Lesbók Morgunblaðsins - 28.12.2002, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 28.12.2002, Blaðsíða 13
framlengingar af gjörningi, eða negatífar leif- ar af þeim líkömum sem framið höfðu gjörn- ing. Það var eitthvað sjamanískt við þessi vinnubrögð West, enda minntu ófáar Stemm- urnar á frumstæð tæki og tól afrískra seið- karla. Merkilegt verk frá því um 1974, sem hann nefndi „Objektbild“ eða „Hlutmynd“, gefur einnig til kynna skyldleika höggmynda West við gjörninga. Á óreglulega lagaðri tré- plötu, lakkaðri með grængulu lakki, standa brúnlitir gúmmísandalar. Það er engu líkara en eigandi þeirra hafi svifið á braut frá þeim eins og engill. Verkið leiðir hugann að enn einu atriðinu sem hafði djúpstæð áhrif á mót- un West sem listamanns. Það voru kenningar austurríska heimspekingsins Ludwigs Wittg- ensteins, sér í lagi hið fræga æskurit hans „Tractatus Logico-philosophicus“, sem West segist hafa lesið sér til skemmtunar líkt og kúnni á rakarastofu sem drepur tímann með því að glugga í tískurit, eða vikublað með fréttaágripi af lúxuslífi hinna frægu og ríku. Á nótum Wittgenstein, Souzay og Berberian Wittgenstein kom inn hjá honum þeirri hugmynd að listin væri hin praktíska hlið heimspekinnar, þó svo að það gæti með engu móti skilgreint eðli eða hlutverk hennar. West telur að lestur sinn á Wittgenstein hafi með ýmsu móti staðfest þá skoðun hans að listin ætti að vera nærri þægindum á borð við húsgögn og draga dám af innanhússarkitekt- úr. En um sama leyti og Stemmurnar þróuð- ust til æ ákveðnari fullkomnunar urðu einnig til hin sérstæðu málverk West, ef málverk skyldi kalla. Réttara væri að tala um papp- arifrildi með klippimyndum, sem hann tálgaði til með hjálp málningar. West klippti nefni- lega ekki út í eiginlegri merkingu heldur not- aði pensilinn eins og skæri. Á árunum 1971 til 1976 leitaðist hann við að finna litina eftir tónrænu hljóðfalli ljóðasöngva sem þau túlk- uðu Gérard Souzay eða Cathy heitin Berber- ian. Það hefur verið sagt um litameðferð West að hún sé mjög efniskennd. Annaðhvort ríkir litleysa í verkum hans, svo sem krítarhvítur grunntónn Stemmanna, húsgagnanna og skil- rúmanna sem hann hannar til að brjóta upp rýmið eða ramma inn samsetningar sínar, eða litadýrð sem einna helst minnir á tónasam- stæður úr hitabeltinu. Það er eitthvað afar frumlegt – í merkingunni framandi og frum- skógarlegt – við bleika, okkurgula og ólíf- ugræna liti hans. Sjálfur segist hann hafa haft mjög óheppilega reynslu af litum. Hann hafi notað þá samkvæmt tímabundinni smekkvísi sinni en jafnan fyllst örvæntingu þegar hann sá verkin aftur. Þau hafi verið þeim mun skelfilegri sem litaspilið var ákafara. West fannst litleysan því sýnu heppilegri þar eð hægt var að horfa framhjá henni. Sem mynd- höggvari var hann mun öruggari gagnvart forminu, sem honum fannst snöggtum var- anlegra atriði en stundlegur liturinn. Það stafar ekki síst af því að litir, í huga West, vísa ætíð til einhvers annars. Þannig minnist hann þess með sposkum hætti að sem barn hafi hann veitt því athygli að eldri konur gengu gjarnan í bleikum undir- fatnaði og brúnleitum nælonsokk- um. Þessi litasamsetning fór mjög nærri því sem hann notaði sjálfur síðar meir. Óvenjuleg afstaða listamannsins til forms og litar og enn óvenjulegri skýringar á af- stöðu sinni féllu vissulega í grýtta jörð heima fyrir. Enginn er spá- maður í sínu föðurlandi, ekki held- ur Franz West. Á því fékk hann að bragða í byrjun níunda áratug- arins þegar Stemmum hans var dræmlega tekið í Austurríki, en ágætlega á