Morgunblaðið - 03.08.2006, Blaðsíða 32

Morgunblaðið - 03.08.2006, Blaðsíða 32
32 FIMMTUDAGUR 3. ÁGÚST 2006 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Benedikt BjarniBjörnsson fædd- ist á Vígholtsstöðum í Laxárdal í Dölum 20. febrúar frosta- veturinn 1918. Hann lést á Landspítalan- um 26. júlí síðastlið- inn. Foreldrar hans voru Hólmfríður Benediktsdóttir frá Þorbergsstöðum, f. 3. ágúst 1891, d. 16. febrúar 1970, og Björn Magnússon frá Hellissandi, f. 18. desember 1885, d. 25. júní 1938. Systkini Benedikts voru: Margrét, f. 2.6. 1912, d. 30.3. 1992, Ása, f. 29.4. 1913, d. 17.3. 2000, Magnús, f. 24.6. 1914, d. 9.5. 1990, Ragnheiður, f. 28.9. 1916, d. 24.12. 1997, Kristján, f. 26.4. 1919, d. 1.7. 1990, Sigurður, f. 14.6. 1921, d. 1.7. 2002, Árni, f. 16.1. 1932. Benedikt hóf sambúð 1947 með Þórdísi Jónsdóttur, f. 5.12. 1926, ættaðri frá Malarrifi á Snæfells- nesi, þau skildu 1981. Börn þeirra: Díönu, f. 1961, og Kolbrúnu, f. 1964, og eru barnabörnin tíu. Benedikt ólst upp á Vígholts- stöðum til sjö ára aldurs en fluttist þá með foreldrum sínum og systk- inum að Skógsmúla á Þverdal. Ár- ið 1937 fluttust þau að Þorbergs- stöðum. Hann var einn vetur á íþróttaskólanum í Haukadal en eftir að faðir hans lést árið 1938 var hann ýmist hér syðra við hin og þessi störf eða við búskapinn með móður sinni og systkinum fram um 1950. Þá fluttist hann al- farið til Reykjavíkur. Þar vann hann hjá systur sinni og mági við heildverslunina Ágúst Ármann hf, var dyravörður í Hafn- arbíó, vélskóflumaður hjá Fisk- mjölsverksmiðjunni Kletti, bíl- stjóri hjá blaðadreifingu Vikunnar (Hilmi hf.), vann við húsgagna- smíðar hjá Þórði I. Þórðarsyni, en lengst sem afgreiðslumaður á bensínstöðinni Shell v. Miklubraut og gangbrautarvörður við Miðbæj- ar-og Langholtsskóla síðustu starfsár sín. Í hjáverkum smíðaði hann gúmmískó, rak reiðhjóla- verkstæði og síðar skellinöðr- uverkstæði og gerði upp gömul húsgögn. Útför Benedikts verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13. 1) Vignir, f. 1.9. 1947, d. 11.4. 2002, hans kona var Guðrún Á. Magnúsdóttir, f. 11.11. 1947, þeirra börn eru Vigdís Elín, f. 11.11. 1970, Davíð Örn, f. 25.11. 1975, og Andri Reyr, f. 21.1. 1982, barnabörnin eru fimm. 2) Birna Dís, f. 5.1. 1949, f.m. Viktor Jónsson, f. 20.8. 1945, þeirra börn: Benedikt Orri, f. 22.10. 1967, d. 8.11. 2001, og Helga Rún, f. 2.7. 1973, s.m. Birgir A. Ingimarsson, f. 25.6. 1956, þeirra sonur er Brynjar Ým- ir, f. 1.11. 1984, barnabörnin eru þrjú. Fyrir átti Þórdís Svein- björgu, f. 1944, og á hún fimm börn og 14 barnabörn. Benedikt bjó með Magnþóru Þórðardóttur, f. 4.4. 1932 á Kvía- bryggju í Eyrarsveit, frá 1982 til dauðadags, hún á sex börn, Ingi- björgu, f. 1951, Árna, f. 1953, Sveindísi, f. 1954, Sigrúnu, f. 1957, Benni afi fékk loksins að fara, eftir að hafa þurft að kveðja bæði son sinn og dótturson alltof snemma, þótti honum biðin eftir endurfundum bæði orðin löng og þreytandi. Það er því gott til þess að vita að nafni hans og perluvinur, Benni bróðir, tekur vel á móti hon- um, en þeir kölluðu hvor annan perluvin og það voru þeir svo sann- arlega. En afi hafði lag á að láta okkur systkinunum finnast við sér- stök, Benni var perlan, ég var sú ákveðna og Brynjar var fimleika- snillingurinn. Þó svo að afi væri vissulega orðinn þreyttur og minnið farið að gefa sig var alltaf stutt í grínið hjá honum, því hann var mik- ill húmoristi og lét ekkert tækifæri úr hendi sleppa til að sjá spaugilegu hliðarnar á mönnum og málum þó svo að