Tíminn - 03.06.1987, Blaðsíða 7

Tíminn - 03.06.1987, Blaðsíða 7
Miövikudagur 3. júní 1987 Tíminn 7 Frumbýlingshættinum lokið Og útrásina fékk hún um síðir, og kannski mætti halda hér áfram og leggja út af því að Guðrún frá Lundi var íslensk sveitakona, hafði alist upp og unnið ævistarf sitt á þeim merka tíma í landssögunni þegar allt í einu var lokið þúsund ára frumbýlingshætti í atvinnulífi þjóðar hennar og vélaöldin gekk þar í garð. Á þeim tímamótum kom hún til sögunnar í bókstaflegri merkingu, hóf að skrifa og bókfesti í verkum sínum þann tíma og það umhverfi sem hún sjálf þekkti best; skiljanlega voru það því sveitasögur sem hún bjó til þarna. Sumir hafa viljað tala um sögur hennar sem skemmtisögur; að mín- um dómi er það einföldun og brýtur þessi verk alls ekki til mergjar. Að ekki sé talað um þá hnyttnu nafngift sem slíkar sögur gengu undir um tíma, „kerlinga- bækur“, og voru víst fullsæmdar af. Þar er þó að því að gæta að slík nafngift er kannski alls ekki út í loftið. Sögur Guðrúnar frá Lundi eru skrifaðar af konu, byggðar á kvenlegri lífsreynslu og líta á lífið út frá sjónarhóli kvenna. En þetta eru vissulega skemmti- sögur að því leyti að þær hafa í sér og af sér sjálfum mikið skemmtun- argildi. Þær geta gefið lesendum allmikla ánægju og bara töluvert mikla dægrastyttingu. En að því er að gæta að slíkt gera þær sem oft eru nefndar vandaðar og kröfu- harðar skáldsögur einnig. Oft er það þannig að hægt er að hlæja sig máttlausan yfir ýmsum af meistar- averkum heimsbókmenntanna. Þar fer því víðs fjarri að allt sé einn saman grátur og sorg. Kannski eru menn þó komnir dálítið nær kjarna málsins ef þeir tala um slt'kar bækur sem „þjóðleg- ar skemmtisögur", aðeins ef þess er gætt að láta ekki neinn niðrandi tón fylgja með. Eins og ég gat um er þjóðfélagsumhverfið, sem mest ber á í bókum Guðrúnar frá Lundi, íslenskar sveitir frá áratugunum í kringum aldamótin. Þar er að því að gæta að þetta þjóðfélagsum- hverfi, sem hún lýsir t.d. vel í Dalalífi, er horfið núna. Það heyrir til liðnum tíma. Menn á kafi í stílnum Þess vegna er það að í bókum Guðrúnar frá Lundi er mikið að finna af því er varðar uppruna okkar sem nú lifum á íslandi. Og verður vonandi um langa framtíð. Þetta eru vel samdar spennufrá- sagnir og ágætur félagsskapur sem slíkar. Það er vissulega rétt að á árunum, sem bækur hennar komu út, voru menn hér allir á kafi í stílnum. Þá vildu menn hafa skáld- sögur markaðar af frumlegum, persónulegum og sérstæðum tök- um á máli, stíl og frásögn, og þær kröfur uppfyllti Guðrún frá Lundi vitaskuld ekki. Hún var sjálf- menntuð í list sinni, en ekki úr skólum eða af lestri fræðilegra spekirita; hún skrifaði um það sem hörð lífsbaráttan norður í landi hafði kennt henni og með þeim hætti sem þessi sama lífsbarátta hafði einnig blásið henni í brjóst. En það breytir ekki þeirri ein- földu staðreynd að bækur hennar eru vel skrifaðar og opna innsýn í heim forfeðra okkar, sem alls ekki er fráleitt að hugsa sér að geti þótt dýrmæt og mikils virði jafnvel um langa framtíð. Hvað sem líður öllu tali um „kerlingabækur" er hitt jafnljóst að það er menningarlegur stórviðburður þegar fyrrverandi húsmóðir úr sveit byrjar rithöfu- ndarferil um sextugt, feril sem síðan reynist það langur og merkur að margur sá sem byrjað hefur yngri myndi telja sig meir en full- sæmdan af. Þess vegna er enn full ástæða til að hylla Guðrúnu frá Lundi á aldarafmæli hennar. -esig Guðrúnfrá Lundi hundrað ára Að því er handbækur herma eru í dag liðin rétt hundrað ár frá fæðingu Guðrúnar frá Lundi. Hún fæddist þennan dag árið 1887 á Lundi í Stíflu í Fljótum í Skaga- firði. Foreldrar hennar hétu Árni Magnússon og Baldvina Ásgríms- dóttir. Hún ólst þar upp, en giftist rúmlega tvítug og hét maður henn- ar Jón Þorfinnsson. Þau hjónin bjuggu fyrst í Þver- árdal í Bólstaðarhlíðarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu, fluttu