Listmessunni í Basel, árið 1980, þar sem þær voru sýnd- ar í fyrsta sinn á erlendum vett- vangi. Gagnstætt öllum hrakspám seldust nokkrar þeirra. Sá með- byr varð til þess að hinir þekktu sýningarstjórar Kaspar König og Rudolf Zwirner völdu West sem fulltrúa Austurríkis á samtíma- hluta hinnar umtöluðu stórsýning- ar „Westkunst“, í Köln, 1981. Misvinsæll mublusmiður Samlandar hans og kollegar voru ekki kátir, enda var West ekki tekinn alvarlega sem lista- maður heimafyrir. Þeir frystu hann úti í fjölmörg ár, og 1985, þegar galleristinn Peter Pakesch gerði við hann varanlegan samn- ing, var það kallað óðs manns æði í listaheimi Vínarborgar. En hann hélt áfram að vekja hrifningu í ná- grannaríkjunum, þar sem sviss- neski sýningarstjórinn Harald Szeemann valdi hann á sýningar sínar „De Sculptura“, í Vín, 1986, og „Zeitlos“, í Berlín, 1988. Frami West var þó öðru fremur tryggður þegar Þjóðverjinn áðurnefndi, Kaspar König, valdi hann á „Skulptur Projekte“, hinn merka útihögg- myndatíæring í Münster, í Þýskalandi, árið 1987. Þá, í fyrsta sinn, sýndi Franz West hús- gagnasamstæðu á alþjóðlegum vettvangi. Það var merkilega smíðuð, tveggja sæta stóla- samstæða, með einum aukastól, sem höfund- urinn kallaði hinu latneska, skáldlega heiti „Eo ipso“ – Í eigin persónu. Nú er þessi samstæða í eigu Listiðnaðar- safnsins í Vín og ber vott um batnandi árferði fyrir listamanninn í heimalandi sínu. Það hlýtur hins vegar að vera spurning hvort hús- gagnaverk West séu húsgögn í venjulegum skilningi. Þau eru miklu fremur þægileg tæki- færisverk, eða framlengingar af Stemmunum hans. Ef Stemmurnar voru áþreifanlegar myndbirtingar ósýnilegra og innibyrgðra sál- arþrenginga, þá eru húsgagnaverkin nokkurs konar tilbrigði við hinn fræga sálfræðingssófa Sigmunds Freud, til þess gerð að láta okkur líða betur í dagsins önn. Sem dæmi má nefna samstæðuna „Audi- torium“ – Áheyrnarsal – frá 1992, sem lista- maðurinn kom fyrir í porti Gerhard-Haupt- mann-skólans aftan við Fredricianum-höllina í miðborg Kassel, á Documenta 9, árið 1992. Verkið, sem nú er í eigu Kerguéhennec-sam- tímalistasafnsins í Bignan, á Brittaníuskaga í Vestur-Frakklandi, samanstendur af hvorki meira né minna en 72 sófum, yfir tveggja metra löngum, úr járni, svampi og persnesk- um teppum. Með þessu risaverki bauð West sýningargestum ekki aðeins að skoða verkið heldur máta það, hanga og liggja í mjúkum púðum þess og taka þannig lífinu með ró. Var til betri þerapía fyrir sálartetrið? „Gulir eru taumar þínir …“ Róttækasta dæmið um það hvernig Franz West kemur til móts við andlegar líkams- þarfir sýningargesta sinna eru verkin „Etude de couleur“ – Litaæfing – en fyrstu Litaæf- inguna sýndi hann á þaki Villa Arson-safnsins í Nice, í Suður-Frakklandi, árið 1991. Þessi verk samanstanda af löngum palli úr litríkum járnplötum sem leiða áhorfandann að frönsku standsalerni fyrir karlmenn. Gamansemin í verkinu er ekki síst sú að í verkunum síterar West þrjá fræga kollega sína, þá Marcel Du- champ, Ellsworth Kelly og Carl Andre. Að öllu samanlögðu er enginn vafi á að Franz West er meðal óvenjulegustu, marg- brotnustu, en þó einföldustu – hvað varðar efnisval, lit og formmótun – listamanna sem setja mark sitt á samtíðina. Hann staðfestir þá trú manna að lítið þurfi til að búa til splundrandi list, annað en hugvitssemi, djúp- hygli, þekkingu á listhefðinni, en um leið virð- ingarleysi fyrir venjum hennar og höftum. West hefur aldrei látið umhverfið segja sér fyrir verkum og aldrei léð máls á umvönd- unum kollega sinna eða almennings. Ef til