Lesbók Morgunblaðsins - 28.12.2002, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 28.12.2002, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 28. DESEMBER 2002 5 Bóndinn hlýddi sem dáleiddur á frásögn Halldórs læknis. „Prófessor Sederskjöld, sem fengið hafði Nóbelsverðlaun í læknisfræði fjórum árum áð- ur, annaðist sjálfur þennan sjúkling og við kandídatarnir fengum að fylgjast með því vik- um saman hvernig hann skar manninn og rannsakaði hátt og lágt. Það var ómetanleg lífsreynsla fyrir okkur að mega sjá þennan snilling að verki.“ „Tókst að bjarga manninum?“ Það var sam- bland af ótta og eftirvæntingu í röddinni. „Nei, nei. Surtur dó býsna fljótt og var reyndar steindauður þegar prófessorinn var að skera hann og skoða. En að öðru leyti heppnaðist þetta allt mjög vel.“ Læknirinn hafði tekið púlsinn á Sigfúsi bónda meðan á frásögninni stóð og var hann nú orðinn hraður. „Prófessor Sederskjöld skrifaði ákaflega merkilegar ritgerðir um þessar rannsóknir, sem birst hafa í þekktustu læknatímaritum heims. Þar eru myndir af sjúklingnum bæði fyrir og eftir andlátið og eins af nokkrum helstu líffærum. Þau eru nú geymd í sérstök- um krukkum á Karólinska og vekja alltaf gríð- arlega athygli. Við kandídatarnir fylgdum svo afganginum af sjúklingnum til grafar og gerð- um okkur svo glaðan dag á eftir. Það var mikið fjör. Beygðu þig aðeins fram, ég ætla að banka þig í bakið. Þú lætur mig vita ef þar eru eymsli.“ Læknirinn var einmitt að banka á mjög veik- an punkt þegar Bryndís kom inn með soðið vatn í emaleruðu vaskafati. Sjúklingurinn stundi þungan og konunni var augljóslega brugðið við hljóðin, en þó mest við að sjá ang- istina í andliti eiginmanns síns. Hún lagði vaskafatið varlega frá sér. Læknirinn bretti skyrtuermar sínar eins langt upp á handlegg- ina og hann gat, og þvoði sér vandlega með lút- sterkri sápu. Þegar hann hafði þurrkað sér rækilega tók hann krukku með júgurfeiti upp úr tösku sinni og smurði úr henni á hægri höndina upp að olnboga. „Farðu úr brókunum, Sigfús minn,“ sagði hann í sömu tóntegund og menn spyrja um klukkuna. „Þú ætlar þó ekki … djöfullinn sjálfur … þú ætlar þó ekki …“ Ókunnugir gætu hafa haldið að kominn væri grátstafur í kverkarnar á óðalsbóndanum á Hjarðarhóli. Læknirinn lét engan bilbug á sér finna. „Þú hefur örugglega oft séð hann Daníel dýra bera sig svona að við kýrnar. Þetta er svo sem ekki mikið öðruvísi, bara dálítið þrengra. Leggstu nú á hliðina, Sigfús, og hleyptu þér í kuðung og dragðu svo andann djúpt.“ Bryndís húsfreyja hljóp út úr herberginu. Hún stóð við eldhúsgluggann og starði á haf út og reyndi að leiða hjá sér stunurnar og veinin sem bárust úr hjónaherberginu. Henni varð litið niður á hlaðið og sá að Hervör, móðir hennar, sat í skjóli við fjárhúsgaflinn með barnabörnin tvö í fanginu. Þessi litla þúst virt- ist kippast við í takt við stunurnar og óhljóðin úr stóra kvistherberginu á efri hæðinni. Bryn- dís sneri frá glugganum og fór að sjóða meira vatn. Það stóð á endum að stunurnar hættu er vatnið sauð. Hún fór með pottinn inn og hellti sjóðandi vatninu út í það sem fyrir var í vaska- fatinu. Halldór læknir brosti í þakklætisskyni og tók að þvo sér af vandvirkni. Húsbóndinn á Hjarðarhóli lá enn í keng með andlitið herpt og bólgið af gráti og skömm. Hún forðaðist að líta á hann. „Sestu, Bryndís húsfreyja.“ Hún hlýddi lækninum. Bóndi hennar reyndi að rétta úr kútnum og draga um leið brekánið yfir sig. „Ég tel ekki ástæðu til að tipla í kringum þetta mál eins og köttur kringum heitan graut.