Norðurljósið - 01.02.1963, Síða 2
10
NORÐURLJÓSIÐ
óvina Krists og andstæðinga hafði hann engan kjark til
að taka afstöðu sína með Kristi. Brestur þig kjark til að
kannast við trú þína á Krist? Er ekki andlegur svefn,
bænarleysi, orsök þess?
„Rís upp frá dauðum,“ segir Drottinn. Andlega sofandi
maður, þú ert meðal hinna dauðu. Þú ert meðal manna,
sem dauðir eru í syndum og yfirtroðslum. Þú kannt vel
við þig þar. Þótt blótsyrðin dynji sem haglskúr og alls
konar ósiðlegt orðbragð. Þú lætur þetta afskiptalaust,
áminnir engan, bendir ekki nokkrum á orð Krists: „Ég
segi yður: Sérhvert ónytjuorð, það er mennirnir mæla,
fyrir það skulu þeir á dómsdegi reikning lúka.“ Siðferðis-
leg rotnun andlegra dauðra manna, hún kemur í ljós í
orðum þeirra, „því af gnægð hjartans mælir munnur hans.“
„Vakna þú, sem sefur, og rís upp frá dauðum," segir
Drottinn. „Hvernig get ég það?“ segir þú. Við skulum
athuga svar við þessari spurningu.
Andlegur svefn er synd. Hann er óhlýðni við boð Krists
að vaka og starfa, ávaxta pundið, sem þér er selt í hendur,
trúað fyrir.
Fyrsta sporið er því að játa synd sína fyrir Guði, því að
ritað er: „Ef vér játum syndir vorar, er hann trúr og rétt-
látur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar
oss af öllu ranglæti“ (I. Jóh. 1, 9.) Þitt er að játa, kannast
við ástand þitt, Guðs er að fyrirgefa og hreinsa. Hann
fyrirgefur þér vegna dauða Krists fyrir þig, því að „blóð
Jesú, sonar hans, hreinsar oss af allri synd.“
Á þessum grundvelli, að þér sé fyrirgefið og að þú sért
hreinn vegna blóðs Jesú, sonar Guðs, biður þú Guð að
fylla þig heilögum Anda, íklæða þig kraftinum frá hæð-
um. Þú reiðir þig á fyrirheit Guðs, sem hann gefur þeim,
er vakna og rísa upp frá dauðum: „Þá mun Kristur lýsa
þér.“ Hann mun uppljóma skilning þinn og sýna þér
sjálfan sig. Þú munt sjá, að hann sjálfur er líf þitt, kraftur
þinn, og að þú megnar allt fyrir kraft hans, sem styrkir
þig. (Fil. 4. 19.) Hann mun sýna þér, að hann klæddi sína
fyrstu votta kraftinum frá hæðum, fyllti þá heilögum Anda,
og gerbreytti þar með ævi þeirra og starfi. Hann mun
einnig gerbreyta ævi þinni og láta þig bera einhverja þá
ávexti, sem verða Guði til dýrðar og mönnum til bless-
unar. Þetta hefir hann gert fyrir þúsundir manna. Hann
er enn að gera það.
Vertu með í hópi þeirra, sem vakna og rísa upp frá
dauðum, því að þá mun Kristur lýsa þér, birtast þér.
S. G. J.
---------x —■—
JOLABLAÐ O G JÓLALESBÓK
ÓLAFSFIRÐINGS
Ritstj. Nlj. bárust í hendur þessi blöð á sínum tíma.
Sóknarpresturinn, sr. Kristján Búason, átti þar mjög svo
fróðlega grein fyrir marga um „tímatal og fæðing Krists.“
Ekki verður þetta gert að urnræðuefni hér, en því bætt
við grein sr. K. B., að bæði Rómverjar og Egyptar höfðu
jólatré til forna, þótt sá siður væri ekki tekinn upp í
kristninni fyrri en í byrjun 17. aldar.
Það voru greinar eftir ungmenni í Ólafsfirði, sern vöktu
mest athygli mína.
