Lesbók Morgunblaðsins - 10.06.1984, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 10.06.1984, Blaðsíða 11
KONUNGSSKIPU N HÖFÐ AÐ ENGU Enda þótt hirðmannseiðurinn væri helgur og eiðrof — feloní — mikill glæpur, kom þó þar í viðskiptum Þórðar og Hákonar konungs, að eiðurinn var léttvægur fundinn og Þórður tók með því áhættu, sem hafði í för með sér augljósa lífshættu 22. hluti Asgeir Jakobsson tók saman Sú spurning hlýtur að vakna með lesendum Þórðarsögu Kakala, af hverju Þóðrur sem var orðinn allsráðandi á fslandi 1250 og hafði látið menn sverja sér trúnað en ekki Noregskonungi, skyldi hlýðn- ast skipun konungs um utanför. Eflaust hefur Þórð dreymt þann draum, að vera sjálfstæður þjóð- höfðingi á íslandi en ekki leppur Hákonar konungs og honum tókst að fara sínu fram í heil þrjú ár en það hlaut að koma að uppgjöri við konung og kirkjuvaldið, sem studdi konung. Þórður var trúmaður mikill, svo sem fram er komið í sögu hans, og hirðmannseiðurinn hefur verið þungur á metunum, þegar um það var að ræða að rjúfa hann með því að neita að hlýða skipun konungs. Þórður hafði að vísu hlunnfarið konung sinn, en það var sitthvað að halda illa einhver loforð um að reka erindi konungs á íslandi eða rjúfa sjálfan hirðmannseiðinn. Olafur Hansson segir svo um hirðmannseiðinn í bók sinni Giss- ur jarl: „Þessi eiður var ein útgáfa af homagium, lénseiði miðalda, en að rjúfa þann eið þótti eitt versta verk, sem um gat. Slík eiðrof voru kölluð felóní og voru þeir, er þau frömdu taldir eiga vísa heimvon í helvíti." Sú heimvon hefur aldrei verið fýsileg trúuðum mönnum og Þórði kakala var mikið í mun að komast í himnaríki. Hirðmaður, sem rauf eið sinn við konung, var réttdræpur af mönnum konungs, hvar sem til hans náðist. Þórður kakali var vel minnugur örlaga Snorra föðurbróður síns, en af sögu Þórðar er ekki að sjá, að hann hafi óttazt svo mjög dauða sinn, nema þá til kæmi útskúfun annars heims. Það hefur verið honum áhyggjuefni, svo trúuðum manni. Þá er að nefna þá ástæðu fyrir hlýðni Þórðar við konung, að hann veit að erkióvinurinn Gissur verður umsvifalaust sendur aftur út til íslands og þá með fullu leyfi konungs og hvatningu að drepa Þórð kakala og Sunnlendinga- fjórðungur allur myndi brjótast undan Þórði um leið og Gissur kæmi til landsins. Hákon réö siglíng- um til íslands Þórður var ekki orðinn svo fast- ur á valdastóli, að hann þyldi að taka þetta allt á sig, bannfæringu kirkjunnar, uppreisn í Sunnlend- ingafjórðungi undir forystu Giss- urar og fullan fjandskap Noregs- konungs. Hákon konungur réð allri sigl- ingu til íslands og öll verzlun var í höndum Norðmanna. Norski kóngurinn gat svelt Þórð inni með þjóð sinni eins og melrakka í greni, ef hann vildi ekki kosta til herfarar. Eini hugsanlegi — en líklega ekki raunverulegur — möguleiki íslendinga til að komast undan Norðmönnum, var að stofna til siglinga- og verzlunarsambands við Englendinga. Meðan íslendingar áttu haffær skip er vitað, að þeir sigldu eitt- hvað á England og Englendingar til íslands í kaupskap. En það • komst aldrei festa á þessi viðskipti og þau lögðust af. Það hefði verið til mikilla hags- bóta fyrir íslendinga að geta hafið viðskipti við Englendinga, því að skreiðarverð var hækkandi í Eng- landi á 13du öld. Englendingar hefðu eflaust keypt skreið af ís- lendingum, ef þeir hefðu getað siglt með hana sjálfir til Eng- lands, en þess áttu íslendingar ekki kost í skipleysi sínu. Hins vegar er óvíst, þótt eftir hefði ver- ið leitað, að Englendingar hefðu viljað eða verið í stakk búnir til að hefia að sínu frumkvæði siglingar til íslands og kaupskap við íslend- inga í blóra við Norðmenn, sem voru öflugir i þennan tíma á Norður-Atlantshafi og Englend- ingar