Lesbók Morgunblaðsins - 10.06.1984, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 10.06.1984, Blaðsíða 7
„Góð íslenska er ekki mál- fræðilegt hugtak. Við höfum öll skoðanir á því hvort og hvenær sé vel að orði komist. En það er ekki spuming yfir- leitt um rétt eða rangt“ nánast óhugsandi að við getum hugsað nokkra heila hugsun um þessi fyrirbæri án þess einmitt að leggja mat á þau, taka afstöðu til þeirra. Eg held að hér þurfi að gera skýran greinarmun á því að leggja mat annars vegar og svo hins vegar því að vera áreiðanlegur eða hlutlægur í fræðum sínum. Þó að við leggjum mat á hluti og reynum að vega og meta gildi og verðmæti, þá er auðvitað ekki þar með sagt að viö séum orðin hlutdræg eða óhlutlæg. Lög- fræðin og ástundun réttarfars í landinu er mjög gott dæmi um þetta. Gunnar: Ég get alveg fallist á þetta. Ég er sammála því að ástæða þess að við leggjum stund á mannleg fræði sé áhugi á gildum og verðmætum og að rangt sé að afneita því. Hins vegar held ég að sögulega séð, þá hafi þessi leit að hlutleysi leitt af sér merkar uppgötvanir. í sagnfræði var þessi hlutleysiskrafa sett fram með' boð- orðinu að segja söguna „eins og hún átti sér stað í raun og veru“. Þetta slagorð er sett fram í andstöðu við afskaplega siða- vanda sögu, sögu sem var notuð til að halda fram ákveðnum siðaboðum. Ég held að með þessu móti hafi fræðigreininni ver- ið lyft á fullkomnara og betra stig, þó að það sé ófullnægjandi fyrir okkur núna. ÍSLENSK FRÆÐI AÐ SUMU LEYTI Auðveld Páll: Er mikill munur á því að leggja stund á íslensk fræði og að stunda sam- bærileg fræði við erlenda háskóla? Gunnar: Það er nokkuð erfitt að gera svona samanburð. Þó má segja að það sé að sumu leyti mikið lúxuslíf að stunda ís- lensk fræði — a.m.k. hvað sögu varðar — í samanburði við t.d. ensk eða þýsk fræði. Það er svo miklu auðveldara að fá yfirsýn yfir íslenska sögu en sögu stærri þjóða og við eigum því að mörgu leyti mun léttari leik en stórþjóðirnar. Ég held að íslands- saga sé ekki að sama skapi fátækari en hún er kannski auðveldari, vegna þess að við höfum þó hér þjóðfélag sem hefur þró- ast að miklu leyti sem sjálfstæð heild eins og hvert annað þjóðfélag í Evrópu eða Am- eríku. Höskuldur: Ef við berum íslenska mál- fræði saman við t.d. enska málfræði, þá er það að segja að hundruð eða þúsundir manna hafa fengist við enska málfræði áratugum ef ekki öldum saman. Þeirra málfræði er náttúrlega ekki að sama skapi víðáttumeiri en okkar. Segja má, að það sé bæði kostur og galli fyrir íslenska mál- fræðinga að málið er tiltölulega lítið rann- sakað miðað við sum önnur mál. Það er galli að því leyti að það er ýmislegt sem maður veit ekki um sitt mál sem aðrir vita um sitt móðurmál, en á hinn bóginn þarf þá ekki að kvíða verkefnaskorti! Auk þess hefur verið vaxandi áhugi meðal erlendra málfræðinga á að fá að vita hvað íslenskan kann að segja þeim um þeirra mál, ef þeir bera þau saman við hana. Athuganir ís- lenskra málfræðinga vekja því oft athygli annarra. Segja má að tiltölulega auðvelt sé að vera málfræöingur á íslandi og geta eitthvað lagt til málanna, því að margt er hægt að segja um málið. Gunnar: Nú höfum við verið að tala um íslensku og sögu sérstaklega, vegna þess að við, sem sitjum fyrir svörum, erum kenn- arar í þeim greinum. En hvað um alþjóð- lega grein eins og heimspeki, hefur hún sama hlutverk í