Lesbók Morgunblaðsins - 14.04.1984, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 14.04.1984, Blaðsíða 14
Um greinasafn dr. Sigurbjarnar Einarssonar biskups, Coram Deo — Fyrir augliti Guðs EFTIR GUNNAR STEFÁNSSON i Umræða um bækur í blöðum er stund- um einkennileg. Dægurflugur eru ræddar fram og aftur með lotulöngum viðtölum og umsögnum vikum saman, bækur sem eru prentaðar í nóvember, seldar í desember og gleymdar í janú- ar. Önnur rit sem eiga sígilt erindi við lesendur eru látin ósnert. Eina þeirra bóka langar mig að fjalla um lítið eitt þótt seint sé. Það er greinasafn dr. Sigurbjörns Einarssonar biskups, Cor- am Deo — Fyrir augliti Guðs. Bókin var tekin saman í tilefni sjötugsafmælis höfundar og kom út haustið 1981. Allt efni bókarinnr hefur birst áður á víð og dreif, en á einum stað veitir það nokkurt yfirlit um rit höfundar um guðfræði, kirkju og trúarlíf. Útkoma bókarinnar var því góður fengur, og páskar mega heita kjörinn tími til að fletta henni lítið eitt. Ritgerðunum er fylgt úr hlaði með tveim greinum sem hvor ,um sig er glögg leiðarvísan um efni bókarinn- ar: Jón Sveinbjörnsson prófessor ritar um guðfræði Sig- urbjörns Einarssonar og Páll Skúlason prófessor ritar greinina „Kennimaður kristninnar". Jón víkur fróðlega að þeim vanda guðfræðingsins að „brúa bilið milli sögu- legrar-greinandi guðfræði og boðunar, en boðunin flest í því að reyna að skynja í textanum úrslitaspurningu allrar tilveru og tjá hana svo að aðrir skilj i,“ segir Jón. Hann skýrir þetta nánar: „Það er erfitt að flytja texta aftan úr öldum og gera hann skiljanlegan nútíma- mönnum, og því brýnt að kanna aðstæður fyrstu les- enda og höfunda, lífsviðhorf þeirra og hugmyndir, ella gæti svo farið að textinn misskildist og rangtúlkun ætti sér stað. — Á hinn bóginn er sú hætta fyrir hendi að mjög nákvæm og „fræðileg" umfjöllun á texta hafi það í för með sér að menn sjái ekki skóginn fyrir trjánum og boðskapurinn komi ekki til skila. Þetta er eitt höfuð- vandamál guðfræðinnar, ekki aðeins prédikunarinnar heldur einnig ritskýringarinnar." Ég hlýt að vísa því til kunnáttumanna að meta guð- fræði Sigurbjörns Einarssonar og Biblíutúlkun hans sem fram kemur í ýmsum ritgerðum í bókinni. En fyrir ósérfróðan lesanda er umfjöllun hans jafnan ljós og læsileg. Áreiðanlega er rétt það mat Jóns Sveinbjörns- sonar að Sigurbjörn leysi þann túlkunarfræðilega vanda sem áður var lýst með sérstökum glæsibrag. Raunar held ég að enginn íslenskur kennimaður nú á dögum hafi náð slíkum árangri sem hann að færa boðun orðsins í þann búning að hún komi áheyrandanum við, án þess manni finnist að verið sé að einfalda hana og útþynna, breiða yfir það sem örðugt er. Hér eru aðeins tvö sýnishorn eiginlegra prédikana Sigurbjörns: síðasta jólaræða hans í sjónvarpi og síð- asta nýársprédikun hans í biskupsembætti. Prédikaran- um geta menn kynnst betur í ræðusöfnunum fjórum sem út hafa komið á fjörutíu árum: f hendi Guðs (1944), Meðan þín náð (1956), Um ársins hring (1964) og Helgar og hátíðir (1976). Ekkert af efni þessara bóka er tekið upp í Coram Deo. Aftur á móti eru hér allmargir kaflar úr hirðisbréfi Sigurbjörns, Ljós yfir land (1960), þar sem bæði er gerð grein fyrir túlkun Biblíunnar, starfi prestsins, og mati höfundar á stöðu íslensku kirkjunnar um það bil er hann tók við biskupsembætti. Ennfremur eru hér nokkrar eldri greinar um þau efni, flestar úr tímaritinu Víðförla er Sigurbjörn stýrði um skeið. Coram Deo — raunar hefði hin íslenska mynd nafns- ins mátt duga — skiptist