Fréttablaðið - 10.10.2007, Blaðsíða 16

Fréttablaðið - 10.10.2007, Blaðsíða 16
greinar@frettabladid.is Sjálfstæðismenn í borgarstjórn staðhæfa að réttast sé að selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavík Energy Invest sem allra fyrst. Það er bráðræði. Þeir hlaupa að þeirri ákvörðun sökum þess að öll tildrög þessa vandræða- máls eru á þeirra borðum og embættismanna sem þeir hafa borið óskorað traust til um árabil. Orkuveitan lagði í stofnun fyrirtækja til útrásar í orkuiðnaði. Það var fagnaðarefni á sínum tíma og gert með allra samþykki. Menn voru með opin augun og öruggir í fyrirætlunum, þótt það væri í blóra við stefnu Sjálfstæðisflokksins um þátttöku opin- berra aðila í samkeppnisrekstri. Menn á öllum bæjarhólum stjórn- málanna sáu tækifæri til sóknar fyrir íslenskt fjármagn, íslenska þekkingu og íslenska starfskrafta sem ekki var fyrir. Leggjum til hliðar þau vanheilindi, sem við kjósum að kalla hugsunarleysi, að á skömmum tíma fóru fram samningar sem ekki voru með fullri vitund allra fulltrúa í borgarstjórn eða öðrum sveitarstjórnum sem að málinu bar að koma. Hvort sem um var að kenna stærilæti embættismanna eða ónákvæmni í samskiptum forkólfa flokka í meirihluta borgarstjórnar og víðar. Bensínstífl- ur í þeirri tvígengisvél sem virðist nú hafa keyrt borgarstjórnina frá upphafi verður að blása út. Reykvíkingar kusu ekki tvímenn- isstjórn – síður en svo. Í borgarstjórnarmeirihlutanum er gagn- heilt traust fyrir bí hvað sem menn sverja: Fálætið stafar þar af hverju fési. Víst gátu menn fagnað sameiningu útrásarfyrirtækja á þessum markaði. Það sljákkar í öllum fögnuðurinn ef sú sameining var í raun til innrásar í sameiginlegar eignir landsmanna eins og for- kaupsréttarsamningur á hlut í Hitaveitu Suðurnesja ber óneitan- lega með sér. Á sveitarstjórnum bylur brátt sú krafa að það gerist ekki. Almenningur vill ekki einkavæðingu orkufyrirtækja. Atburðir síðustu daga hafa um margt verið grátbroslegir. Yfir- breiðslu er svipt af bitlingum kosningasmala úr prófkjörum; skjólstæðingar og fjármagnsvinir standa berstrípaðir á nöprum opinberum vettvangi. Hulan er ekki lengur á ofsavon manna í gróða. REI fékk í vöggugjöf glæstar vonir sem breyttust á sólar- hringum í vansæmd. Grátbroslegt er að horfa upp á góða drengi reyna að hreinsa af sér slyðruna. Ekki er hægt að kenna málið við græsku. Þá væri það betur undirbúið og unnið af slægð en ekki klaufagangi. Komin er fram tillaga um að borgarstjórn láti taka saman á hvíta bók öll gögn málsins til að hreinsa andrúmsloftið. Hvít bók er ekki plagg sem dugar til að hreinsa þetta mál. Þess háttar rit eru enda réttlæting á tilteknum framgangi – skrum fyrir almenn- ing. Sú krafa er tekin að hljóma að valdamenn skuli víkja – en til þess hafa flokkarnir ekki pólitískan styrk og næstráðendur virð- ist skorta bæði þor og metnað til að hrinda Birni og Vilhjálmi úr stólum. Fróðlegt verður að sjá hvernig forstöðumenn Reykjavík Energy Invest spila úr þessari gjöf: nú er hollast að hafa skýra og afdrátt- arlausa stefnu. Þeir eiga að láta af forkaupsrétti, stilla kauprétt- arkröfum í hóf og byrja á sjálfum sér. Þeir eiga að láta innlönd vera og einbeita sér að útlöndum. Annars festast þeir á blöð sög- unnar sem græðgisgrísir eins og