oftar en ekki hafi húmorinn verið á hans eigin kostnað. Minningar mínar um afa eru margar og skemmtilegar, ég sé hann fyrir mér að brasa í bílum, tefla og fara með ljóð og vísur. Einnig man ég eftir þeim tíma þeg- ar hann vann á bensínstöð Shell við Miklubraut, en þar fannst mér hann vera kóngurinn því hann sat á háum stól við peningakassann og tók við peningum og sagði dælust- rákunum óspart til. Þá sagði hann mér líka að oft væri svo mikið rok við Miklubrautina og hárið á honum hefði fokið af í einni rokhviðunni og lengi framan af fannst mér þessi skýring mjög sannfærandi. Hann gat líka verið stríðinn og þegar ég var orðin of gömul til að hann klipi mig í rassinn tók annað við og hann spurði til dæmis manninn minn þegar við tilkynntum honum að við ætluðum að gifta okkur, hvort ekki væri erfitt að eiga við mig og glotti. Afi var fróður maður og forvitinn og þegar ég byrjaði í háskólanum var hann stöðugt að spyrja mig álits á hinu og þessu, sem ég reyndi auðvitað samviskusamlega að svara, þótt það ætti ekkert skylt við mitt nám. Og spurningarnar byrjuðu alltaf á því að hann sagði: „Helga, nú ert þú í Háskólanum, hvað held- ur þú um …“ Ég held að hann hafi ekki endilega verið að spyrja til að fá svar heldur meira til að stríða mér því ég tók þetta mjög alvar- lega, enda vildi ég sem háskólanemi standa undir væntingum hans. Afi hafði unun af kvæðum og kveðskap og var svokallað alþýðu- skáld, það var svo árið 1998 þegar hann varð áttræður að gefin var út bók með kvæðum hans og vísum. Það eru líka ófáar vísurnar sem liggja eftir hann í afmælis- og jóla- kortum okkar sem alltaf hittu í mark. Það er ekki hvað síst á stundum sem þessum þegar við kveðjum afa okkar og vin, að við finnum hve gott er að ylja sér við þessar vísur og aðrar minningar um hann afa Benna. Helga Rún Viktorsdóttir. Í síðustu heimsókn minni til afa á Landspítalann, sat hann álútur á rúminu en önnur löppin hékk niður á gólf, hann sá mig en heyrði ekk- ert, svo ég skrifaði í blokk: ,,Ertu nokkuð að reyna að strjúka heim?“ og hann svaraði hiklaust með bros á vör: ,,Nei, veistu, ég held að ég stingi núna af til Drottins.“ Og eftir að ég áttaði mig almennilega á því að hann væri dáinn var ég nokkuð hugsi um það sem hann hafði sagt við mig í síðasta skiptið sem við hittumst. Þetta sýnir líka svo skýrt hvað það var alltaf stutt í húmorinn hjá afa og endalaus fíflagangur við strákinn mig. Mér er minnisstætt þegar ég heimsótti hann á spítala eftir hjartaaðgerð með mömmu og pabba fyrir um níu árum. Heim- sóknin sú endaði með því að mamma rak okkur feðgana út af stofunni því saumarnir voru byrj- aðir að gliðna í sundur af hláturs- hristingi afa. Enda var mikið fjör þegar afi var hjá okkur í Torfufellinu, hann kenndi mér alls kyns sögur og opn- aði augu mín fyrir kveðskap. Snemma lét hann mig berjast við vafningsvélina og vefja fyrir sig síg- arettur, þær voru ýmist of mjóar eða sverar. Í einni viðureigninni tókst mér að hrekkja hann og laum- aði inní boxið mentolsígarettu og beið svo allt kvöldið eftir viðbrögð- um, og hann brást mér ekki. Og svo allt grínið um kærust- urnar sem ég geymdi niðri í kjall- ara og hann fékk engan aðgang að. Afi var alltaf svo stoltur af mér, kallaði mig aldrei neitt annað en Meistarann vegna árangurs míns í fimleikunum hér á árum áður og beið eftir Ólympíuafrekinu. Ég elska afa, og veit að hann hef- ur það æðislegt með Benna bróður, Vigni frænda og öllum systkinum sínum. Næst þegar við hittumst tek ég þig í glímu, afi minn. Brynjar Ýmir