Litli Bergþór - 01.07.2016, Blaðsíða 20

Litli Bergþór - 01.07.2016, Blaðsíða 20
20 Litli-Bergþór Það er nóg að gera í Jarðarberjalandi í mars, apríl og maí, þegar uppskerutíminn er í hámarki, en í byrjun maí er framleiðslan þó farin að minnka og smá stund milli stríða til að spjalla. Þegar blaðamaður Litla-Bergþórs bankar uppá í gróðurhúsinu í Jarðarberjalandi taka þau Astrid og Ehud á móti honum ásamt hundunum þeirra, þeim „Ævintýri“ og „Olli“. Sá síðarnefndi er stærsti hundur sem undirrituð hefur séð, en þeir eru greinilega sauðmeinlausir báðir tveir og taka vel á móti gestum. Eins og vanalega byrjar blaðamaður á því að spyrja um ætt og uppruna viðmælenda og er það Astrid sem verður fyrir svörum. Ég kem frá Hollandi, er fædd í smábænum Boskoop nálægt Rotterdam, sem er einn frægasti bær í heimi fyrir garðyrkju. Fyrst var garðyrkjan eingöngu stunduð utandyra, en nú eru líka gróðurhús. Samgöngur og flutningar fóru áður fyrr fram með bátum á síkjum eins og í Feneyjum, en nú eru komnir vegir og brýr. Allt breytist. Foreldrar mínir eru báðir á lífi í Hollandi, faðir minn, Hans Kooij, er garðyrkjumaður og ræktar smátré og runna, móðir mín, Ellen Kooij – Hoffmann, ræktar hunda. Ég á eina systur sem er 3 árum eldri en ég, hún er 42 ára, gift og vinnur á veitingastað. Ég gekk í menntaskóla og tók kúrsa í garðyrkjuskóla, en mest lærði ég þó af föður mínum. Garðyrkjan er okkur í blóð borin í marga ættliði. Faðir minn, afi og langafi voru garðyrkjumenn, svo það er ekkert skrítið að ég skuli vera í þessu líka! Sagan á bak við það að við komum til Íslands er að faðir minn ræktaði stofublóm, sem þurftu að vera í kulda á veturna (í dvala) til að þau bæru blóm. Það var erfitt í Hollandi, ekki nógu kalt, svo hann reyndi að vera með þau í kæligeymslum. Það reyndist ekki vel. Hann var í viðskiptum við USA og þurfti þess vegna að fljúga til Baltimore. Ódýrasta flugið reyndist vera með Icelandair með stoppi á Íslandi og þá fékk hann þá hugmynd að það gæti verið hægt að nýta kuldann hér á Íslandi til að geyma blómin yfir veturinn. Það endaði með því að hann leigði gróðurhúsin að Stöllum hér í Biskupstungum árið 1996 og var hér í níu mánuði við að koma ræktuninni af stað. Honum fannst Stallar hinsvegar heldur langt frá Keflavík, en það þurfti að flytja plöntunar hingað með flugi og síðan aftur til baka eftir veturinn. Hann leigði því land í Keflavík og reyndi að vera þar með plönturnar úti, en þær þoldu ekki umhleypinginn á Suðurnesjum og dóu. Þá flutti hann ræktunina til baka að Stöllum, byggði þar annað gróðurhús og var því með tvö hús undir blómum. Árið 1998 bað hann mig um að líta eftir plöntunum á Stöllum í hálft ár og var það í fyrsta skipti sem ég var á Íslandi. Mér líkaði mjög vel á Íslandi, en ég var ung þá og ekki til í að festa mig. Vildi ferðast um heiminn og gerði það síðan meira og minna í tíu ár. Auðvitað þurfti ég samt að vinna inn á milli fyrir áframhaldandi ferðalögum. Framleiðslan á Stöllum lagðist því af eftir að ég var þar 1998, því það var erfitt að hafa eftirlit með plöntunum hér á Íslandi og dýrt að flytja þær. En árið 2005 talaði ég við föður minn og sagði honum að mig langaði að fara aftur til Íslands og væri til í að sjá um blómin hér. Þá keypti hann land hér í Reykholti af Sigurði Ásgeirssyni á Furubrún og byggði þetta gróðurhús. Og hér var ég síðan í 3½ ár sem umsjónarmaður ræktunarinnar og framkvæmdastjóri. Jarðarberjaland í Reykholti Viðtal við Astrid Kooij Geirþrúður Sighvatsdóttir Ehud og Astrid í í gróðurhúsinu í Reykholti.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.