Morgunblaðið - 07.02.2008, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 07.02.2008, Blaðsíða 18
|fimmtudagur|7. 2. 2008| mbl.is daglegtlíf Það færist í aukana að heilu fjölskyldurnar sæki sér ráðgjöf saman enda hafa kynslóðirnar oft ólíka sýn á hlutina. » 20 daglegt líf Enn er langt í að hægt verði að gera öll matvöruinnkaup á net- inu. Vöruúrval á netinu mun þó smám saman aukast. » 20 neytendur H ugurinn hafði í nokkur ár staðið til skíða- ferðar á erlendri grundu, en segja má að ranghugmyndir okkar um slíkar ferðir hafi staðið okkur fyrir þrifum fram til þessa. Við héldum nefnilega að í skíðaferðir færi bara fólk, sem ætti vænar fúlgur fjár eða hlutabréf á uppleið og kynni auk þess allar kúnstir skíðaíþróttarinnar upp á tíu fingur og jafnmargar tær. En svo uppgötvuðum við, okkur til mikils léttis, að því fer fjarri, segja hjónin Steinunn Garðarsdóttir og Eggert Marinósson, sem í jan- úarbyrjun drifu sig upp í flugvél á vit ítölsku alpanna. Um mitt síðasta ár barst þeim til- boð úr óvæntri átt um að velja úr nokkrum ferðamöguleikum. Nokkrir kostir voru í stöðunni og dag einn fékk Eggert netpóst í vinnuna frá Steinunni sinni sem innihélt tilboð um skíðaferð til Madonna de Campiglio á Ítalíu. Og auðvitað var það málið. Það var ekkert annað að gera í stöðunni en að velja hótel og byrja þá þegar að hlakka til ferðarinnar. Undirföt og Carving-skíði „Einhvern veginn gat maður nú ekki hugsað sér að fara í slíka ferð án þess að eiga allar græjur, en þar sem við förum aðeins á skíði að jafnaði einu sinni á ári um páskana þá hefur nú skíðagalla- og græjukaup ekki verið efst á innkaupalistanum. Þó fékk ég skíði í jólagjöf 2006 og frúin á bænum samskonar glaðning í sinn jólapakka um nýliðin jól og biðu nú Carving-skíðin okkar í ofvæni eftir að fá að þjóta niður hlíðar snæviþaktra Alpafjalla. Utanyfirflíkur, sem til voru í skápum, voru látnar duga en meiri áhersla lögð á útivistar und- irföt, sem komu sér mjög vel í fjöll- unum. Það má með sanni segja að gula gönguúlpa frúarinnar hafi komið sér vel fyrir þá, sem renndu sér á eft- ir henni þegar þokan gerðist hvað þykkust,“ segir Eggert. Að morgni 12. janúar lögðu skötu- hjúkin í ’ann úr Grafarvoginum áleið- is til Verona á Ítalíu þar sem Evert, þingeyskur orkubolti, sem kynnti sig sem fararstjóra, tók á móti hópnum. „Öllum var smalað upp í tvær rútur og ekið til Madonna di Campiglio sem er 700 manna ferðamannabær í ein- staklega fögru umhverfi þar sem ljós- um skreytt hús, tré og ljósastaurar ásamt logndrífu færðu okkur aftur til nýliðinna jóla með einstaklega nota- legum hætti, líkt og við værum að stíga inn í póstkort af fallegustu gerð. Komið var að kveldi þegar náttstað var náð og því var ekkert gert annað en að koma dótinu fyrir og fá sér gott í gogginn fyrir svefninn.“ Fyrsti skíðadagurinn rann svo upp bjartur og fagur daginn eftir. „Þá safnaðist hópurinn saman uppi á ein- um toppinum þar sem fararstjórinn beið okkar og leiddi um hin fjögur mismunandi aðalsvæði fjallanna sem liðast í ótal brekkur í þremur litum eftir erfiðleikastuðli. Daginn þann lærðum við að nokkru leyti að rata um svæðin og á tengileiðir milli svæða og hvar helstu veitingastaðina væri að finna sem er þýðingarmikill lærdómur að sumra mati. Annars eru matsölustaðir á hverju strái eða skafli öllu heldur og engum vandkvæðum bundið að næra sig eða slökkva þorsta. Lyftur eru opnar frá 8:30 til 16:30 og fer að skyggja ansi hratt upp úr því. Segja má að dagarnir hafi ver- ið hver öðrum líkir, en á mjög já- kvæðan máta þó þar sem tilgang- urinn var jú að njóta lífsins á skíðum og það gerðum við svo sannarlega fyrir utan að við slepptum skíðaiðk- uninni einn daginn þar sem það kyngdi niður snjó og skyggni var ekki upp á marga fiska. Þess í stað röltum við í rólegheitum um götur og kaffi- hús bæjarins með prýðisfólki frá Húsavík sem við kynntumst í ferðinni og áttum fínan dag.