síð- an yfir í Skagafjörð þar sem þau bjuggu að Valabjörgum í Seylu- hreppi og síðar á Ytra-Mallandi í Skefilsstaðahreppi. Árið 1939 fluttu þau síðan til Sauðárkróks, byggðu sér þar lítið hús og bjuggu þar síðan. Jón lést 1960, en Guðrún 1975, og var hún þá orðin áttatíu og átta ára að aldri. Guðrún Árnadóttir frá Lundi og maður hennar eignuðust þrjú börn. Jón var smiður og því oft langdvöl- um að heiman. Á meðan sá Guð- rún um búskapinn og börn þeirra. Eftir að komið var til Sauðárkróks og börnin vaxin úr grasi urðu tómstundir fleiri en áður hafði verið. Hún átti tíu systkini, þar af níu sem komust til fullorðinsára. Menntun barna var þannig hagað undir aldamótin að tæplega er í frásögur færandi að Guðrún frá Lundi mun ekki hafa lært að skrifa fyrr en hún var orðin ellefu ára gömul. En skriftarþörfin mun hafa sagt snemma til sín hjá henni. Að því er hermt er var hún síðan sískrifandi allan þann tíma sem leið þar til hún hóf búskap með manni sínum. En þá brenndi hún blöð sín. Ábyrgðarlaus unglingur gat leyft sér að sitja við skriftir, en ábyrgðarfull húsfreyja í sveit ekki. Að stela sér stund Eftir að börn hennar uxu úr grasi og fóru að hjálpa til við búskapinn segir sagan hins vegar að löngun hennar til meiri ritstarfa hafi farið að láta á sér kræla að nýju. Eftir henni er haft að það hafi hún kallað „að stela sér stund á hverj- um degi“. En þegar til Sauðárkróks var komið, búskaparönnum lokið og börnin orðin uppkomin, fór hún síðan fyrir alvöru að horfa til ritstarfa. Þá var hún komin vel á sextugsaldur. Og ári fyrir sextugsafmæli sitt sendi hún síðan frá sér fyrsta bindið af Dalalífi. Þetta var fyrsta skáldsaga hennar, og hún kom út í fimm bindum á næstu árum. Með þessu verki er víst óhætt að segja að Guðrún frá Lundi hafi slegið í gegn. Og síðan fylgdi hver bókin af annarri allt fram á síðustu ár hennar: Afdalabarn, Tengdadótt- irin, Þar sem brimaldan brotnar, Römm er sú taug, Ölduföll, Svíður sárt brenndum, Á ókunnum slóðum, í heimahögum, Stýfðar fjaðrir, Hvikul er konuást, Sól- mánaðardagar í Sellandi, Dregur ský fyrir sól, Náttmálaskin, Guln- uð blöð og Utan frá sjó. Samtals er þetta vel á annan tug verka, og ýmis í mörgum bindum. Það þarf í sjálfu sér ekki að fara neitt í felur með það að verk Guðrúnar frá Lundi voru lengi vel nokkuð umdeild. Það átti við jafnt fyrir það þótt bækur hennar rok- seldust og rynnu út eins og heitar lummur. Fjöldahyllinnar naut hún óskertrar, en sérfræðingarnir og fagurkerarnir hummuðu það hins vegar kannski dálítið fram af sér að Guðrún frá Lundi. Myndin er tekin á húsmæðraviku ■ Bifröst í Borgarfirði vorið 1968. grípa til sinna sterkustu hrósyrða. En því er nú einu sinni þannig varið að í bókmenntafræðinni er það hreint út sagt óvinnandi vegur að ætla sér að skilgreina það í eitt skipti fyrir öll hvað sé gott skáld- verk og hvað ekki. Þar hafa menn þó komist býsna nærri því, en kannski ekki í öllum tilvikum alveg alla leið. Til dæmis hjá skáldsagn- ahöfundum má oft taka töluvert mikið mið af því hvernig þeim tekst til í einstökum frumþáttum verka sinna, svo sem varðandi stíl, samtöl, persónusköpun, söguþráð, spennu, og þar fram eftir götunum. Bestu höfundarnir eru síðan taldir þeir sem sameina mestu snilldina í öllum þessum þáttum. Að ekki sé talað um þá sem brjóta upp á bókmenntalegum nýjungum, koma lesendum sínum skemmti- lega á óvart, jafnvel þótt víðlesnir séu. Læsilegar og spennandi bækur Ég hygg að ástæðan fyrir því hve sögum Guðrúnar frá Lundi var vel tekið liggi fyrst og fremst f því hvað henni var það einstaklega vel lagið að segja skemmtilega og einlæg- lega frá, með öðrum orðum að byggja upp rökréttan söguþráð og viðhalda áhuga lesandans allt til söguloka. Þegar menn eru einu sinni byrjaðir á bók eftir hana er það sannast sagna að hún togar bara töluvert í þá með að halda áfram. Bækurnar eru með öðru orðalagi bæði læsilegar