feitar flugur á límspjaldi. Flónaveður Samfylkingin ræðir í kvöld á opnum fundi orkumálin, enda sýna atburðir síðustu mánaða að boðskapur okkar jafnaðarmanna um opinbera eign veitukerfa og almanna- eign auðlinda var framsýnn og er réttur. Hættuástand hefur nú skapast þegar borg- arstjórnarmeirihlutinn reynir í örvæntingu að klóra yfir klúður sitt í Reykjavík Energy Invest með því að efna til hraðsölu á hlut almennings í fyrirtækinu. Þó rétt sé að selja hlutinn og hætta að koma óorði á útrásina er ekki sama hvernig og hvenær. Í fyrsta lagi er fráleitt að selja einkaaðilum meira en orðið er fyrr en Alþingi hefur afgreitt lög sem tryggja almannahagsmuni varðandi veitustarfsemi og eign- arhald orkuauðlinda en þess er að vænta í vetur. Í öðru lagi er rangt að veita litlum hópi fjárfesta for- kaupsrétt að þekkingu OR og viðskiptatækifærum erlendis. Í þriðja lagi er hætt við að í hraðsölu fái almenningur ekki sannvirði fyrir eignir sínar eins og varð við sölu bankanna, enda ekkert óháð verð- mat farið fram. Ef sátt á að takast um málið er nauðsyn- legt að bíða lagasetningar og þess að for- kaupsréttur falli úr gildi. Þegar því er náð þarf svo að tryggja aðkomu eigendanna, almennings, að sölunni. Það mætti gera með því að tryggja forkaupsrétt almenn- ings. Eða einfaldlega með því að senda íbúum Reykjavíkur, Akraness og Borgar- byggðar sín hlutabréf sem fólk getur þá sjálft selt eða haldið. Eða efna mætti til atkvæðagreiðslu meðfram kosningum um ráðstöfun sölutekna til góðra verkefna. Með svipuðum hætti mætti einnig fara með Gagnaveituna, ef vilji er til að selja hana. Það hefur verið eftirtektarvert að í umróti síð- ustu daga hefur það verið minnihlutinn í borgar- stjórn sem haldið hefur ró sinni, meðan meirihlut- inn hefur hoppað um af hræðslu við eigin mistök. Vonandi tekst minnihlutanum með festu sinni að varna því að meirihlutinn fórni frekar en orðið er almannahagsmunum í angist sinni og innbyrðis átökum. Höfundur er alþingismaður Samfylkingar og fv. forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Hraðsala á almannaeign Ég var á ferð í neðanjarðarlest nokkuð seint um kvöld á leið þvert í gegnum París. Á einni stöðinni vatt ungur maður sér inn í vagninn og slettist niður í sæti. Ég fann að það tók að fara um ýmsa og fáeinar stúlkur skiptu um sæti. Innan skamms heyrði ég af tali fólks hvað var á seyði: maðurinn var í þess konar vímu að menn urðu smeykir. Mér varð hugsað til þess að þarna hafa mikil umskipti orðið. Þegar ég kom fyrst til Parísar sögðu mér Íslendingar sem þar voru fyrir, og ég sannreyndi það fljótlega sjálfur, að í borginni sæjust menn aldrei ofurölvi, sem svo væri kallað á Íslandi. Þetta var nýtt fyrir mann sem var kominn frá Reykjavík og ýmsu vanur á götum borgarinnar, þar sem stórhertogar og erkijarlar Bakkusar konungs sýndu gjarnan ægiveldi sitt þegar líða tók á vikuna. Á götum Parísar voru drukknir menn stöku sinnum á ferli, en þeir létu þá aldrei neitt á því bera, voru í háttum eins og hverjir aðrir, og enginn tók eftir þeim. Það var einna helst, að menn sem væru nokkuð við skál yrðu hæglátari og virðulegri en ella. Því var aldrei neitt að óttast, og hvergi neitt ónæði. Svo voru það að sjálfsögðu flækingarnir, sem sátu kannske á torgum og supu kannske