Birgisson. Margar ljúfar og fallegar minn- ingar koma upp í hugann þegar við lítum yfir þessi 23 ár sem þú og mamma bjugguð saman, elsku Benni. Alltaf var gaman að koma í heimsókn til ykkar því öruggt var að eitthvað ljúffengt var með kaffinu (sem þú sagðist hafa bakað) og að tekið væri á móti okkur með fallegu brosi og léttri lund. Glettnin var alltaf í fyrirrúmi hjá þér og ekki fórum við varhluta af stríðn- inni sem einkenndi þig. Þú varst snillingur í ljóðagerð og töfraðir fram vísur við minnsta til- efni. Ótalmörg ljóð eigum við eftir þig sem verða okkur nú dýrmæt minning. Þú kunnir svo sannarlega að meta Möggu þína (mömmu) og dáð- ir hana. Oft á morgnana var komin á eldhúsborðið ný vísa til hennar þar sem þú lýstir væntumþykju þinni og hve hún væri þér góð! Hún á líka mikið hrós skilið þar sem hún hefur staðið sem klettur við hlið þér í gegnum árin og annast þig í veik- indunum með sinni alkunnu um- hyggjusemi. Hún hefur nú misst góðan og skemmtilegan félaga og saknar hans mjög. Þú heillaðir alla í kringum þig með sjarmanum og góða skapinu. Síðustu vikurnar á spítalanum þeg- ar líkaminn var að niðurlotum kom- inn var alveg ótrúlegt að heyra að ljóðaminnið hefði ekki brugðist þér og þú bættir um betur með frum- sömdum ljóðum um hjúkrunarfólk- ið. Frábært var að heyra eina hjúkrunarkonuna segja að þú værir bæði yndislegur og skemmtilegur sem voru orð að sönnu. Þú varst mikill keppnismaður og alltaf var mikið fjör á spilakvöld- unum ykkar með Ingu og Þóri. Þar varst þú í essinu þínu og hrókur alls fagnaðar. Gaman var að sjá hve barngóður þú varst og veittir börnunum alltaf athygli. Þeim þótti spennandi að tefla við Benna afa og kenndir þú þeim margt í skáklistinni. Elsku Benni, við söknum þín. Takk fyrir allt og allt. Sveindís (Didda), Ingibjörg, Sig- rún, Díana og Kolbrún. Ég bregð út af þeirri venju að skrifa ekki minningargrein um nákomnasta fólk, nú þegar hið sein- asta af sjö eldri systkinum mínum fellur frá. Þau voru fædd á bilinu 1912 til 1921. Faðir okkar lést þeg- ar ég var sex ára. Ógiftu systkinin ráku búið til skiptis með móður okkar í rúmlega tíu ár. Ellefu árum yngri fylgdist ég með þessu nýfull- orðna fólki. Ég heyrði til dæmis móður okkar gamna sér við að gefa eldri bræðr- um mínum einkunn eða hlutverk. Mangi var lærdómsmaðurinn (hann hafði verið á Reykjaskóla og Hvanneyri), Stjáni fjármaðurinn, Siggi smiðurinn og Benni var eins- konar skemmtikraftur. Það var ekki út í loftið. Henni mislíkaði stundum athæfi barna sinna, fannst þau kærulaus og ekki nógu fram- takssöm. Stundum lét hún þau heyra það og gekk út snúðugt. Það fannst þeim leiðinlegt. Lausnin var ósjaldan sú að Benni fór til hennar niður í eldhús og byrjaði kannski að syngja lög sem hún hafði dálæti á, svosem Ég lít í anda liðna tíð, Þig sem í fjarlægð eða Ég veit að metorð og völdin há. Ellegar þá hann fór að segja sögur af körlum í nágrenninu, sem hann vissi að henni leist vel á. Sjaldan brást að smám saman tæki að hýrna yfir henni. Sjálfur gaf ég bræðrum mínum einkunn fyrir geðprýði. Auðvitað átti ég að hjálpa til við búverkin, en verksvitið og handlagnin var oftast í minna lagi. Þeim gat vitaskuld runnið í skap útaf þessum klaufa- skap. Ég þurfti svosem ekki yfir neinu að kvarta, en samt setti ég þá í vissa skaplyndisröð og þá reyndist Benni umburðarlyndastur. Ég sagði þeim svo frá þessari niðurröð- un og þeir virtust hafa gaman af. Benni kenndi mér líka að tefla en á því sviði var hann glúrinn. Sjálfsprottið menningarlíf í sveit- um