Lögberg - 26.07.1956, Blaðsíða 6

Lögberg - 26.07.1956, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 26. JÚLÍ 1956 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF Anna gekk heim ánægð yfir því, hvað kossar hans höfðu verið hlýir. Hann elskaði hana ennþá, það var hún sannfærð um. Þau gætu orðið sæl aftur. Hún varð að reyna að verða jafnoki Þórðar hvað sáttfýsina áhrærði. Hann hafði þó séð allar sínar framtíðaráætlanir hrynja til grunna, en var þó sami vinur mannsins, sem hafði kollvarpað þeim, eins og hann hafði verið alla ævina. Hún var að snúast eitthvað í eldhúsinu, því að Borg- hildur var fram á engjum, þegar Jón kom allt í einu inn og henti hnakktöskunni hans Þórðar á borðið. „Þetta átti ég að fá þér“, sagði hann hrana- lega. „Þú veizt sjálfsagt, hvernig á henni stendur. Þú hefur farið að Jarðbrú, þegar Stjarni var með söðulfarinu hérna hjá Klifinu fyrsta þurrkkvöldið, þegar við komum af engjunum“. „Er mér ekki leyfilegt að fara hvert sem mér dettur í hug?“ spurði hún fálega. Hún las ásökun úr augum hans. „Lína liggur fárveik og það er búið að sækja lækni. Finnst þér þetta sómalegt?“ „Hvað kemur það mér við?“ „Þú hafðir skipað henni að koma með þér ofan fyrir tún — náttúrlega til að skamma hana“. Þá greip afbrýðin hana. „Og þess vegna horf- irðu svona á mig. Þú fórst ekki til hennar í fyrra vetur til að ásaka hana, þó að ég væri næstum orðin brjáluð fyrir hennar aðgerðir“, hrópaði hún, greip töskuna og kastaði henni til hans. Hann greip hana á lofti og fleygði henni á borðið — og hvarf svo fram úr dyrunum. Næstu tveir dagar voru langir og þreytandi. Það var lokið við að binda heyið af engjunum, en Anna bar ekki kaffi til hlöðunnar aftur. Hún var þjáð af hugarvíli út af Línu. Samvizkan nöldraði við hana, en afbrýðin sagði aftur á móti að engin kona, sem hefði þolað annað eins og hún, hefði farið vægar í sakirnar við þá konu, sem hafði komið þessu öllu til leiðar. Og svo það, sem var verst af öllu: Hún var sannfærð um, að maðurinn sinn elskaði Línu ennþá. Svo mikið hafði hann reiðzt, þegar hann frétti að hún væri lögzt í rúmið. En verst af öllu var þó, ef það bærist um sveitina, að hún hefði komið að Jarðbrú þennan dag, sem Lína veiktist. Og það var víst ekki að efa, að þau myndu ekki þegja yfir því, Doddi og Hildur. Að minnsta kosti hafði gesturinn, hver sem hann hafði verið, vitað það. Þá fengi hún sama orðstírinn og Ragnheiður gamla á Hóli, þegar hún barði vinnu- konuna sína, svo að hún komst aðeins til næsta bæjar og lagðist þar veik. Henni hafði ofboðið að heyra þetta, þegar hún var unglingur. Það var vegna þess, að hún var hrædd um Sigurð gamla fyrir vinnukonunni. Það var þó ofboðslegt að láta líkja sér við annan eins skapvarg og sú kerling var. Svo kom sunnudagur, sem var messudagur á Nautaflötum. Helga á Hóli hafði ekki látið það undir höfuð léggjast að sækja kirkju, því að hún var vön að sleppa engum messudegi úr, hverriig sem viðraði, ef hægt var að komast yfir ána. Anna bað Borghildi að spyrja hana, hvernig Línu liði. Hún hafði frétt, að hún væri í rúminu. Og Borghildur kom aftur með þær fréttir, að Lína væri á batavegi. Anna andvarpaði af feginleik. Hjónasambúðin seig í sama horfið aftur — þögn og fáleikar, þegar þau voru tvö ein inni í hjónahúsinu. Jakob var áhyggjufullur á ný. Hann sá, að enn hafði eitthvað korhið fyrir, sem hann vissi ekki, hvað var. En Anna ætlaði nú samt að gerast svo sáttfús að þiggja af honum afmælisgjöf í þetta sinn. Hún hafði ekki þegið hana á síðasta afmæli hennar. En nú var engin gjöf á boðstólum henni til mikilla vonbrigða. Það leit út fyrir, að Jón væri algerlega hættur öllum sáttatilraunum. Svona ætlaði hann sér að búa saman við hana’ það sem eftir var ævinnar — kaldur og afskiptalaus um hennar hagi. Máske var hann að bíða eftir því, að hún uppgæfist á slíkri sambúð og færi