heimspekideild og þessar þjóðlegu séríslensku greinar? Er þetta ís- lensk heimspeki eða er íslenskur heim- spekingur að reyna að vinna á alþjóðlegum vettvangi sem heimspekingur, eða er heimspeki kannski partur af íslenskum fræðum? Engin Svör í ElTT SKIPTI FYRIR ÖLL Páll: Það er til marks um sérstöðu heim- spekinnar að hún hefur verið inngangs- fræði í háskólum um margar aldir, verið talin grein sem allir háskólamenn þyrftu og ættu að stunda fræða sinna vegna til að tileinka sér þann hugsunarhátt sem hæfir ástundun hvers kyns vísinda og fræða. Það sem einkennir heimspeki er að þar er spurt um forsendur og ástæður hlutanna almennt og yfirleitt. Heimspeki miðar að því að gera okkur kleift að ræða af skyn- samlegu viti um hvað sem vera skal og mynda skynsamlega orðræðu um heiminn. Það er augljóst mál, að ein slík orðræða er ekki til, hún klofnar upp og þannig verður til margvísleg heimspeki, ólík kerfi og ólíkar stefnur. Menn afmarka viðfangsefn- in og þannig hafa mótast fræðigreinar sem hafa greint sig frá heimspekinni sem viðleitni til að ræða um heiminn sem heild. Tengsl við heimspeki má þó finna í öllum fræðigreinum. Málfræðin vísar til spurn- inga um eðli tungumálsins og hvernig það vísar til heimsins. Sagnfræðin vísar til spurninga um framvindu sögunnar, hvort hún lúti lögmálum, stefni að einhverju marki o.s.frv. Einkenni heimspekilegra spurninga er að okkur er ljóst að við höf- um engar leiðir til að finna fullnægjandi svör við þeim í eitt skipti fyrir öll. Þessar spurningar eru því sífellt opnar og við hljótum því ávallt að takast á við verkefni sem við vitum að ekki verður lokið. Þetta á auðvitað við öll eiginleg vísindi og fræði. Þekkingar- og skilningsleit mannsins er endalaus. Hvað varðar heimspeki hér á íslandi, þá skapar það okkur sérstök skilyrði að við eigum ekki sérstaka heimspekihefð á borð við flestar aðrar Evrópuþjóðir. Þessi hefð er ólík eftir þjóðlöndum og það má tala um þýska, franska, breska og jafnvel danska heimspeki. Ég held að við, sem vinnum að heimspeki í háskólanum, höfum á tilfinn- ingunni að við séum að móta nýja hefð í menningu okkar. En það er of snemmt að segja hver tengsl hennar verða við hin þjóðlegu íslensku fræði. Ýmsar upplýsingar um heimspekideild Starfsemi deildarinnar er dreifð um húsnæði háskólans, en aðalaðsetur hennar og skrifstofa eru í Árnagarði. í deildinni starfa eftirtaldar stofnanir: Bókmenntastofnun, Heimspekistofnun, Málvísindastofnun, Sagnfræðistofnun og Stofnun í erlendum tungu- málum. í tengslum við deildina starfa Stofnun Árna Magnússonar og Orðabók háskól- ans. Prófessorar í heimspekideild eru 10, dósentar 14, lektorar 10, erlendir sendikennarar 8 og þar aö auki kenna þar um 60 stundakennarar. Stúdentar við deildina eru 850, þar af 500 konur og 350 karlar. Á síðasta ári útskrif- uðust þaöan 74 stúdentar með B.A.-próf, 12 síúuSntar með cand. mag.-próf og 10 stúdentar í íslensku fyrir útlendinga. Kennslugreinar heimspekideildar a) Til B.A.-prófs: Almenn bókmenntafræði, almenn málvísindi, danska, enska, finnska, franska, gríska, heimspeki, íslenska, latína, norska, rússneska, sagnfræði, spænska, sænska og þýska. b) Til cand. mag.-prófs: Danska, enska, íslenskar bókmenntir, íslensk málfræði og sagnfræði. c) Til bacc. philol. Isl.