Morgunblaðið - 04.01.1984, Blaðsíða 12
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 4. JANÚAR 1984
12
Róleg áramót um allt land
ísafjörður:
Mikil ófærð
innanbæjar
RÓLEGT hefur verið hjá ísfirðing-
um yfir hátíðirnar og er ekki kunn-
ugt um slys, en snjófióð féll hér
þann 30. desember. Færð var
nokkuð góð fram að jólum, en var
slæm á jóladag. Rutt var á milli
jóla og nýárs, en á gamlársdag og
nýársdag var aftur orðið mjög
þungfært.
Ein áramótabrenna var á
gamlárskvöld, en fólk var þá lít-
ið á ferli vegna ófærðarinnar, en
mikið var um flugelda. Fiskiskip
fsfirðinga voru öll í höfn að
vanda yfir hátíðirnar.
Úlfar
Húsavík:
Bærinn bauð
á dansleik
Á gamlárskvöld var hér besta
veður og logaði glatt í brennu, sem
var norðan við bæinn. Þá var flug-
eldum skotið með meira móti og
segja má, að allt frá því að kveikt
var í brennunni klukkan 20 og
fram yfir miðnætti, hafi mátt sjá
flugelda eða blys á lofti.
Bærinn bauð, eins og undan-
farin ár, til dansleiks í félags-
heimilinu og var þar fjölmenni
mikið. Allt fór vel fram.
Fréttaritari.
Ólafsvík:
Fagurt veður
á nýársdag
HÉR í Ólafsvík var allt með
friði og spekt yfir hátíðirnar. Veðr-
ið var þó fremur leiðinlegt, setti
töluverðan snjó niður á aðfaranótt
aðfangadags. Eins var leiðinlegt
veður á gamlársdag, en skánaði á
miðnætti og á nýársdag var fagurt
veður.
Mikil kirkjusókn var um jóiin,
húsfyllir við messu á aðfanga-
dagskvöld, en öllu færra var við
kirkju á nýársdag, enda færð
innanbæjar þá mjög slæm. Tveir
dansleikir voru haldnir á ný-
ársnótt. Töluvert er um skreyt-
ingar í bænum og auk hinna
hefðbundnu settu Lionsmenn
upp ljósaskilti við nyrðri hafnar-
garðinn. Yfir jólin stóð á því
„Jól“, en tveimur dögum fyrir
áramótin var því breytt í „1983“
sem breyttist í „1984“ á mið-
nætti 31. desember.
Færð hefur verið slæm inn-
anbæjar. Nú er verið að hreinsa
norðurleiðina, en þar hefur sett
niður töluverðan snjó.
Helgi
Patreksfjörður:
Færð slæm,
sæsímastreng-
ur slitinn
Mikil ófærð er hér á Patreks-
firði og óhemju mikill snjór, sá
mesti í vetur. Jól og áramót voru
með hefðbundnum hætti, en
minna var um flugelda nú en áður,
enda var leiðindaveður framan af
á gamlársdag, en stytti upp þegar
líða tók á kvöldið og var sæmilegt
fram eftir nýársnótt. Götur eru í
dag ófærar nema jeppum og stærri
bflum.
Atvinnuástandið um þessi
áramót er bærilegt miðað við
árstíma og er frystihúsið tekið
til starfa. Bátar ætluðu út í
gærkvöldi en þá gaf ekki.
Eitt hefur þó sett strik í reikn-
inginn. Daginn fyrir gamlársdag
bilaði sæsímastrengurinn yfir
fjörðinn í Rauðasandshrepp,
sem er nú símasambandslaus,
svo og flugvöllurinn sem er
tengdur sama streng. Hefur
málið verið leyst á þann veg að
sveitin hefur verið samtengd við
tvo bæi, Neðri-Tungu og Kvíg-
indisdal. Á þessum bæjum eru
litlar talstöðvar og eru þær í
sambandi við lögreglustöðina, en
þar er nú vakt allan sólarhring-
inn, sem annars er ekki. En það
hefur þegar sýnt sig að slík að-
gát er nauðsynleg, því að í gær
voru sjúkraflutningar frá
Rauðanessandi. Einnig er lög-
reglubíll við flugvöllinn. Nýr sæ-
símastrengur er væntanlegur
með flóabátnum Baldri í dag.
