Lesbók Morgunblaðsins - 10.08.1985, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 10.08.1985, Blaðsíða 4
Smásaga eftir BERTOLD BRECHT BALDUR INGÓLFSSON íslenskaði Krítar- hringurinn Augsburg Iþrjátíu ára stríðinu átti svissneskur mótmæl- andi, Zingli að nafni, stóra sútunarstöð ásamt leðurverzlun í hinni frjálsu ríkisborg Ágsborg við ána Lech. Hann var kvæntur konu frá Ágsborg, og þau áttu eitt barn saman. Þegar hersveitir hinna kaþólsku sóttu fram í átt til borgarinnar ráðlögðu vinir hans honum ein- dregið að flýja. Hvort heldur það var nú litla fjölskyld- an hans, sem hélt í hann, eða að hann vildi ekki yfirgefa sútunarstöðina sína, gat hann ekki ráðið við sig að fara í tæka tíð. Því var hann ennþá í borginni, þegar liðs- sveitir keisarans tóku hana með áhlaupi, og um kvöldið, þegar ruplað var, faldi hann sig í gryfju í húsagarðin- um, þar sem leðurlitirnir voru geymdir. Kona hans átti að fara með barnið til ættingja sinna í úthverfi borgar- innar, en henni dvaldist of lengi við að láta niður dót sitt, föt, skartgripi og sængur, og þá sá hún skyndilega út um glugga á annarri hæð flokk af hermönnum keis- arans ryðjast inn í húsagarðinn. Skelfingu lostin skildi hún allt eftir og hljóp út um bakdyrnar út af lóöinni. Þannig varð barnið eftir í húsinu. I stóru anddyrinu lá það í vöggu sinni og lék sér að trékúlu, sem hékk í bandi neðan úr loftinu. Aðeins ung vinnukona var ennþá í húsinu. Hún var að sýsla með koparílát í eldhúsinu, þegar hún heyrði háv- aða frá götunni. Þegar hún þaut út að glugganum, sá hún, að hermenn voru að henda alls konar ránsfeng út á götuna ofan af annarri hæð hússins andspænis. Hún hljóp fram í anddyrið, og í því er hún ætlaði að taka barnið úr vöggunni, heyrði hún hávaða af þungum höggum bylja á útihurðinni, sem var úr eik. Hún varð gripin ofsahræðslu og þaut upp tröppurnar. Drukknir hermenn fylltu anddyrið og brutu allt og brömluðu. Þeim var ljóst, að þeir voru staddir í húsi mótmælanda. Eins og fyrir hreint kraftaverk rákust hermennirnir ekki á vinnukonuna Önnu, þegar þeir leituðu að verð- mætum í húsinu og rændu. Herflokkurinn hélt á brott, og þegar Anna klöngraðist út úr skápnum, sem hún hafði falið sig í, fann hún barnið heilt á húfi í anddyr- inu. í flýti greip hún það í fangið og læddist með það út í húsagarðinn. Það var orðið dimmt, en rauður bjarmi frá brennandi húsi í nágrenninu lýsti upp húsagarðinn, og skelfingu lostin sá hún þar illa útleikið lík húsbónd- ans. Hermennirnir höfðu dregið hann upp úr gryfjunni og vegið hann. Nú fyrst varð vinnukonunni ljós sú hætta, sem hún stofnaði sér í, ef hún yrði gripin á götunni með barn mótmælanda. Henni var þungt í hug, þegar hún lagði það í vögguna, gaf því svolitla mjólk að drekka, vaggaði því í svefn og lagði síðan af stað til hverfisins, þar sem systir hennar, sem var gift, átti heima. Klukkan að verða tíu þetta sama kvöld tróð hún sér ásamt mági sínum í gegnum þvögu hermanna, sem voru að fagna sigri sínum, til þess að hafa upp á frú Zingli, móður barnsins, í úthverfi borgarinnar. Þau börðu að dyrum á gríðarstóru húsi, og þær opnuðust eilftið eftir drykk- langa stund. Frændi frú Zingli, lágvaxinn maður, rak höfuðið út um gættina. önnu var mikið niðri fyrir, þegar hún skýrði frá því, að Zingli væri látinn, en barnið væri hins vegar í húsinu, heilt á húfi. Gamli maðurinn virti hana fyrir sér með köldum fisksaugum og sagði, að frænka sín væri farin þaðan og sér kæmi þessi mótmælendakrói ekkert við. Að þessum orðum töluðum lokaði hann dyrunum. Þegar þau fóru burt, sá mágur Önnu gluggatjöld hreyfast og sannfærðist um, að þar væri frú Zingli. Hún blygðaðist sín augsýnilega ekki fyrir að afneita barninu sínu. Nokkra hríð gengu þau þegjandi hlið við hlið, Anna og mágur hennar. Þá sagði hún honum, að hún ætlaði að fara aftur til sútun- arstöðvarinnar og sækja barnið. Mágur hennar, sem var rólegur og traustur maður, hlýddi skelfdur á hana