verður maður að loka fyrir, setja vegg á milli sín og at- hafnarinnar til að komast í gegn- um sitt. Á tónleikum hef ég svo- sem stundum staðið sjálfan mig að því að hugsa of mikið um sal- inn, til áheyrenda, einhvern veg- inn missa mig út í sal. Þá tapast einbeitingin og maður gerir hræðilegar gloríur. Þetta er svona þetta einkennilega samspil af köldum, yfirveguðum huga og svo þessari opnu tilfinningagátt, sem maður verður að hafa. Hraðinn t.d. hann fer svo mikið eftir þvi hvernig manni finnst stemmning- in vera. Stundum finnur maður sér til skelfingar að músíkin er að leka niður, finnur línuna súnka niður einhvern veginn. Þá verður að herða á, reyna eitthvað annað. Svo koma gagnrýnendur og segja að maður spili svo einkennilega rúbató, það sé sérkennileg túlkun a’tarna, eins og þetta sé allt út- reiknað og yfirvegað. Já, mér finnst svolitið gaman að hafa óvissuþátt, kvelja mig ögn. Ég er greinilega masókisti ... Ég hef verið þrisvar á tónleikum, þar sem flytjendur sögðu frá því sem þeir voru að gera, þar af einum hjá þér. Vildirðu gera það oftar? EJ: Það er undir ýmsu komið. Mér finnst ég ná skemmtilegu sambandi við áheyrendur, ekki endilega betra, en öðruvisi. Kannski er persónan ég að troða sér um of fram, ég veit ekki. — En, nei, ég hugsa það ekki þannig. Mér finnst oft auðveldara að spila eftir að hafa talað. Ég losna við spennu við að tala. Við kontakt sem ég næ á þennan hátt, þá finn ég strax að það er komin vinátta, þarna eru vinir sem taka undir það sem ég er að segja. Sumum finnst þetta óþarfi, tónlistin eigi að geta talað sínu máli. Auðvitað gerir hún það samt, en þau verk sem ég spila gjarnan eru verk sem fólk þekkir yfirleitt ekki vel. Það getur oft varpað einhverju ljósi á þau, auð- veldað fólki að skilja músikina, ef maður getur sagt eitthvað frá hvað hafi vakað fyrir tónskáldinu. Mér finnst auðveldara að tala fyrst, finnst það skemmtilegra. Það er sennilega heilmikið mál að læra að nota spennuna? EJ: Já. Ég veit ekki hvort ég finn nokkurn tíma jafnvægis- punktinn. En ég held ég sé svolítið að læra á þetta. Ég hef haft til- hneigingu til þess að ana áfram, læra ekki af mistökunum. Þetta er bara visst öryggi, sem kemur mis- jafnlega fljótt hjá fólki. Sumir hafa þetta alveg frá byrjun. Ég hef alltaf öfundað þá. 1 hvernig hugarástandi ertu eftir tónleika? EJ: Yfirleitt er svo mikið antí- klímax, þegar maður er búinn að spila, maður er svo skelfing tóm- ur. Mér finnst alltaf erfitt þegar fólk kemur bak við og þakkar fyrir eða hrósar, það er erfitt að taka á móti hrósi. Helzt vildi ég, og vil alltaf, bara fara eitthvað, vera einn. Oft er óánægja, maður er aldrei ánægður. Jæaj, þetta er klisja, en maður setur markið allt- of hátt, nær því aldrei. Það er kannski hluti af því sem ég er að læra núna. Að sætta sig við að maður gerir eins vel og maður get- ur. Áður hafði ég tilhneigingu til að vera mjög óánægður eftir allt sem ég gerði. Ég skemmdi kannski fyrir öðrum, sem voru ekki í nein- um stellingum eða settu markið ekki hátt, heldur komu bara til að njóta og nutu. Fólk kemur þakk- látt á eftir og þakkar fyrir, en þá er maður ekki í hugarástandi til að samgleðjast. Er það mismunandi eftir því hvað þú spiiar, hvort þú ert Ld. búinn að spila klarínettukonsert eftir Mozart eða samtímatónlist? EJ: Nei, mér finnst eiginlega enginn munur þar á. Maður skipt- ir um stíl eftir því hvernig verkið er, segjum t.d. konsert eða sam- tímaverk. Það er allt önnur túlk- un, allt annar tónn, allt önnur hugarinnstilling. En það er alveg fyrir utan sjálfan performansinn, það eru meira teknísk atriði. Ég er alltaf jafn útkeyrður hvort sem viðfangsefnið er nýtt eða