og spenn- andi. Og þetta hefur án alls efa átt einna drýgstan þátt í því hvað hún eignaðist snemma stóran og trygg- an lesendahóp. Dalalíf var gefið út að nýju fyrir fáum árum, og að þeirri útgáfu ritaði Indriði G. Þorsteinsson for- mála. Hann lýsir því þar hvernig Guðrún fór að fást við ritstörf eftir að hún var komin til Sauðárkróks, börnin voru komin upp og Jón maður hennar mikið burtu að sinna smíðum. Og síðan segir Indriði: „En í raun vissu sárafáir, ef nokkrir, utan náinna skyldmenna, hvað fram fór í hugskoti hinnar hljóðlátu skáldkonu í litla húsinu, og enginn gaf því gaum að þar var verið að skrifa bækur, sem skömmu síðar voru lesnar um allt land. Og þótt frægðin kæmi með árunum breyttist ekki fas Guðrún- ar frá Lundi. Menn komu til henn- ar í eldhúsið og þáðu kaffibolla. Og séra Helgi Konráðsson lýsir því í ágætum formála fyrir Stýfðum fjöðrum, að Guðrún hafi verið að þvo þvott, þegar hann leit inn eitt sinn til að safna efni í formálann. Hún hætti um stund að þvo fyrst sóknarpresturinn var kominn, en þau viku ekki úr eldhúsinu meðan hann stóð við og drakk kaffi.“ Og Indriði heldur þarna áfram og segir: „Þannig var þessi sérkennilega manneskja, einn ólgandi sagnasjór inni í sér, en ekkert nema kyrrðin og lítillætið á ytra borði. Það var í raun eins og hún gerði ekki ráð fyrir því að bækur hennar yrðu gefnar út. Frændi hennar, sem var í heimsókn, tók handritið að Dala- lífi með sér suður til Reykjavíkur og sýndi það víst einhverjum út- gefendum, sem voru eins og fyrri daginn að leita að framtíðarskáld- um, en ekki miðaldra konum af Króknum, sem voru auk þess að skrifa um sveitalíf upp úr alda- mótum. En Gunnar Einarsson í ísafoldarprentsmiðju, og síðar í Leiftri, var kannski ekki eins stíft að leita að framtíðarskáldum og hinir. Hann tók við Dalalífi og ákvað að gefa söguna út. Fyrsta bindið kom í verslanir haustið 1946 og síðan hefur höfundarnafnið Guðrún frá Lundi verið öllum kunnugt." Einfalt og þungt streymi sögunnar Og áfram heldur Indriði og segir frá viðtökunum sem bókin fékk: „Fyrst um sinn töldu menn að hér væri um þekkta konu að ræða sem skrifaði undir dulnefni. Jafn- vel nágrannar skáldkonunnar á Sauðárkróki vissu ekki sumir hverjir hver þessi Guðrún frá Lundi var. En það skýrðist brátt. Dalalífi var vel tekið af gagnrýn- endum. Þeim þótti mikið koma til frásagnargleðinnar og hins einfalda en þunga streymis sögunnar. Menn voru mikið í stílnum á þessum árum. í sögu Guðrúnar frá Lundi reis fátt eitt á stíl. Þeim mun meiri var vegur frásagnarinnar.“ Hér er vel lýst. hógværð og lítillæti hinnar landsfrægu skáld- konu, sem fjarri fór að léti frægðina stíga sér til höfuðs. Og líklega er hér einmitt hittur naglinn beint á höfuðið að því er varðar lykilinn að eðlinu í sögum hennar. Sannast sagna er að stíll hennar er ekki tiltakanlega merkur. Hún skrifar einfalt íslenskt talmál, og ekki verður séð að hún leiti eftir neinum þeim persónulegum tilþrifum í stíl sínum sem skilji hann frá stíl annarra. Hún er heldur ekki neinn sá snillingur í gerð samtala að það eitt út af fyrir sig lyfti henni á stall. Og persónusköpun hennar er vissulega góð, og einkum er henni lagið að draga upp glöggar myndir af sögu- fólki sínu, ekki síst í gegnum orð þess og athafnir í bókunum. En verulega fjölþættar og margræðar persónugerðir hygg ég samt að séu heldur vandfundnar hjá henni; fólkið er þarna öllu fremur eins og inngróinn og óaðskiljanlegur part- ur af söguþræðinum. En aftur er það frásagnargáfan sem ekki fer á milli mála að hefur verið hennar langsterkasta hlið. Þessa frásagnargáfu hefur hún fengið í vöggugjöf, en ekki aflað sér hennar tillærðrar af bókum. Það er enginn vafi á því að Guðrún frá Lundi hefur verið með þvílíka meðfædda sagnagáfu, að hún hefur beinlínis ekki látið hana í friði heldur heimtað útrás, hvað sem það kostaði.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.