í burtu, án þess að krefjast þess að Jakob færi með henni. En úr því klæði yrði honum aldrei kápa. Stundum sat hún ein inni í hjónahúsinu á kvöldin, þegar hans var von, og bjóst við að hann segði kannske eitt hlýlegt orð eða þá að hann liti til sín með sama svip og þegar hún færði honum kaffið forðum. En sú von brást. •— Vanalega var umtalsefnið ekki annað en að spyrja, hvar Jakob væri, því að hann væri ekki háttaður, eða þá að talað var um veðrið, hvað það hefði verið indælt í dag og hve ákjósanlegt það væri að fá töðuna þurra af ljánum að kalla mætti. Stundum kom svo þessi athuga- semd eða ráðlegging á eftir: „Þú ættir að vera meira úti, vina mín, þegar veðrið er svona gott. Þá yrðirðu sællegri útlits. Þessi innivera er óholl“. En þetta var svo hlýjulaust, að hún fylltist gremju og svaraði stuttlega, að líklega stæði honum nokk- uð á sama, hvernig sér liði, og skaut þar með loku fyrir samræðuna. Hann greip þá vanalega pípuna eða þá að hann gekk út að glugganum og horfði yfir dalinn. Stundum fór hann að raula eða blístra lag, eins og hann vissi ekki að hún væri inni. Þá þoldi hún ekki nærveru hans og fór fram. Svona leið tíminn. Kvöldin fóru að verða dá- lítið húmkennd. Túnið var hirt og töðugjöldin drukkin. Engjaheyskapurinn byrjaði svo. Allt var líkt og vant var. Anna fann, að nú ætlaði þung- lyndið á ný að ásækja hana, þegar dagurinn fór að styttast, en vald næturinnar og myrkursins að aukast. Þá greip hún biblíuna, en varð ennþá órólegri við lestur hennar. Hún þóttist vita, hvers vegna biblían megnaði ekki að veita sér huggun. Það var vegna þess, að hún hafði nú um marga mánuði alið hatur, gremju og óvild í hjarta sínu til manns, sem hún hafði svarið ævarandi tryggð frammi fyrir altari Drottins. Það hafði enga þýð- ingu, þótt hún reyndi að bera af sér sökina með því að það hefði verið hann, sem braut af sér og kom öllu í bál og brand á heimilinu. SÉRA HALLGRÍMUR Sumarið hafði verið framúrskarandi þurrka- sælt, varla komið dropi úr lofti. Nú fóru bænd- urnir að óttast rigningu, en tíðin hélst alltaf sú sama. Það var komið fram yfir miðjan ágúst síðla kvölds og Anna hafði verið að dunda í garðinum fyrir sunnan bæinn og tala við Borghildi gegnum opinn gluggann um það, hvað tíminn væri hræði- lega tilbreytingarlaus, aldrei sæist maður á ferð — allir náttúrlega uppteknir í þessum heyskap. En einmitt þegar hún kom heim á hlaðið, sá hún gest koma utan með ánni. Hver skyldi það vera? Ein- hver lengra að með tvo til reiðar. Hún minntist þess, að hún hafði séð gest koma úr sömu átt fyrir nokkrum vikum, sem flutti með sér hnakk- tösku og slæm tíðindi, sem yfirskyggðu ofurlítinn vonarneista, sem hafði verið lifnaður í huga henn- ar um að eignast ást manns síns aftur. En þetta var ekki Siggi á Hóli, sem þarna var á ferðinni. Helzt gat hún ímyndað sér, að hann væri ekki úr dalnum — líklega einhver, sem ætlaði vestur yfir fjall. Hún doka^i við á hlaðinu til að sjá, hvort hann ætlaði að koma heim. Þá yrði það nætur- gestur. Hún færði sig inn í bæjardyrnar. Hann beygði á götuna, sem lá heim að bænunt, og reið von bráðar í hlaðið. Hár maður á þvældum reið- skjóta, svitastorknum og strengdum upp í hrygg. Sjálfur leit gesturinn lítið betur út. Hann fór af baki yzt á hlaðinu, lagði handlegginn yfir makka hestsins, sem gekk við hlið hans eins og eftir skipun og frýsaði þreytulega. Hinn hesturinn greip feginsamlega niður í varpann. Nú sá Anna, að hún hefði ekki átt að bíða komu þessa manns. Hann var ekki af því tagi, sem hana fýsti að taka á móti. Gamall vesalingur, sem leitaði stuðnings skepnunnar til þess að geta gengið styrkum fótum — sjálfsagt drukkinn. Samt var eitthvað við hann, sem gaf til kynna, að hann væri enginn algengur flækingur á ferð, eins og þá kom fyrir að sæust á ferð. Gesturinn bauð gott kvöld, lyfti hattinum og heilsaði brosandi. „Gott kvöld, Anna Friðriks- dóttir!