Morgunblaðið - 15.04.2007, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 15.04.2007, Blaðsíða 16
16 SUNNUDAGUR 15. APRÍL 2007 MORGUNBLAÐIÐ ÍRAKAR Á BARMI ÖRVÆNTINGAR menn ýmiss konar. Írak er með þessu svipt sínu frambærilegasta fólki, fólkinu sem þarf að vera til staðar eigi nokkurn tímann að takast að reisa úr rústum stríðs lífvænlegt samfélag. Ríka fólkið fór fyrst Vandamál írösku flóttamannanna hafa að mörgu leyti verið hulin sjón- um og kastljós alþjóðlegra fjölmiðla hefur ekki verið á þeim, svo nokkru nemi. Ástæðan er sennilega sú að Írakar í Sýrlandi og Jórdaníu búa ekki í flóttamannabúðum, heldur hafa horfið inn í fjöldann, að svo miklu leyti sem það er hægt; þeir hafa til dæmis leigt sér húsnæði og sumir hafa getað fundið einhverja vinnu og sent börn sín í skóla. Jafnframt hefur það skekkt sjón- arhornið að þessir fólksflutningar hófust sem flótti ríkra Íraka sem yf- irgáfu land sitt í leiguflugvélum eða fínustu drossíum. Fyrstir til að flýja Írak og halda yfir til Amman voru nefnilega þeir sem tilheyrt höfðu embættis- mannakerfinu undir Saddam Huss- ein og sáu í hendi sér að lífið myndi verða þeim erfitt eftir fall harðstjór- ans. Þessir menn áttu peninga og gátu keypt sér fasteign er þeir komu yfir til Amman, fjárfest í iðnaði og verslun. Jórdönsk stjórnvöld tóku þessum mönnum vel, jafnvel þó að al- menningur í landinu fyndi strax fyrir komu þeirra, því að vitaskuld olli hún því að verð fasteigna hækkaði og verðlag almennt. Má líklega áætla að um fjórðungur Írakanna, sem sest hafa að í Jórd- aníu, hafi nokkuð umleikis og við- komandi hafa fyrir vikið – og kannski líka á grundvelli gamalla tengsla við jórdanska embættismenn – getað út- vegað sér öll tilskilin dvalar- og at- vinnuleyfi. Í seinni tíð eru Írakarnir sem flýja til nágrannalandanna þó ekki efna- fólk, eins og ég komst að raun um í Amman. Þetta er fólk sem seldi eigur sínar – ef sá möguleiki var fyrir hendi – til að lifa af í útlandinu; en þeir peningar fara hins vegar fljótt þegar menn þurfa að sjá stórum fjöl- skyldum farborða en geta ekki unnið. Er óhætt að segja að allir Írakanna sem ég hitti að máli búi við umtals- verða neyð. Og það sem verra er: þetta fólk er oftast réttindalaust í Jórdaníu, gjarnan án dvalarleyfis. Fæstir eiga gilt vegabréf, sem er sér- stakt vandamál út af fyrir sig því að vilji menn reyna að komast annað, t.d. sækja um hæli í einhverju Evr- ópulandi, verða þeir auðvitað að eiga vegabréf. Fæstir telja sig geta snúið aftur til Íraks. Vanmáttarkenndin þjakar þetta fólk, óttinn við framtíð sem ekkert hefur að geyma nema frekari eymd og volæði, vergang og vanda- mál; en jafnframt þjást margir af söknuði eftir fósturjörð og fortíð sem þeim er horfin að eilífu. Jórdönum vandi á höndum Ekki er ástæða til að gera lítið úr því að stjórnvöld í Jórdaníu og Sýr- landi hafa sýnt velvilja með því að hleypa þessum mikla fjölda Íraka inn fyrir landamæri sín. Jórdönsk yfirvöld hafa þó kosið að bregðast ekki sérstaklega við vanda Írakanna; virðast raunar illa vita hvað þau eiga til bragðs að taka sem þýðir að öll viðbrögð eru tilvilj- anakennd og ómarkviss. Engum dylst að jórdönsk yfirvöld standa frammi fyrir erfiðum vanda og ráðleysi þeirra er á margan hátt skiljanlegt. Aðeins um fimm