“ Einn daginn var þeim, sem það vildu, smalað upp á topp Pradalago- svæðisins og fór fararstjórinn Evert þá með hópinn yfir í nálæg skíða- svæði í bæjunum Marileva og Folg- arida sem reyndist mjög skemmtileg og eftirminnileg ferð, að sögn hjónanna. Þeir bæir voru svo kvaddir með kakói og tilheyrandi rommi og rjóma áður en menn gerðu sig klára í að renna sér aftur yfir í Madonna di Campiglio. Margar skemmtilegar brekkur Mikið hafði hinn ágæti fararstjóri lofað veðrið og sólina á staðnum og því er betra að kæta viðkvæm nef, kinnar og kollvik með góðri sól- arvörn, ef ekki á að fara illa. Þessa daga lét sólin hinsvegar lítið á sér kræla nema í smá skömmtum, en þeim mun þrálátari var þoka, sem lá yfir sumum brekkunum. „Skíðabrekkurnar eru margar og mismunandi og flestar mjög skemmtilegar. Þær allra lengstu eru allt að fimm kílómetra langar. Við mælum þó eindregið með því að fara ekki í brekkur númer 10 og 24 nema að viðkomandi hafi gaman að því að ýta sér nánast allan tímann. Þetta eru tengileiðir, sem hægt er að forðast með því að velja aðrar í staðinn. Boðið er upp á skíðakennslu fyrir alla ald- urshópa. Hana þáðu auðvitað nokkrir eldhugar á besta aldri sem höfðu aldrei stigið á skíði um ævina. Það leið ekki á löngu uns þeir voru komnir upp á topp og farnir að skíða líkt og þeir hefðu aldrei gert annað um æv- ina,“ segir Eggert. Hátt verð í búðargluggum Ítalski bærinn Madonna di Camp- iglio er fremur lítill og ekki er þar mikið við að vera annað en að rölta um strætin, spjalla á kaffihúsum, snæða á veitingahúsum, fara í gufu og nuddpott og skoða í búðarglugga með verðmiðum, sem sýna ansi háar tölur, að sögn Eggerts. „Í okkar tilviki kom hátt verðlag í tuskubúðunum ekkert að sök þar sem markmið ferðarinnar var að stunda skíðaíþróttina fremur en að vera í akkorði við að renna greiðslukortum í gegnum posa. Veitingahús eru mörg í bænum og verðið mismunandi. Á þeim stöðum, sem við borðuðum, var verðinu stillt í hóf, maturinn fínn og þjónustan góð, sérstaklega á Le Roi, sem var rétt fyrir ofan hótel Arnica, þar sem við dvöldum. Fjölmargir Íslendingar þekkja orðið Madonna di Campiglio og margir sækja þangað aftur og aftur. Það er mjög skiljanlegt, að okkar mati, enda er ekki loku fyrir það skot- ið að næsta skíðaferð sé komin á teikniborðið hjá okkur eftir ein- staklega vel heppnaða ferð í faðmi fallegra fjalla og fíns félagsskapar.“ join@mbl.is Skíðabrekkurnar Fjögur mismunandi aðalsvæði fjallanna liðast í ótal brekkum sem eru miserfiðar.Skíðabærinn Madonna di Campiglio er 700 manna þorp í fallegu umhverfi. Kaffipása Inn á milli hituðu Eggert og Steinunn sér á kakói með rjóma. Á skíðum skemmtu þau sér... Eggert Marinósson og Steinunn Garðarsdóttir gengu með ýmsar ranghugmyndir um skíðaferðir til útlanda þegar þau ákváðu að slá til og láta gamlan draum rætast. Jóhanna Ingvarsdóttir heyrði af ævintýrum í ítölsku ölpunum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.