vill er það þess vegna sem hann er svo örlátur og óheftur í list sinni að maður finnur sig ánægjulega knúinn til að máta stóla hans, bekki, sófa og Stemmur. Höfundur er lektor við Listaháskóla Íslands. „Étude de couleur“, eða „Litastúdía“, er eitt af nokkrum verkum Franz West, frá 1991, þar sem hann skemmtir sér við að vitna í hina margumtöluðu salernisskál Marcel Duchamp, frá 1917. Auk þess þykjast menn sjá í litfjör- ugum málmhellunum tilvísun í báða bandarísku listamenn- ina Ellsworth Kelly og Carl Andre. Þessi „Litastúdía“ er í Middelheim Útihöggmyndasafninu í Antwerpen. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 28. DESEMBER 2002 13 Hvað er hugmynd? SVAR: Íslenska orðið hugmynd er yfirleitt notað sem þýðing á erlendum orðum sem rekja uppruna sinn til gríska orðsins idea (enska idea, þýska Idee, franska idée). Upp- haflega merkti þetta orð hina sýnilegu hlið hlutar eða persónu, og síðar einnig eiginleika hlutar eða tegund hans. Samkvæmt orðsifja- fræðinni er orðið komið af stofninum id eða wid, eins og latneska sögnin video (=ég sé), sem aftur tengist íslensku sögninni að vita. Hina heimspekilegu merkingu sína fær orð- ið hjá gríska spekingnum Demókrítosi sem var uppi á 4. öld f. Kr. Hann notar það um frumeindir heimsins, þær eindir sem greinast hver frá annarri aðeins hvað varðar lögun, skipulag og staðsetningu, og allt er sett saman úr. Innan heimspeki varð orðið frægast í með- förum Platons, sem notar það sem tækniheiti um hið almenna, eilífa og óbreytanlega sem aðeins skynsemin getur skynjað en allir hlutir líkja eftir, og hefur verið þýtt sem frummynd á íslensku. Dæmi um frummyndir eru hið góða, hestur, rauður. Lengi var deilt um eðli hins almenna: Arist- óteles (384–322 f. Kr.) taldi það ekki hafa sjálf- stæða tilvist eins og lærifaðir hans Platon (427–347 f. Kr.) gerði, heldur taldi hann það búa í hlutunum sjálfum, vera „eðli“ þeirra, og á miðöldum töldu svokallaðir nafnhyggjumenn (nominalistar) að hið eina almenna væru nöfn- in, það eina sem sameini alla hesta sé að við notum orðið hestur um þá. Á nýöld var, einkum fyrir tilstilli Descartes (1596–1650), farið að kalla það ídeu , sem hug- urinn kallar fram er hann flokkar hluti, til dæmis er „ídean“ um hest einhvers konar „mynd“ sem við köllum fram í huganum þegar við hugsum um hest. Þar með hefur „ídean“ færst úr hinum ytri, sjálfstæða heimi Platons yfir í hinn huglæga huga mannsins. Það var þó mjög óljóst hvers konar „mynd“ var um að ræða, hún virðist hafa verið einhvers konar sambland annars vegar af því sem við köllum nú hugtak og hins vegar af mynd sem við get- um myndað í huganum. Um þetta síðarnefnda getum við tekið sem dæmi mann sem er að horfa á hlut og lokar síðan augunum eða hlut- urinn hverfur, þá verður eftir mynd í hug- anum. Réttara væri að kalla slíka mynd hug- armynd en hugmynd, þar sem síðara orðið er yfirleitt notað sem þýðing á ídea. Hugtakið hugmynd varð eftir daga Des- cartes lengi eitt mikilvægasta hugtak heim- spekinnar, og raunhyggja bresku raunspek- inganna var til dæmis að verulegu leyti leitin að uppruna hugmynda, þar sem öll hugsun og andlegt líf var talið felast í einhvers konar meðhöndlun hugmynda. Á 20. öld varð hug- takið merking arftaki ídeunnar, og athygli heimspekinga beindist í æ ríkari mæli að mál- inu og merkingu þess. Erlendur Jónsson, prófessor í heimspeki við HÍ. Í hvaða skáldsögu koma fyrir flest nöfn á ám eða fljótum? SVAR: Það er óhætt að fullyrða að flest nöfn á ám eða fljótum komi fyrir í skáldsögu James Joyce Finnegans Wake. Gagnrýnendur