milljónir manna búa í Jórdaníu og eðlilegt að þegar hundruð þúsunda Íraka streyma inn í landið hrikti í stoðum samfélagsins. Þá ber að gæta að því að Jórdanar eiga nú þegar við erfiðleika að etja sem tengjast palestínska flóttafólk- inu sem býr í landinu í hundraða þús- unda tali í kjölfar hernaðarátaka 1948 og sem enginn gerði ráð fyrir að yrði svo þaulsetið. Jórdanar óttast að aðstæður þróist þannig að „gest- irnir“ frá Írak snúi ekki heldur aftur til síns heima, eins og allt fram á síð- ustu mánuði hefur verið gert ráð fyr- ir að þeir gerðu, heldur neyðist til að vera í Jórdaníu til frambúðar líkt og Palestínumennirnir. Áframhald- A llir Írakar í Jórdaníu hafa sögu að segja en engar tvær sögur eru eins. Suhyla Oda’a Khazad var ekki að flýja ofbeldið í Írak þegar hún kom til Amman fyrir ári heldur var meiningin að fara í læknisrann- sókn. Hún hefur hins vegar ekki enn snúið heim enda sýndu rannsóknir að hún var með brjóstakrabbamein. Jórdönsk yfirvöld veittu henni dval- arleyfi til að leggjast undir hnífinn og í kjölfarið undirgangast lyfja- meðferð en það er til marks um harðnandi afstöðu þeirra til íraska flóttafólksins að dvalarleyfið gildir aðeins til mánaðar í senn. Fareed Khazad, eiginmaður Su- hylu, kom yfir til Amman fyrir fimm mánuðum til að vera með konu sinni. Dvalarleyfi hans er runnið út fyrir nokkru og Fareed þarf því að borga sekt upp á 1½ dínar á dag. Þau eru einu Írakarnir sem ég hitti í heim- sókninni til Amman sem yfirhöfuð hafa orð á þessari sekt; ljóst er að flestir Írakar geta með engu móti staðið skil á þessum greiðslum og kjósa fremur að fara í felur. En þau Fareed og Suhyla geta auðvitað ekki farið í felur á meðan Suhyla er enn í læknismeðferð. Hvað tekur við í framhaldinu vita þau ekki. Þau þurftu að selja húsið sitt í Bagdad til að hafa efni á lækn- ismeðferð Suhylu og einmitt þegar þau ættu að geta verið að setjast í helgan stein ríkir því alger óvissa um framtíðina: hvorugt getur unnið í Jórdaníu og heima bíður þeirra ekkert nema eymd og volæði. Frænka Suhylu, Hana, hefur skot- ið skjólshúsi yfir þau hjón en hún hefur búið í Amman í níu ár. Ég hitti þau á heimili Hönu í Sweilieh-hverfi sem er alveg austast í borginni. Þau Suhyla og Fareed eru líklega á milli sextugs og sjötugs, þetta er sómakært millistéttarfólk frá Bag- dad sem á erfitt með að festa svefn á kvöldin. Sonurinn Mohammed Fa- reed er nefnilega á flótta heima í Bagdad og þau óttast um líf hans. Suhyla er ráðalaus, spyr mig hvort ég geti ekki gert eitthvað fyrir þau, hjálpað syni þeirra. Hann er 27 ára, giftur með tveggja ára son. Í vetur gerði hann tilraun til að flýja Írak, beið þrjá daga á landamær- unum að Jórdaníu en var svo vísað frá. „Ég vona bara að hann deyi ekki,“ segir Fareed um son sinn. Þau hjónin segjast hugsa til hans öllum stundum, áhyggjurnar hafa farið illa með þau. „Við erum súnnítar en okkur líkar ekki spurningin,“ segir Hana þegar ég spyr um trúdeild þeirra. „Það er nýtilkomið að vandamál komi upp milli súnníta og sjíta.