Morgunblaðið - 30.04.2007, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 30.04.2007, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 30. APRÍL 2007 15 VESTURLAND Eftir Guðrúnu Völu Elísdóttur gve@ismennt.is Borgarnes | Þeir komu til Íslands á síðasta ári, Tomasz Bialonczyk og Robert Krymkowski, báðir frá Póllandi en kynntust á Íslandi. Þeir búa báðir í Borgarnesi, Tom vinnur hjá Sólfelli en Robert hjá Límtré-Vírneti. Tom kom í byrjun árs en Robert sl. haust og báðir voru þeir í leit að betra lífi. Á vit nýrra ævintýra „Ég kom vegna þess að ég vildi gera breytingar á lífi mínu. Mig langaði til að verða hamingju- samur, finna vinnu og eiga gott líf, betra líf en ég átti í Póllandi,“ seg- ir Tom. „Þar vann ég sem sölu- maður en launin voru ekki nógu góð, ég var með um 50 þúsund ís- lenskar í mánaðarlaun.“ Tom seg- ist hafa fengið vinnu á Íslandi í gegnum pólskan mann sem var að vinna hérlendis. „Vinkona mín, sem vissi að mig langaði að komast til Vestur-Evrópu, sagði mér að ég gæti fengið vinnu, en því miður væri þessi vinna á Íslandi. Hún vís- aði mér á þennan mann sem var í jólafríi heima í Póllandi og ég hitti hann á bar. Fjórða janúar var ég svo kominn til Íslands.“ Tom segist fyrst hafa hugsað með sér að það að fara til Íslands væri hræðilegt. „Mér fannst það eins og heimsend- ir, en þar sem ég er ekki hræddur við neitt ákvað ég að prófa. Ég vissi líka að fólk hefur það gott í Skandinavíu, ég á marga vini sem eru í Noregi svo ég lagði það að jöfnu.“ Robert segist hafa komið Íslands vegna þess að hann langaði á vit nýrra ævintýra og að prófa eitt- hvað nýtt. „Þegar vinur minn hringdi í mig og spurði hvort ég vildi koma til Íslands fannst mér það spennandi kostur. Verkstjór- inn hans hafði beðið hann að út- vega Pólverja til vinnu. Ég hafði ekki lært ensku, kunni ekki tungu- málið hér og hélt kannski að ég væri að gera mistök, en ákvað að láta vaða.“ Robert, sem er mennt- aður í umhverfisfræðum, vann áður við smíðar á gluggum og hurðum í heimalandi sínu og var með um 50– 60 þúsund íslenskar krónur á mán- uði. Þeir segja báðir að íslenskan sé erfitt tungumál, sé erfið í fram- burði og eins að skrifa hana. „Ég er orðinn of gamall til að læra tungumál,“ segir Tom, „og mér finnst erfitt að muna orðin. Áður ætlaði ég ekkert að læra íslensk- una en núna tel ég það nauðsyn- legt upp á framtíðina, kannski til að fá betri vinnu eða betra líf.“ Hann stundar nám í íslensku á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands og er á framhalds- námskeiði. Robert hefur einnig verið að læra íslensku og er núna í Landnemaskólanum. „Mér finnst Landnemaskólinn vera gagnlegur, ekki bara til að læra um Ísland heldur hef ég kynnst hinum nem- endunum og lært um þeirra menn- ingu og kann t.d. að skála á fleiri tungumálum,“ segir Robert og hlær. Hann segist einbeittur í því að læra íslensku. „Ég vil læra þetta mál og geta talað það vel. Ég held að ef ég tala íslensku verði Ís- lendingar opnari gagnvart mér. Þótt ég bjargi mér núna á ensku finnst mér miklu betra að tala ís- lensku, það er einfaldlega flottara mál. Mér finnst mér ganga vel, ég er þrjóskur, mig langar að tala og á hverjum degi reyni ég að tala ís- lensku í vinnunni.