Fréttaritari
Sandgerði:
Nokkurt
atvinnuleysi
NÚ ER við brugðið því stöðuga
atvinnuástandi sem hér hefur
verið og 63 eða 64 komnir á at-
vinnuieysisskrá. Líklega mun þó
úr rætast þegar togarar og bátar
leggja í hann og afli fer að ber-
ast. Afli er 5100 tonnum minni
en á síðasta ári. Annars eru
menn hér hressir og bjartsýnir
nema þá helst þegar minnst er á
kvótann. Menn voru mjög
ánægðir þegar því máli var frest-
að og trúa á að frestur sé á illu
bestur.
Áramótin fóru fram með
venjulegum og skikkanlegum
hætti. Tíðarfar hefur verið stirt
og leiðinlegt án þess þó að tjón-
valdandi stórviðri hafi skollið á.
Veðrið var rysjótt í haust og ekki
síður yfir jól og áramót og varð
meðal annars til þess að ára-
mótabrennu var frestað.
Símaþjónusta hefur jafnan
verið léleg hér og keyrði um
þverbak núna í haust og vetur
svo varla var hægt að ná sam-
bandi innanbæjar. Vanþróun í
búnaði hlýtur þarna að vera um
að kenna. Mótmælalisti lá
frammi á símstöðinni og held ég
að meginþorri símnotenda hafi
skrifað þar undir og hrepps-
nefndin bætti þar við mótmælum
sínum og áskorun á stjórn síma-
mála um úrbætur hið snarasta.
Hér byggist allt á sjónum og
þrátt fyrir þessi tvö vandamál
sem ég hef nefnt eru menn hress-
ir og bjartsýnir og vonast eftir
aukinni fiskgengd með hlýnandi
sjó kringum landið.
Fréttaritari
V estmannaeyjar:
Mikil
fólksfjölgun
NÝLIÐIÐ ár var mjög gott ár
hjá okkur Vestmanneyingum.
Ársafli var rúmum tólf þúsund
tonnum meiri en á síðasta ári en
hér byggist allt mannlíf á því
sem sjómenn okkar færa að
landi. Mjög ánægjuleg fjölgun og
endurnýjun var í fiskiskipaflot-
anum á árinu. Skuttogari og sjö
nýir bátar bættust við og tvö ný
togveiðiskip koma í byrjun næsta
mánaðar, en aðeins eitt fiskiskip
hefur verið selt úr bænum.
Bjartsýni og góður hugur er því
ríkjandi hjá útgerðarmönnum
hér og allt skýtur þetta styrkari
stoðum undir atvinnulífið.
Hingað hefur flust mikið af
fólki og orðið umtalsverð fjölgun
á íbúaskrá eða um það bil 75—80
manns. Munar þar mest um mjög
sterkan fæðingarárgang. 102
börn hafa fæðst hér á sjúkrahús-
inu, þar af eru tvennir tvíburar
og aðrir tvennir eru á leiðinni.
Nú eru 4730 á íbúaskrá og fer að
nálgast þann fjölda sem var hér
fyrir gos. Áramótin hér í Eyjum
voru friðsöm, dansleikir haldnir í
sjö húsum fram á morgun.
Undirbúningur er hafinn fyrir
vertíðina og Vestmanneyingar
láta engan bilbug á sér finna þótt
ýmsar blikur séu á lofti í sjávar-
útvegsmálum og stefni í það að
sjómenn okkar verði skikkaðir til
að veiða eftir skömmtunarseðl-
um á árinu. Vestmanneyingar
miða aðaliega við þrennt, sem
skeri úr um hvort ár hafi
verið gott eða slæmt, í fyrsta lagi
aflbrögð og þau voru góð, í öðru
lagi veðrið á þjóðhátíðinni og það
var gott og í þriðja lagi gengi
fótboltaliðsins sem að vísu var
ekki alveg eins og skyldi.
Ef á heildina er litið má þó
telja árið gott. Hvað fótboltann
varðar er það ekki eðli okkar að
gefast upp þó móti blási og er nú
stefnt að að koma liðinu beint í
fyrstu deild aftur á þessu ári.
Kvikmyndin „Nýtt líf“ setti
nokkurn svip á bæinn, almenn
ánægja var með frammistöðu
heimafólks og fékk myndin
ágætis viðtökur. Flestir voru þó
sammála um að þetta væri fyrst
og fremst grínmynd eða allavega
„all-ýkt líf“.
hkj.
Stöðvarfjörður:
Mikið um
dansleiki
HÉR er allt farið að snúast á ný
eftir hátíðirnar og atvinnulífið
að komast í fastar skorður. Verið
er að útbúa togarana okkar,
Kambaröst og Krossanes, á ver-
tíð. Þeir voru geymdir í höfninni
á Reyðarfirði yfir hátíðirnar en
fara á sjóinn í dag. Þá er verið að
skipa út freðfiski og síldarflök-
um. Veður hefur verið þokkalegt.