tók á sig ýmsar myndir. Annan veturinn sem ég var í barnaskóla stóðu yfir lagfæringar á húsinu heima. Kristján Einarsson smiður var jafnframt organisti í Hjarðar- holtskirkju. Hann bjó til kvartett með bræðrum mínum Benna og Sigga ásamt Jóni Einarssyni á Þor- steinsstöðum og sjálfum sér, og spilaði undir á heimilisorgelið. Ljóð og lög Þórðar Kristleifssonar voru notuð og það heyrðust sönglög eftir Schubert og fleiri tónskáld æfð í þaula uns maður var næstum farinn að kunna allar raddirnar. Það kom fljótt á daginn að Benni átti létt með að búa til vísur. Fóru þeir ekki varhluta af því sem um- gengust hann hverju sinni. Mikið af því var dár og spé en hlýja í hátíða- vísum. Skáldamál virtist síast inn í hann fyrirhafnarlítið. Mér kom á óvart þegar ég var kominn í menntaskóla og farinn að læra bragfræði af bókum, að hann vissi ósjaldan skýringu á ýmsum heitum og flóknum kenningum sem ég var að rembast við að leita uppi. Í til- efni af áttræðisafmælinu fengum við hann til að tína saman það sem hann mundi af vísum sínum og tækifæriskvæðum og létum prenta í takmörkuðu upplagi. Kverið varð 150 blaðsíður og heitir Frá æsku til elli. Benni varð snemma vinsæll og eftirsóttur af nágrönnum og öðrum kunningjum sem kátur, greindur, hnyttinn, listfengur, söngvinn og skemmtilegur félagi. Hann setti saman gamanvísur um sveitungana í skemmtidagskrá hjá ungmenna- félaginu Ólafi Pá. Svipað gerði hann seinna fyrir Breiðfirðingafélagið í Reykjavík þar sem þeir bræður spiluðu í bridgedeildinni. Hann var líka næmur á kveðskap annarra og kunni eins og ósjálfrátt talsvert af ljóðagerð 20. aldar. Allir þessir eig- inleikar ásamt listamannseðlinu gátu orðið til þess að sumum fannst hann eiga til að vera dálítið kæru- laus um eigin hag og sinna nánustu. Það voru samt oftast óþarfar áhyggjur. Á uppvaxtarárum systkina minna var það sjaldgæft að börn fátækra bænda gengju hinn svokallaða menntaveg þótt þau hefðu alla and- lega burði til þess. Það var ekki fyrr en flokkar félagshyggjumanna höfðu knúið fram umtalsverðar kjarabætur og rýmkun aðgengis í menntaskóla að fólk af minni kyn- slóð átti þess almennt kost. Ég hef stundum velt því fyrir mér, hvað væri líklegast að Benni hefði feng- ist við, ef hann hefði fetað þessa braut. Ég sé hann til dæmis fyrir mér sem blaðamann með menning- ar- og skemmtiefni að sérsviði í dagblaði eða tímariti. Slíkar vangaveltur eru auðvitað fásinna. Einsog sést í inngangi fékkst Benni við margvísleg verka- mannastörf. Ég hef oft um dagana rekist á vinnufélaga hans úr hinum ýmsu greinum, sem hafa spurt um hann. Og viðkvæðið er ævinlega hið sama: hvað hann hafi verið góður og skemmtilegur félagi. Það er líka aðalatriðið. Benni var stundum heima hjá mér á gamlárskvöld og eftir góðan gleðskap átti hann til að halla sér í sófa þegar líða tók á nótt. Mér kom þá í hug lokaerindið úr Skáldinu Wennerbóm eftir Gustaf Fröding í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar sem Benni hafði miklar mætur á: Djúpa, ríka náð hann höndlað hefur, hann ei iðrun nein um skuldir krefur fyrir löst né brot hins breyska manns. Veg hann fann til vorsins draumalands, vær er blundur hans. Þá er skáldið sælast, er það sefur. Árni Björnsson. Grein þessa rita ég Benedikt Björnssyni, frænda mínum, sem lést í júlílok, á 89. ári og því varla fyrir aldur fram, að lokum gaf sig hjartað, ern í anda og var að spila á spil við dóttur sína fyrr um daginn, hraustmenni allt líf sitt, gáfaður og vel að sér, glettinn, hagorður, gleði- maður og með blik