“ Þetta síðasta segir Robert á íslensku! Ótrúlega skrýtið landslag Ísland hefur svo sannarlega upp- fyllt væntingar þeirra. „Ísland er fullkomið,“ segir Tom. „Þegar ég kom hingað fannst mér landið frá- bært og vinnan fín. Það eina sem ekki er nógu gott er veðrið en ég er frá fjallahéraði í Póllandi svo ég þekkti svona veðráttu.“ Tom finnst að nánast allt sé hægt hér, nema aðgengi útlendinga að bankalánum sé takmarkað. „Mér er sagt að maður þurfi einhvern Íslending til að gangast í ábyrgð fyrir sig, eða eiga einhverjar eignir. Útlendingar eiga ekki kost á þessu hérlendis, en launin eru auðvitað miklu hærri hér en heima. Leiga á húsnæði er svipuð heima og hér þannig að mjög erfitt var að framfleyta fjöl- skyldu á þessum lágu launum.“ Tom, sem í hverjum mánuði sendir drjúgan hluta launa sinna til Pól- lands, segir markmiðið vera að fá fjölskyldu sína hingað, en hann á tvær dætur, 10 ára og sjö ára. Hann segist reikna með því að búa hér áfram og segir það ekki skipta máli hvort hann fái íslenskan rík- isborgararétt eða ekki svo lengi sem hann fái að dveljast hér á landi. Robert segist ekki vera ákveðinn hversu lengi hann verði hér. „Kannski verð ég áfram um ókomna framtíð. Fyrst fannst mér Ísland vera eins og tunglið, ótrú- lega skrýtið landslag. Ég sá engin tré eða vötn, bara kletta og fjöll. En núna líkar mér vel við landið, það hefur einhverja töfra. Allt er nýtt, ný reynsla, ný upplifun, hafið, fjöllin og svo þessi bær, Borg- arnes, sem ég kalla „Flintstone vil- lage“ í gríni,“ segir Robert, en vill ekki fara nánar út í það. Hann seg- ist stefna á að flytja til Reykjavik- ur, því honum finnst fulllítið um að vera í Borgarnesi. „Svo tel ég að ég eigi meiri möguleika þar og mig langar í framtíðinni að komast í vinnu sem tengist minni menntun.“ Aðspurðir hvað þeim finnist um fjölgun útlendinga á Íslandi segjast þeir ekki hafa velt því mikið fyrir sér. Robert segir þó grundvall- aratriði fyrir útlendinga að læra ís- lensku ef þá langar til að líða vel á landinu. „Ég hef ekki fundið fyrir fordómum,“ segir Tom, „en ég vinn auðvitað oft eins og þræll og einu dagarnir sem ég á frí eru sunnu- dagar. Þá fer ég oftast Hafn- arfjallið, fer bæði á skíði og geng.“ Robert segist ekki hafa mikinn tíma fyrir áhugamál hér, en hann er í Margmenningarfélagi Borg- arfjarðar og sækir tíma í Land- nemaskólanum. Þeir segja Pólverja ekki svo ólíka Íslendingum þrátt fyrir mis- munandi menningu. Þess vegna sé ekki erfitt að aðlagast íslensku samfélagi. „En hér vantar alveg tré og það er fullhvasst,“ segir Ro- bert. „Íslenskur matur er nokkuð góður, en einkennilega oft sykr- aður.“ Tom tekur undir það og bætir við að íslenskar konur séu mjög fallegar. Ísland uppfyllir væntingarnar Morgunblaðið/Guðrún Vala Ánægðir Ísland hefur uppfyllt væntingar Tomasz Bialonczyk og Robert Krymkowski. „Ísland er fullkomið.