Lesbók Morgunblaðsins - 09.02.1991, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 09.02.1991, Blaðsíða 8
FORNESKJA í SVERRIS SÖGU I. VlÐHORF Fræðimenn hafa löngum velt því fyrir sér með hverjum hætti Sverris saga var færð í letur, en þó leikur lítill vafi á um upphaf hennar, enda segir berum orðum í formála að Kari Jóns- son ritaði, „en yfir sat sjálfur Sverrir konungur Um áhrif skólarita á fornsögur er það skemmst að segja að þau geta verið með ýmsu móti, en hitt má teljast einkar merkilegt: allmörg spakmæli og aðrar minnisstæðar setningar í sögunum eiga rætur sínar að rekja til latneskra skólabóka, enda gegna slík spakmæli jafnan sömu hlutverkum í norrænum og íslenskum verkum og latnesku fyrirmyndirnar gefa tilefni til. Eftir HERMANN PÁLSSON og réð fyrir hvað rita skyldi“. Hér virðist fátt hafa getað farið milli mála, þar sem sagan er ekki einungis um ævi og afrek Sverris konungs, heldur er hann í senn heim- ildarmaður Karls um það sem verið hafði og eins konar ritstjóri að verkinu sjálfu. Þá mun Sverrir einnig hafa átt upptökin að skráningu sögunnar, en engum getum verð- ur að því leitt af hveijum sökum hann fól Karli ábóta það mikla vandaverk að setja hana saman. Samvinna þeirra Sverris konungs og Karls minnir á þrifnaðarsýslu Sturlu Þórðar- sonar í Noregi allmörgum áratugum síðar, þegar Magnús lagabætir „skipaði honum þann vanda að setja saman sögu Hákonar konungs föður síns, eftir sjálfs hans ráði og hinna vitrustu manna forsögn. [...] Og þá í annarri utanferð Sturlu var hann enn með Magnúsi konungi vel haldinn og mikils metinn. Þá setti hann saman sögu Magnúss konungs eftir bréfí og sjálfs hans ráði. „Vel má vera að Magnús hafi haft Svenf lang- afa sinn í huga þegar hann fól Sturlu slíkan vanda á hendur. Um Sverris sögu er það skemmst að segja að hún þykir traust heimild um norska atburði sem gerðust frá því að „Sverrir hófst“ (1177, að tali annála) uns ævi hans þrýtur hinn 9. mars 1202. Um hitt má þræta að hve miklu leyti ýmsar hugmyndir sögunn- ar eru tengdar við þau atvik sem rakin eru þar í ákveðinni tímaröð, enda má vel vera að sumar þeirra stafí frá Sverri sjálfum þegar hann sat yfír Karli og stýrði penna hans. Þær hugmyndir sögunnar sem vaka yfír mér eru einkum atriði sem gætu verið þegin úr bókum. Við rannsóknir á eðli og uppruna forn- sagna verður margs að gæta, en í þessu spjalli er þó einkum tvennt sem ég hef í huga: annars vegar þá smásmygli að Iáta sér helst ekki sjást yfir neitt sem máli skipt- ir, jafnvel þótt lítil tilkoma þyki i fljótu bragði, og á hinn bóginn þá glöggsýni að geta skyggnst um hveija sögu í ijósi þeirra rita sem höfundur hennar kann að hafa les- ið áður en hann lauk smíði sinni. Um Sverr- is sögu gegnir sérstöku máli, þar sem áhrif frá lærðum bókmenntum kunnu að stafa frá helstu persónu hennar sem einnig er heimildarmaður og að nokkru leyti ábyrgur fyrir frágangi á fyrsta hluta hennar. Eitt af hlutverkum ritskýringar er saman- burður: að kanna samkenni rita, skyldleika og áhrif, að sýna með hveijum hætti ætt- erni þeirra er farið. Þótt enn sé ekki til ítar- leg skrá yfír allar þær útlendu ritningar, andlegar og veraldlegar, sem Norðmenn og íslendingar kynntust á 11., 12. og 13. öld, þá leikur enginn vafí á um ýmsar skólabæk- ur sem tíðkuðust hér norðurfrá á þessu tíma- bili. Nú hagar svo til að nokkrum slíkum skólabókum var snarað á móðurmálið hér norður frá, enda hagnýttu sagnahöfundar sér þýðingarnar ekki síður en latnesku frum- ritin. Um áhrif