tæpast haldið sínu á þessum tíma í viðureign við Norðmenn við fslandsstrendur. Ef íslendingar vildu lifa sem sjálfstæð þjóð, urðu þeir að koma sér upp verzlunarflota og jafn- framt vera viðbúnir innrás úr Noregi. Hún hafði lengi staðið fyrir dyr- um, allt frá dögum ólafs helga, og Skúli hertogi var snemma á 13du öldinni kominn á fremsta hlunn með herför til íslands. Þótt Hákon konungur væri ófús til svo kostn- aðarsamra aðgerða, þá hefði hann ekki horft í að halda til íslands með her, ef hann hefði séð Eng- lendinga vera að seilast þar til áhrifa. Hvort sem þessi hefur ver- ið hugsanagangur Þórðar eða ekki, þá er það öruggt, að hafi hann hugsað sér að ráða fyrir íslandi, þá varð hann að vinna tíma til að festa sig betur í sessi og undirbúa átökin við konungsvaldið. Hann telur því skynsamlegast að brjóta ekki allar brýr að baki sér í kon- ungsgarði, heldur fara utan og tala sínu máli við konung og frið- mælast við hann og þá einnig forða því, að Gissur verði sendur til íslands. Þá hélt eiðurinn ekki lengur Þórður tapaði orustunni í kóngsgarði, en þá kom í ljós, hversu ákveðinn hann var í að bjóða konungi birginn í íslands- málunum, ef ekki væri annars kostur. Þegar sýnt var, að Þórður kom engu tauti við konung, vin- áttumál og eflaust góð loforð báru ekki árangur, heldur er Þórður kyrrsettur og erkióvinur hans sendur til íslands, þá hlífist Þórð- ur ekki lengur við konung sinn, hvað sem hirðmannseiði líður. Þótt sá eiður væri mikill, hélt hann ekki þegar þannig skarst í odda sem nú var orðið. Ríki sitt á íslandi ætlaði Þórður ekki að láta bardagalaust, hvað sem leið út- skúfun annars heims, og ekki heldur þótt hann væri undir öxi Hákonar og þess væri von, að hann yrði gerður höfðinu styttri fyrir mótþróa sinn. Þórður sendir sína menn út til íslands að stappa þar stálinu í þá höfðingja, sem hann hafði sjálfur sett til að gæta ríkis síns. Svo seg- ir í íslendingasögu: „Þetta sumar (1252) er þeir Gissur komu út, sendi Þórður Sighvatsson út til íslands Kolbein grön og Ara Ingi- mundarson til vina sinna. Komu þeir út suður á Eyrum og fóru vestur í sveitir til Ilrafns Oddssonar og Sturlu Þórðarsonar.“ Efni þeirra orðsendingar sem Þórður sendi vinum sínum er ljóst af viðbrögðum manna hans á Is- landi. Þeir neituðu konungsbréf- um, nema væflan Þorleifur í Görð- um, og sögðust engar eignir eða héruð láta af hendi, nema til kæmi skipan Þórðar, sögðu sig ekkert varða um konungsskipan. Harð- astur var auðvitað Hrafn Odds- son. Þórðarmenn söfnuðust svo saman til drepa konungsmenn, þá Þorgils skarða og Gissur. Þeir náðu Þorgilsi á sitt vald og Hrafn vildi drepa hann, en Sturla var linur, eins og venjulega, þegar á hólminn var komið og taka þurfti djarfar ákvarðanir. Bræður Sturlu tveir, Ólafur hvítaskáld og Gutt- ormur, báðu Þorgilsi bróðursyni sínum ákaft griða og svo fór, að Hrafn gaf sig eftir miklar fortöl- ur, þótt hann vissi þetta misráðið, sem og reyndist. Þorgils hafði heitið þeim til lífs sér, að ríða með þeim Hrafni aust- ur í sveitir að Gissuri en sveik það og þeir Hrafn urðu fyrir töfum af þeim svikum og það varð ekki af aðförinni að Gissuri. Svar Sturlu, þegar honum var ámælt fyrir að hafa gengist fyrir að Þorgils væri gefið líf, sýnir okkur inní manninn. Svo segir í Þorgilssögu skarða: „Sturla svarar fáu (þegar hon- um var ámælt), en mælti þetta svo að nokkrir heyrðu, að þótt hann hefði vitað þetta fyrir, að svo hefði orðið sem nú var, að heldur vildi hann þennan kjósa en standa yfir drápi Þorgils frænda síns, og vita það víst, að hann þætti aldrei slíkur maður sem áöur.