Heimskringla - 09.03.1932, Blaðsíða 6

Heimskringla - 09.03.1932, Blaðsíða 6
e. ss>a HEIMSKRINGLA WINNIPEG 9. MARZ 1932. A HASKA TIMUM \ Saga frá uppreisninni á Indlandi. Eítir George A. Henty "Ekki til neins," svaraði Hunter. "Töfra- menn svara aldrei spurningum. Allir þessir æðri stétta töframenn skoða kunnáttu sína sem sannan helgidóm, og það eru ekki dæmi til að nokkur þeirra hafí opnað munn sinn, þótt stórfé hafi verið boðið þeim. Og þótt einhver vildi spyrja Rujub, þá verður ekki af því ni'i, því hann er horfinn ásamt stúlkunni, og alt sem þeim tilheyrir. Þau hafa eflaust læðst í burtu undireins og seinustu sýníngunni var lokið og áður en við kveiktum á lömpunum. Eg sendi þó eftir honum undireins, en vinnu- mennirnir fundu hann hvergi, og fellur mér það illa, því eg átti eftir að borga honum." "Eg er ekkert hissa á því, " sagði doktor- inn. "Það er í samræmi við það, sem eg hefi oft heyrt af þeim. Þeir hafa ofan af fyrir sér með því að sýna það, sem menn kalla almenn töfrabrögð; en hérlendir menn hafa sagt mér, að þegar þeir sýna yfirnáttúrlega leiki, þá taki þeir aldrei peninga fyrir það. Þeir sýna þessa æðri töfra ekki nema til að þóknast voldugum héraðshöfðingja, og það er sannar- lega sjaldgæft að Norðurálfumönnum gefist kostur á að sjá annað eins. En eg held við ættum nú að fara inn til kvenfólksins. Eg í- mynda mér helzt að það kæri sig ekki um að koma út hingað í kvöld." Það reyndist rétt til getið. Konurnar voru auk heldur of utan við sig til þess að tala nokkuð, svo gestirnir kvöddu rétt strax og héldu heim tii sín. "Komdu, Bathurst, við skulum fá okkur í pípu," sagði doktorinn er hann gekk af stað. "Eg hugsa að okkur verði hvorugum svefn- samt hvort sem er, fyrst um sinn. Hvert er nú þitt álit á öllu þessu?" "Mitt álit er, að okkur sé ofvaxið að gera grein fyrir því, með nokkrum þeim náttúru- öflum, sem okkur eru kunn," svaraði Bath- urst. "Það er einmftt mitt álit," sagði doktor- inn, "og hefir verið, síðan eg fyrst sá þessa æðri töfraleiki hér í landi. Eg hefi ekki minstu trú á nokkru yfirnáttúrlegu í þessu sambandi, en eg trúi að til séu margvísleg náttúruöfl, sem við" höfum ekki enn lært að þekkja. — Réttar sagt, er það álit mitt, að það sé einn sá fróðleikur, sem þjóðirnar hafa glatað, að að minsta kosti okkar vestrænu þjóðir. Trúin á töfrakraft er eins gömul eins og það elzta, sem sögur fara af. Töframennirnir við hirð faraóanna, eða Egyptalandskonunga, gátu kastað göngustöfum sínum á hallargólfið og umhverft þeim í höggorma. Nornin Engedor í landinu helga, framleiddi svip Samúels spá- manns. Forn-Grikkir voru engir heimskingj- ar, og þeir trúðu goðspám. Töframenn komu með galdrabækur sínar og brendu þær í við- urvist Páls postula, og það — taktu eftir — voru ekki þeir, sem þóttust vera töframenn, heldur þeir, sem virkilega voru fræðimenn í þeim efnum." "Ferðamenn um Persaríki og um Indland hér fyrrum, hafa lýst miklu yfirgengilegri töfraleikjum, en þessum hér í kvöld. Og það er virkilega til flokkur manna — ekki samt sérstakur trúflokkur — hér á Indlandi, og all- ir miklir hæfiieikamenn, sem fastlega trúa því, að þeir hafi nærri algert vald yf'ir náttúruöfl- unum. Lítum á okkar eigin störf. Hefði ein- hver sagt fyrir hálfri öld síðan, að við gætum nú ferðast fimtíu mílur á klukkustund, eða sent orðsendingu fimm þúsund mílna leið á einni mínútu, þá hefði sá spámaður verið tal- inn ólæknandi vitfirringur. Það er eins víst að fleiri jafmundraverðar uppfyndingar verði gerðar