Lögmannablaðið - 01.10.2015, Blaðsíða 18

Lögmannablaðið - 01.10.2015, Blaðsíða 18
18 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 03/15 Á LÉTTUM NÓTUM Af Merði lögmanni Það hafði gengið á ýmsu hjá Merði upp á síðkastið. Ævisögu hans, sem hann gaf út um síðustu jól, hafði verið misjafnlega tekið og fengið heldur slæma dóma í Kiljunni þegar helstu menningarvitar þjóðarinnar fjölluðu um hana. Salan hafði ennfremur verið undir væntingum en þó bjargaði málum að stór pöntun vegna bókarinnar kom frá skrifstofu Hæstaréttar. Ítrekaðar óskir Marðar um að komast að í skilanefnd, slitastjórn eða einni af fjórtán nefndum ríkisstjórnarinnar sem störfuðu við að leysa gjaldeyrishöftin hafði öllum verið hafnað, þótt hann hefði ítrekað boðist til að lækka þóknun sína og endað á að bjóðast til að vinna fyrir algera lágmarksþóknun, 40 þús. krónur á tímann. En ekkert dugði til. Hann hafði meira að segja ákveðið að endurnýja skráningu sína í Framsóknarflokkinn, ef svo vildi til að hún hefði hugsanlega gleymst eða dottið út, enda hafði hann ekki verið skipaður í svo mikið sem nefnd eða starfshóp árum saman. Mörður hafði ávallt litið á veru sína í flokknum sem beinhörð viðskipti, þ.e. hann var flokksmaður gegn því að fá eitthvað í staðinn. En þegar hann mætti á flokksskrifstofuna í lopapeysu og gúmmískóm til að falla inn í hópinn hélt fólkið í afgreiðslunni hins vegar að hann væri vígreifur 101-hipster í mótmælahug og hringdi rakleitt á lögregluna. Mörður hafði því ákveðið að snúa sér að hótelbransanum. Þar virtist drjúpa smjör af hverju strái og duglegt fólk geta gert það gott. Hann fór á stúfana og fann tilvalið húsnæði, iðnaðarbil upp á Ártúnshöfða, sem hann fékk fyrir lítinn pening, og hófst handa. Fann notuð rúm úr þrotabúi Rúm, rúm, rúm ehf. sem hann hafði verið skipaður skiptastjóri yfir árið 1997 og aldrei klárað skiptin þannig að þau voru enn í vörslu búsins. Svo hringdi hann út iðnaðarmenn sem hann hafði unnið fyrir í gamla daga en aldrei fengið greitt, hótaði illvígum innheimtuaðgerðum en félst svo á að leyfa þeim að vinna upp í skuldina. Fljótlega varð gistiheimilið klárt, single bed á 100 evrur og double bed á 150 evrur. Morgunmatur ekki innifalinn en Mörður skaust stundum út á bensínstöð á morgnana og keypti samlokur með rækjusalati til að selja gestunum. Til að bæta við viðskiptin bauð Mörður gestum í túra um svæðið. Hann gekk með þeim um iðnaðarhverfin í kring, en þar sem hann talaði litla ensku, hafði hann leiðsögnina í stikkorðastíl. „Very beautiful“, sagði hann og benti til hægri. „Amazing“ og benti svo til vinstri. Gestirnir létu sér vel líka. Einu sinni spurði einn gestanna Mörð út í Norðurljós og fannst honum mikið til koma að gestirnir þekktu svona vel til hér í viðskiptalífinu og upplýsti svo um að Jón Ásgeir hefði keypt Norðurljós á sínum tíma. „It was... very very good deal“. Raunar gengu viðskiptin svo vel hjá Merði að fljótlega gat hann farið að huga að því að selja fyrirtækið. Eftir að hann birti smáauglýsingu í Bændablaðinu þar sem hann auglýsti gistiheimilið til sölu bárust ótal tilboð frá hinum og þessum sjóðum í eigu lífeyrissjóðanna. Mörður tók sér góðan tíma til að yfirfara tilboðin, lesa smáa letrið og kynna sér efni þeirra í þaula þar til hann loksins tók ákvörðun um hvaða tilboð yrði fyrir valinu. Ákveðinn var undirskriftardagur og fór Mörður í gömlu fermingarfötin, sinnepsgula skyrtu og setti upp drapplitað bindi. Horfði fullur aðdáunar á sjálfan sig í speglinum áður en hann gekk út; businessmaður fram í fingur góma. Þegar Mörður mætti til að skrifa undir og fá greitt, mætti hins vegar enginn frá sjóðnum. Í ljós kom að sjóðurinn hafði verulegar áhyggjur af nýsettu viðskiptabanni Reykjavíkurborgar á Ísrael þar sem langstærstur hluti gesta Marðar voru Ísraelsmenn, enda Mörður vel kynntur í heimi síonista fyrir afgerandi málflutning varðandi málefni Palestínu. Viðskiptamódelið er hrunið, útskýrði einhver smjörgreiddur sérfræðingurinn hjá sjóðnum fyrir Merði. Aðgerðir borgarfulltrúanna hugumprúðu höfðu gert blómlegan rekstur Marðar að engu. Það var því ekkert annað eftir að gera en að mæta á lögmannsstofuna á nýjan leik og byrja að harka. Hann hringdi niður í héraðsdóm og sagðist ekki hafa fengið þrotabú svo árum skipti, hvers konar mismunun væri eiginlega og hvort þetta færi nú allt til einhverra vildarvina. Jú, svaraði vingjarnleg rödd í símann, allt opið í þeim efnum en gott væri að þú kláraðir skiptin á Rúm, rúmum og rúmum ehf. áður en lengra er haldið.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.