Erla Magnúsdóttir skrifar „Fullorðna fólkið og ég.“
Tjáir hún sömu söguna, að alltaf er sett út á unglingana
af fullorðna fólkinu. Rifjast nú upp fyrir mér, hvað móðir
mín var vön að segja, er hún heyrði eldra fólkið álasa hin-
um yngri. Hún sagði: „Kýrin man ekki, að hún hafi
kálfur verið.“ Þarfnast þau orð ekki frekari skýringa.
Erla drepur á útivist unglinga á kvöldin, sem meðal
annars stafi af skorti á verkefnum, svo sem basti og tág-
um til heimavinnu. Þetta minnti mig á forna daga, er ég
kenndi drengjum handavinnu. Þeir fengu að fara heim
með verkefni sín. Einhver hafði orð á því við mig, að
drengir undu sér inni við þetta á kvöldin í stað þess að
ólmast úti. Erla bendir því áreiðanlega á eina góða leið
til úrbóta, sem skólastjórar og kennarar ættu að taka til
athugunar.
„Laun heimsins“ hét þar bernskuminning eftir Mikael
Mikaelsson. Hann og leikbróðir fundu dauða liænu, er
þeir voru sex ára gamlir, og fengu þá hugmynd að koma
henni til Guðs. Var farið með hana í kirkjugarðinn þeirra
erinda. En þá kom amma gamla og sótti þá, og þeir voru
hirtir fyrir tiltækið, er heim kom. Fullorðna fólkið skildi
þá ekki betur en þetta. Hér er aftur sama sagan og hjá
Erlu, skilningsleysi fullorðna fólksins á börnum og ung-
lingum. Munum við sem fullorðin erum, seint vaxa svo,
að við getum ekki haft gagn af því að heyra, hvað hinir
yngri finna að okkur.
„Komið til mín,“ eftir Gest, lýsir því, er höf. vill gefa
jólagjöf. Það verður dýrmætur kristalsvasi, sem lagt er af
stað með. En vinurinn, sem á að fá hann, opnar aðeins
dyrnar og býður Gesti ekki inn, sem hann þó hafði áður
heitið vináttu sinni. Gestur snýr því vonsvikinn heim. Sér
til fróunar brýtur hann vasann. En síðan tekur hann biblí-
una og les þar orð frelsarans „Komið til mín, allir þér,
sem erfiðið og þunga eruð hlaðnir, og ég mun veita yður
hvíld.“ Hann les áfram, og smám saman kemur friður í
sálu hans.
Kristalsvasinn dýrmæti, er hann ekki líf okkar, framtíð,
sem við viljum svo fúslega gefa einhverjum eða einhverri
með okkur, sem ekki tekur á móti okkur? Vonbrigðin nísta
hjartað. Þá fleygja sumir lífinu frá sér með sjálfsmorði,
eða þeir steypa sér í óreglu, drykkjuskap eða lausung.
Sælt er það hjarta, er á slíkum stundum gerir hið sama
og Gestur í sögu sinni, finnur frið með því að koma íil
orða Drottins Jesú. Bezt af öllu er að gefa honum vasann
sinn, áður en hann er brotinn, líf sitt, áður en því er
glatað. En undarlega vel getur almættishönd Frelsarans
gert upp aftur brotna vasa, sem honum eru gefnir, endur-
skapað mannsævi, sem komin er í rústir, sé hún alveg
helguð og gefin honum.
Höfundunum ungu í Ólafsfirði og öðrum í þeirra spor-
um vil ég benda á Drottin Jesúm. Þegar skilningsleysi
okkar hinna fullorðnu særir eða nístir hjörtu þeirra, Þá er
það í raun og veru kall frelsarans: „Komið til mín, allir
þér, sem .... þunga eruð hlaðnir, og ég mun veita yður
hvíld.“ Enginn þarf að kvarta yfir skilningsleysi hans eða
kulda. Hann veitir því viðtöku, sem honum er gefið. Gefi