síðar." "Núna, þegar eg var á Englandi, heyrði eg talað um trúflokk, sem kallar sig anda- trúarmenn, og á meðal þeirra eru sagðir menn sem þykjast geta flogið í lausu lofti, og er sérstaklega til þess nefndur ungur maður, Herne að nafni. Nú, mér dettur ekki í hug að halda fram, að nokkur hafi slíkt vald yfir þyngdarlögmálinu, en hugsi maður sér það vald til, þá er auðráðin gátan um hvarf stúlk- unnar af stönginni. Hugsum okkur ennfrem- ur aukinn að sama skapi hæfileika Skota, að "sjá í gegnum holt og hæðir", sem maður segir, og sameini við þann hæfileika valdið, til að láta aðra sjá það, sem fyrir þann skygna ber, þá er líka ráðin gátan um mynd- irnar, sem við sáum á gufunni. En þá verðum við samt að gerá ráð fyrir að þær séu réttar, og hvað mig sjálfan snertir, þá er það mín skoðun, að framtíðarmyndin reynist rétt, þó þér máske þyki ólíklegt, að við báðir og Miss Hannay förum fótgangandi um landið t Hindúagervi. Þegar hér var komið, voru þeir komnir heim að húsi doktorsins, og slitnaði þá sam- ræðan. En eftir að þeir voru búnir að hag- ræða sér, sagði Bathurst: "Það er þó æfinlega eitt, sem rifjaðist upp fyrir mér í kvöld. Þú manst að eg sagði þér frá, að þegar eg sá Miss Hannay fyrst, hefði mér endilega fundist eg hafa séð hana áður. Þú hlóst að því, og sýndir mér hve ó- mögulegt það var, en eg var viss í minni sök eigi að síður. Nú veit eg hvernig þessu er varið. "Eg sagði þér líka frá þessum "upp- stigningar"-leik, og að stúlkan hefði horfið- af stönginni. En eg sagði þér ekki ,og þú skilur hvers vegna eg ekki vildi hafa orð á því, að Rujub hefði á sama tíma sýnt mér myndina á sama hátt og hann gerði það í kvöld. Hann sýndi mér mynd af húsi, er stóð sér í girðingu og umhverfis það var hár garður. Eg tók lít- ið eftir húsinu, en víst var það líkt flestum okkar stærri húsum, og gæti gjarna hafa ver- ið húsið hérna í miðju þorpinu, sem Mr. Hun- ter hefir fyrir dómhús, geymsluhús og svo framvegis. En eg segi ekki, að það hafi verið húsið. Skarð hafði verið brotið í garðinn og var þar háður æðislegur bardagi. Sepoyar sóttu að, en hvítir menn, bæði hermenn og þjónustumenn, vörðu. Uppi á húsþekjunni, sem var flöt, voru hvítir menn og skutu stöðugt af rifflum. Þar uppi voru tvær eða þrjár konur, og voru, má eg segja, að hlaða riflana, og meðal þeirra var ein, sem sérstak- lega vakti eftirtekt mína. Og nú í kvöld sá eg alt í einu, að það var rétt mynd af Miss Hannay — eg er alveg viss um það." "Það er undarlegt, drengur minn," sagði doktorinn eftir litla þögn. "Þá sérð þú líka, að sú mynd hefir reynst rétt, að því leyti, að þú ert nú orðinn kunnugur stúlku, sem myndin sýndi þér, en sem þú ekki hafðir þekt áður." "Eg trúði.nú ekki því, sem myndin sýndi mér þá," sagði Bathurst, "og eg trúi því ekki enn. Það var eitt atriði, sem myndin sýndi, sem eg því miður veit að ekki getur látið sig gera." "'Hvað var það?" spurði doktorinn Bathurst sat hugsandi dálitla stund, en sagði svo: "Þú ert gamall vinur, doktor, og skilur máske í mínum raunum, og getur svo betur gert greinarmun en flestir aðrir. Eg þykist vita, að þú hafir heyrt ýmsar sögur um það, hvers vegna eg yfirgaf herinn stuttu eftir að eg kom út hingað, en gekk í stjórnarþjón- ustu?" "Já, eitthvað sögurugl var nú á ferðinni um það," svaraði doktorinn, "að eftir orust- una við Chilhanwaila hefðir þú farið heim veikur, og hefðir síðan selt herréttindi þín öll af því þig hefði brostið kjark. En svo er ó- þarft að segja, að eg trúði engu slíku, því niðrandi