Morgunblaðið - 07.07.2002, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 07.07.2002, Blaðsíða 20
20 SUNNUDAGUR 7. JÚLÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ Í mörgum málum sem komið hafa til kasta Mannréttinda- dómstóls Evrópu hefur reynt á það hvert sé svigrúm manna til að halda uppi gagnrýni á ríkisvaldið. Er óhætt að fullyrða að það svigrúm er mjög rúmt og einungis í undantekningartilfell- um sé heimilt að dæma menn, ekki síst blaðamenn, fyrir ummæli sem geta talist innlegg í stjórnmálaum- ræðu. „Frjáls stjórnmálaumræða er kjarninn í hugtakinu lýðræðislegt þjóðfélag sem er rauður þráður í Mannréttindasáttmálanum,“ eins og dómstóllinn sagði í einu slíku máli. Þá hefur hann lagt mikla áherslu á mik- ilvægi fjölmiðla, þeir séu nokkurs konar „varðhundur“ sem verndi al- menning gagnvart ríkisvaldinu. 10. grein Mannréttindasáttmálans verndar ekki einungis tjáningarfrelsi heldur mælir hún líka fyrir um það í hvaða tilfellum og að hverjum skil- yrðum uppfylltum megi takmarka slíkt frelsi. Slíkar takmarkanir verða að byggjast á lögum, þjóna lögmætu markmiði, til dæmis æruvernd eða þjóðaröryggi, og geta talist „nauð- synlegar í lýðræðisþjóðfélagi“. Í fjöldamörgum dómum síðustu áratugi sem varða fjölmörg Evrópu- ríki hefur dómstóllinn skýrt nánar hvað í þessu felst. Fullyrða má að dómstóllinn hafi gengið lengra í að vernda frjálsa þjóðmálaumræðu en flest ef ekki öll Evrópuríki gerðu áð- ur. Vegna þess að aðildarríkin eru skuldbundin til að hlíta dómum frá Strassborg, hafa því miklar breyting- ar orðið á löggjöf og dómafram- kvæmd innanlands í aðildarríkjun- um. Meiðyrðamál Hverjir eru helsti þættirnir í að- ferðafræði dómstólsins? Ef tekið er dæmi af meiðyrðamálum þá má hafa hugfast að í mörgum Evrópuríkjum gilti frá fornu fari að eini mælikvarð- inn á það hvort meiðandi ummæli væru refsiverð var hvort þau væri hægt að sanna eða ekki. Ef varnarað- ili, til dæmis blaðamaður, gat ekki fært fullnægjandi sönnur á ummæli sín, hlaut hann að tapa málinu. Í sum- um tilfellum voru við lýði lagareglur sem vernduðu ríkisvaldið eða opin- bera starfsmenn gegn meiðandi um- mælum burstéð hvort þau væru sönn eða ekki. Mannréttindadómstóllinn hefur hnikað þessu til enda gerðu slíkar reglur, ef þeim var framfylgt, blaða- mönnum mjög erfitt um vik að sinna hlutverki sínu við að upplýsa mál og veita stjórnvöldum aðhald. Þannig hefur dómstóllinn gert greinarmun á gildisdómum og fullyrðingum um staðreyndir. Það er til dæmis gildis- dómur að segja að einhver sé siðlaus en fullyrðing um staðreynd þegar sagt er að einhver hafi svikið loforð. Heimilt er að bregðast við og refsa fyrir ósannaðar ærumeiðandi fullyrð- ingar. Gildisdómar, sem eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að færa sönnur á, njóta hins vegar ríkari verndar. En jafnvel ósannaðar meið- andi fullyrðingar geta talist verndað- ar ef þær eru settar fram í góðri trú. Ef blaðamaður byggir til dæmis á efni opinberrar skýrslu sem síðar reynist röng eða að minnsta kosti ósönnuð þá er ekki rétt að draga hann til ábyrgðar. Blaðamanni er sem sagt heimilt að reiða sig á upp- lýsingar í slíkum gögnum án þess að eiga á hættu að baka sér refsiábyrgð. Í fjölmörgum málum hefur dóm- stóllinn tekist á við það hvað séu for- svaranleg vinnubrögð af