ódýrt rauðvín af stút. En þeir voru ekki útigangsmenn af því að þeir drykkju rauðvín, heldur hölluðu þeir sér að flöskunni af því að þeir voru útigangsmenn og höfðu þess vegna fátt annað fyrir stafni. Kunningi minn sem var öllum hnútum kunnugur taldi að margir þeirra væru menn sem hefðu misst allt í stríðinu og ekki haft kjark til að byrja upp á nýtt. Þessir menn voru hluti af lands- lagi Parísar, þeir voru yfirleitt kyrrlátir, og menn gáfu þeim aura. Einn sólríkan sunnudagsmorgun fyrir löngu sá ég tvo skælbrosandi útigangsmenn sem gengu eftir götu og leiddust, annar þeirra var klæddur í slitnar kvenmannsflíkur og hélt á blómum, þeir ýttu á undan sér barnakerru en í henni lá þriðji útigangsmaðurinn og reyndi að koma sér þar fyrir sem best hann gat, veifandi hálftómri rauðvínsflösku með hlátrum og hjali. Þetta var sem sé „sunnu- dagsgönguferðin“, mjög í anda þeirra lýsingar sem Hans Scherfig gaf á hinni eilífu Parísarborg í skáldsögunni „Den døde Mand“. En á þessum tíma var þetta hámark drykkjuláta á Signubökk- um, eða því sem næst. Þannig voru þá skilin milli Norður- og Suður-Evrópu, og hefði kannske einhver fræðimaður getað merkt þau á korti með línu, einhvers konar ölæðismörkum: þegar komið var suður fyrir hana voru menn staddir í öðrum heimi. En þegar árin liðu tók andinn í París að breytast, hin litríka lýsing Hans Scherfigs varð smám saman sögulegt plagg. Stundum fannst mér eins og Frakkland væri fleki á hægri norðurleið, ég varð að fara til Ítalíu til að finna sama anda og ég fann í París í fyrstu. Þessi breyting fannst mér vera bæði til ills og góðs, sumt gerði lífið auðveldara, að öðru var nokkur eftirsjá. Allt var þó í sómanum. Svo urðu skyndilega þáttaskil; á götum borgarinnar, og þó kannske einkum í ýmsum samgöngutækj- um, fóru að birtast menn sem höfðu ekki áður sést. Þeir voru ekki slagandi og litu ekki alltaf illa út, en þeir voru stjarfir, með ruglaða andlitsdrætti og galtóm augu, greinilega úr öllum tengsl- um við veruleikann. Oft óðu þeir beint fram, ruddu öðrum hrana- lega til hliðar og létu kannske nokkur þvogluleg ókvæðisorð fylgja með í kaupbæti. Þarna lá einhver víma í loftinu, og mönnum stóð ógn af þessu nýmæli. Það var kannske vörn að geta nefnt fyrirbærið: í umferð komust nú alls kyns orð sem annað hvort voru nýyrði, eða höfðu a.m.k. farið lágt til þessa, og lýstu ýmsum stigum þessara ferðalaga út úr raunveruleikanum. En þróunin hélt enn áfram: í kjölfar þessa komu fram á sjónarsviðið hirðmenn Bakkusar konungs nýslegnir til riddara, það voru unglingar sem höfðu uppgötvað gósenland bjórsins eftir einhverj- ar krókaleiðir yfir í eiturlyf, þeir fóru um í stórum hópum með miklum skarkala. Þá var mynd- breytingin orðin alger. Kunnugir segja mér, að þannig sé staðan nú í stórborgum um víða veröld, jafnt í suðri sem norðri og lítill munur. Kannske má einmitt segja, að þetta sé angi út úr hinni rómuðu alþjóðavæðingu. Sunnudagsgönguferðin Þannig voru þá skilin milli Norður- og Suður-Evrópu, og hefði kannske einhver fræði- maður getað merkt þau á korti með línu, einhvers konar ölæðismörkum: þegar komið var suður fyrir hana voru menn staddir í öðrum heimi. En þegar árin liðu tók andinn í París að breytast.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.