skólarita á fornsögur er það skemmst að segja að þau geta verið með ýmsu móti, en eitt má teljast einkar merki- legt: allmörg spakmæli og aðrar minnis- stæðar setningar í sögunum eiga rætur sín- ar að rekja til latneskra skólabóka, enda gegna slík spakmæli jafnan sömu hlutverk- um í norrænum og íslenskum verkum og latnesku fyrirmyndirnar gefa tilefni til. Hinu má þó ekki gleyma að spakmæli og önnur atriði af lærðum rótum eru sjaldan nema nauðalítill hluti af hverri fornsögu vorri eða fomkvæði í heild. Skal nú ekki hafa þessa forræðu öllu iengri heldur vinda bráðan bug að því verkefni sem vikið er að í greinarheiti. Formála Sverris sögu í einu helsta hand- riti hennar [AM 327 4to] klykkir út með svofelldri málsgrein: En þó að sumir híutir séu hér annan veg sagðir en mest líkendi myndi á þykja í orrustum fyrir fjölmennis sak- ir, þá vitu þó allir sannindi til að þetta er ekki aukið. Og þykir oss að líkara að þær sagnir muni vera við sannindum er á bókum eru sagðar frá ágætismönnum þeim er verið hafa í forneskju. Nú munu ýmsir lesendur Sverris sögu ekki hafa áttað sig á því hvert verið er að fara þegar talað er um sannleiksgildi sagna af ágætum mönnum / forneskju. Vitaskuld er slíkri athugasemd ekki beint að Sverri konungi sjálfum; samtíð hans er engan veg- inn orðin „forn“ þegar þetta handrit var skráð (hub 1300), enda væri slíkt orðalag gersamlega óviðeigandi snemma á þrett- ándu öld (71208-1212) þegar sköpun Sverr- is sögu var lokið til hlítar. Jafnvel um 1390 þegar sagan er letruð norður í Víðidalstungu munu menn ekki hafa notað „forneskju" um æviskeið Sverris. Orðið forn á að vísu stundum við heiðinn sið í Noregi og ís- landi, en stundum lýtur það að fornöld Grikkja, Rómveija og Gyðinga: henni kynnt- ust íslendingar og Norðmenn einkum af latneskum ritum. Forneskja formálans varð- ar bókspeki Sverris sögu og veit að þeim dæmum eða fyrirmyndum sem vöktu fyrir Sverri konungi, Karli Jónssyni sagnameist- ara og þeim sem fjölluðu um söguna eftir daga hans. Ii. Sjálfsvíg I nítjánda kapítula sögunnar er lýst mikl- um hrakningum þeirra Sverris og Birkibeina um öræfí í öskubyl; um átta dægur bergðu þeir engu nema snjó. Rammvilltir uppi á fjalli, umkringdir bröttum hömrum og nær dauða en lífi af sulti, mæði og kulda, örvíln- ast þeir. Þá kom illur kurr á lið konungs. Sumir mæltu að þeir myndu ganga ofan fyrir hamra og þola eigi lengur svo mikla kvöl, og þá myndi skjótast um ráða. Sumir mæltu að ,*meiri framkvæmd sýnist oss til fornra minna að taka og gera eftir dæmum hvatra manna, þeirra er sjálfir bárust vopn á og drápust heldur en þeir vildi nauðir þola lengur“. Eins og ég benti á í Skírni nýlega, þá eiga hin fornu minni við kafla í Rómverja sögu, þeim hluta hennar sem er þýðing úr íjórðu bók Lucanus- ar um borgarastyijöld Rómveija, en þeir atburðir gerðust á fyrstu öld f. Kr., og er því ekki orðum aukið að hér sé um forn minni að ræða. Þau „dæmi hvatra rnanna" sem Birkibeinar vitna til áttu sér því stað röskum tólf öldum áður en þeir Sverrir lenda í hrakningum sínum. Svo hagar til að Anto- níus leiðtogi leitar sér og mönnum sínum vígis á bergi einu, og „varð hann lengi um setinn og krepptur miklum sult“, hermir Rómverja saga. Um síðir tekst Antóníusi að komast undan með mikinn hluta liðs; þó urðu allmargir eftir, undir forystu Vulteius- ar, umkringdir á flota eða fleka, og eiga sér engrar undankomu auðið. Þá kemur illr kurr í liðið, eins og raunar segir um Birki- beina í Sverris sögu. Síðan eggjar