“ Meðal þeirra, sem eru á aldr- inum frá 15 til 19 ára, er sjálfsmorð þriðja algengasta dánarorsökin. Meðal mennta- skólanema er hún önnur í röð- inni og þá er hlutfallið helmingi hærra hjá piltum en stúlkum. Ósamræmið milli þeirra vona, sem þau höfðu gert sér um sig sjálf, og þess þjóðfélagslega veruleika, sem blasir við þeim, veldur sumum ungmennum slik- um vonbrigðum, að þau verða þeim um megn. Hinar óraun- sæju hugmyndir þeirra um lífið verða þess valdandi, að þau draga þá ályktun, að líf þeirra sé til einskis og að of seint sé að gera nokkra tilraun til að breyta því. Þau eru reiðubúin að deyja fyrir trú sína á fullkominn heim. Annað hæsta hlutfall sjálfs- morða er að finna í aldurs- flokknum milli 40 og 59 ára, þeg- ar vandamál miðs aldurs steðja að mörgum (hæsta hlutfallið er í aldursflokkunum yfir 85 ára). Á þessu tímabili er fólk að endur- meta líf sitt í ljósi þeirra markmiða, sem náðst hafa, og þeirra vona, sem hafa brugðizt. Þá finnst sumum stundum, að árangurinn hafi verið lítilfjör- legur miðað við það, sem þeir ætluðu sér, og líta á sig sem mis- heppnaða. Þeir efast um hæfni sína til að ná markmiðum sínum og þeim finnst þeir vera orðnir of gamlir til að byrja á einhverju nýju. Fagmaður, sem sagt hefur verið upp störfum og getur ekki fengið vinnu annars staðar, gerir tilraun til sjálfsmorðs, því að honum finnst hann „búinn að vera“ og vill ekki vera á fram- færi konu sinnar. Húsmóðir á fimmtugsaldri, sem finnst ástúð eiginmannsins fara þverrandi og líf sitt vera tilgangslaust, eftir að börnin uppkomin eru farin að heiman, fyllist slíku þunglyndi, að hún reynir að stytta sér ald- ur. Kaupsýslumaður, sem verður fyrir slíkum skakkaföllum, að gjaldþrot blasir við, fer eins að. Það er einkennandi fyrir þann, er hyggur á sjálfsmorð, að hon- um finnst hann vera úr tengsl- um við aðra, orðinn eins og ókunnugur maður í sínu um- hverfi og njóti ekki neins stuðn- ings til að halda áfram að lifa. Lífið verður að hafa tilgang fyrir einstaklinginn, burtséð frá því hversu óraunhæfur eða lítilfjör- legur sá tilgangur kann að vera í augum annarra. Þegar þessi til- gangur er ekki lengur fyrir hendi, hrynur allt, lífið verður einskis virði og einstaklingurinn sjálfur um leið. Til að komast að þeirri niður- stöðu, að öllu sé lokið, verður einstaklingurinn annaðhvort að telja að hæfni sín til að lifa áfram sé í lágmarki eða álíta, að í stað þess sem hann lifði fyrir sé vonlítið að finna annað, sem hann geti unað við. Líf hans nemur á vissan hátt staðar og hugmyndin að hverfa burt úr heiminum verður að brennandi, óviðráðanlegri þrá. Það sem í fyrstu virðist óskynsamlegur verknaður, samrýmist að öllu leyti skoðunum þess, sem á sjálfsmorð hyggur, á veröldinni og sjálfum sér. Eins og hann metur hlutina, jafngildir það, sem hann hefur misst, hans eig- in stöðu í lífinu. Það sem hann er reiðubúinn að deyja fyrir byggist á því gild- ismati, sem hann hefur smám saman tileinkað sér frá barn- æsku og með hinni félagslegu að- lögun. Og þau gildi í einkalífi og samfélagi, sem gripu hug hans snemma á þroskaárum hans, ná varanlegustu tökum á honum. Það sem hann síðar nemur af samfélaginu styrkir hann aðeins í afstöðu sinni og framkomu. Og þar sem þessar grundvallarregl- ur móta að mestu allt hans líf, getur sérhver röskun á jafnvægi valdið miklu umróti. Sjálfsmorð er síðasti þáttur- inn í glímu við veruleika lífs, sem hefur glatað tilgangi sínum vegna óraunsærra viðhorfa og væntinga. Sjálfsmorð er endan- leg staðfesting á því, að öll hin óraunhæfu og háleitu sjónarmið einstaklingsins, sem í hlut á, hafa verið raunveruleg og sönn gagnvart honum. Þessf sjónar- mið ráða úrslitum um ákvörðun hans um að binda enda á líf sitt. (Kafli úr bók, „The Tyranny of Magical Thinking, eftir George Serban) LESBOK MORGUNBLAÐSINS 10. MARZ 1984

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.