I kringum hátíðirnar var mikið
um dansleiki, sá fyrsti var hald-
inn annan jóladag, síðan var hið
árvissa hjónaball haldið 29. des-
ember en það er undibúið og
skipulagt af hjónaballsnefnd
hverju sinni. Um áramótin fór
allt vel fram, brenna var á
íþróttavellinum, björgunarsveit-
in hélt flugeldasýningu og ný-
ársdansleikur stóð fram til sjö
um morgunin.
Steinar
Akureyri:
Aramótahelgin
rólegri en
venjuleg helgi
TÍÐINDALÍTIÐ var á Akureyri yf-
ir hátíðirnar og fóru hátíðahöldin,
bæði um jól og áramót, fram með
friði og spekt. Var áramótahelgin
rólegri en venjuleg helgi að sögn
lögreglunnar. Blíðskaparveður var
bæði um jól og áramót og ágætis-
færð nema þá helst á gamlársdag.
Á gamlárskvöld var mikið um
flugelda, einnig voru hér þrjár
stórar brennur og skátarnir
héldu þeim skemmtilega sið að
mynda með ljósum í Vaðlaheiði
1983 sem breyttist í 1984 á mið-
nætti gamlárskvölds.
GBerg.
Egilsstadir:
Anægjuleg
áramót
Egilsstödum, 3. janúar.
ÁRAMÓTIN voru ánægjuleg hér
um slóðir og veður hið besta þótt
kalt væri.
Aftansöngur var kl. 18 á gaml-
ársdag í Egilsstaðakirkju. Þar
frumflutti kirkjukórinn jólasöng
eftir Rúnar Vilhjálmsson.
Skömmu fyrir miðnætti var
kveikt á stórum bálkesti, sem
hlaðinn hafði verið upp á auða
svæðinu milli kirkjunnar og
menntaskólans. Þar safnaðist
múgur manns saman, skaut upp
flugeldum, söng og fagnaði þann-
ig nýju ári um leið og hið gamla
var kvatt.
Um klukkan eitt á nýársnótt
hófst dansleikur í Valaskjálf og
stóð hann fram undir morgun.
Þar var húsfyllir og fór hann hið
besta fram.
I gær, nýársdag, logaði enn
skært í báikestinum, en menn
notuðu daginn til útiveru, hvíld-
ar eða til að heimsækja kunn-
ingjana.
— Olafur.
Grúnsstaðir á Fjöllum:
Sjálfvirkur
sími
JÓLIN eru bara liðin og allt
komið í fastar skorður. Rót er að
komast á það fólk sem kom hér
um jólin. Állir þurfa að mæta til
sinna starfa og í dag verður
keyrt með það á snjóbíl inn í Mý-
vatnssveit þaðan sem opin er leið
til Akureyrar. Hér hríðar flesta
daga, snjórinn er töluverður og
það illa lagaður að ekki er hægt
að troða slóð og því ekki einu
sinni jeppafært. Snjóbíllinn og
vélsleðar bjarga okkur því hvað
samgöngur snertir.
Annars amar ekkert að okkur
hér, jólasendingar og póstur
komu í tæka tíð fyrir, en alltaf er
reynt að hafa póstinn snemma á
ferðinni svo hann verði ekki
strand. Sjálfvirkur sími komst
hér á í nóvember. Allar skepnur
eru í húsi og þeim gefið inni, og
sá tími er núna að fólk tekur líf-
inu með ró.
Benedikt
Sauðárkrókur:
Skammdegið
stutt vegna
góðs tíðarfars
ÁRAMÓTIN hér voru róleg og
laus við óhöpp. Tíðin hefur verið
mjög góð og við sloppið blessun-
arlega vel við fannfergið sem tíð-
um hefur verið hér allt í kring.
Það er fyrst núna í kringum ára-
mót að maður sér einhvern snjó.
Vegna hins ágæta tíðarfars hef-
ur skammdegið verið ákaflega
stutt í hugum okkar.
Atvinnuástand hér er þokka-
legt en það miðast einatt við
aflabrögð. En togararnir eru að
fara út þessa dagana. Skemmt-
anahald um jól og áramót hefur
verið með líku sniði og áður.
Leikfélagið sýndi í síðasta sinn
um jólin leikritið Deleríum Bú-
bónis en það þótti takast mjög
vel.
Jón