Lesbók Morgunblaðsins - 07.07.2007, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 07.07.2007, Blaðsíða 16
16 LAUGARDAGUR 7. JÚLÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Morgunblaðið/Kristinn Náttúran Hvernig förum við þá að því að taka ákvarðanir sem eru upplýstar og vit er í? spyrja Áslaug og Gunnar í grein sinni. Íslenskt bygg undir Glóðafeyki í Skagafirði. Eftir Áslaugu Helgadóttur, Landbúnaðarháskóla Íslands, og Gunnar Stefánsson, Háskóla Íslands Á hörmungartímum íslensku þjóðarinnar, þegar „ásýnd jarðar var ekki björt“, gerði Eggert Ólafsson „auð og indæli ættjarðar sinnar“ að yrkisefni í sínu frægasta kvæði, Búnaðarbálki. Það var ort til að stappa stálinu í Íslendinga og opna nýja sýn á landið og möguleika þess. Í kvæðinu er náttúran verk guðs sem manninum ber að þakka fyrir, en hann á líka að nýta sköpunarverkið. Búnaðarbálkur fjallar þannig um manninn og stöðu hans í veröldinni og er maðurinn mið- lægur en ekki guð. Pétri Gunnarssyni varð tíð- rætt um Eggert Ólafsson í hugvekju á sam- komu háskólastúdenta 1. desember 1988: „Dæmi hans ætti að vera okkur sístæð fyrir- mynd. Það er þessi áttavilla í mannlífsgang- verkinu sem Eggert deildi á í sinni samtíð, þoka yfir markmiðum og leiðum. Nú sem þá hlýtur að vera forsenda fyrir fögru mannlífi að það sé vit í því og að við njótum þess að lifa því.“ Það sem kveikti þessi hugrenningatengsl var viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra í Morgunblaðinu sunnudag- inn 27. maí sl. þar sem hún var spurð um möguleika á sátt í samfélaginu um náttúru- vernd og auðlindanýtingu. Hún svarar: „Við eigum að leitast við að taka upplýstar ákvarð- anir sem byggjast á rannsóknum, en ekki ákvarðanir sem við sjáum eftir á að voru tekn- ar í fljótræði miðað við þá heildarhagsmuni sem voru í húfi.“ Að yrkja land og nýta Hvernig förum við þá að því að taka ákvarð- anir sem eru upplýstar og vit er í? Hvernig sjáum við til þess að ekki sé þoka yfir mark- miðum og leiðum? Flestir eru sammála um að við eigum rétt á og að okkur beri að nýta land- ið, okkur til framfæris, yndis og ánægju. Við eigum jafnframt að nýta auðlindir skynsam- lega og með ábyrgum hætti. Hins vegar grein- ir menn oft á um leiðir, þ.e. hvað sé eðlileg nýt- ing og hvað eigi að vernda. Ágreiningurinn snýst oft um tvö ólík viðhorf til stöðu manns- ins í náttúrunni. Annars vegar hefur verið litið á manninn sem eðlilegan hluta náttúrunnar, afsprengi líf- fræðilegrar þróunar eins og aðrar lífverur. Þá eru vistkerfi, sem maðurinn hefur skapað, s.s. tún, akrar og ræktaður skógur, eðlilegur hluti lífríkisins en ekki náttúruspjöll. Náttúruvernd felst þá í því að varðveita fjölbreytileika líf- ríkis og náttúru, varðveita jarðveg, vatn og andrúmsloft, og ofnýta ekki auðlindir en ekki að banna aðkomu mannsins að náttúrunni. Hins vegar hefur maðurinn verið talinn frá- brugðinn öðrum lífverum og þá af allt öðrum toga en önnur fyrirbæri þessa heims. Litið er á manninn sem „framandi afl“ í náttúrunni sem þurfi að vernda hana gegn, allt nátt- úrulegt sé gott en mannanna verk miklu síðri. Slík afstaða getur leitt menn í ógöngur og orð- ið til þess að vísindalegum rökum sé hafnað en í staðinn stuðst við huglæg viðhorf án vís- indalegs rökstuðnings. Andstaða við erfða- tæknina er ágætt dæmi um þetta. Á sama hátt má segja að ofurtrú á athafnasemi mannsins og von um skjótan gróða villi mönnum oft sýn. Teknar eru huglægar ákvarðanir án þess að fyrir liggi vísindaleg sannindi. Hér nægir að nefna ákvarðanir um virkjanir án undangeng- ins mats á hagkvæmni og ákvarðanir um fisk- veiðikvóta án tillits til langtímaafraksturs. Ótti við inngrip vísindanna í náttúruna get- ur tekið á sig sérkennilegar myndir og ekki alltaf leitt til rökrænna niðurstaðna. Stjórn- málamenn