Morgunblaðið - 07.08.2005, Blaðsíða 36

Morgunblaðið - 07.08.2005, Blaðsíða 36
36 SUNNUDAGUR 7. ÁGÚST 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR Eitt sinn heyrði ég söguum lítinn dreng semundraðist það hvað allirí Biblíunni voru klárirog hann ætlaði sko að verða eins og þær kempur er hann yrði stór. Að vísu hafði guttinn misskilið dálítið orð prestsins, en sá hafði verið að lesa upphafsorð Nýja testamentisins, í Matteus- arguðspjalli, þar sem er ritað: „Ættartala Jesú Krists, sonar Davíðs, sonar Abrahams. Abra- ham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júda og bræður hans.“ O.s.frv. Já, þeir gátu mikið þarna í fyrndinni. Ekki veit ég hvort snáðinn varð fráhverfur heilagri ritningu þegar hann komst að hinu sanna, von- andi ekki, því auðvitað úir og grúir af alls kyns hetjum í þeirri góðu bók, eins og t.a.m. Davíð konungi, sem ungur að árum atti kappi við risann Golíat og hafði betur, og Salómon konungi, þeim vísa manni, og Samsoni hinum ramma, sem enginn réði við. Hitt er deginum ljósara að Bibl- ían snýst að miklu leyti um það sem áðurnefnt guðspjall hefst á; varla er svo blaðsíðu flett, að ekki beri þetta á góma. Má t.d. minna á jólaguðspjallið, þar sem greint er frá Jósef sem hélt „frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs“. Þetta skipti öllu máli. Og sjálf Ísraelsþjóðin er sam- sett úr 12 ættkvíslum, heitandi eftir sonum Jakobs, sonarsyni Abrahams, en þær eru: Asser, Benjamín, Dan, Efraím, Gað, Ís- sakar, Júda, Leví, Manasse, Naf- talí, Rúben, Sabúlon og Símeon. Og svo hefur þetta áhrif á allt síð- ar. Talan 12 verður t.a.m. ein sú mikilvægasta í sögu þessa fólks, og það er ástæðan fyrir því, að Jesús valdi 12 postula; þeir áttu að vera fulltrúar hins nýja Ísraels- lýðs. Ekki þarf að fjölyrða hér um áhuga Íslendinga á þessu efni, ættfræðinni. En hitt er þó að ein- hverju leyti nýtt, vil ég meina, að fólk komi saman reglulega, jafnvel á hverju ári, til að minnast for- feðra sinna og -mæðra. Ástæðan fyrir þessum mikla áhuga á slíkum ættarmótum er vafalaust að ein- hverju leyti breytt heimsmynd, með aukinni nálægð við framandi lönd og þjóðir, í bland við enn meiri hraða og öldurót en tíðkaðist lengstum. Það er sannarlega gam- an að ferðast og skoða veröldina, en jafn nauðsynlegt að vita hvaðan maður kemur, þekkja uppruna- staðinn. Páll Skúlason háskólarektor komst svo að orði í ræða við braut- skráningu 7. febrúar 1998: Rótleysi er mesti ógnvaldur samtímans. Það ógnar fjölskyldum og ein- staklingum, ríki og sveitarfélögum, það ógnar sjálfum tilgangi lífsins. Þetta eru forn sannindi og ný: Líf okkar glatar merkingu sinni ef okkur tekst ekki að finna samastað í tilverunni, finna að við eigum heima í samfélagi sem við eigum öll þátt í að gera byggilegra fyrir börn okkar og komandi kynslóðir. Í slíku samfélagi ríkir sátt um grundvallargildi og þar er samstaða um að berjast fyrir því sem gerir mannlífið betra og þrosk- ar mannfólkið. Þetta er af sama meiði. Við sem byggjum þessa eyju, tæplega 300 þúsund einstaklingar, eigum