í fjóra hluta. „Efnið frá upp- hafi“ nefnist hinn fyrsti. Þar eru greinar um meginat- riði guðfræðinnar, Ritninguna óg boðun orðsins. Annar hluti, „Þekking og trú“ og hinn þriðji, „Fögnum fyrir Drottni" eru þó enn forvitnilegri að mínum skilningi, og við efni í þeim verður hér einkum staldrað. Hér er að finna greinargerð höfundar fyrir eðlismun trúar og vís- inda og leiðréttingar á þeim gróna misskilningi að kristindómur og vísindi séu einhverjar andstæður. Þá er hér fjallað um kristinn mannskilning og gert upp við þá bláeygu framfaratrú sem setti mark sitt á menning- arlíf um aldamót og entist lengur hér en annars staðar vegna sérstakra þjóðlífsaðstæðna. I þriðja hluta er ekki síst fjallað um guðsþjónustuna, skírnina, ennfremur um fræði Lúthers og kenningar, trú og breytni að skilningi hans og hvað hann sagði um bænina. — Síðasti hluti bókarinnar nefnist „Sýnir“ og hefur að geyma tvær greinar, aðra um skólamál, hina um endurreisn Skálholts, sem dr. Sigurbjörn átti manna mestan hlut að. Aftast í bókinni er ritaskrá Sigurbjörns Einarssonar, taldar greinar hans og ritgerðir í blöðum og tímaritum. Fengur er að skrá þessari en hræddur er ég um að hún sé gloppótt. Þannig minnist ég blaðagreina sem ekki eru taldar hér. Einnig vantar nokkrar útfararræður sem prentaðar hafa verið: Um Bjarna Benediktsson, Ásgeir Ásgeirsson og Hermann Jónasson, allt birt í dagblöð- um, svo og ræða við líkbörur séra Sigurðar Einarssonar, prentuð í Eimreiðinni 1967. Tækifærisræður Sigur- björns eru tíðum frábærar eins og alþjóð veit, en ekkert sýnishorn þeirra er hér að finna. Nokkrar eru teknar upp í safnið Um ársins hring. II í grein Páls Skúlasonar er því lýst hvernig Sigurbjörn Einarsson talar máli kristinnar trúar andspænis guð- lausri samtíð, hvort sem slíkt guðleysi birtist í beinni afneitun eða afstöðuleysi. Hér er um að ræða „afhelgun veraldar" eins og Páll kveður að orði. Sú afhelgun er víðtæk menningarleg og félagsleg framvinda sem rekur rætur sínar aftur á síðustu öld. Hún er einatt undir merki vísindahyggju sem efldist mjög á seinni hluta nítjándu aldar. Aldrei var bjartsýnin meiri en þá, traustið á getu mannsins til að ráða við umhverfi sitt. Trúarbrögðin urðu í margra augum ekki annað en forn- aldarleifar, feyskinn trjástofn sem ruðningsmenn nýs tíma og samfélagshátta myndu ýta úr vegi eins og hverjum öðrum farartálma. Þetta hafði vitanlega gífurleg áhrif á öll húmanísk fræði og má segja að þau hafi aldrei síðan borið sitt barr. Ekki kom það síst víð guðfræðina og þar með grundvöli kristinnar kirkju og skilning hennar á hlut- verki sínu. „Margir guðfræðingar brugðu reyndar á það ráð í eina tíð að reyna að laga hina kristnu kenningu að þeirri afhelgun veraldar sem þeir stóðu frammi fyrir,“ segir Páll Skúlason: „f heimi án helgidóma þar sem allt á að lúta valdi mannsins, eða þar sem allt á að vera útskýranlegt, rekjanlegt eftir leiðum mannlegrar rök- vísi, sáu þeir ekkert pláss fyrir leyndardóma trúarinn- ar, engan stað fyrir Jesú sem eiginlegan og sannan son Guðs, sendan í heiminn til að líða fyrir syndir mann- anna og frelsa þá úr viðjum hins illa. Kristin kenning skyldi öll vera í samræmi við hina bjartsýnu trú manna á eigin getu til að leysa öll vandamál og allar gátur.