Þjóðviljinn - 05.01.1989, Blaðsíða 13

Þjóðviljinn - 05.01.1989, Blaðsíða 13
ERLENDAR FRÉTTIR Grænlenskur fornleifafundur Samtímamenn Rómaveldis á norðurheimskauti Umfangsmestu byggðarleifarforneskimóa, sem fundist hafa á Grænlandi hingað til, veita nýjan fróðleik um Dorsetmenninguna Danskir heimskautakönnuðir eru um þessar mundir að kanna Ieifar eskimóamenningar, sem stóð með blóma á ísbreiðum Norðaustur-Græniands þegar um 1500 árum áður en landnem- ar frá íslandi settust að suðvestan til á þessari stærstu eyju heims. Fornminjastaður þessi er Ile de France, 360 ferkflómetra eyja um 1400 kflómetra í norður frá ís- landi, undan strönd svæðis, sem Danir létu heita eftir Friðriki konungi sínum áttunda. Á eyju þessari, sem árið um kring er umkringd ís, eru leifar stærstu byggðar forneskimóa, sem fundist hefur á Grænlandi hingað til. „Við höfum aldrei fundið slíkt og þvílíkt fyrr. Þarna er allsstaðar fullt af allskonar munum og minjurn," segir Eigil Knuth, 85 ára danskur könnuður og fornleifafræðingur, er stjórnar fjögurra manna leiðangri, sem er þarna við uppgröft. Hann hóf kannanir á Grænlandi 1932 og er nú í tuttugasta og níunda leið- angri sínum þangað. Víða að komnir Hann segir að margur leyndar- dómur bíði enn afhjúpunar á Ile de France, en að ljóst sé þegar að byggðin þarna hafi að mörgu leyti verið sérstök í sinni röð, miðað við leifar annarra fornra eskimó- abyggða. Fólk þarna virðist hafa búið í hringmynduðum kofum, byggðum í hring, og var eldstæði í hverjum kofa miðjum. Líklegt er að veggir hafi verið úr ísflykkj- um, líkt og veggir eskimóahúsa síðari tíma, en þökin úr húðum. Þesskonar eskimóabyggðir hafa komist upp í röð á suður- strönd eyjarinnar á tímabilinu frá um 500 f.Kr. til um 400 e.Kr. Búsetan þama hefur sem sé hald- ist nokkurnveginn jafnlengi Rómaveldi og nokkurnveginn samtíma því. Knuth telur, að sumir eskimóanna, sem þarna höfðust við um lengri eða skemmri tíma, hafi komið frá Suður-Grænlandi, aðrir frá ýms- um hlutum Norður-Grænlands og enn aðrir ef til vill frá megin- landi Norður-Ameríku. Þeir munu einkum hafa lifað á sel- og hvalveiðum. Kljágrýtiskolur Til lýsingar í híbýlum sínum höfðu eskimóar þessir kolur úr kljágrjóti og var hvalspik brætt í þær til eldsneytis. Steinar voru hitaðir í eldstæðinu, síðan notað- ir til að hleypa suðu í vatn. Matur var soðinn í pottum, gerðum úr húðum. Eskimóar á Ile de France virðast ekki hafa haft boga og örvar, eins og aðrir eskimóar þar um slóðir, en bjargast við skutla, hnífa og spjót. Ætla má að á þessu tímabili hafi verið mikið þarna um hvítabirni, sem líklegt er að fólki hafi stafað af nokkur háski. Engar beinagrindur manna hafa fundist við byggða- leifar þessar, og þykir það benda til að menn hafi aðeins hafst þarna við á vissum árstíðum. Fornleifafundir þessir eru upp- spretta nýs fróðleiks um 2500 ára gamla eskimóamenningu, sem nefnd er Dorsetmenning eftir Dorsethöfða á Baffinslandi, en þar fundust menjar menningar þessarar í fyrsta sinn 1925. Til Ile de France komu Evrópumenn fyrst 1905. Var þar á ferð belgísk- franskur heimskautaleiðangur og var leiðangursstjórinn afkom- andi Lúðvíks Filippusar, síðasta konungs Frakka. Hann gaf eynni nafn eftir landshlutanum kring- um París, og virðist þó slíkt heiti frekar utangátta þar norður á nöturköldum heimskautaísnum. Reuter/-dþ. Líbanon Dauðinn gengur sinn vanagang Manndrápinþar á árinu voru mest í innbyrðis vígaferlum sjíta, en tiltölulega friðsamlegt var með kristnum mönnum og múslímum Stríð allra gegn öllum - hér vega vinstrisinnar hlynntir Sýrlendingum að Guðsflokksmönnum. að stríð „allra gegn öllum“ sem staðið hefur í Líbanon í 13 ár hélt áfram á nýliðnu ári, og voru afköstin í manndrápunum þó með minna móti, miðað við mörg önnur stríðsár þar. Telst