“ Í HNOTSKURN »Tom kom í byrjun árs enRobert sl. haust og báðir voru þeir í leit að betra lífi. »Þeir segja báðir að íslensk-an sé erfitt tungumál, sé erfið í framburði. »Pólverjar eru ekki svoólíkir Íslendingum þrátt fyrir mismunandi menningu. Þess vegna er ekki erfitt að aðlagast íslensku samfélagi að mati þeirra Tomasz Bialonc- zyk og Robert Krymkowski. Tomasz Bialonczyk og Robert Krymkowski komu til Íslands frá Póllandi og eru nú búsettir í Borgarnesi. Þeir segjast hafa komið til Íslands í leit að betra lífi. Þeir segjast vera ánægðir og auðvelt sé að aðlagast íslensku samfélagi. Tom vinnur hjá Sólfelli en Robert hjá Límtré-Vírneti. „En hér vantar alveg tré og það er fullhvasst,“ segir Robert. Stykkishólmur | Miklar gatnagerð- arframkvæmdir eru í miðbæ Stykkishólms. Það er mikið átak að ráðast í það að fegra þennan hluta bæjarins. Á þessu svæði var malarstígur, sem ekki var skemmtilegur yf- irferðar í blautri veðráttu. Svæðið sem er verið að vinna við er um 4.400 fermetrar og nær frá Hafnargötu með- fram Norska húsinu og Amtsbókasafninu að Aðalgötu. Torg verður myndað á milli Norska hússins og Amtsbókasafnsins þar sem hægt verður að vera með uppákomur í bænum eins og á dönskum dögum. Áætlaður kostnaður er um 50 milljónir króna Að sögn Erlu Friðriksdóttur, bæjarstjóra, er þetta stórt verk á mælikvarða Stykk- ishólmsbæjar. Áætlaður kostnaður við verk- ið er um 50 milljónir króna. Stjórn Norska hússins tekur þátt í kostnaði. Að framkvæmdum loknum mun miðbær- inn fá mikla andlitslyftingu, svæðið verður fallegra þar sem gömlu húsin mynda um- gjörðina. Erla segir að framkvæmdirnar muni standa yfir í vor og sumar og er áætlað að þeim ljúki þann 1. ágúst. Borgarverk er þessa dagana að hefjast handa við jarðvegs- vinnu og lagningu frárennslislagna vegna gerðar nýrra gatna, göngustíga og bíla- stæða. Fyrsti áfangi verksins sem lýkur 1. maí er jarðvegsvinna á svæði sem afmarkast frá Egilshúsi að Amtsbókasafninu. Síðari áfanginn nær svo frá Amtsbókasafninu að Fimm fiskum og verður jarðvegsvinnu við þann áfanga lokið 1. júní. Um leið og fyrri áfangi jarðvegsframkvæmda lýkur tekur hellulagningarverktakinn Grásteinn til við að helluleggja og malbika götuna, göngu- stíga, bílastæði og torg. Ásamt því að hlaða vegg sem afmarkar bílastæði við Egilshús frá göngustíg sem liggur frá Egilshúsi með- fram Frúarhólnum að Norska húsinu og Ráðhúsinu. Fólk er ánægt Gengið verður frá götunni frá Hafnargötu að Amtsbókasafninu með sama hætti og Skólastígnum. Það er að segja: gatan og gangstéttin verður jafn breið og Skólastíg- urinn og með samskonar hellulögn. Við enda götunnar á milli Norska hússins og Amts- bókasafnsins tekur síðan við hellulagt torg. Bílastæðin við Egilshús verða svo malbikuð ásamt bílastæðum við Amtsbókasafnið og götunni frá bókasafninu að Fimm fiskum. Erla, bæjarstjóri, tekur fram að lokum að fólk sem hún hittir er mjög jákvætt út í framkvæmdirnar og allir mjög glaðir yfir því að farið var af stað og að verkinu verður lokið á skömmum tíma. Bæjarmynd Stykkishólms breytist til batnaðar Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason Framkvæmdir Gamli miðbærinn í Stykkishólmi mun breytast þegar hægt verður að ganga um hann á nýlögðum hellum í gömlum stíl. Framkvæmdirnar standa yfir í vor og sumar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.