Vera


Vera - 01.04.1997, Blaðsíða 42

Vera - 01.04.1997, Blaðsíða 42
framhald af bls. 13 Þróun feminista ... Námsefnin voru senn á þrotum. Á þessum fáu mánuðum sem við vorum við nám í Frakklandi hafði gengi krónunnar verið fellt tvisvar á Islandi. 50% gengisfelling. Náms- lánin okkar urðu ekki að neinu þegar búið var að breyta þeim í franka. Við áttum varla fyrir farinu heim. Þá kom svohljóðandi skeyti frá pabba: „Peningar. París. Pabbi.“ Við gift- um okkur í vitlausu veðri á Akranesi 2. mars og fengum okkur vinnu, ég við kennslu og hann í blaðamennsku. Um vorið gerðu franskir námsmenn uppreisn og stúdentabylt- ingin hófst í París. 6. ágúst fæddist okkur dóttir á afmælisdegi mömmu og sprengjunn- ar á Hírósíma. Nokkrum dögum síðar réðust Rússar inn í Tékkó og kæfðu vorið í Prag. Vígbúnaðarkapphlaupið var að nálgast há- mark. Fréttir voru að berast af sóðalegu stríði í Víetnam. Útlitið var ískyggilegt. Ég var veik og hrædd. Yrði ég manneskja til þess að ann- ast og vernda og leiða litla telpu út í þennan heim? Innan skamms náði móðurástin tökum á mér og síðan hefur mér fundist hún stjórna mestu í mínu lífi. Allar stórar ákvarðanir sem ég hef tekið upp frá því hafa miðast við að ég er móðir. Ég fór í mitt leiklistarnám og helming tím- ans var ég ein með Örnu. Einar var farinn til Svíþjóðar í stjórnmálafræði. Ég myndi koma á eftir í framhaldsnám. Svíþjóð var fyrheitna landið í augum námsmanna með börn á framfæri. Þar voru dásamleg dagheimili og fóstrar jafnt sem fóstrur önnuðust börnin. Svíþjóð var land jafnréttisins. Við nutum okkar bæði. Átökin um verkaskiptingu á heimilinu voru ekki mjög hörð, ég sótti á um aukið frelsi og Einar kaus skipulegt undan- hald, hann varð umhyggjusamur pabbi og fljótt liðtækur í tiltekt og matargerð, en nokkuð ónákvæmur með þvottinn. Það henti hann að lita allt bleikt eða ljósblátt og grátt. Pólitíska umræðan var geysihörð og vægðar- laus á meðal stúdenta og krafan um rétttrún- að ströng. Gallinn var bara sá að rétttrúnað- urinn var svo margur. Það voru ótal flokkar og flokksbrot sem íslenskir námsmenn skipt- ust í. Menn skömmuðu hverjir aðra fyrir alls kyns villur. Það voru aðallega strákarnir sem rifust eins og hanar. Einar leysti málið með því að ganga í æskulýðssamtök sænska Mið- flokksins, sem voru skemmtileg og róttæk samtök í umhverfis- og friðarmálum. Ég kaus engin skipulögð samtök, en fylgdist með kvennahreyfingunni, kastaði brjósta- haldaranum og saman mættum við í hverja einustu göngu sem gengin var í Stokkhólmi gegn stíðinu í Víetnam með Örnu á öxlun- um. Svo urðu mikil fyllerí, pikknikkar, ber- fættur dans, rokkhátíðir, vísnasöngur og gleði. Sumrin voru hlý og buðu upp á útilíf. Við klæddumst eins og hippar en við kynnt- umst engum eiturlyfjum. Við sofnuðum ekki alltaf í eigin rúmi. Tilraunir okkar kynslóðar með pólitískt einkalíf og frjálsar ástir var merkileg tilraun og ein af vörðunum á vegi kvenna til jafnrétt- is. Pillan og nær pottþétt lykkja gerðu hana mögulega. EN hún reyndi mikið á tilfinn- ingalíf allra, karla, kvenna og barna, hvort sem hún var opinská eða falin. Mörgum samböndum reið kynlífsbyltingin að fullu. Önnur lifðu hana af. Við hefðum getað týnt hvort öðru, en okkur skolaði á land, að vísu hröktum en óbrotnum úr því ölduróti. Við vorum bæði úr sterkum fjölskyldum, þótt í þeim væru vissulega brotalamir. Afstað- an var þessi: Maður leysir ekki upp hjóna- band af litlu tilefni. Maður rífst og skammast, maður þjáist og grætur, en maður skilur og fyrirgefur. Eftir 12 ár í hjónabandi fæddist okkur önnur dóttir. Eftir 20 ár sú þriðja. í augsýn er nú frelsi Frá því ég hætti við að bursta skóna hans Einars þegar ég var 18 ára hef ég lifað sem sí- fellt ákveðnari femínisti að frátöldum nokkrum mánuðum eftir hverja barnsfæð- ingu. Þá var ég ekkert nema meir og við- kvæm móðir með mjólkina flæðandi úr brjóstunum og tárin í augunum yfir „undr- inu að líta lítinn fót í litlum skóm og vita að heimsins grjót“ o.s.frv. Ég er femínisti sem sæki á og reyni að halda mínum hlut gagnvart karlmönnum sem ég elska. Þeir eru allir gallagripir en samt góðir menn, a.m.k. ekki verri menn en svo að ég hef síður viljað segja mig úr lögum við þá. Ég var 25 ára þegar pabbi fórst á sjó. Ég harma hann alla daga og átti flest ósagt við hann. Ég hef í staðinn sagt það við Einar og ýmsa aðra. Ég á bróður, mága, tengdason, tengdaföður, frændur og