“ Þessi hyggja varð reyndar hér á landi einhvers konar mælikvarði á „frjálslyndi" í trúarefnum, og er það enn í margra augum. Frjálslynd guðfræði var sú stefna köll- uð að sveigja undan í boðun ýmissa undirstöðuþátta kristinnar kenningar, synd og sekt mannsins, frelsun, náð og friðþægingu Krists. Nátengd þessum undan- slætti fyrir ásókn hinna veraldlegu sjónarmiða og vís- inda er tilkoma spíritismans. Hann varð býsna áhrifa- ríkur í andlegu lífi á íslandi upp úr aldamótum og náði fótfestu í kirkjunni fyrir tilverknað snjallra málflytj- enda. „Sálarrannsóknir" voru tilraun til að svara trú- arlegum spurningum um framhaldslíf með einhvers konar aðferðum reynsluvísinda. Flestir munu nú viður- kenna, þar á meðal ýmsir forustumenn spíritista sjálfra, að þessi tilraun hafi engum árangri skilað og ítök spíritismans í kirkjunni eru nú hverfandi. Það er guðleysi vísindahyggjunnar eða frumstæðs skilnings á vísindum sem Sigurbjörn fjallar hvað mest um í öðrum hluta bókarinnar, „Þekking og trú“. Enn er á kreiki sú hugmynd, og gaus upp í blöðum fyrir nokkr- um árum, að vísindalegar kenningar um uppruna lífsins á jörðinni stangist á einhvern hátt á við sköpunarsögu Biblíunnar. Þá flutti Sigurbjörn erindi í útvarp sem hér er prentað, þar sem hann sýnir fram á með ljósum rökum hversu slíkt er í rauninni fjarri öllum skilningi. Hann segir: „... margnefnd og rangnefnd barátta þekkingar og trúar, vísinda og kristindóms, var ekki og er ekki bar- átta raunhyggju gegn hleypidómum. Það sem kirkjan hefur átt við að etja er áróður fyrir lífsskoðun, aldrei annað. Ef menn halda því fram að Darwin hafi sett skaparann af, þá er það trú, hvorki annað né meira. Og þó að til hafi verið kristnir menn sem töldu sig þurfa að kveða niður vísindalegar tilgátur eða niðurstöður um þróun til þess að bjarga skaparanum, þá er það mis- skilningur á málavöxtum og í andstöðu við Biblíuna. En hitinn sem hljóp í umræður um kenningar Darwins á sínum tíma og enn getur brunnið á stöku stað, stafar af því að Darwin er teflt fram sem úrslitavitni í trúboði. Hann á sjálfur ekki sök á því og rökin eru engin fyrir því ef um allsgáða hugsun er að ræða.“ Þetta fjallar höfundur um í ýmsum tilbrigðum, meðal annars rækilega í ritgerðinni „Biblían, kirkjan og vís- indin". — Vísindahyggja aldamótanna sem byggði á hinni björtu „trú á manninn" sem áður var vikið að átti fyrir sér að hljóta mikinn hnekki. Tvær heimsstyrjaldir sáu fyrir því, og enn hangir líf á hnettinum á bláþræði fyrir tilstilli þeirrar háþróuðu tæknigetu mannsins sem gerir honum kleift að tortíma sjálfum sér margsinnis. „Trúin á manninn" heitir reyndar ein ritgerð bókarinn- ar. Þar er dregið fram í hverjar ógöngur hin guðlausa ofurtrú á manneskjuna hefur leitt. Það er þessi trú sem lifir í kommúnismanum og draumi hans um stéttlaust paradísarþjóðfélag. Manneðlisrómantík er einnig að baki nasismanum þótt þar sé hún ekki bundin við ákveðna stétt heldur ákveðið kyn. „En í báðum þessum myndum," segir Sigurbjörn, „hefur trúin á manninn haldist í hendur við og leitt af sér þá fyrirlitningu á manneskjunni og mannhatur sem vart hefur þvílíkt þekkst." En hver er hinn kristni húmanismi? Hvað er það í augum kristins manns sem lyftir manneskjunni, í hverju felst vegsemd hennar? Eins og rakið er í þessari grein Sigurbjörns er maður Biblíunnar fallinn, hann er syndari. Hann brýtur gegn vilja Guðs. Kristinn maður trúir ekki á það brigðula heimsbarn sem er hann sjálf- ur. Traust hans er á Guði sem elskar manninn og vill frelsa hann. Sú trú forðar kristnum manni frá því að fyllast svartsýni og vonleysi þótt syrti að allt um kring. Þannig er það ekki rétt að kristindómurinn líti á mann- eskjuna sem smáa, veika og lítilmótlega. Veik er hún að

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.