í Evrópu hafa til dæmis enn ekki treyst sér til þess að heimila ræktun erfða- breyttra plantna nema í mjög takmörkuðum mæli. Þannig má ekki rækta plöntur, sem hafa fengið gen frá jarðvegsbakteríunni Agrobac- terium tumefasciens til að þola úðun með hin- um vel þekkta Roundup-illgresisseyði, þó það geti haft umhverfislegan ávinning í för með sér. Rökin eru að erfðabreyttar plöntur valdi hugsanlega skaða á umhverfinu og heilsu manna þótt ekki hafi enn tekist að sýna fram á að svo sé. Hins vegar eru á markaði plöntur sem hafa verið kynbættar með stökkbreyt- ingum svo að þær þoli illgresiseyði. Þær má rækta hvar og hvenær sem er án sérstaks leyfis. Stökkbreytingar má kalla fram með röntgengeislum, gammageislum, nifteindum og ýmsum sterkum efnum sem koma óreiðu á erfðaefni plöntunnar. Kynbætt hafa verið yfir 2.000 yrki algengra nytjaplantna með þessum grófu aðferðum, þar af hefur um helmingur verið settur á markað síðustu 20 ár. Eru þess- ar plöntur eitthvað minna erfðabreyttar eða náttúrulegri en þær sem hafa verið kynbættar með aðferðum erfðatækninnar? Er náttúran algóð? Beitingu vísinda og tækni er oft stillt upp sem andstæðu við ósnortna náttúru. Þannig raski maðurinn náttúru sem er í jafnvægi, allt fari úr skorðum og breytingarnar séu óaftur- kræfar. Kenningar Darwins segja okkur hins vegar að náttúran sé síbreytileg, breyting- arnar verði án þess að neinn stýri þeim eða skipuleggi og að náttúran sé langt frá því að vera algóð, sbr. Heiðlóarkvæði Jónasar. Vissu- lega geta athafnir mannsins haft ýmsar hætt- ur í för með sér en vert er að muna að vísinda- menn leita einnig leiða til þess að draga úr neikvæðum áhrifum mannsins. Galdurinn er að finna aðferðir sem gera okkur kleift að vega og meta hugsanlegar hættur og mögulegan ávinning með skynsamlegum hætti. Varúðarreglan er gjarnan notuð þegar vega skal og meta þá áhættu sem náttúrunýting hefur í för með sér fyrir umhverfi og heilsu manna. Margar skilgreiningar eru til á hug- takinu og algengt er að vísað sé til Ríó-yfir- lýsingarinnar frá 1992: „Þar sem hætta er á al- varlegu og óafturkræfu tjóni ætti ekki að nota ónóga vísindalega þekkingu sem tilefni þess að fresta aðgerðum … til þess að koma í veg fyrir umhverfisspjöll.“ Á Vísindavef Háskóla Ís- lands er skilgreiningin eftirfarandi: „Varúðar- reglan kveður á um að þegar vísindaleg óvissa sé til staðar um afleiðingar framkvæmda fyrir umhverfið, skuli náttúran njóta vafans.“ Hér er miklu sterkar að orði kveðið, þótt vitnað sé í Ríó-yfirlýsinguna, en uppruna þessarar útgáfu má rekja til Wingspread-yfirlýsingarinnar frá 1998 sem virðist hafa verið tekin gagnrýnis- laust upp af flestum. Hvað þýðir að eitthvað sé óafturkræft? Við fyrstu sýn virðist þetta vera skynsamlegt og augljóst, að fara þurfi varlega ef á ferðinni er raunveruleg hætta á alvarlegu tjóni. Hins vegar má spyrja: Hvað felur í sér hættu? Hvað er alvarlegt tjón? Hversu alvarlegt þarf það að vera? Hvað þýðir að eitthvað sé óafturkræft? Vandinn er að færa má fyrir því rök að hver sem er geti vísað til varúðarreglunnar hvar og hvenær sem er. Það getur leitt til þess að stjórnvöld láti stjórnast af blaðaskrifum, þrýstingi frá hagsmunasamtökum og ótta al- mennings þegar taka skal ákvarðanir um hvort leyfa skuli einhver nýmæli. Ef vísinda- legra staðreynda er ekki lengur krafist verða duttlungar í stað raka allsráðandi. Öllu alvar- legra er þó að varúðarreglan ýtir undir til- hneigingu í hinum vestræna heimi til að ein- blína um of á áhættu, á kostnað hugsanlegs ávinnings, einkum fyrir þá sem minna mega sín. Aftur má nefna erfðatæknina, sem ekki má hagnýta í Evrópu, en felur í sér möguleika fyrir þróunarlöndin til þess að framleiða ódýr- ari og hollari matvæli. Varúðarreglan getur verið þörf