Lögmannablaðið - 01.10.2015, Blaðsíða 35

Lögmannablaðið - 01.10.2015, Blaðsíða 35
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 03/15 35 AÐSENT EFNI GUNNAR INGI JÓHANNSSON HRL. Á UNDANFÖRNUM ÞREMUR árum hefur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) kveðið upp fjóra dóma gegn íslenska ríkinu, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að dómsúrlausnir íslenskra dómstóla hafi falið í sér brot gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Þetta er um þriðjungur allra mála sem MDE hefur dæmt í gegn Íslandi frá því landið gerðist aðili að MSE. Sami einstaklingurinn, blaðamaðurinn Erla Hlynsdóttir, var kærandi í þremur þessara mála. Meðal skýringa sem hafa heyrst, einkum úr ranni dómara, er hvort lögmennirnir sem ráku málin, hafi ekki vandað nægilega til undirbúnings þeirra fyrir íslenskum dómstólum. Ekki er því úr vegi að fara nánar yfir það á þessum vettvangi. Vikumál Í fyrsta málinu sem kært var til MDE hafði eigandi nektardansstaðar stefnt viðmælanda, blaðamanni og ritstjóra tímaritsins Vikunnar fyrir dóm til að þola ómerkingu ummæla, sem höfð voru eftir viðmælandanum, fyrrum starfsstúlku á nektardansstaðnum. Það undarlega atvik átti sér stað við aðalmeðferð málsins í héraði að stefnandi féll frá öllum kröfum á hendur starfsstúlkunni, sem þó hafði látið hin umdeildu ummæli falla, auk þess að greiða allan hennar málskostnað. Málinu hélt hann hins vegar til streitu gegn blaðamönnunum. Héraðsdómur sýknaði blaðamennina, m.a. með þeim rökum að viðmælandinn ætti að bera ábyrgð á ummælum sínum. Hæstiréttur sneri héraðsdómi hins vegar við, ómerkti nokkur ummælanna og lagði fébótaábyrgð á blaðamanninn. Rétturinn taldi hann höfund og ábyrgðarmann alls efnis, hvað sem liði ábyrgð viðmælandans, sem ekki var lengur aðili málsins. Meginniðurstöður MDE í málinu, sem gekk gegn Íslandi, hinn 10. júlí 2012, voru að sérstakar ástæður þyrftu að liggja til grundvallar því að fella ábyrgð á efni viðtala á blaðamenn. Slíkar ástæður væru ekki tilgreindar í dómi Hæstaréttar. MDE tók sérstaklega fram, að stefnanda hafi sannarlega staðið til boða að draga viðmælandann til ábyrgðar, en hafi þess í stað gert dómsátt við hann. Það hafi dregið verulega úr möguleikum blaðamannsins á að halda uppi vörnum. MDE benti á, að þrátt fyrir það hafi blaðamanninum tekist að renna stoðum undir sannleiksgildi ummælanna. Hæstarétti hafi hins vegar algerlega láðst að fjalla um þær varnir. Taldi MDE að spyrja mætti sig hvort blaðamanninum hafi í raun verið gefið sanngjarnt tækifæri til að firra sig ábyrgð í málinu. Með vísan þessa og frekari raka taldi MDE að dómur Hæstaréttar hafi falið í sér brot gegn 10. gr. MSE. Annað nektardansstaðamál Mánuði eftir að Hæstiréttur kvað upp dóm sinn í Vikumálinu var blaðamanninum Erlu Hlynsdóttur á dagblaðinu DV, birt stefna þar sem krafist var ómerkingar á ummælum og greiðslu miskabóta vegna ummæla viðmælanda hennar (Erla I). Málið var um margt líkt Vikumálinu. Í málinu var þó ekki einu sinni haft fyrir því að stefna viðmælandanum, heldur aðeins farið á eftir blaðamanninum. Fordæmið var enda komið. Í málinu reyndi lögmaður stefndu að byggja á dómum MDE og riti erlendra fræðimanna um inntak 10. gr. MSE og tjáningarfrelsi fjölmiðla. Allt kom fyrir ekki. Dómur gekk í jólamánuði sama ár og voru kröfur stefnanda, þ. á m. um miskabætur, teknar til greina. Reynt var að áfrýja málinu til Hæstaréttar, en sækja þurfti um áfrýjunarleyfi. Rétturinn hafnaði hins vegar beiðninni. Í þeirri ákvörðun fólst að útilokað væri samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að dóminum kynni að verða breytt svo að einhverju næmi, sbr. c-lið 4. mgr. 152. gr. eml. Málið var þá kært til MDE. Dómur MDE gekk sama dag og í Vikumálinu. Hann var jafn afdráttarlaus hvað varðar niðurstöðu um að brotið hefði verið gegn 10. gr. MSE. Dómurinn taldi, líkt og í Vikumálinu, undarlegt að stefnandi málsins hefði kosið að reka málið eingöngu gegn blaðamanninum en ekki viðmælandanum. Það takmarkaði varnir blaðamannsins. MDE taldi miklar gloppur í greiningu héraðsdóms á málinu og að rökstuðningur dómsins fyrir niðurstöðunni væri ósannfærandi. Héraðsdómur hefði t.d. fremur litið til tóns ummælanna en merkingar þeirra, dómurinn hefði enga tilraun gert til að greina hvort ummælin væru gildisdómar eða fullyrðingar um staðreyndir og hefði ekki haft neinar forsendur til að dæma málið út frá því hvernig hinn almenni lesandi gæti hafa skilið ummælin. Taldi MDE að efast mætti um að forsendur dómsins hafi í raun haft það að markmiði að vernda æru stefnanda. Það eru þung orð og mjög umhugsunarverð. Einnig verður umhugsunarverð í þessu ljósi sú ákvörðun Hæstaréttar að heimila ekki áfrýjun málsins. Ekkert svigrúm Í málinu Erla II hafði eiginkona fyrrum forstöðumanns Byrgisins höfðað mál gegn Erlu vegna blaðagreinar sem hún ritaði. Krafist var ómerkingar á 14 tilgreindum ummælum sem stefnandi taldi meiðandi. Eftirtekjan var þó heldur rýr. Þrettán ummæli, þar á meðal um stórlega siðferðislega ámælisverða háttsemi stefnanda, fengu að standa Fjórir dómar MDE

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.