Morgunblaðið - 21.11.1982, Síða 20

Morgunblaðið - 21.11.1982, Síða 20
20 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 21. NÓVEMBER 1982 „Þær svngja...“ Rætt vid feðginin Alcopley og Unu Dóru um myndir Nínu Tryggvadóttur, sýninguna í Listasafni alþýðu, nýja listaverkabók og fleira Afcopley og Una Dóra í vetrarsól í Vesturbænum. Ljó.mynd: Kri.ijén örn Ei»..on Nú stendur yfir í Listasafni alþýðu sýn- ing á smámyndum eftir Ninu Tryggva- dóttur og um þessar mundir er einnig að koma út bók um hana og verk hennar hjá Iceland Review, en Bókaklúbbur Almenna bókafélagsins dreifir bókinni. Þá lítur einnig dagsins Ijós lítið kver með fimm Ijóðum eftir Ninu, en þau mun hún hafa ort eitthvað fyrir 1950. Eins og kunnugt er, lést Nína árið 1968, en eiginmaður hennar, vís- indamaðurinn og listmálarinn Alcopley og dóttir þeirra, Una Dóra, sem einnig er listmálari, undirbjuggu sýninguna. Ég hitti þau að máli í íbúð Nínu heitinn- ar við Fálkagötu, en þau voru þá stödd hér á landi í tilefni af sýningunni og bókaútgáfunni. „Mig minnir það hafi verið í ársbyrjun, að Aðaisteinn Ingólfsson, ritstjóri listaverka- bókafiokksins, skrifaði okkur og lýsti áhuga á að næsta bók yrði helguð Nínu, ,en hin fyrsta var um Kjarval. Varð það úr, að Hrafnhildur Schram listfræðingur skrifaði textann." Það er Alcopley sem talar. Hann situr, nokkuð mikill um sig, í gömlum stól, sem einhvern tíma hefur verið stássmubla og á bak við hann er stór gluggi sem veit suður og úti er fagurt vetrarveður og sér yfir á Álftanes og fjær eru blá fjöll á Reykjanesi. í þessari stofu málaði Nína þegar hún dvaldi hér síðustu árin sem hún lifði, ætíð í nokkra mánuði á ári. „Hvað varðar sýninguna, þá hafði ég fyrir nokkuð löngu stungið upp á því, að sýning yrði haldin hér á smámyndunum, enda hafa þær aldrei verið sýndar áður. Ég nefndi þetta svo við Hrafnhildi þegar hún var stödd í New York nú í haust og hún sýndi þessu áhuga og hafði samband við Listasafn al- þýðu og það varð úr að halda þessa sýningu og það er óhætt að segja, að vel hafi tekist. Fólk hefur altént sýnt þessu mikinn áhuga og mjög margar myndir þegar selst. Við töldum það vel við hæfi að sýna þessar myndir hér á landi og gefa íslendingum færi á að eignast þær, enda þótt við hefðum sjálfsagt getað selt þær dýrara ytra. Við höfðum engan áhuga á því.“ Samtal okkar fer fram á ensku, en Una Dóra talar töluverða íslensku og skilur nán- ast allt. Alcopley segir hins vegar, að það hryggi sig alltaf að hann kunni ekki ís- lensku, því hann komi hér ekki sjaldnar en einu sinni á ári og hafi tengst landinu sterk- um böndum í gegnum Nínu og eigi hér mikla vinafjöld. Ég spyr, hvort smámyndir Nínu séu skissur að stærri verkum. „Nei,“ segir Una Dóra. „Þær lágu að vísu allar óinnrammaðar í möppum, en þetta eru nánast allt fullgerðar myndir. Eins og allir sannir listamenn hafði hún alltaf endanlega mynd í huga þegar hún var að máia, en auðvitað gerði hún stundum nokkrar mis- munandi tilraunir með sömu hugmyndina." g spyr hvort það hafi verið erfitt að velja myndir í listaverkabókina. „Það er alltaf dálítið strembið," segir Alcopley. „En ég held að útkoman sé nokkuð góð. Ég er reyndar mjög ánægður með bókina. Hún er til dæmis ólík svo mörg- um listaverkabókum um það, hve hún er létt og mátulega stór. Nína vildi alltaf sjálf helst bók af þessu tagi, ferhyrnda og ekki of stóra. Mér finnst líka að sérlega vel hafi tekist til við uppsetningu þessarar bókar.