Þjóðmál - 01.03.2011, Page 24

Þjóðmál - 01.03.2011, Page 24
22 Þjóðmál VOR 2011 varðar hann ekki sérstaklega, og hefur eitt og sér ekki veruleg áhrif á hvað hann þarf að greiða mikla skatta, þá er allt eins líklegt að hann hugsi um það með hliðsjón af rökum sem snúast um réttlæti og almannaheill . Farsælt lýðræði krefst þess umfram allt að verulegur hluti almennings láti slík rök móta afstöðu sína . Ef almennar atkvæðagreiðslur um pólitísk mál fjölga þeim sem það gera þá hljóta þær að verða til góðs . Ýmis fleiri rök má tína til sem mæla með því að nota almennar atkvæðagreiðslur í auknum mæli til að útkljá mál . Ég held til dæmis að í flóknu samfélagi sé þekking á ýmsum þjóðþrifamálum það dreifð að því fleiri sem eru spurðir því líklegra sé að niðurstaðan taki tillit til allra upplýsinga sem máli skipta . Mér sýnist sem þetta hafi til dæmis komið í ljós í mars á síðasta ári þegar landsmenn greiddu atkvæði um Icesave samninginn . Svo virðist sem stór hluti fólks í valdastöðum og með aðstöðu til að koma fram sem „fagaðilar“ eða „sérfræðingar“ í fjölmiðlum hafi trúað því að það hefði mjög miklar og slæmar afleiðingar að fella samninginn – að lítill einsleitur hópur hafi haft sömu sýn og hana mjög takmarkaða ef ekki beinlínis kolvitlausa . Ef þessi sýn hefði verið rétt og öll viðskipti við aðrar þjóðir hefðu stöðvast þegar samningnum var hafnað, þá hefðu miklu fleiri greitt atkvæði með honum, því þá hefðu starfsmenn fjölmargra fyrirtækja með viðskipti út fyrir landsteinana haft veður af þessari miklu vá, greitt atkvæði í samræmi við það og talið vini og samverkamenn á að gera slíkt hið sama . Í þessu tilviki reyndist þekking, sem var dreifð um samfélagið, notadrýgri en sérþekking (eða sérviska) einsleits hóps með völd og áhrif . Stundum er það fundið beinu lýðræði til foráttu að almenningur hafi minna vit á pólitík en stjórnmálamenn . Það er sjálfsagt talsvert til í því að um fjölmörg mál vita reyndir stjórnmálamenn meira en þorri almennings . En ef almenningur er á annað borð fær um að velja stjórnmálamenn til forystu í kosningum þá hlýtur hann að vera jafnfær um að meta hverjum skuli best trúað þegar rætt er um mál sem greiða þarf atkvæði um . Við þetta er því að bæta að þótt einn stjórnmálamaður viti kannski meira en einn almennur borgari er ekki þar með sagt að hann komist oftar að farsælli niðurstöðu en fjöldi almennra borgara sem greiða atkvæði um málið . Hugsum okkur að gögn sem máli skipta séu sum tiltæk stjórnmálamanninum og ráðgjöfum hans og sum dreifð sem óformleg og ókerfis bundin þekking meðal margra . Ef stjórnmálamaðurinn er heiðarlegur og skynsamur leggur hann öll gögnin sem honum eru tiltæk á vogarskálar og tekur ákvörðun eftir því á hvorn veg hallast . En ef hver og einn kjósandi gerir slíkt hið sama þá fer eitthvað í ætt við meðaltal af samanlagðri vitneskju þeirra á vogarskálar og niðurstaða kosninga fer eftir því á hvorn veg hallast . Er ekki líklegt að í mörgum pólitískum málum hafi fjöldinn, þótt fávís sé talinn, samanlagt miklu meiri þekkingu en þeir fáu sem telja sig best vita?

x

Þjóðmál

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Þjóðmál
https://timarit.is/publication/1175

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.