nokkra mjög góða vini, flesta tengda starfsferli mínum. Þegar ég hæði og skammast út í karlveldið er ég að tala við þá, sem mér þykir svo vænt um. Þeir taka því misvel. Þeir skilja mig misvel. Ég er femínisti sem hef tekið þátt í nokkrum úthlaupum hinnar alþjóðlegu kvennahreyfingar sem ég skynja mig sem hluta af. Ég var undir sterkum áhrifum sænskrar jafnréttis- og friðarbaráttu þegar ég kom heim frá námi. Ég fór að stunda leiklist en jafnframt að nota pennann og gerðist aktívisti og starfsmaður herstöðvaandstæð- inga við að skipuleggja mótmælagöngur og fundi sem aðallega beindust gegn stríðs- rekstri Bandaríkjamanna í Víetnam. Ég hafði m.a. frumkvæði að því að gefa út íslenska eftirhermu af sænskri plötu með kvenna- söngvum og flutti inn og fékk þýddan bar- áttusönginn í augsýn er nú frelsi. Hann hljómaði í fyrsta sinn hér á landi á kvennafrí- daginn 24. október 1975. Það hafa komið þeir tímar að ég þoldi ekki þessa plötu, en nú kann ég prýðilega við hana á ný. Áfram stelpur. Ég var 33 ára þegar fyrsta leikrit mitt var sýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins. Leik- ritið fékk almennt góðar viðtökur hjá áhorf- endum og gagnrýnendum með einni alvar- legri undantekningu þó. Kvennaframboðið var í burðarliðnum og leikritið þótti ekki falla undir þann femíníska rétttrúnað sem þá var í uppsiglingu. Það var áfall. Á sama tíma var ég hart leik- in af forystukonu á mínum vinnustað sem lyktaði með því að ég dró mig í hlé, sagði upp og fór nokkrum árum síðar. Einar hafði fengið gott norrænt starf í Svíþjóð og ég flutti til hans með dætur okkar tvær. I annað sinn á ævinni fann ég á sjálfri mér hversu staða kvenna og jafnréttismála var sterkari í Svíþjóð en hér heima. Ég lét freistast til þess að eignast þriðju dótturina við þessar góðu aðstæður. Þegar hún var búin að drekka af mér mestöll hold tendraðist ég af baráttu- gleði á ný. Ég las og las, fór á námskeið og komst í kynni við leikhúskonur sem ég hafði áhuga og tækifæri til að vinna með. Ég lærði bæði af bókum og reynslu margt í samstöðu- fræðum kvenna, sem ég hef meðvitað reynt að nota og koma á framfæri eftir heimkom- una. Kvennalistakonur kunna margt af því en samt hefur einangrunartilhneiging verið þeim fjötur um fót. Þegar hún var rofin með tilkomu R-listans var stigið stórt skref og glæsileg frammistaða Ingibjargar Sólrúnar í embætti borgarstjóra er ekki síður þýðingar- mikil fyrir íslenska kvennahreyfingu en ferill Vigdísar á forsetastóli. Séníið Björk er svo kapítuli út af fyrir sig. Ég er femínisti sem hef haft áhyggjur af því, hvers konar fyrirmynd ég væri dætrum mínum. Ég hef áhyggjur vegna þess að í við- leitni minni til þess að vera þeim góð móðir hef ég kannski brugðist þeim sem fyrirmynd- ar femínisti. Sem rithöfundur starfa ég mest heima. Ég veit ekki hversu hollt það er börn- um að mamma þeirra sé of mikið við hend- ina nema fyrstu mánuði og ár ævinnar. Þess vegna læt ég mig líka hverfa. Alveg eins og mamma gerði. Ég fer burt til að skrifa. Ég fer burt til að leikstýra. Ég fer burt þegar þörf krefur. Ég hef lifað með Rauðsokkahreyfingunni og Kvennalistanum, þótt ég hafi hvorugum félagsskapnum tilheyrt formlega, aðeins Kvenréttindafélaginu. Og það er bjargföst skoðun mín að femínismi og jafnréttisbarátta kvenna sé mikilvægasta og merkilegasta hreyfing í heiminum á okkar tímum. Fenn'n- ismi sem hefur sprengt sér leið inn í stjórn- málin, trúna, vísindin, leikhúsið, listina, dag- legt líf. Ég veit að ástandið er ekki sem skyldi, en ég veit hverju konur hafa áorkað. Ég er bæði bjartsýn og svartsýn á horfurnar. Ég er bjartsýn fyrir hönd kvenna sem lifa í þjóðfélögum þar sem þeim stendur menntun til boða og réttur til þess að takmarka barn- eignir sínar. I þeirra hópi verða sífellt fleiri konur sem velja leið Simone de Beauvoir og hafna móðurhlutverkinu. Ég tók við móður- hlutverkinu þegar það helltist yfir mig unga. Ég valdi það síðan aftur í tvígang af djúpri þrá. I fjórða sinn hafnaði ég því, komin á fimmtugsaldur. Þá gerði ég eins og Simone. Það olli mér langvinnri sorg og trega. En gaf mér nýjan skilning og þroska. Ég er svartsýn fyrir hönd kvenna sem hafa ekkert val. Mikill meirihluti kvenna í heiminum hefur ennþá ekkert val. 42 vCra

x

Vera

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vera
https://timarit.is/publication/858

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.