“ Við förum nú að tala svolítið um veðrið og Alcopley er hugfanginn af því hve fagurt sé um að litast í vetrarsólinni, svo bætir hann við um leið og hann bendir á fæturna á sér: „Ég lenti hins vegar í því í morgun að blotna svo illilega í fæturna þar sem ég var að bíða eftir strætisvagni að ég dreif mig í að kaupa þessi fínu loðstígvél, sko. Þau eru íslensk. Fín, ekki satt. Ég mun auglýsa þau, þegar ég kem til New York aftur." Ég spyr hvort myndir eftir Nínu séu til víða erlendis. „Já, já, mikil ósköp, á mörgum söfnum og svo miklu víðar, sem við vitum ekki um. Við bjuggum jú í fimm ár í París og þrjú ár í London áður en við settumst að í New York og hún hélt sýningar á öllum þessum stöðum og seldi myndir. En sýningarsalirnir vilja oft ekki gefa upp nöfh kaupenda listaverka til að listamennirnir fari nú ekki að selja myndirnar beint í framtíðinni og þeir missi af söiulaununum. Það er því erfitt að fylgj- ast með því hvert myndirnar fara, þær sem ekki fara á söfn. Það var skrýtið með þessa sýningu í Lista- safni alþýðu, að það voru dýrustu myndirn- ar sem seldust fyrst. Við verðlögðum þetta með það í huga að allir gætu eignast þessar myndir, en reiknuðum fremur með því að ódýrari myndirnar færu fyrst og í meira mæli, en sú hefur ekki orðið raunin. Þær dýrari hafa runnið út, en fólk þarf þó ekki að örvænta, þótt mikið seljist, því verkin verða áfram til sölu fram að jólum, enda þótt sýningunni sjálfri ljúki í lok þessa mánaðar. Við erum auðvitað mjög ánægð með þess- ar viðtökur, en ég er ekkert hissa. Þessar litlu myndir hafa vissa eiginleika sem stórar myndir hafa ekki. Þær eru einhvern veginn nánari. Þær syngja, ef ég má orða það þann- ig. Og fólk kann að meta þennan söng.“ Var ekki erfitt að stíga fyrstu skrefin sem listmálari, með þessa frægu for- eldra að baki sér, spyr ég Unu Dóru. „Jú, sérstaklega var það þó erfitt að taka þessa ákvörðun, að gerast listmálari, ég fór marga hringi í kringum þetta áður en ég þorði að taka af skarið, las „til dæmis lista- sögu, en svo ákvað ég að láta verða af því að gera það sem mig langaði mest til, að verða rnálari." Að loknu þessu spjalli göngum við út í góða veðrið, sem reyndar er ekki eins gott þegar út er komið og ímynd þess á rúðunni á stofuglugganum gaf fyrirheit um. Það er býsna kalt. En sjálfsagt er að nota birtuna til að taka ljósmynd af feðginunum. Þau segjast vera á förum utan að nýju eftir stutta dvöl hér. „Það er einn ókostur við að eiga svona marga vini á Islandi og vera boð- ið í öll þessi glæsilegu boð. Manni gengur bölvanlega að halda línunum," segir Alcopl- ey og hlær þar sem við tipium eftir glerhál- um gangstéttunum. „Þetta er eins og að ganga á eggjum," segir hann, „munurinn er hins vegar sá að ef við dettum verðum það við sem brotnum en ekki skurnin." Svo lýkur myndatökunni og leiðir skilja og daginn eftir halda Alcopley og Una Dóra til New York. En eitt er víst, segja þau, þau koma aftur. Texti: Sveinbjörn I. Baldvinsson Lióð eftir Nínu Tryggvadóttur LIF OG DAIIÐI Fyrir rúmum þrjátíu árum hannadi Nína Tryggvadóttir litla bók með fímm Ijóðum eftir sig og nokkrum svart/hvítum dúkristum. Þessi bók var aldrei gefín út og fann dóttir Nínu, Una Dóra, handritið að bókinni innan um teikningar listakonunnar látnu, nú ekki alls fyrir löngu. Núna hefur Iceland Review gefíð þetta Ijóðakver út, bæði á íslensku og eins á ensku í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar. Út- koma þessarar Ijóðabókar hlýtur að teljast til bókmenntaviðburða. Hér fer á eftir eitt Ijóð- anna, myndskreytingin er dúkrista úr bókinni. —SIB Ég stend á miðjum vegi einangruð, með ekkert framundan og ekkert að baki. Sérhver hreyfing er ný byrjun — sérhver byrjun flótti frá því sem var. Hvert skref formlaus tilfinning af ósigri. Ný refsing nýtt líf nýr dauði.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.