“ Læknirinn var sestur í dómarasætið. „Ég tel nú lítinn vafa leika á því, Bryndís, að bóndi þinn er með hina svokölluðu blámanna- veiki.“ „Guð minn góður. Í almáttugs bænum, hvað er það?“ Hún hafði hlaupið til og gripið um þvala hönd eiginmannsins. Feigðin skein úr hverjum andlitsdrætti hans. „Ég hef gert bónda þínum grein fyrir eðli og alvöru þess sjúkdóms.“ Andlit bóndans breyttist ekki en staðfesti þó ótvírætt orð læknisins. „Já, en þú getur ekki verið alveg viss.“ Bæn- arhreimurinn í rödd konunnar leyndi sér ekki. „Nei. Það er mikið rétt. Fullkomna grein- ingu fáum við ekki nema með krufningu og er þá víst fullseint í rassinn gripið. Þið fyrirgefið orðalagið.“ Bóndinn stundi eins og væri hann syndugri ræninginn sem hékk við hlið Krists á Hausa- skeljastað. Þögnin sem á eftir fylgdi var sem ógn í loftinu og ætlaði aldrei að taka enda. „En er ekkert … Það hlýtur að vera hægt að reyna eitthvað … Er ekki hægt að senda hann suður?“ Spurningarnar voru sundurlausar og röddin bar með sér að hún óttaðist svarið. Bóndinn starði á lækninn brostnum augum. „Þegar þú lýstir fyrir mér sjúkdómsein- kennum Sigfúsar, frú Bryndís, fékk ég hugboð eða að minnsta kosti óljósan grun um hvað gæti verið á ferðinni. Ég hafði því samband við gamlan kennara minn úr háskólanum, prófess- or í lyflækningum á Landspítalanum. Hans viðbrögð voru þau að væri ágiskun mín rétt væri hugsanlega veik von í tiltekinni lyfjameð- ferð. Ég bað hann um að senda mér með sér- leyfisbílnum öflugasta lyfið í þeim flokki sem hann nefndi, svo ég hefði það tiltækt. Hann féllst á það eftir nokkurt hik, enda sá hann í hendi sér að sennilega mætti engan tíma missa. Ég er því með lyfið með mér. En ég vil ekki leyna ykkur því að ekki er áhættulaust að taka það og aukaverkanir þess geta orðið sjúk- lingnum erfiðar.“ Hann leit spyrjandi á þau hjón til skiptis, en hvorugt virtist hafa burði til að gera athuga- semd. „Á hitt er að líta,“ hélt læknirinn áfram, „að ella eigum við engan annan kost en að koma Sigfúsi í hendurnar á prófessor Sederskjöld á Karólinska sjúkrahúsinu í Stokk- hólmi. Ég er nokkuð viss um að hann yrði allur af vilja gerður að veita hjálp, enda má auðvitað segja að þótt lækning tækist ekki vegna þess mikilvæga tíma sem hef- ur tapast, þá væri, út frá almennu læknisfræði- legu sjónarmiði, fengur fyrir Sederskjöld að fá líffæri héðan til að bera saman við líffærin sem eru til úr blámanninum.“ Læknirinn þagnaði og virtist vera að velta þess- um jákvæðu röksemdum fyrir sér því hann kinkaði nokkrum sinnum kolli sjálfum sér til samþykk- is. Rödd Sigfúsar var í senn rám og skræk. „Meðalið. Gefðu mér meðalið!“ Læknirinn leit á Bryn- dísi. Hún sagði ekkert en laut hægt höfði. „Ég vil biðja þig að færa mér matskeið, frú Bryndís. Gjarnan mat- skeið sem má láta á sjá.“ Konan stóð á fætur, gekk út úr herberginu en svaraði ekki að öðru leyti. Þegar hún kom til baka hafði læknirinn fært litla borðið að rúm- stokknum og svarta læknataskan stóð þar op- in. Hann tók upp úr henni tvö dökkbrún lyfja- glös. Bæði voru rækilega merkt í bak og fyrir með orðinu „EITUR“ á miðjunni og hauskúpu- merki þar fyrir neðan. Sigfús bóndi var sestur upp í rúmi sínu. Hann var sem dauðadæmdur maður, ofurseldur ömurlegum örlögum sínum. „Við eigum von á þriðja barninu, Sigfús minn,“ sagði Bryndís lágt. Bóndinn leit á hana undrandi og áhugalaus en stundi þó ekki sérstaklega undan þeim tíð- indum svo sem hann var vanur. Fram að þessu hafði Halldór læknir virst hinn eini þeirra þriggja sem ekki ætlaði að bogna undan álag- inu. En nú sást