Vulteius liðsmenn sína að kjósa þann dauðann er vér viljum helst hafa og vér verðum frægstir af. [...] munu goðin vilja að vér gefím þau dæmi dauðans, er oss sé frægð í. í ræðunni telur Vulteius að Júlíusi Cæsar muni „lítill sómi í þykja, að vér vegimst sjálfir" og minnir sú miðmynd á ummæli Birkibeina um þá hvötu menn er „sjálfir bárust vopn á og drápust“. Vulteius styður hugmyndina um sjálfsbana af mikilli mælsku sem lesendum Lucanusar hefur löngum þótt mikið um. Sú er hugrekki lofuð mest góðra drengja, að það finnist aldrei að þeir hræðist bana sinn og vilji aldregi lengja líf sitt með svívirðing, þó að eigi girnist þeir sjálfir að deyja. [...] þeim einum er lofað að skilja það rétt, hversu gott það er að deyja er girnast að deyja, til þess að þá lifí þeir að eilífu, en goðin leyna hina því er girnast að lifa. Um morguninn eru þeim boðin grið, en þeir hafna þeim umsvifalaust. Eftir stuttan bardaga sér Vulteius að engri vöm verður við komið: Þá rétti hann fram hálsinn og bað sig höggva þann mann er honum var næstur. En er hann féll þá hjuggust þeir, bræður ok frændur, hver sinn kærasta vin, og fekk Vulteius þann dauða og hans lið er hann mundi kiósa. Sverris saga og Rómverja saga munu vera einu fornritin okkar þar sem aðþrengd- ir menn láta sér til hugar koma að binda enda á eymd sína með því móti þeir gerist handbanar hvers annars. Orðalag Sverris sögu „að taka til fornra minna“ ber greini- lega með sér að fyrirmyndin er tekin úr skráðri heimild sem taldist vera „forn“ á síðari hluta 12. aldar, og með því að Róm- veija saga og hið latneska frumrit hennar eru einu fyrirmyndirnar sem höfundur Sverris sögu kann að hafa lesið um slík sjálfsvíg er ástæðuiaust að efast um upprun- ann. Hér er því um að ræða atriði sem virð- ist vera sprottið af lærdómi eða bókspeki höfundar. Ófróðum lesanda kann að koma það undarlega fyrir sjónir að Birkibeinar eru látnir sækja sér dæmi í fræðirit á borð við Rómveija sögu ella þá í latnesku fyrir- myndina, en hins skal þó minnast að þeir Sverrir konungur og Karl Jónsson munu að öllum líkindum hafa lesið sögukvæði Lucanusar á skólabekk, og einnig má ætla að hún hafi verið námsbók í Þingeyra- klaustri á ábótaárum Karls eins og raunar endranær. En hitt kemur síst á óvart að Sverrir konungur svarar mönnum sínum af miklum skörungskap og ræður þeim frá að svipta sig lífí. Hann segir að það sé „ærra manna tiltekja" að ganga fyrir björg og fara sér sjálfur, og kemur slík staðhæfíng heim við frásagnir af hugleysingjum sem ærast af hræðslu og hlaupa fyrir björg, svo sem Nagla í Eyrbyggju (18. kap.) og Hæringi í Grettlu (76. kap.) Örðalag Sverris minnir einnig á tiltekinn stað í Rómverja sögu: „þá eru nær ærsl í að vilja svo deyja“ segja liðsmenn Júlíusar Sesars eftir að hann hafði hætt lífí sínu í lítilli bátkænu með einum fiskimanni úti á hafi. Frásögn Gautreks sögu af Ætternisstapa og örlögum Skafn- örtungs ber vitni um fomar norrænar arf- sagnir af fólki sem svipti sjálft sig lífí í því skyni að hraða för sinni til Vaihallar. Um rómversku aðferðina að bregða lífi sínu seg- ir Sverrir: „En með því að þér viljið sjálfir vopnum beijast: það er heiðinna manna sið- ur, þeirra er ekki vita til guðs.“ Vitaskuld var ekki hægt við því að búast að Rómveij- ar á fyrstu öld f. Kr. hefðu notið sömu þekk- ingar á guði kristinna manna ogprestlingur- inn Sverrir sem barinn var til bókar í Fær- eyjum forðum. Niðurlag í næstu Lesbók.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.