og reyndi að fá hana oían af þessari hættulegu fyrirætlan. Hvað kom þetta fólk henni við? Það hafði ekki einu sinni komið sómasamlega fram við hana. Anna hlýddi þegjandi á hann og lofaði að gera ekkert óskynsamlegt. Þó vildi hún endilega athuga, hvort barninu liði ekki vel í sútunarstöðinni. Hún ætlaði þangað ein síns liðs og hafði sitt fram. Mitt í eyðilögðu anddyrinu lá barnið í vöggu sinni og svaf. Anna settist þreytt hjá því og virti það fyrir sér. Hún hafði ekki þorað að kveikja ljós, en húsið í nágrenninu var enn að brenna, og við bjarmann frá því sá hún barnið allgreini- lega. Það hafði örlítinn fæðingarblett á hálsinum. Er vinnustúlkan hafði horft á um hríð, ef til vill klukkustund, hvernig barnið andaði og saug lítinn hnefa sinn, gerði hún sér ljóst, að hún hafði setið svo lengi og virt barnið fyrir sér, að hún gat ekki farið burt án þess. Hún stóð þyngslalega upp, og með hægum hreyfing- um sveipaði hún barnið rekkjuvoð, tók það í fangið og fór með það út úr húsagarðinum. Hún horfði flóttalega kringum sig, líkt og maður með slæma samvisku eða þjófkvendi. Eftir langar viðræður við systur sina og mág hélt hún svo hálfum mánuði seinna til þorpsins Grossaitingen, þar sem bróðir hennar, sem var eldri en hún, var bóndi. Býlið var eign konu hans, hann hafði einungis kvænzt inn í fjölskylduna. Þau komu sér saman um að segja aðeins bróður Önnu, hverra manna barnið væri, því að þau höfðu aldrei séð ungu bóndakonuna og vissu ekki, hvernig hún myndi taka á móti svo hættulegum Iitlum gesti. Anna kom rétt fyrir hádegi til þorpsins. Bróðir henn- ar, kona hans og vinnufólkið sátu að hádegisverði. Það var ekki tekið illa á móti henni en hún þurfti ekki annað en að líta á hina nýju mágkonu sína til að það gæfi henn tilefni til að kynna barnið þegar í stað sem sitt eigið. Þá fyrst, er hún hafði sagt, að maður sinn starfaði í myllu í fjarlægu þorpi og ætti von á henni þangað eftir nokkr- ar vikur með barnið, varð mágkonan svolítið vingjarn- legri, og það var dáðst að barninu eins og vera bar. Seinna um daginn fór hún með bróður sínum til skóg- ar að safna eldiviði. Þau settust á trjástubba, og Anna sagði honum allt af létta. Hún sá, að honum var ekki rótt. Staða hans á bænum var enn ekki örugg, og hann hrósaði Önnu fyrir að hafa ekki sagt konu sinni allan sannleikann. Ljóst var, að hann bjóst ekki við, að kona sín kæmi stórmannlega fram við mótmælendabarnið. Hann vildi að blekkingunni yrði haldið áfram. En það var allt annað en auðvelt til lengdar. Anna vann við uppskeruna og sinnti barninu „sínu", þegar tími vannst til, og var sífellt á hlaupum milli akurs og húss, meðan aðrir hvildust. Sá litli dafnaði vel og varð meira að segja feitur, og í hvert skipti sem hann sá Önnu, reyndi hann ákafur að lyfta höfðinu. En svo kom veturinn, og mágkonan fór að spyrjast fyrir um mann Önnu. Það mælti ekkert því í mót, að Anna dveldist áfram á bænum, hún gat hjálpað til við störfin. Verst var það, að nágrannarnir tóku að undrast um föður barnsins hennar Önnu, af því að hann kom aldrei að líta eftir því. Ef hún gæti ekki bent á neinn barnsföður, myndi ekki líða á löngu, að slúðursögur um bæinn kæmust á kreik. Sunnudagsmorgun einn spennti bóndinn hest fyrir vagn og skipaði Önnu, svo hátt að allir heyrðu, að koma með sér að sækja kálf í einu nágrannaþorpanna. Á ósléttum akveginum skýrði hann henni frá því, að hann hefði leitað að manni handa henni og fundið hann. Þetta var fársjúkur hjáleigubóndi, sem varla gat lyft beinaberu höfðinu upp af sóðalegu undirlakinu, er þau stóðu bæði i lágum kofa hans. Hann var'fús að ganga að eiga Önnu. Við höfðalag sjúkrabeðsins stóð skorpin kerling, móðir hans. Hún vildi fá endurgjald fyrir þenn- an greiða, sem Önnu var gerður. Það tók tíu mínútur að ganga frá viðskiptunum, og Anna og bróðir hennar gátu haldið áfram og keypt kálfinn. Giftingin fór fram í lok sömu viku. Meðan presturinn tautaði hjónavígsluformálann, leit