hálfu blaða- manna, þ.e. í raun hvenær um sök sé að ræða sem réttlæti refsingu og hve- nær ekki. Vitnar dómstóllinn þá gjarnan í siðareglur blaðamanna og þá í því samhengi að fylgi blaðamaður þeim þá sé ekki rétt að draga hann til ábyrgðar. Í siðareglum felst til dæm- is að gefa beri þeim sem sæta harðri gagnrýni kost á að tjá sig um efni ásakananna áður en þær birtast ef þess er nokkur kostur. Dómstóllinn hefur ennfremur lagt á það áherslu að reglur um tjáning- arfrelsi verndi ekki einungis efni um- mæla heldur form. Þar verði fjöl- miðlar að hafa svigrúm til að ákveða með hvaða hætti upplýsingar séu matreiddar. Það eitt að gagnrýni sé sett fram með hvössum eða ögrandi hætti má ekki verða til þess að þrengt sé að tjáningu manna. Friðhelgi einkalífs Þótt hendur aðildarríkjanna séu ærið bundnar þegar beiting meið- yrðalöggjafar er annars vegar verður ekki sama sagt um lög sem vernda friðhelgi einkalífs. Þar er allt annar hlutur á ferð. Það er sjaldnast opin- berri lýðræðislegri umræðu til fram- dráttar að draga fram þætti úr einka- lífi fólks, þvert á móti. Þess vegna á blaðamaður sem dæmdur hefur verið fyrir að opinbera einkamálefni fólks án samþykkis þess litla möguleika fari hann með mál sitt til Strassborg- ar. Frá þessu eru undantekningar. Ef einstaklingar leggja sig fram um að bera einkamálefni sín á torg til dæmis til þess að draga að sér athygli, hvort sem það eru svokallaðar stjörnur úr heimi lista og vitundariðnaðar eða stjórnmálamenn þá kann það að rétt- læta að aðrir þættir úr einkalífi þeirra séu einnig skoðaðir gaumgæfi- lega. Sérstaklega ætti það við ef stjórnmálamaður reyndi til dæmis að gefa falska mynd af sjálfum sér til að vinna sér fylgi. Eins kann að vera réttlætanlegt að draga fram óþægi- legar upplýsingar úr einkalífi ráða- manna ef þær geta haft áhrif á hvern- ig almenningur metur opinbera framgöngu þeirra. Ef stjórnmála- maður gæfi sig til dæmis út fyrir að vera mikill siðapostuli og berðist harkalega gegn hvers kyns lausung í siðferðislífi þjóðar sinnar en lifði svo engar veginn í samræmi við það þá kynni vel að vera réttlætanlegt að draga slíkt fram í dagsljósið. Eins þarf að gæta vel að því hvar draga eigi mörkin milli einkamálefnis og þess sem varðar almenning. Dóm- stóllinn hefur til dæmis talið að launa- kjör forstjóra einkafyrirtækja séu ekkert einkamálefni, sérstaklega þegar viðkomandi fyrirtæki hefur átt í stríði við almenna starfsmenn um launamál. Ríki, ráðamenn og opinberir starfsmenn Dómstóllinn hefur smám saman mótað sjónarmið um það hversu ríkr- ar verndar ríkið sjálft, ráðamenn og opinberir starfsmenn skuli njóta. Má þar greina vissan stigsmun. Minnstr- ar verndar nýtur ríkið sjálft og stofn- anir þess. Það má því ganga ærið langt í að úthúða tilteknu ráðuneyti eða „lögreglunni“ án þess að baka sér ábyrgð, sérstaklega ef tilteknir ein- staklingar eru ekki um leið í skot- spæni. Ráðamenn njóta heldur meiri verndar því þar eiga einstaklingar í hlut sem aldrei geta verið réttlausir með öllu. Samt er svigrúm til gagn- rýni mikið því stjórnmálamenn bjóða vitandi vits upp á að orð þeirra og gerðir séu grandskoðaðar. Opinbera starfsmenn má auðvitað gagnrýna vegna þess opinbera valds sem þeir fara með og er það sjálfsagður þáttur í lýðræðislegu aðhaldi. Sú gagnrýni má