“ sagði hann og rétti henni hvíta, mjúka hönd. , „Hvaða maður gat þetta verið, sem bauð tvisvar gott kvöld og vissi, hvað hún héti?“ hugs- aði hún gruflandi. „Ég vona, að þú þekkir mig“, sagði hann, og þegar hún svaraði ekki, bætti hann við: „Ég fór héðan fyrir tólf árum í hríð og kulda. Nú kem ég í skínandi aftansól. Er það ekki ákjósanlegt?“ Nú rann upp fyrir henni, hver gesturinn var. „Séra Hallgrímur á Gunnarsstöðum“, sagði hún. „Já“, sagði hann og greip hönd hennar aftur. „Ég er kominn hingað í þriðja sinn. Maðurinn þinn sagði mér, að ég væri velkominn hvenær sem ég vildi. Það hefur alltaf dregizt þangað til núna, og ég er kominn til að deyja“. Anna hrökk við. „Ertu veikur?“ spurði hún áköf. „Nei-nei, góða mín, ég er ekki veikur, en úr náttmálum má alltaf búast við nóttinni og hvíld- inni eftir langan dag“, sagði hann og horfði sljóv- um augum yfir túnið og dalinn. Anna fann, að það var kurteisisskylda að bjóða þennan aldraða frænda manns hennar vel- kominn, en hún gat einhvernveginn ekki komið því út fyrir varirnar. Það að sjá hann undir áhrif- um víns gerði hann ógeðfelldan og fyllti hana andúð gegn honum. Og gamli maðurinn hallaði sér þreytulega upp að bæjarþilinu. í mörg ár hafði hann séð þetta fagra höfuðból í dalbotninum í hillingum hugans sem áfangastað eftir langt og erfitt ferðalg, þar sem hann gæti notið ellinnar í ró og sælu. Nú var það orðið að veruleika. Dalur- inn hafði brosað við honum í allri sinni síð- sumarsfegurð. En ríkiskonan, sem hann hafði gert sér von um að reyndist sér sem elskuleg dóttir, bauð hann ekki einu sinni velkominn, þegar hann var loksins kominn alla leið — þreytt og hjálpar- vana gamalmenni. Þetta voru vonbrigði. Það hafði reyndar allt líf hans verið. „Ertu ein heima, kona?“ spurði hann óstyrkri röddu. „Ég var að vona, að Jón minn yrði heima til að bjóða mig velkominn“. Þá yfirvann hjartagæzkan andúðina hjá Önnu. Hún tók í hönd hans og brosti dauflega. „Þá geri égþað í hans stað. Vertu velkominn að Nautaflötum!“ Hann þrýsti hönd hennar ákaft. „Þakka þér fyrir, barnið gott. Þessa stund hef ég lengi þráð“. Anna bauð honum að ganga í bæinn. Hann tuggði upp aftur það, sem hann var búinn að segja: „Mikið er indælt að vera kominn hingað í þriðja og síðasta sinn. Hvergi sér maðúr eins fagra sveit og þennan dal. Þú manst að ég sagði þér það síðast, að ég ætlaði að koma og taka þátt í hamingju ykkar. Það er svo gaman að sjá ham- ingjusöm hjón fyrir þá, sem aldrei hafa fundið hana sjálfir. Ég hef ekki gleymt því, hvað þú sagðist ætla að verða honum góð kona“. Anna bauð honum aftur að ganga í bæinn. Hann staulaðist inn göngin símasandi. Borghildur var í eldhúsinu. Presturinn heilsaði henni og þakkaði fyrir síðast. „Það gleður mig að sjá að þú ert hér ennþá, kona góð“, sagði hann og seig niður á fyrsta stólinn, sem hann náði til. „Sízt datt mér í hug, að við ættum eftir að sjást“, sagði Borghildur í sínum kalda málrómi. „Ja, svona gengur það. Hér er ég nú kominn og vonast eftir að fá að vera hér þangað til ég flyt í garðinn“, sagði presturinn, tók ofan hattinn og lagði hann á borðið. Höfuðið var hárlítið. „Svo já“, sagði Borghildur dálítið hlýlegar. „Ertu orðinn einstæðingur í lífinu?“ „Það hef ég nú eiginlega alltaf verið“, anzaði hann. „Ég tel engan mann einstæðing, sem er giftur og á börn“, sagði Borghildur. „Ertu þá orðinn ekkjumaður?“ v „Nei, hún er lifandi ennþá, en nú er sonur okkar tekinn við jörðinni. Við búskapinn var ég bundinn þangað til núna, að ég yfirgaf allt draslið. — En hvar er drengurinn þinn, kona góð?“ spurði hann og sneri sér að Önnu. „Líklega er hann þó ekki við heyskap með vinnufólkinu?“ „Nei, ég gæti helzt hugsað að hann væri inni“, svaraði Anna, en rétt í því kom Jakob fram og Dísa á eftir honum.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.