að jafnvel honum var ekki full- komlega rótt. Hann hélt á matskeiðinni í ann- arri hendinni og hellti eitrinu varlega úr flöskunni með hinni. Bryndís sá að hendur hans skulfu dálítið. Og svo fór að þrátt fyrir ýtrustu varkárni Halldórs missti einn eitur- dropinn skeiðarinnar og féll ofan á lakið á rúm- inu. Þar kraumaði hann stutta stund, en hafði þá étið sig í gegnum lakið og tekið til við dýn- una. Dropinn hafði að sínu leyti sömu áhrif í hjónaherberginu á Hjarðarhóli og atóm- sprengjan á næsta umhverfi sitt. Allt líf og all- ur litur hurfu úr andliti bóndans og Bryndís húsfreyja hneig á rúmið, máttlítil. Hendur læknisins skulfu enn þótt hann næði smám saman betri stjórn á þeim. Hann lagði flöskuna varlega á borðið og skrúfaði tappann á. „Réttu mér hina flöskuna, Bryndís,“ sagði hann í þungbúnum skipunartón. Henni tókst að rísa á fætur. Það heyrðust hljóð úr hálsi Sig- fúsar, en allur raki var horfinn úr munnholinu svo þau urðu ekki að orðum. Konan kom með hina flöskuna og hlýddi augnskipun læknis og skrúfaði tappann af. „Þú ætlar þó ekki að bæta hinu eitrinu við?“ spurði hún lágri röddu sem bar með sér að hún vissi svarið. „Ég á engan annan kost. Ef hann lifir þessa inntöku af en læknast ekki af sjúkdómnum, verð ég að koma aftur og gefa honum tvöfaldan skammt. Og dugi það ekki, þá er Sederskjöld okkar eina von. Megi guð almáttugur gefa að til þess þurfi ekki að koma.“ Hann bætti síðari eiturskammtinum í skeið- ina og hreyfði hana varlega til og frá, eins og til að blanda innihaldið. Hann færði sig nær sjúk- lingnum. Sigfús opnaði munninn, fremur sem vél en maður. Læknirinn hellti innihaldi skeið- arinnar snöggt upp í hann. Sjúklingurinn kúg- aðist en læknirinn hafði gripið fyrir vit hans. Sigfús leið útaf, vætti rúmið og ljót lykt gaus upp. Konan grét. Tíu dögum síðar ók Bryndís húsfreyja trakt- or sínum inn að símstöðinni á Gili. Hún hafði ekki viljað hringja úr sveitasímanum. Sjúk- lingurinn hafði átt ömurlega daga fyrst eftir heimsókn læknisins, þjáður mjög á sál og lík- ama. En svo fór að brá af honum. Á þriðja degi var Sigfús bóndi kominn á ról og nú á þeim tí- unda hafði hann vaknað snemma og gengið til verka af töluverðum þrótti. Konan hans sagð- ist þess fullviss að læknirinn þyrfti ekki að koma með tvöfalda skammtinn af eitrinu. „Þetta eru svei mér góðar fréttir, Bryndís, og vissulega betri en ég þorði að búast við. En þú verður að segja Sigfúsi söguna eins og hún er og draga ekkert undan. Það er ekki óþekkt að sjúklingar fái bakslag og veikin taki sig upp á ný og þá hálfu verri. Við skulum svo sann- arlega vona að það gerist ekki í tilfelli Sigfúsar því þá yrði óhjákvæmilegt að gefa honum tvö- faldan eða jafnvel þrefaldan skammt af eitrinu og er þó með öllu óvíst að það myndi hjálpa.“ „Ef ég verð að segja honum þetta, bless- uðum, þá geri ég það,“ sagði hún. Svo bætti hún því við að í öllum ósköpunum sem á hefðu gengið daginn þann hefði hún gleymt að borga lækninum vitjunina og öll meðölin og fyriryrði sig fyrir þá framkomu. Þetta hefði bara allt saman fengið svo mikið á hana. „Hafðu ekki áhyggjur af því, frú Bryndís. Þetta var svo einstaklega áhugavert sjúk- dómstilfelli að mér er meira en nægjanlega borgað með því einu að hafa mátt fást við það. Ég tala ekki um fyrst lækningin virðist hafa borið svo góðan árangur.