sögur fljúga æfinlega fjöllunum hærra, ef einhver maður yfirgefur stöðu sína í hernum." "En þessi frásögn var sönn, doktor," svaraði Bathurst. "Það er hræðilegt að segja það, en það er samt satt, að hugleysi er meðfæddur eiginleiki minn. í einu orði sagt, eg er bleyða!" "Eg trúi því ekki," svaraði doktorinn með áherzlu. "Eftir að hafa kynst þér, segi eg það eitt, að eg tryði hugleysissögum um alla menn fremur en þig." "Þetta er mitt þyngsta böl," hélt Bath- urst áfram, "ósegjanleg ógæfa, því eg viður- kenni ekki, að það sé á nokkurn hátt mér að kenna. Eg er ekki bleyða nema að nokkru leyti. Mér finst eg ekki mundi hræðast á hverju sem gengi, ef þögn væri samfara hætt- unni. Það er hávaðinn, sem eg hræðist — þoli ekki. Þegar skot ríður af byssu, missi eg vald yfir sjálfum mér og titra allur og skelf, enda þótt ekki sé gert meira en sprengd ein hvellhetta. Þegar eg fæddist, var faðir minn á Indlandi, og stuttu áður en eg fæddist, varð móðir mín ákaflega hrædd. Það brutust þjóf- ar inn í hús hennar, og komu inn í herbergi hennar. Þeir hótuðu að skjóta hana, ef hún hreyfði sig. Vinnufólkið vaknaði í þessu og komu vinnumennirnir þegar með skotvopn og barefli. Varð þar hörð rimma á milli þeirra í myrkrinu og sko riðu af, en að lokum höndl- uðu vinnumennirnir þjófana og færðu í bönd. En það leið yfir móður mína, og frá þeirri stundu fékk bún aldrei heilnu aftur, en dó fáum dögum eftir að eg fæddist, og kendi læknirinn því um, að ofsahræðslan, sem greip hana, hefði lamað allar hennar taug- ar og fyrir það hefði hún látið iífið." "Eg ólst upp lasburða, hugdeigur og feiminn, og fékk fyrir það margar skrófur i skóla. Faðir minn, sem eins og þér er kunn- ugt, var hershöfðingi, kom ekki heim að sjá mig fyr en eg var orðinn tíu ára gamall. Sem auðvitað var, féll honum illa, hvernig eg var, og það vitanlega jók böl mitt, og var sem hugleysi mitt og feimni ykist nú æ meir með hverjum degi. í siðferðislegum skilningi var eg þó engin bleyða. Eg get sagt með sönnu, að eg sagði aldrei ósatt í skóla til að komast hjá hegningu, og einmitt fyrir það fékk eg ó- vinsæld skólabræðra minna. Kölluðu þeir mig fyrir það "læðuna", og um það fanst mér meira en þó þeir hefðu kallað mig bleyðu. "Með aldrinum fékk eg þó heilsuna og varð stór og sterkur, og var þá óhræddur að taka þátt í hreðuleikjum í skólanum. Eg lærði að ríða og fara með hesta og taka þátt í ýmiskonar íþróttum, og vandist smám saman á það að fá traust á eigin mætti, og þó eg hefði enga tilhneigingu til að ganga í herinn, þá vildi faðir minn það umfram alt, og eg hafði þá ekkert á móti því. Eg vissi að vísu, hve illa eg þoldi skothvelli, því það leið yfir mig í fyrsta skifti, sem faðir minn fékk mér byssu og lét mig hleypa af henni, en svo hugsaði eg nú þá, að það væri sprottið af geðshræring, af því það var í fyrsta skifti, sem eg handlék byssu, og hélt að þessi óstyrkur mundi hverfa með fullorðins- árunum. Én eg bar ekki við að hleypa af byssu í annað sinn, svo mikil var óbeit mín á skotvopni. "Mánuði eftir að eg gekk í herinn, var herdeild mín send út hingað, og er hingað kom, hittist svo á, að við komum mátulega til að taka þátt í orustunni við Chillianwalla, með því að ganga hart og hvíldarlaust upp þangað frá lendingarstaðnum. Til þessa hafði eg því bókstaflega enga reynslu fengið við skotæfingar. Eg man ekki eftir neinu í sam- bandi við orustu þessa, því frá því fyrsta skothríðin reið af, var eg máttvana og eins og í leiðslu. Eg sá hvorki né heyrði, þó eg