líffræðilegar rætur í allar áttir – austur, vestur, norður og suður – en líka upp, og það má aldrei gleymast í annríki fyrr- nefndrar leitar, eins góð og hún nú samt er. Því „föðurland vort er á himni og frá himni væntum vér frelsarans, Drottins Jesú Krists,“ segir í Bréfi Páls til Filippímanna, 3. kafla, versi 20. Og við hin kristnu eigum í raun hvarvetna að tala og ganga fram í líkingu við og með djörfung Jónasar spámanns, er lenti í hvalsmaganum og var bjargað að þremur dögum liðnum, en skipverjar höfðu í upphafi ferð- ar, áður en það gerðist, sagt við hann: „Seg oss, hver er atvinna þín og hvaðan kemur þú? Hvert er föðurland þitt og hverrar þjóðar ertu?“ En hann sagði við þá: „Ég er Hebrei og dýrka Drottin, Guð himinsins, þann er gjört hefir haf- ið og þurrlendið.“ Þarna fer hvort tveggja saman, ekkert er honum eðlilegra, enda er mannskepnan ekki bara hold; sálin er þar líka, hinn andlegi lík- ami. Eins og tréð, sem rótfast er í moldinni og fær þaðan næringu, teygir jafnframt lim sitt og faðm mót himninum. Þess vegna ætti eiginlega að fylgja spurningunni „Hver er ég?“ önnur svipuð, ef allt er með felldu, eða nákvæmlega þessi: „Hvert fer ég?“ Því svarið við hinni fyrri mun alltaf verða dálítið klént, ef hið síð- ara er ekki tekið með í reikning- inn. Eða með orðum Matthíasar Jochumssonar: Höndin, sem þig hingað leiddi, himins til þig aftur ber. Og líf og dauði, upphaf og endir jarðneskrar tilveru, er helgað og byggt á þeirri vissu sem hvorki fölnar né bregst. Því Jesús Krist- ur er upprisinn og lifir. Rætur sigurdur.aegisson@kirkjan.is Ættin og kynið voru mikilvæg í augum Forn-Hebrea, eins og langflestra ef ekki allra þjóða. Það var grund- vallaratriði að vita upphaf sitt. Sigurður Ægisson veltir þeim hlutum fyrir sér í pistli dagsins, vegna sí- aukins áhuga manna á að rækta frændgarð sinn. HUGVEKJA ✝ Gísli Þorkelssonfæddist í Kópa- vogi 24. mars 1951. Hann lést í Suður- Afríku 25. maí síð- astliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Þorkell J. Sigurðs- son, f. í Ólafsvík 18. september 1908, d. 8. febrúar 2005 og Kristín G. Kristjáns- dóttir, f. í Eyrar- sveit 11. október 1908, d. 5. desember 1993. Systkini Gísla eru: Ingibjörg, f. 1937, Sigurður E., f. 1940, Guðríður, f. 1946 og Þorkatla, f. 1949. Sonur Gísla og Þuríðar Freys- dóttur, f. 1951, er Ágúst Örn, f. 30. september 1976. Gísli ólst upp í Kópavogi. Hann tók gagnfræðapróf frá Héraðs- skólanum í Reyk- holti og var eitt ár í Lýðháskóla í Dan- mörku. Hann sat Samvinnuskólann að Bifröst 1972-74, og framhaldsdeild SVS í Reykjavík, 3. bekk, 1975-76. Gísli starfaði víða, m.a. við skrifstofustörf, verkamannavinnu, sjómennsku og á ol- íuborpöllum í norð- urhöfum. Árin 1978- 81 var hann í sunn- anverðri Afríku við margvísleg störf. Gísli átti og rak fyrirtækið Brauðbúrið. Árið 1994 flutti hann til Suður-Afríku. Í Afríku starfaði hann við ýmis viðskipti, aðallega fasteignaviðskipti. Útför Gísla var gerð frá Frí- kirkjunni í Hafnarfirði 28. júlí. Sjá! Það er nótt und haustsins dauða