“ En hvort sem það er rétt eður ei, að áður fyrr hafi aldrei borið á vand- ræðum í samskiptum súnníta og sjíta í Írak er staðreyndin sú að nú geisar borgarastríð, hildarleikur af allra ljótustu gerð þar sem þjóðern- ishreinsanir eru stundaðar grimmt og hroðaleg ódæði framin. Sagan sem þau segja mér af Mo- hammed Fareed er kunnugleg. Hann er á flótta undan dauðasveit- um sjíta í Bagdad, staldrar aldrei lengi við á hverjum stað. Þau bjuggu í Palestínustræti, þar var blandað hverfi en vígasveitir sjíta hafa verið smám saman að hrekja súnníta á brott. Ungir menn eins og Moham- med eru sérstakt skotmark, þess vegna verða þeir að vera í felum. Lögreglan bankar líka upp á, tek- ur þátt í hreinsununum, engin leið er að gera greinarmun á dauðasveitum og lögreglunni. Gestgjafi okkar, Hana, grípur frammí og segir að tveir frændur þeirra hafi verið teknir af dauða- sveitum sjíta. „Við bíðum þess að vita örlög þeirra. Eftir að annar þeirra var tekinn hringdu ódæð- ismennirnir úr hans farsíma og sögðu okkur hvert við gætum sótt líkið af honum,“ segir hún og kemst í mikið uppnám. „En við fundum hann ekki þar. Það er erfitt að þekkja lík manna, þeir hafa sætt pyntingum, lík þeirra jafnvel verið brennd.“ Fareed er vel að sér um heims- málin en hefur ákveðnar skoðanir á málunum. Hann stýrði áður betr- unarhæli fyrir unglinga. Fareed trúir því að markmið Bandaríkjamanna hafi verið einmitt þetta: að sjá Íraka berjast innbyrðis. Að það búi að baki samsæri um að leggja Írak í rúst. „Hvers vegna hefðu Bandaríkja- menn annars skilið öll landamæri Íraks eftir opin þegar þeir tóku völd- in í landinu, í stað þess að verja þau? Með því að skilja þau eftir opin buðu þeir illmennum að koma frá nágrannalöndunum; en allir vita að þar hefur Írak átt marga óvini, s.s. í S-Arabíu, Íran og Sýrlandi.“ Fareed segir samsærið hafa geng- ið upp: ekki aðeins berist súnnítar og sjítar nú á banaspjót heldur berj- ist súnnítar í Ramadi í vesturhlut- anum nú jafnvel innbyrðis. Fareed er nógu gamall til að muna tímana fyrir Saddam. Ég spyr hann hvaða tímabil sé í minningunni það besta sem hann hafi upplifað á langri ævi. „Áttundi áratugurinn,“ svarar hann. „Árið 1972 var olíu- framleiðslan þjóðnýtt. Þetta þýddi að hagur landsmanna allra batnaði mjög. Og það voru engin átök, þetta voru friðsamlegir tímar. Allt þar til stríðið við Íran hófst 1980.“ ÁTTUNDI ÁRATUG- URINN VAR GÓÐUR Landflótta Hana hefur búið í Jórdaníu. Hún skaut skjólshúsi yfir frænku sína, Suhylu Oda’a Khazad og mann hennar, Fareed Khazad. Í lítilli kjallaraíbúð í austurhluta Amman hitti ég konu sem þar býr með fimm börnum sín- um og örvæntir um framtíðina. Hún vill fyr- ir enga muni að ég láti nafns hennar getið, segist nýverið hafa verið yfirheyrð af jórdönsku leyniþjónustunni og óttast að henni yrði refsað fyrir að tala opinskátt um þá reynslu. Íbúð konunnar, sem ég kalla Aminu, er fátæk- leg og stæk klóaklykt leikur um vitin. Amina er í hópi þeirra Íraka sem flúðu land sitt í valdatíð Saddams Husseins, hún hefur ver- ið í Jórdaníu í sjö ár. Jórdönsk yfirvöld sýndu á sínum tíma talsverðan velvilja í garð þeirra 250.000 Íraka sem flúðu land í stjórnartíð Sadd- ams, leyfðu þeim að halda til í Amman án þess að reglum um dvalarleyfi væri framfylgt. Á þessu hefur orðið breyting síðustu mánuði, nú er reglunum framfylgt í æ ríkari mæli og manni Aminu var vísað úr landi 2005. Hún segist ekkert vita hvar hann sé, heyrði síðast í honum fyrir tíu dögum. Hann var þá staddur í nágrenni Kirkuk. Amina er fædd 1961 en lítur út fyrir að vera eldri. Hún grætur ítrekað, er að bugast undan erfiðleikunum sem við henni blasa. Hún þjáist af of háum blóðþrýstingi, óttast að fá hjartaáfall og deyja frá börnum og búi. „Ég get þetta ekki lengur, ég er að gefast upp,“ segir hún og það er örvæntingartónn í rödd hennar. „Þú verður að hjálpa mér, ég verð að fá hjálp.