gamalt. Fyrir mér er það að koma fram alltaf eitt og hið sama. Það að performera er bara einn ákveðinn hlutur. Hvernig ánægju eða gleði gefur tónlistin þér, hvernig lýsir kikkið sér? Viðtal/Sigrún Davíðsdóttir Myndir/Björg Sveinsdóttir EJ: Undirbúningsvinnan er eitt, flutningur annað. Ég er eins og krakkarnir, óþolinmóður eftir að kakan sé bökuð og skreytt og til- búin á borðið. En þegar allt er komið á sinn stað, allar nótur komnar í fingurna, þá legg ég af stað í mína ferð. Ég á erfitt með að iýsa þessu nánar, þetta er kannski líkast því að fljúga, nokk- urs konar flugferð. Ég gef mér fullt frelsi til að fara svo langt sem mér sýnist og stundum þegar útsýnið er gott og bjart, þá er ánægjan, fullnægingin mikil. Annars leiðist mér frekar allt upphafið tal í sambandi við listir og upplifun í listum. Sæla, ánægja, er allt „upplyft“ ástand, hvort sem hún er sprottin af ynd- islegum mat, Esjunni á fögrum haustdegi eins og undanfarið, sparka fótboltatuðru í mark, finna ástina ... Við erum alltaf að reyna að höndla þetta sæluástand varanlega, en gengur illa. Vandinn er kannski sá að finna hamingj- una, kikkin, í hversdagslegu, ómerkilegu hlutunum, ekki bara i ekstasíuaugnablikunum. Músíkin er sú leið sem ég þræði, fyrir tilviljun eða ekki, vonandi til einhvers þroska. Það gengur á ýmsu á þeirri leið eins og vill vera, leiðirnar eru eins margar og við mannkertin. En á meðan ég finn lífspúlsinn í gegnum músíkina, óreglulegu slögin, kippina og allt saman, þá held ég ótrauður áfram. Þegar frá líður, ertu þá laus við verkið eða er það áfram með þér? EJ: Nei, það situr oft fast í mér fyrst á eftir, en ég er fljótur að gleyma, oft sem betur fer. Ég hef þannig minni að ég er fljótur að læra en líka fljótur að gleyma. Það er að vissu leyti bagalegt, ef mað- ur þarf að rifja upp og spila sama verkið t.d. eftir ár. Þá verð ég eig- inlega oft að byrja á byrjuninni. En þegar er byrjað upp á nýtt, þá finnst kannski eitthvað nýtt. En mér þætti t.d. óþægilegt ef það væri t.d. hringt í mig og ég beðinn um að spila ákveðið verk í kvöld, eins og kemur oft fyrir úti í heimi, sérstaklega hjá píanistum. Ein- hver forfallast og annar fær tæki- færi. En það er þá vitaskuld fólk, sem er alltaf með þessi verk í tak- inu, er alltaf að æfa þau. Ég þyrfti hins vegar svolítinn tíma til að rifja upp. Þetta er ekki einungis spurning um minni, heldur einnig og ekki síður rútínu, endurtekn- ingu. Saknarðu þess að fá ekki tækifæri til að endurtaka? EJ: Já, ég vildi það mjög gjarn- an, einmitt að ekki líði of langt á milli. Við höfum fengið nokkur tækifæri til þess úti á landi. Það er svo geysilega fínn skóli að spila nánast á hverjum einasta degi við alls konar aðstæður eins og er úti á landi. Maður fær svo mikkla við- miðun að reyna sig við þetta, lærir svo mikið á sjálfan sig. Það verður nánast svona tilfinning upp á líf og dauöan að koma fram með sin- fóníunni með svona löngu milli- bili. Það er svo langur aðdragandi að tónleikunum, spennan verður miklu meiri fyrir bragðið. En þetta liggur í aðstæðum hér. En svo ég rífist nú dálítið, þá held ég þó að það væri hægt að endurtaka sinfóníutónleika oftar en gert er. Það eru ekki alltaf allir sem geta komið á þessu eina kvöldi. Svo kæmi kannski annað públíkum, t.d. á eftirmiðdagstón- leika á laugardegi. Þá þyrfti bara að selja það, auglýsa það vel. Það gerði hljómsveitinni svo gott að fá að endurtaka. Það sést vel í sam- bandi við óperuuppfærslur hljómsveitarinnar í seinni tíð. Flutningurinn er oft öruggari í annað skipti. Þú talaðir áðan um að þér fyndist gaman að setja saman efnisskrár. SJÁ NÆSTU SÍÐU

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.