-prófs: Islenska fyrir erlenda stúdenta. Um sögu og stöðu heimspekideildar Sögu heimspekideildar má að einu leyti líkja við sögu heimspekinnar sjálfrar: Deildin hefur fóstrað ýmsar fræðigreinar sem síðan hafa vaxið frá henni og tekið sér bólfestu í öðrum deildum. Slíkt gerðist fyrst árið 1965 þegar kennsla var hafin til B.A.-prófs í raungreinum á vegum verkfræðideildar, en þá fluttust úr deildinni landafræði, jarð- fræði, eðlisfræði, efnafræði og stærðfræði yfir í verkfræðideild. Slíkt gerðist aftur árið 1976 þegar félagsvísindadeild var stofnuð, en þá fluttust sálarfræði, uppeldisfræði og bókasafnsfræði yfir í hina nýju deild. Þótt allsendis sé óvíst að þessi þróun haldi áfram, mætti vissulega hugsa sér að stofnuð yrði sérstök tungumáladeild við háskólann, en eftir sætu þá væntanlega í deildinni heimspeki, sagnfræði og e.t.v. almenn bókmenntafræði og almenn málvísindi; þessar tvær síðastnefndu greinar gætu þó eins átt samleið með tungumálagreinum. Þessi hugsanlega þróun vekur til umhugsunar um stöðu oghlutverk mannlegra fræða í Háskóla íslands og þar með í menntalífi þjóðarinnar allrar. Er hin breytta staða þeirra til marks um það að hlutverk þeirra sé nú orðið annað, jafnvel annars eðlis en verið hefur, eða aö nú sé loks viðurkennt að mannleg fræði séu og hafi ævinlega verið ófullburða vísindi eða vanþróuð og nú sé skeið þeirra senn á enda runnið? Þessar spurningar leita sífellt fastar á. Þær hafa gefið tilefni til mikillar umræðu í hinum vestræna heimi, þar sem menningararfurinn einkennist öðru fremur af húman- isma og upplýsingu. Hérlendis hafa þessi mál ekki enn verið tekin föstum tökum, þó að ýmsar breytingar á skipan mannlegra fræða hafi átt sér stað, bæði í heimspekideild og annars staðar í menntakerfinu. Eitthvaö fyrir augað Bygging sem alltaf stendur fyrir sínu Hverjum hættir ekki til að verða blindur á daglegt umhverfi sitt og hættir maður þá að taka eftir ýmsu því, sem gert hefur verið fyrir augað og tekizt vel? Eitt af gömlu húsun- um hér, sem alltaf stendur sig vel er safnahúsið við Hverfisgötu, sem að nokkru leyti mun fá nýtt hlutverk þegar nýja Þjóðarbókhlaðan kemst í gagnið. Vegfarendur um Hverfisgötu eru venjulega á bílum nú á dögum og hafa hvorki tíma né athygli afgangs til að gaumgæfa þetta fallega hús frá byrjun aldarinnar og ýmis vel unnin smáatriði á forhlið þess, svo sem gluggagerð og gluggaskipan. Upphafið má rekja til tillögu Benedikts Sveinssonar á Alþingi 1894, en framkvæmdin hófst í ráðherratíð Hannesar Hafstein, þegar hann sigldi út til Kaupmannahafnar haustið 1905 og réði danska arkitektinn Magdahl Niél- sen til að teikna safnahúsið. Magdahl Nielsen hafði áður verið aðstoðarmaður Hans J. Holm við teikningar á Konungsbókhlöðunni í Kaup- mannahöfn. Hefur verið lokið lofsorði um þenn- an arkitekt og verk hans í tímaritinu Archi- tekten frá þessum tíma. Hér er naumast um hreinræktað stílfyrirbæri að ræða, heldur unnið úr góðum og gildum fyrirmyndum. Húsið er fullkomlega symmetr- ískt, það er, báðir helmingarnir samsvara hvor öðrum og dyrnar því settar á miðju með fagur- legum umbúnaði. Safnahús Maghdahls Nielsen er þegar á heildina er litið klassísk bygging, þar sem fagurt samræmi er milli hinna stóru forma heildarinnar og smáatriða, sem birtast í kvist- um, reykháfum, gluggum og aðalinngangi. Það er jafn fögur bygging nú og þegar hún var vígð í marzmánuði 1909. LESBÖK MORGUNBLAÐSINS 10. MARZ 1984 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.