í augum við söng einsog fleira Þorbergsstaða- fólk. Pabbi var yngstur þessara átta systkina sem öll fluttust suður á svipuðum tíma úr Dölum – og nú er hann orðinn einn eftir að segja frá uppvexti þeirra í torfbænum í Skógsmúla í Þverdal og lífinu seinna á Þorbergsstöðum sem heita í Laxárdal þótt þeir standi öllu heldur við Hvammsfjörð innstan þar sem hann breiðir úr sér. Okkur börnum þeirra finnst af sögum að þetta hafi verið stöðug skemmtan og kátína og böll þarna vestur í Dölum – og sú smitandi lífsgleði sem einkenndi flest systkinanna hlýtur að hafa gert bæinn að eins- konar æskulýðsmiðstöð á sínum tíma. Auðvelt hefur þetta þó ekki alltaf verið, allra síst eftir að Björn faðir þeirra lést af slysförum rétt fyrir stríð. Í baslinu syðra framan af voru Þorbergsstaðasystkinin stórfjöl- skylda þar sem hver studdi annan, og við börnin þeirra sumra vorum einskonar bræður og systur þótt við ættum að heita bara systkina- börn – ein slík stórasystir í minni æsku, og sú helsta, var einmitt Birna Dís dóttir Benna og Lóu. Við bjuggum reyndar saman í herbergi ekki alltof stóru heilan vetur – og næstum tvo? – og maður þurfti stundum að taka á öllu sínu í nábýl- inu við þann skörung, sem að skörpu viti og beittu skopskyni var enginn eftirbátur föður síns. Pabbi og mamma voru í Þýskalandi en ég var látinn vera heima í skólanum og ekkert sjálfsagðara en að hafa strákinn hjá Benna og Lóu. Benni hafði gaman af drengnum, ræddi við hann um helstu viðburði mann- kynssögunnar, svo sem árangur ís- lenska landsliðsins á heimsmeist- arakeppninni í handbolta 1961, og við fórum saman á tveggja daga landskeppni í frjálsum þótt afrek þar stæðu langt að baki frægðar- verkum Husebys og félaga á 5. og 6. áratugnum – sem aftur voru að- eins daufur endurómur af dáðum fornkappa. Ég sé eftir á að Benni hefur kosið að halda að fóstra sín- um gildum sannrar karlmennsku, og þau spruttu líka fram í fræðslu sem fram fór um skák og þó eink- um skákmenn – Botvinnik og Pet- rosjan og hinn snjalla Tal, og um okkar mann, Friðrik, jafnoka Lar- sens hins danska. Skáklistin festist að vísu ekki í nemandanum en kappasögur Benna um skáksnill- ingana sitja enn í minninu. Á þess- um aldri er maður lesandi allan sól- arhringinn – og fyrir varð auðvitað bókakostur Benedikts. Stundum var nokkuð óstillt um bókavalið – það er til marks um ljúfmennsku Benna að hann kvartaði ekki þótt ráðist væri í þær bækur sem hann sjálfur hafði uppi við: Einusinni vorum við báðir að lesa sömu bók- ina á sama tíma, og var gerð sú málamiðlun eftir samningaviðræður að ég las á daginn en Benni að kvöldi. Þetta var Egyptinn eftir Mika Waltari, um Iknatonsólarf- araó – mikil bók og afar merkileg, og síðan voru þessir viðburðir við Nílarfljót á 14. öld fyrir Krist krufnir til mergjar í samræðum frændanna yfir ýsunni hjá Lóu. Benni var annars þannig að mað- ur þurfti oft að íhuga hvort hann var að tala – eða hlusta – í fullkom- inni alvöru. Glettnin einkenndi hann alltaf, hvort heldur hún kom fram í saklausu spaugi eða mein- legri hæðni. Þegar ég heyri eftir hann vísu er ég heldur aldrei viss hvort það er algerlega að marka, hrós og lof um afmælisbarn, brúð- hjón eða mann nýlátinn – og kannski skiptir mestu að besta var kvæðið fram flutt. En hvað sem kankvísinni leið var brosið alltaf hlýtt, og fallegt blikið í augunum. Ég veit ekki hvort Benni naut lífsgæfu í samræmi við gjörvileika. Það er stórt orð Hákot, sagði kerl- BENEDIKT B. BJÖRNSSON

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.