hreyfðist eins og ósjálfrátt, og þó viljakraftur eða* eðlishvöt, til allrar hamingju héldi mér altaf á mínu ákveðna sviði í fylkingunni. — Þegar alt í einu að skothríðin hætti og þögn- in varð eins tilfinnanleg og hávaðinn hafði verið, hneig eg niður meðvitundarlaus. Til allrar hamingju sögðu iæknarnir, að ofsa- hitaveiki hefði gripið mig, og var það að vísu satt, og lá eg svo milli lífs og dauða í hálfan mánuð. Að þeim tíma liðnum var eg fluttur ofan að sjálvarströndinni, og þaðan sendi eg skilríki mín og sagði mig úr hern- um, en tók mér far til Englands. Faðir minn, sem enn var heima, reiddist mikið, þegar eg sagði honum allan sannleikann, enda afsak- andi, þó honum félli illa að eiga svona hiig- lausan son. Af þessu leiddi, að heimili mitt varð mér alt annað en skemtilegt. Og þess vegna gleypti eg umhugsunarlaust við því boði frænda míns eins, sem var einn af stjórn- endum Austur-Indlands félagsins, að fara hingað austur sem stjórnarþjónustumaður. Mér fanst eg mundi geta lifað og dáið í þeirri þjónustu, án þess að heyra skot ríða af byssu. "Þú getur nú gert þér grein fyrir, hve mikirtn kvíðboga eg ber fyrir sögunum, sem ganga um ókyrð Sepoya og möguleika á uppeisn. Það er ekki svo að skilja, að eg sé lífhræddur. Það er þvert á móti. Eg hefi þjáðst svo mikið síðastliðin átta ár af þeirri meðvitund, að það viti allir, hvers vegna eg yfirgaf herinn, að dauðinn væri mér kærkom- inn gestur, ef hann bara kæmi þegjandi. Sú hugsun er mér óbærileg, að geta ekki tekið minn þátt í sókn og vörn, ef styrjöld er í yændum, og sú hugsun hefir aldrei verið ó- bærilegri en einmitt nú. "Nú getur þú líka gert þér grein fyrir þeirri skoðun minni, að það sé bókstaflega ómögulegt að það komi fram, sem myndin sýndi, að eg stæði og berðist í broddi fylk- ingar við Sepoya, og mitt í dynjandi skothríð úr öllum áttum. En þetta er hræðileg saga frásagna:. vuktor. Eg hefi engum sagt hana, síoan eg sagði föður mínum heitnum frá vanmæUi mínum, en eg veit að þú, sem lækn- ir og , inur, munir vorkenna mér, fremur on að s.ikfella mig." 10. Kapítuli. Eftir að Bathurst hafði lokið sögunni, gekk doktorinn til hans, lagði hendina á öxl honum og sagði: "Nei, það er langt frá því að eg vilji sak- fella þig, Bathurst. En það er satt, að eins og við erum hér sett, þó eg auðvitað voni altal' að allar þessar sögur séu ástæðulaust mas, þá er það sorgleg ógæfa, að þú ert svona bygður. Satt er það líka, að eg er hissa á sögu þinni. Af viðkynningu og af útliti að dæma, mundi eg hafa getið til, að þú værir fljótur til og viðkvæmur, en að þú mundir reynast hægfara og ráðagóður, þegar hætta vofði yfir. Og sannarlega ert þú engin sök í þessum vanmætti tauganna. Það er þér ger- samlega ósjálfrátt." "Það er mér léleg huggun, doktor," svar- aði Bathurst. "Fólk er ekki að spyrja um or- sök eða afleiðing, en bendir hugsunarlaust með háði og fyrirlitningu á þann, sem er bleyða. Ógæfan er falin í því, að eg er hér. RobiitlHood FI/ÖUR MJÖLIÐ, SEM BÚIÐ ER TIL ÚR BEZTU UPPSKERU VESTURLANDSINS. Heima á Englandi hefði eg getað lifað hundr- að mannsaldra, án þess nokkru sinni að lenda í skotvopnahættu. En svo var eg nú svo einfaldur að hugsa, að hér gilti það sama, ef maður væri í stjórnarþjónustu. En nú vofir þessi hætta yfir okkur." "En því ekki að fá brottfararleyfi, dreng- ur minn?" spurði doktorinn. "Þú ert búinn að vinna hvíldarlaust í sjö ár, að undanskild- um þrem dögum, þegar þú fékst frí til að koma yfir til Cawnpore. Því ekki að biðja um brottfararleyfi