himni. Þú hlustar einn við þúsund luktar dyr á skóhljóð þitt, sem hrapar út í húmsins hráköldu þögn og enginn framar spyr. Við fætur þína ólgar eilífð djúpsins ögrandi, blind, og hrunin sérhver brú. Sjá! Þú ert einn og allt er löngu dáið, og yfir líki heimsins vakir þú. (Steinn Steinarr.) Þegar ég var lítill hnoðri norður á Húsavík var pabbi kominn hinum megin á hnöttinn, suður til Afríku. Fjarlægur faðir sem eflaust hefur vakað yfir velferð minni. Á þessum árum voru annað slagið myndir í sjónvarpinu af einhverri óöld og styrjöldum í Afríku, að ógleymdum þáttunum um sjálfan Kunta Kinte. Ég man ég fylgdist með af athygli – ef ske kynni að pabba skyldi bregða fyrir á skjánum. Allavega. Þarna bjó pabbi. Árið 1981 var pabbi kominn heim eftir viðburðarík ár í Afríku. Ætl- unin var að stoppa stutt, heimsækja ættingja og vini og fara strax út aft- ur. Það sem átti að vera stutt stopp á Íslandi varð að rúmum áratug en hálfur hugurinn var alltaf í svörtu heimsálfunni. Núna kynntist ég fyrst þessum goðsagnakennda manni. Pabbi kom norður að heim- sækja mig, stundum með fríðu föru- neyti, og ég fór til hans í Reykjavík. Ég kynntist föðurfólkinu mínu og naut ástúðar afa og ömmu, sem var mér mikils virði. Eftir því sem ég varð eldri styrktist okkar samband. Nú gat ég hlustað og meðtekið boð- skap pabba um lífið og tilveruna. Um það leyti sem pabbi fór aftur út, þegar ég var 18 ára, og við gátum skipst á heimspekilegum vangavelt- um yfir bjórkönnu á barnum var okkar samband orðið stórfínt. Pabbi fór til Jóhannesarborgar í Suður-Afríku árið 1994. „Eftir að Mandela komst til valda,“ sagði hann stundum, rétt eins og það hefði sérstaklega knúið hann aftur til baka. Núna streymdu svartir úr strákofunum, úr sveitunum og úr nágrannalöndunum til borgarinnar. Svona venjulegir hvítir fóru aftur til Hollands, Þýskalands, Bretlands o.s.frv. eða fluttu í úthverfin með gaddavírs- og rafmagnsgirðingum og klikkuðum hundum. Ergo: „Best að drífa sig aftur til Suður-Afríku.“ Svo mótsagnakennt að það hlýtur að vera algjör snilld. Stjórnleysi, brjálæði, upplausn. Hér var stað- urinn. Dæmigerður pabbi. Árið 1997 fórum við afi að heim- sækja pabba í Suður-Afríku. Þrjár kynslóðir í beinan karllegg. Þrír sannkallaðir Bakkabræður í landi blámanna. Afi svona fjörgamall og fínn, í skyrtunni með bindið og hatt- inn og pabbi frjálslegur í fasi að vanda, með síðu gráu hárlokkana og í hlýrabolnum. Og ég gat ekki ann- að en virt þessa töffara fyrir mér í hrifningu og undrun. Það var mjög hlýtt á milli þeirra. Afi ennþá að leggja syni sínum lífsreglurnar og pabbi þvældist með gamla manninn um alla borg, í hverfi sem enginn hvítur maður lét sjá sig, nema kannski íslenskir túristar. So’sweat-o. Afi skemmti sér kon- unglega enda aldrei of gamall fyrir smá ævintýri. Afi fór svo heim og ég varð eftir úti. Nú tóku við svaka- legir tímar með þessum skemmti- lega leiðsögumanni. „Við gengum saman marga villigötu fram á nótt,“ svo vitnað sé til heimsbók- menntanna. Pabbi þekkti sögu gleymdu heimsálfunnar út og inn og