þó ekki vera eins hvöss og þegar stjórnmálamenn eiga í hlut, því hinir fyrrnefndu bjóða ekki með sama hætti upp á að orð þeirra og gerðir séu grandskoðaðar. Sérstök sjónarmið eiga við um dómstóla og gagnrýni á þá. Gagnrýn- in umfjöllun um starfsemi þeirra á fullan rétt á sér. Það er hins vegar einnig mjög mikilvægt að þeir njóti trausts almennings. Þess vegna gæti reynst nauðsynlegt að vernda þá fyr- ir tilhæfulausum árásum sérstaklega í ljósi þess að dómarar geta ekki auð- veldlega svarað fyrir sig, eins og dómstóllinn lét ummælt í einu máli. Mál Le Monde Víkur þá sögunni að nýjasta dómn- um sem varðar 10. grein Mannrétt- indasáttmálans og er í raun tilefni þessarar greinar. Málavextir voru þeir að 3. nóvem- ber 1995 birti franska dagblaðið Le Monde frétt um skýrslu alþjóðlegrar rannsóknarstofnunar sem fjallaði um fíkniefnaframleiðslu og sölu í Mar- okkó. Skýrslan var unnin að beiðni Evrópusambandsins í tilefni af um- sókn Marokkó um aðild. Hafði efni hennar ekki áður verið gert opinbert. Í skýrslunni sagði meðal annars að framleiðsla á kannabis væri svo um- fangsmikil að Marokkó væri nálægt því að vera helsta útflutningsríki hass í heimi. Í greininni sagði að skýrslan ylli vafa um hvort nokkuð væri að marka fögur fyrirheit stjórnvalda í Marokkó og einkum kóngsins um að berjast gegn aukinni fíkniefnasölu í landinu. Hinn 23. nóvember 1995 ritaði Marokkókonungur franska utanrík- isráðuneytinu bréf og krafðist þess að opinbert mál yrði höfðað á hendur Le Monde. Jean-Marie Colombani, út- gáfustjóri Le Monde, og Eric Incyan, sem skrifaði greinina, voru síðan dæmdir á grundvelli frönsku prent- laganna frá 1881 fyrir að móðga er- lendan þjóðhöfðingja. Með saknæm- um hætti hefði athygli almennings verið dregin að persónulegri ábyrgð konungs. Þá hefði blaðamaðurinn lát- ið undir höfuð leggjast að sannreyna hvort skýrslan væri áreiðanleg og í samræmi við nýjustu upplýsingar. Hinir dæmdu og útgáfufyrirtæki Le Monde ákváðu að skjóta málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu. Héldu þeir því fram að 10. grein Mannréttindasáttmálans sem vernd- ar tjáningarfrelsi hefði verið brotin Sjö dómarar tóku þátt í meðferð málsins hjá Mannréttindadómstól Evrópu, þar á meðal dr. Gaukur Jör- undssson sem er dómari af Íslands hálfu. Í dómnum, sem kveðinn var upp 25. júní síðastliðinn, segir að almenn- ingur í Frakklandi hafi átt rétt á að fá upplýsingar um fíkniefnaframleiðslu og sölu í landi sem sækti um aðild að Evrópusambandinu og sem ennfrem- ur væri í nánu sambandi við aðild- arríki Evrópusambandsins, einkum Frakkland. Til að njóta verndar 10. greinar þyrftu blaðamenn að starfa í góðri trú, í samræmi við siðareglur og gæta þess að byggja frásagnir á traustum staðreyndagrunni. Í því sambandi væri vert að geta þess að efni skýrslunnar væri óumdeilt og réttmætt hefði verið að líta svo á að ásakanir sem þar kæmu fram væru trúverðugar. Var talið að fjölmiðlar mættu reiða sig á efni opinberra skýrslna þegar þeir fjölluðu um mál- efni sem vörðuðu almenning án þess að gerð væri krafa um að þeir fram- kvæmdu sjálfstæða rannsókn á efni ásakana. Þá benti dómstóllinn á að ólíkt því sem ætti við í almennum meiðyrða- málum þá gætu þeir sem ákærðir væru fyrir að niðra erlendan þjóð- höfðingja ekki borið því við að ásak- anirnar