“ Amina segir þau sæta ofsóknum í Jórdaníu sökum þess að þau séu sjítar. Ráðandi öfl í Jórd- aníu séu súnní-arabar, andúð þeirra á Írökunum í landinu hafi aukist mjög þegar sjítastjórnin í Bagdad tók Saddam af lífi fyrir síðustu áramót. „Ég óttast meira um börn mín hér í Jórdaníu núorðið en bónda minn í Írak. Jórdanska leyni- þjónustan hefur verið að spyrjast fyrir um mig og ég óttast að þeir áreiti börnin mín. Þeir vita af mér og hlusta á símtöl mín og því þori ég varla að heyra í bónda mínum í síma,“ segir Am- ina. Hún hefur setið í ráðgjafarnefnd fyrir þekkt alþjóðleg hjálparsamtök sem ekki verða nefnd hér. Jórdanska leyniþjónustan vildi vita allt um starf hennar þar er hún tók hana fyrir nýverið, menn vildu vita hverjir hefðu setið fundi með henni og um hvað hefði verið rætt. Amina var jafnframt spurð ítrekað að því hvers vegna hún færi ekki oftar í moskuna en raun bæri vitni. „Ég sagði þeim að ég gegndi hlutverki bæði föður og móður og ætti ekki auð- velt með að fara oft í mosku,“ segir hún kjökr- andi. Hún segir að haft hafi verið í hótunum við hana, henni sagt að hafa hugfast að eitthvað slæmt gæti gerst ef hún ekki hugsaði sitt ráð. Synir Aminu, Mohammed (17) og Haidar (15), eru á unglingsaldri. Fjölskyldan kom á sínum tíma til Jórdaníu á einu vegabréfi og synir hennar eiga engin vegabréf út af fyrir sig. Am- ina óttast að jórdanska lögreglan stöðvi þá úti á götu og sendi úr landi. Þá verði þeir í vondum málum, vegabréfslausir, landlausir. Mohammed og Haidar vinna í skóverksmiðju og sjá fyrir fjölskyldunni. Mohammed fær 80 dínara í laun á mánuði, um átta þúsund íslensk- ar krónur, og Haidar um fjörutíu. Launin duga varla fyrir húsnæðiskostnaði, því að Amina þarf að borga 90 dínara á mánuði í húsaleigu. Amina segir syni sína vera áreitta í vinnunni, samstarfsfélagar þeirra séu súnnítar og viðhafi oft illmælgi í garð sjíta. Stundum séu drengirnir reiðir, eigi erfitt með að sitja á sér. Stundum komi þeir heim með þessa innbyrgðu reiði og láti hana bitna á móður sinni. Þau sneru einu sinni aftur til Íraks, eftir að ríkisstjórn Saddams hrundi 2003. „Við vorum bara eina viku en tvisvar á þeim tíma komu hryðjuverkamenn að húsinu og sökuðu okkur um svik við Írak, sögðu að við værum svikarar fyrir að leyfa Bretum og Bandaríkjamönnum að taka yfir landið,“ segir hún. Hún segir að börnin hafi verið ofsahrædd, þau hafi aldrei átt von á því að ástandið í Írak yrði svona hræðilegt. Þau hafi líka óttast alla bandarísku hermennina sem þau mættu. Þrátt fyrir allt sé betra að vera í þessu hreysi í Jórd- aníu heldur en búa við ógnaröldina sem ríki í Írak. ÓTTAST JÓRDÖNSK YFIRVÖLD Framtíðin ekki björt Amina býr ásamt fimm börnum sínum í tveggja herbergja íbúð í A-Amman. 
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72
Blaðsíða 73
Blaðsíða 74
Blaðsíða 75
Blaðsíða 76

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.