áminning um að okkur beri að fara varlega í umgengni okkar við náttúruna en hún getur líka haft alvarlegar afleiðingar fyrir frekari þróun vís- inda og tækni og leitt til stöðnunar ef enginn vilji er til þess að taka áhættu. Stundum er gerður greinarmunur á skyld- um hugtökum, „varúðarreglu“ (precautionary principle) sem hefur verið lýst hér að ofan og „varúðarnálgun“ (precautionary approach), en varúðarnálgun er gjarnan notuð til að koma í veg fyrir augljósa ofnýtingu auðlinda. Þótt sömu orð séu notuð, s.s. „náttúran njóti vaf- ans“ og „ekki skal bíða með mótaðgerðir þótt vísindaleg rök liggi ekki fyrir um skaðsemi nýtingaraðferða“, þá hefur varúðarnálgunin verið áberandi þegar þurft hefur að móta raunhæfa nýtingarstefnu eða reglur um við- brögð við ofnýtingu. Ýmsar aðferðir hafa verið þróaðar til að ná fram sjálfbærri nýtingu auðlinda. Við upptöku aflareglu í þorski um 1995 var notuð öll tiltæk þekking um þorsk og um samspil þorsks, loðnu, rækju og sjávarspendýrastofna við smíði reiknilíkans til að meta efnahagsleg áhrif af mismunandi aflareglum. Stjórnvöld tóku þessar vísindalegu niðurstöður, kynntu þær ítarlega almenningi og náðu þannig sátt- um um ákvörðun. Fáar ef nokkrar aðrar ákvarðanir um fisk- veiðar hafa leitt jafnsnöggt til jafnmikilla já- kvæðra breytinga í lífkerfinu (breytt hegðun fisksins, torfumyndun, minni afföll). Þó var höfuðástæða þess að aflareglan var tekin upp miklu fremur efnahagsleg og næstu ár á eftir mátti sjá miklar breytingar í formi aukins afla á togtíma, sem svarar til minni kostnaðar við veiðar. Áhrifin sáust áfram, þar til saman fór að aðferðir við stofnmat brugðust og veiði varð talsvert umfram aflareglu. Þessi formlega ákvörðun um skynsamlega nýtingu til langs tíma er einsdæmi í sögu fiskveiðistjórnunar á Íslandi en skammtímahagsmunir og hags- munir minnihlutahópa ráða hins vegar miklu við árlegar ákvarðanir. Frá þjóðhagslegu sjón- armiði er hagkvæmara að notaðar séu nýting- arreglur til langs tíma og brýnt að það verði gert fyrir sem flestar auðlindir. Aflareglan og áhrif mannsins Þegar rætt er um áhrif veiða á dýrastofna er því oft slegið fram að áhrif veiða hljóti að vera hverfandi. Slík umræða heldur t.d. áfram um rjúpu, jafnvel eftir að mælingar sýndu að á meðan á tveggja ára friðun stóð urðu miklu minni afföll fullorðinnar rjúpu heldur en áður. Á síðustu öld jukust afföll í þorskstofninum á heildina litið frá 1928 er mælingar hófust. Undantekningar eru þó síðari heimsstyrjöldin, útfærsla landhelginnar og upptaka aflareglu, allt af mannavöldum. Hér eru áhrif mannsins augljós en engu að síður eru órökstuddar til- finningar og hagsmunir einstakra háværra veiðimanna teknir fram yfir rök, gögn, þekkta líffræði og áratuga rannsóknir, svo tala mætti um flótta frá rökhyggju. Svo að við minnumst aftur orða Ingibjargar Sólrúnar þá er brýnt að stjórnvöld, sem taka ákvarðanir, séu fær um að greina hismið frá kjarnanum og geri greinarmun á hagsmuna- tengdum bábiljum og niðurstöðum sem byggja á rannsóknum. Þótt vísindi séu óviss er engin ástæða til þess að velja í staðinn hjátrú og hindurvitni. Samspil manns og náttúru Hér rýna höfundar í orðræðu umhverfismál- anna í dag og spá í hvernig ákvarðanir eru teknar. Þau segja nauðsynlegt að verja rétt mannsins til þess að nýta sér þær náttúru- auðlindir sem landið okkar býr yfir. Jafn- framt þurfi að fara fram með gát og beita vís- indalegum aðferðum til að skera úr um hvað megi nýta og hvað skuli vernda. Um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, áttavillur í mannlífsgangverkinu og varúðarregluna TENGLAR ........................................................... Ítarefni má finna á: http://www.hi.is/~gunnar/lesbok

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.