væru sannar. Slíkt væri óhóf- lega íþyngjandi jafnvel þegar verið væri að verja heiður þjóðhöfðingja eða ríkisstjórnarleiðtoga. Ennfremur yrði þess vart í nýlegum dómum franskra dómstóla að þeir teldu að viðkomandi ákvæði franskra laga stríddu gegn 10. grein Mannréttinda- sáttmálans. Slík sérstök vernd væri ónauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi enda ætti það að duga hverjum þjóð- höfðingja sem þess óskaði að grípa til almennra reglna um ærumeiðingar. Dómstóllinn taldi ennfremur að frönsku prentlögin frá 1881 hefðu það að markmiði að veita þjóðhöfðingjum sérstaka vernd og undanþiggja þá gagnrýni einvörðungu vegna stöðu þeirra. Þetta væru forréttindi sem samræmdust ekki stjórnmálahug- myndum nútímans. Jafnvel þótt það væri augljóslega hagsmunamál fyrir hvert ríki að eiga góð samskipti við erlenda þjóðarleiðtoga þá gengju slík forréttindi lengra en nauðsyn krefði til að þjóna slíku markmiði. Dómstóllinn lagði loks áherslu á að það væru sérréttindin sem yllu því að um brot á 10. grein væri að ræða en ekki réttur erlendra þjóðhöfðingja al- mennt talað til að grípa til aðgerða þegar heiður þeirra eða mannorð væri í veði en þá yrði það að gerast innan ramma almennra reglna. Hliðstæð ákvæði í löggjöf margra ríkja Ákvæði af því tagi sem hér reyndi á er að finna í löggjöf fjölmargra ríkja þótt sjaldgæft sé að á þau sé látið reyna. Í frönskum lögum er einnig sambærilegt ákvæði sem verndar franska forsetann gegn gagnrýni. Va- lery Giscard d’Estaing lýsti því yfir á sínum tíma að hann myndi ekki grípa til þess ákvæðis og hafa eftirmenn hans farið að dæmi hans. Jacques Chirac varð til dæmis, eins og vera ber, fyrir óvæginni gagnrýni í að- draganda nýafstaðinna forsetakosn- inga. Urðu engin eftirmál fyrir dóm- stólum vegna þess. Í íslensku hegningarlögunum segir í 95. grein: „Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóð- armerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sekt- um eða fangelsi allt að 2 árum. Nú eru sakir miklar og varðar brot þá fangelsi allt að 6 árum.“ Þarna er um að ræða þyngri refsingar heldur en samkvæmt almennum reglum um móðganir eða aðdróttanir. Ekki er hins vegar ljóst hvort beri að skilja þetta svo að sá verknaður „að smána“ sem um er fjallað í 95. grein sé að ein- hverju leyti frábrugðinn því sem um ræðir í þeim hluta hegningarlaganna sem lýsir móðganir og aðdróttanir refsiverðar. Engin ástæða er til að ætla annað en að íslenskir dómstólar myndu skýra 95. grein til samræmis við 10. grein Mannréttindasáttmálans ef á reyndi. Hins vegar virðist engin þörf lengur á þessu sérákvæði um erlenda þjóðhöfðingja. Líkt og Mannréttinda- dómstóllinn bendir á þá eiga almenn ákvæði sem gilda um alla að duga þeim eins og öðrum til að verja hend- ur sínar ef á reynir. Sérstök æruvernd þjóðhöfðingja talin brot á Mannréttindasáttmálanum Reuters Hassan II, konungur Marokkó (t.v.), ríkti í 38 ár og andaðist í júlí 1999. Sidi Mohammed (t.h.) ríkisarfi tók við. Höfundur er lögfræðingur á mann- réttindaskrifstofu Evrópuráðsins. Skoðanir sem kunna að koma fram í þessari grein eru einvörðungu á ábyrgð höfundar. Vinsamlegast komið ábendingum um efni á fram- færi við pall@evc.net. Lög og réttur eftir Pál Þórhallsson
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.