flutti marga, góða fyrirlestra. Ann- að slagið þurftum við að ganga frá ýmsum pappírum. Þá keyrðum við alltaf til Boksburg (við bjuggum í Observatory á þeim tíma) til að fá úrlausn mála. Þegar aðskilnaðar- stefnan var afnumin með landslög- um ákváðu hinir últra-hægrisinnuðu Búar í Boksburg á hreppsfundi að aðskilnaðarstefnan væri ennþá ríkjandi þar. Eftir smástapp urðu þeir að beygja sig en hugsunarhátt- urinn hafði ekki mikið breyst. Þetta dæmi með pappírana var algjör hystería. Pabbi leysti sín mál loks ansi snaggaralega. Þá datt eftirlits- manninum í hug að kíkja í vega- bréfið mitt. Þegar hér var komið sögu hafði ég fengið alveg minn skammt af brjálæði og ævintýrum. Það varð því að samkomulagi að ég færi aftur heim. Enda mjög á huldu hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur í Afríku, með útrunnið túr- ista-vegabréf, annað en að snúast eins og skoppararkringla í kringum ævintýramanninn mikla. Í Afríku átti ég frábæra tíma með þessum ótrúlega skemmtilega manni. Pabbi var sjálfhverfur, sjálf- stæður í hugsun, dínamískur og hafði marga fleiri kosti. Fyrir mig, sem þekkti bara siðmenninguna heima á Íslandi og hafði auk þess vanist venjulegu fjölskyldulífi við móðurkné, var þetta nokkuð fram- andi reynsla. Ég var alltaf staðráð- inn í því að fara út til hans aftur. Það atvikaðist hins vegar svo að ég átti ekki eftir að hitta pabba aftur í Afríku. En þessi snilld gleymist aldrei. Í Jóhannesarborg fékkst pabbi við fasteignaviðskipti, keypti íbúðir, gerði upp og seldi. Þegar ég var í Afríku var pabbi líka farinn að líta til norðurs. Hann vissi frá fornu fari að það var hægt að bralla sitt- hvað í löndunum upp af Suður-Afr- íku. Mér er ljóst að ég þekki ekki helminginn af því sem hann tók sér fyrir hendur þar. Það var erfitt að tosa þetta upp úr honum eða þá að ég fékk svona faðir-til-sonar-van- illu-útgáfu af atburðum. Á tímabili var hann að flytja inn kaffibaunir sem hann keypti af bændum í Zimbabwe og fullvann í Jóhannesarborg. Ég man að í eitt sinn þegar pabbi kom til Íslands var kaffi mál málanna. Langar ræð- ur um kaffi. Zimbabwe var Farma- geddon: Staðurinn þar sem stóð hin mikla úrslitaorrusta milli góðs og ills, svartra frumbyggja og hvítra bænda. Ég veit að pabbi varð einu sinni fyrir alvarlegri árás þar. Eitthvert brjálæði, sem ég þekki ekki, varð til þess að hann tók sér hlé frá kaffi- bransanum. Næst vissum við af honum í Ang- óla og Sambíu við ys og bis. Kenndi þar ýmissa grasa og víða leitað fanga, eins og ég átti síðar eftir að vita. Á þessu tímabili kom fyrir að ekkert heyrðist í pabba í lengri tíma. Eitt sinn gróf ég upp síma- númer hjá gömlum félaga í Suður- Afríku og bað hann um að athuga með hann í íbúðinni í Boksburg, þar sem síðast hafði spurst til hans. Pabbi var ekki á svæðinu og ná- grannar sögðu að ekkert hefði sést til hans í nokkra mánuði. Allt í einu gerðist það svo að einhver í fjöl- skyldunni fékk símtal eða kort. Ótrúlegustu menn í Afríku voru orðnir fjölskylduvinir og sérlegir upplýsingafulltrúar. Það var