hinn sjúki ekki eitt augnablik með sljóum augunum á Önnu. Bróðir hennar efaðist ekki um, að þau fengju dánarvott- orðið í hendur eftir nokkra daga Þá mætti halda fram, að eiginmaður og barnsfaðir önnu hefði dáið í ein- hverju þorpi nálægt Ágsborg á leið til hennar, og eng- inn myndi undrast, þótt ekkjan yrði um kyrrt hjá bróð- ur sínum. Anna kom glöð í bragði til baka úr hinu einkennilega brúðkaupi sínu, þar sem hvorki hafði verið hringt kirkjuklukkum né blásið í lúðra, þar sem hvorki voru brúðarmeyjar né gestir. í stað brúðkaupsmáltíðar borð- aði hún brauðbita með flesksneið ofaná í matarbúrinu. Þvi næst gekk hún með bróður sínum að kassanum, sem barnið, sem loks hafði hlotið föðurnafn, lá í. Hún tróð lakinu niður með hliðum kassans og hló við bróður sínum. En dánarvottorðið lét reyndar á sér standa. Skilaboð komu hvorki næstu né þarnæstu viku frá kerlingunni. Anna hafði sagt frá því á býlinu, að nú væri maður hennar á leiðinni til hennar. Nú sagði hún, þegar hún var spurð, hvar hann væri, að snjóalögin tefðu væntanlega ferð hans. En eftir að liðnar voru þrjár vikur í viðbót, fór bróðir hennar, sem var orðið mjög órótt, til þorpsins við Ágsborg. Hann kom aftur seint um nóttina. Anna var enn á fótum og hljóp til dyra, þegar hún heyrði marra í vagn- inum á hlaðinu. Hún tók eftir, hversu bóndinn fór sér hægt við að leysa frá, og hjarta hennar herptist saman. Hann færði afleitar fréttir. Er hann kom inn í hreys- ið, hafði hann hitt þar fyrir hinn feiga mann, sitjandi að kvöldverði, snöggklæddan og tyggjandi með gúlana fulla. Hann var aftur alheill heilsu. Bóndinn leit ekki framan í Önnu, þegar hann hélt áfram frásögn sinni. Leiguliðinn, sem reyndar hét Otterer, og móðir hans voru, að því er virtist, ekki enn komin að neinni niður- stöðu um, hvað gera skyldi. Hann sagði, að Otterer hefði ekki komið illa fyrir. Hann hefði fátt sagt, en þó hefði hann eitt sinn skipað móður sinni að þegja, þegar hún ætlaði að fara að barma sér yfir því, að nú ætti hann eiginkonu, sem hann kærði sig ekki um, og hefði ókunnugan krakka að dragnast með. Hann hélt áfram að borða ostréttinn sinn varfærnislega, meðan á sam- talinu stóð, og var enn að, þegar bóndinn fór. Næstu daga var Anna að sjálfsögðu mjög hnuggin. Þegar tími gafst frá vinnunni, kenndi hún drengnum að ganga. Þegar hann sleppti taki á kembustandinum og kjagaði í átt til hennar með litlu handleggina útrétta, kæfði hún niður ekkasog og þrýsti honum þétt að sér, er hún tók á móti honum. Einu sinni spurði hún bróður sinn: „Hvers konar maður er hann?“ Hún hafði aðeins séð hann á dánar- beðinum og aðeins að kvöldlagi við dauft kertaljós. Nú fékk hún að vita, að maðurinn hennar væri á sextugs- aldri og slitinn af vinnu, eins og hjáleigubændur eru venjulega. Skömmu síðar sá hún hann. Farandsali hafði fært henni þau skilaboð með mikilli leynd, að tiltekinn kunn- ingi vildi hitta hana á tilteknum degi og á tiltekinni stund við tiltekið þorp, þar sem stígur liggur út af þjóðveginum í átt til Landsberg. Þannig hittust hin giftu milli þorpa sinna, eins og hershöfðingjar fornald- ar milli herfylkinga sinna, á víðavangi, sem þakinn var snjó. önnu leist ekki á manninn. Hann hafði litlar gráar tennur, horfði á hana frá hvirfli til ilja, þó að hún væri klædd þykkri gæruskinn- kápu og því ekki mikið sjáanlegt af henni, og tautaði eitthvað um „sakramenti hjónabandsins". Hún sagði honum stuttaralega, að hún yrði að íhuga þetta allt betur og hann skyldi láta einhvern höndlara eða slátr- ara, sem ætti leið um Grossaitingen, skila til hennar í viðurvist mágkonu hennar, að hann myndi koma fljót- lega og hefði aðeins veikst á leiðinni. Otterer kinkaði kolli á sinn varfærnislega hátt. Hann var höfðinu hærri en hún og horfði alltaf vinstra megin á háls hennar. Það gerði henni gramt í geði. En skilaboðin komu ekki, og Onnu var það ofarlega í

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.