telja að í fjórða og síðasta hluta bókarinnar, svo- nefndum Anna Livia Plurabelle-kafla, séu á bilinu 800 til 1.100 heiti á ám. Nákvæmasta talningin hljóðar upp á 1.036 fljótanöfn, ef mis- munandi heiti yfir sömu á eru talin sem eitt og endurtekningum er sleppt. Margir Joyce-fræðingar halda því fram að verk Shakespeares séu rauði þráðurinn í Finn- egans Wake. Alls er að finna um 300 vísanir til Shakespeares og verka hans í þessu 628 blað- síðna verki sem Joyce vann að í 17 ár og kom út árið 1939. Höfundarverk Shakespeares er þessi vegna mikilvægur undirtexti í verki Joyce. Bandaríkjamaðurinn Robert H. Boyle er þó á öðru máli. Hann heldur því fram að vísanir í verk enska skáldsins gegni litlu hlutverki í þessari einkennilegu sögu James Joyce. Boyle bendir á að fjöldi vísana til vatna, fljóta og fiska yfirgnæfi algjörlega vísanir í verk Shake- speares. Fyrir utan rúmlega 1.000 nöfn á ám segist Boyle hafa fundið um 1.200 aðrar vís- anir til fiska og vatna í verkinu. Hlutur Shakespeares í Finnegans Wake er þess vegna rýr miðað við veröld fiskanna. Boyle hefur reiknað það út að meðaltali sé 0,48 vísun á hverri síðu Finnegans Wake í verk Shakespeares en hvorki meira né minna en þrjár og hálf vísun á síðu til vatna, fljóta og fiska. Að auki bendir Boyle á það að orðið ‘fin’ sem merkir uggi komi fyrir alls 25 sinnum í bókinni, fyrir utan öll skiptin sem það birtist í orðinu Finnegan. Boyle fullyrðir þess vegna að verk Shakespeares séu alls ekki rauði þráð- urinn í texta Joyce heldur beri að líta á Finn- egans Wake sem hina merkustu bók um stang- veiði, nánar tiltekið með flugustöng! Upptalningar af ýmsu tagi eru alls ekki óþekktar í skáldskap. Í Ilíonskviðu gríska skáldsins Hómers er svonefnt „Skipatal“ meg- inuppistaða annars þáttar kviðunnar. Þar er löng og nákvæm skrá yfir þátttakendur í her- ferðinni til Tróju og tölu skipa þeirra. Upp- talningin minnir nokkuð á ættartölur í upphafi margra Íslendingasagna. Ýmsir telja að „Skipatalið“ í Ilíonskviðu sé forn og frum- stæður skáldskapur, eldri en kviðan sjálf. Í sögunni Gargantúi og Pantagrúll eftir Franço- is Rabelais (1484–1553) er annar kunnur upp- talningakafli í bókmenntasögunni. Þar eru í einni bendu talin upp nöfn á 217 leikjum. Nöfn á ám og fljótum í Finnegans Wake fylgja þess- ari hefð, en þó er sá munur á að Joyce spinnur nöfnin inn í textann í stað þess að telja þau upp í einni bunu. Finnegans Wake er ekki auðveldur texti í lestri. Samtök í New York sem kenna sig við bókina birta á heimasíðu sinni lista um fjölda hjálpartexta sem auðvelda mönnum að lesa bókina. Gagnrýnendur sem hafa reynt að draga saman efni bókarinnar í nokkrum orð- um telja að henni sé best lýst á þann hátt að hún sé skráning á draumkenndum hugsunum manns sem gengur undir nafninu Humphrey Chimpden Earwicker. Sumir gagnrýnendur telja þó að aðalpersónan heiti líklega Porter. Ein útskýring á fjölda fljótanafna í Finneg- ans Wake felst í þeim orðum skáldsins sjálfs að einhvern tíma myndi drengur eða lítil stúlka í Tíbet eða Sómalíu, sem læsu bókina, gleðjast innilega þegar þau sæju þar nafnið á ánni sem rennur fyrir neðan litla þorpið þeirra. Jón Gunnar Þorsteinsson, bókmenntafræðingur. HVAÐ ER HUGMYND? Á Vísindavefnum hefur almenningur fengið svör við tæplega eitt þúsund spurningum á þessu ári. Á meðal spurninga sem hefur verið svarað að undanförnu má nefna: Gefa gíraffar frá sér einhver hljóð, hvernig nær maður tveimur bjórglös- um í sundur og hvað eru ógöngurök? VÍSINDI Rene Descartes

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.