eftir- minnilegt þegar pabbi kom síðast til Íslands árið 2000. Þá birtist hann í flugstöðinni, nýkominn úr frum- skógum Afríku, allvígalegur að vanda og ég sá að það vantaði í hann augntönn. Mr. Thorkelsson, I suppose! Hvað varð um tönnina? „Sko, tönn- in brotnaði, og ég fékk mér gervi- tönn, sem ég geymdi í hanskahólf- inu á jeppanum og notaði bara þegar ég fór inn á opinberar stofn- anir og svona. Svo vorum við þarna í þorpinu og MPLA réðst skyndi- lega á okkur og sprengdi jeppann. Og við urðum bara að hlaupa.“ Ah. Ég skil, papa. Síðasta skiptið sem við hittumst var í Bandaríkjunum. Yndislegir tímar. Margar góðar stundir á sól- pallinum hjá Kötlu. Við höfðum eins og venjulega um margt að tala. Hann hafði frá mörgu áhugaverðu að segja, eins og títt er um menn sem eru að gera óvenjulega hluti á óvenjulegum stöðum. Þekking hans á málefnum Afríku var mikil, enda fréttir þaðan að jafnaði mjög yf- irborðskenndar eða tómt rugl. Pabbi hafði lítinn áhuga á að tala um sjálfan sig og sitt vafstur, held- ur hugsaði hann í stórum almennum hugtökum og var að bræða með sér allsherjarkenningu um gleymdu heimsálfuna í bland við ýmislegt sem hann ætlaði að taka sér fyrir hendur í framtíðinni. Svakalegar pælingar. Og ég var litli strákurinn, lærisveinninn, sem nam sannindin af vörum spámannsins mikla. Við nutum lífsins saman og flökkuðum um austurströndina. Minnismerki Lincolns í Washington. Strawberry Field í Central Park. Málverk Paul Gauguin í Metropolitan-listasafninu. Það var greinilegt að tíu ár í Afríku, þessi hasar og streita, höfðu sett sitt mark á hann. Hann lifði hröðu og hættulegu lífi. Hann hafði marg- oft verið rændur, oft ráðist á hann, nokkrir kunningjar hans verið myrtir og góður vinur hans horfið sporlaust einn daginn. Pabbi hefði aldrei getað ímyndað sér að hann myndi deyja á svona óskáldlegan hátt. Elsku pabbi. Minning þín er ljós í mínu lífi. Ágúst Örn Gíslason. Elsku bróðir. Ég á erfitt með að trúa því að þú sért farinn frá okkur, sérstaklega þar sem við áttum svo yndislegan tíma saman í vor. Þegar við kvödd- unst hinn 24. maí, áður en þú hélst heim til Suður-Afríku, töluðum við um að hafa oftar samband hvort viðannað. Þú hafðir þá verið hjá mér í yfir mánaðartíma, ásamt Ágústi syni þínum. Ég er þakklát fyrir hinar góðu stundir sem við átt- um saman. Við töluðum um gömlu dagana þegar við vorum að alast upp. Við hlógum saman að því að þegar við vorum í afmælisboðum hjá frændsystkinum okkar eða vina- fólki, þá gleymdir þú oft að þakka fyrir þig. Við minntumst þess að ég var vön að „þakka fyrir mig og strákinn hann Gísla“. Þú varst litli bróðir minn, rétt einu og hálfu ári yngri en ég, svo að ég var alltaf að gæta þín. Við vorum afar náin hvort öðru. Jafnvel í gegnum árin, eftir að ég fluttist utan, héldum við alltaf sambandinu. Þú ferðaðist víða um heiminn, en virtist vera sérstaklega hrifinn af Afríku, sem var ástæðan til þess að þú ákvaðst að setjast að í Jóhannesborg fyrir um tíu árum. GÍSLI ÞORKELSSON
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.