kunnugum mönnum svo til að tæplega 1500 manns hafi látist þar í vígaferlum árið 1988. Er það heldur meira en árið 1987, en þá voru vegnir þarlendis rúmlega 1400 menn. Á s.l. ári var tiltölulega lítið um bardaga milli kristinna manna og múslíma, en mannskaðinn varð hinsvegar mestur í innbyrðis átökum sjíta, sem búa einkum í suðurhluta landsins og í suður- hverfum Beirút, höfuðborgar Líbanons. Tveir flokkar sjíta, Amal, sem hliðhollur er Sýrlend- ingum, og Hizbollah (Guðsflokk- ur), sem fylgir línunni frá íran, hafa barist af grimmd mikilli um ráð yfir búsetusvæðum sjíta og er þar enn ekkert lát á, þrátt fyrir að „verndarar" beggja, þ.e.a.s. Sýr- land og íran, hafi þrásinnis reynt að stilla til friðar með þessum skjólstæðingum sínum. Samkomulag Arafats og Berris Fyrir utan beina valdabaráttu mun gangur mála undanfarið við- víkjandi deilum ísraels og araba hafa hellt olíu á þennan eld. Frelsissamtök Palestínu (PLO), sem ráða palestínskum flótta- mannabúðum við Sídon, höfðu um skeið veitt Guðsflokks- mönnum stuðning nokkurn. Með Amal og PLO var hinsvegar fjandskapur. En í s.l. mánuði komust þeir Nabih Berri, foringi Amals, og Jasser Arafat PLO- leiðtogi að samkomulagi þess efnis, að PLO skyldi láta af stuðningi við Hizbollah, senni- lega gegn einhverri greiðasemi af Amals hálfu við PLO, sem stend- ur höllum fæti í Líbanon. Vegna tcngsla sinna við Sýrland er t.d. ekki útilokað að Amal hefði möguleika á að mýkja hug þar- lendra ráðamanna eitthvað gagnvart PLO. Guðsflokkurinn brást sem vænta mátti hinn reiðasti við þessu samkomulagi, sem veikir aðstöðu hans, auk þess sem hann líkt og íran telur hverskonar samkomulagsvið- leitni af araba hálfu gagnvart ís- rael hin verstu svik við íslam. í bardögum Amals og Guðsflok- ksins féllu yfir 580 menn á því herrans ári 1988. ísraelar og Suður-Líbanons- herinn svokallaði, sem er kristinn og í bandalagi við ísrael, minntu að vanda á sig annað veifið á ár- inu með árásum inn í Suður- Líbanon og Bekáadal í landinu austanverðu. Lögðu þeir að velli í atlögum þessum rúmlega 190 Pal- estínumenn og Líbani. Þar að auki fórust tæplega 100 Palest- ínumenn og Líbanir í loftárásum ísraela á sömu slóðir. ísraelar létu á árinu 16 menn fallna í Lí- banon og Suður-Líbanonsher 29. Út af geit Sýrlendingar, sem halda mikl- um hluta landsins hersetnum, létu 12 menn fallna á árinu í vopnaviðskiptum við aðila, sem vilja her þeirra burt og féllu þeir flestir í Vestur-Beirút, þar sem súnnamúslímar búa. Bflasprengj- ur, sem eru mikil sérgrein manndráparaþarlendis, urðu 115 manns að bana. Tveir vestur- landamenn, Frakki og Belgi, voru myrtir í Beirút, óvíst af hverjum. 13 menn féllu í hefð- bundnum bardögum kristinna manna og múslíma yfir grænu lín- una svokölluðu í Beirút, sem að- skilur kristna austurbæinn þar og íslamskan vesturbæ. Paiestínskir vígamenn hlynntir Sýrlandi ráku PLO-liða úr tvennum flótta- mannabúðum og voru á annað hundrað manns vegnir í þeim væringum. Ennfremur var eitthvað um mannfall í skærum milli Amal og PLO, í persónu- legum átökum milli palestínskra foringja og í innbyrðis illindum kristinna manna í Áustur-Beirút. Um nokkur hundruð manna er óljóst, hvort „venjulegir“ glæpa- menn réðu þá af dögum eða þeir féllu í einhverskonar pólitískum átökum, svokölluðum. Eins og nærri má geta undir slíkum kringumstæðum er mikið um það að vopnin séu látin skera úr allrahanda hversdagslegum deilumálum milli einstaklinga, fjölskyldna og ætta. Til einnar slíkrar sögualdardeilu kom á ár- inu í Norður-Líbanon milli tveggja fjölskyldna út af eignar- haldi á einni geit. í tveggja daga vígaferlum út af blessaðri skepn- unni féllu 13 menn. Reuter/-dþ. Fimmtudagur 5. janúar 1989 WÓÐVILJINN - SÍÐA 13

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.