“ Lífið á Hjarðarhóli var nú komið í betri skorður en það hafði lengi verið. Sigfús óðals- bóndi hafði bjargað öllu sínu í hús og var í hópi fyrstu bænda til þess. Síðla hausts fæddist þeim hjónum sonur og var vel fagnað af öllum á þeim bæ. Fékk húsfreyja því ráðið að hann var skírður Halldór eftir langalangafa hennar sem Sigfús rámaði ekki í að hafa heyrt nefndan áð- ur en konan sagði að hefði verið skáldmæltur vel. Mjög óvenjulegt veggskraut prýddi nú hí- býlin á Hjarðarhóli. Það var bútur úr laki, hag- anlega klipptur í ferning, með eins konar brunagati í miðjunni. Hékk hann innrammað- ur og bak við gler á virðulegum stað á stofu- vegg. Varð gestum þeirra hjóna starsýnt á þetta mikla undur og teikn læknavísindanna. Var ekki frítt við að nágrannarnir gerðu sér upp erindi að Hjarðarhóli í þeirri von að berja lakbútinn augum, svo frægur var hann orðinn í héraði og nærsveitum. Þess var þó gætt að ekki yrði öllum að þeirri ósk sinni. Sigfús var fámáll um fornan sjúkdóm sinn við flesta menn. Þó kom það fyrir, ef framámenn sveit- arinnar sátu og dreyptu á guðaveigum eftir að hafa þegið eitthvert hnossgæti af húsfreyju, að lakið og læknavísindin bæri á góma. Var þá Sederskjöld hinn sænski helsti heimildarmað- ur um þau mál og oft leiddur fram sem vitni. En auðvitað hlaut Halldór læknir einnig rétt- mætan sóma af málinu. Sigfús bóndi var nú kominn í hreppsnefnd og naut sín þar ekki síð- ur en Snjólfur faðir hans og Sigfús afi höfðu gert á undan honum. Var hann virtur vel. Þeir sátu í bókastofunni í læknisbústaðnum, Magnús læknir og Halldór staðgengill hans. Komið var að kveðjustund. Það fór augljóslega vel á með þeim kollegunum, þótt aldursmunur væri töluverður. „Okkur hefur þótt vænt um að hafa þig hér, Halldór minn, og mikil hjálparhella hefurðu verið okkur þetta hálfa annað ár sem þú hefur verið austur hér. Mér er svo sem til efs að sjálf- ur hafir þú haft mikið upp úr krafsinu, en þú veist þó að minnsta kosti sitthvað um erfiðleik- ana sem einyrki í stóru héraði býr við. Auðvit- að ætti enginn sómakær læknir að láta bjóða sér svona frumstæðar aðstæður. Stundum, þegar ég hef verið sóttur til þessa blessaða fólks, sé ég í hendi mér að ég gæti hjálpað því heilmikið ef ég bara hefði tæki, aðstöðu og lág- markshjálp. Svo gerir maður veikburða til- raunir, með því fábrotna dóti sem maður getur haft með sér. Og vissulega hefur það sem betur fer gerst, á móti öllum líkum, að tilburðir manns hafa skilað einhverjum árangri. Og þó það gerist ekki, sem kannski er algengara en við viljum vera láta, er þetta blessaða fólk sannfært um að allt hafi verið gert sem fært var.“ Læknarnir hrærðu í kaffibollum sínum og sátu hljóðir drjúga stund. „Ég skal segja þér, Magnús,“ sagði Halldór loks og dró sígarettureykinn djúpt í lungun, „að af öllu því sem ég hef fengist við hér fyrir austan mun Sigfús sjúklingur á Hjarðarhóli standa mér langlengst í minni. Í hans tilviki var ég nær því en nokkru sinni að koma fíl- hraustum og alheilbrigðum manni í gröfina.“ „Já, það verð ég að segja, Halldór minn, að það var ekki ónýt hugmynd hjá þér að neutral- isera sýruskammtinn í skeiðinni með sódanum og láta karlálftina halda að hann væri að drekka verri drykk en þeir drápu Sókrates með þar syðra i den tid. Já, og svo reis Sigfús karlinn á þriðja degi aftur upp frá dauðum og situr við hægri hönd hreppstjórans í himnarík- issælu upp frá því. Það er von að þú sért kall- aður Halldór kraftaverkalæknir hér um slóðir, karlinn minn.“ Sagan er úr nýju smásagnasafni höfundar, Stolið frá höfundi stafrófsins (2002). Myndskreyting/Gunnar Karlsson Læknirinn gefur sjúklingnum eiturskammtinn við blámannaveikinni ógurlegu. Höfundur er forsætisráðherra og rithöfundur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.