í heilt ár? Þú hefir góða á- stæðu til þess. Þú fékst' ekki fararleyfi, þegar faðir þinn dó fyrir tveimur árum, og þú getur vel sýnt fram á, að eigna þinna vegna megir þú til með að bregða þér heim." "Eg vil ekkert slíkt, doktor," svaraði Bathurst. "Eg ætla ekki að flýja hættuna í annað sinn. Þú skilur það, vona eg, að eg óttast ekki hættu og er ekki ögn lífhræddur, og eg held eg sé ekkert hræddur við sár eða meiðsli á líkamanum. Mér finst eg hafa hug og löngun til að ganga í váveiflegan háska. Það eru skothvellirnir og þessi óskapa orustu- glymjandi, sem lama mig, sem gefa mínu aflvana taugakerfi algert vald yfir skynsemi og vilja. Aflmissir minn við Chillianwalla er mér í fersku minni, og þess vegna hræðist eg allan hávaða. Þú varst að undrast yfir því, að töframaðurinn skyldi sýna okkur töfra- leiki, sem Evrópumenn fá helzt aldrei að sjá. Okkar á milli sagt, og lengra vil eg ekki að sú saga fari, gerði hann það til þess að þókn- ast mér. Eg bjargaði dóttur hans úr lífsháska. Það vildi þannig til að eg var á heimleið frá Narkeet, þegar eg heyrði vein, og keyrði þá hestinn sporum. Kom eg þar að, er tígris- dýrið sama og þú skauzt um daginn, stóð yfir lítilli stúlku, en karlmaður stóð frammi fyrir dýrinu og fórnaði upp höndunum. Eg fleygði mér af hestinum og réðist á dýrið með þungu svipunni minni, en tígurinn varð svo hissa og hræddur, að hann flýði undan högg- unum inn í skóginn, og var þar með borgið lífi stúlkunnar." "Hvað! Þú réðst á tígrisdýr með písk? Og þú segist vera bleyða!" sagði doktorinn. "Eg segist vera bleyð'a, en ekki nema að nokkru leyti. Ef ekki væru skothvellir og þetta skelfingaglamur, sem orustum fylgir, held eg helzt að eg mundi reynast eins hug- rakkur og nokkur annar." "En því í ósköpunum hefir þú aldrei sagt frá viðureign þinni við tígrisdýrið, Bathurst?" "Af því, fyrst og fremst," svaraði Bath- urst, "að það tilræði er sprottið af augna- bliks áhrifum aðeins, og af því, í öðru lagi,, að með þeirri frásögn hefði eg gert tilraun til að sigla undir fölsku flaggi, komið fólki til að álíta mig hugrakkan mann, þar sem það mótsetta er sannleikurinn. Þegar sá tími kem- ur, að vanmáttur minn verður heyrumkunnur, verður sú byrði út af fyrir sig sæmilega þung. Hve miklu þyngri væri hún þó ekki, ef eg í millitíðinni hefði sælst til að gefa fólki rangar hugmyndr um sjálfan mig. Með það fyrir aug- um lét eg Rujub lofa mér að geta hvergi um þetta." "Jæja, en sleppum nú þessu í bráð, en seg mér, Bathurst, álit þitt á þessari kynja- mynd, þar sem viö báðir og JVliss Hannay vor- um sýnd í Hindúa-gervi." "Þegar eg athuga það, og jafnframt hina myndina, þar sem eg var sýndur mitt í högg- orustu," svaraði Bathurst, "þá er því ekki að leyna, doktor, að mér sýnist uppreisn vís, og að þeirri uppreisn verði svo vel stýrt, að við megum um stund bogna fyrir storminum, en að eitthvað af okkur hvítu mönnunum komist þó undan lifandi, þar á meðal Miss Hannay, sem eg hefði sagt að ætti eftir að fara fótgangandi niður um landiö til hafnar- staðar, og undir þinni umsjón, og af því eg var sýndur á sömu myndinni, er líkast til, að eg verði í förinni sem leiðsögumaður þinn eða aðstoðarmaður." "Það er ekki ómögulegt, það er alt und- arlegt, að minsta kosti," sagði doktorinn. "Eg hefði gaman af að vita, hvort Miss Han- nay þekti sjálfa sig á myndinni."

x

Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heimskringla
https://timarit.is/publication/129

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.