Heimskringla - 14.01.1942, Blaðsíða 4

Heimskringla - 14.01.1942, Blaðsíða 4
4. SÍÐA HEIMSKRINGLA WINNIPEG, 14. JANÚAR 1942 H^imahringla (Stofnuð 1886) Kemur út á hverjum miSvikudegi. Eigendur: THE VIKING PRESS LTD. 853 og 855 Sargent Avenue, Winnipeg Talsimi: 86 537 VerS blaðsins er $3.00 árgangurinn, borgist fyrirfram. Allar borganir sendist: THE VIKING PRESS LTD. 011 viðskifta bréf blaðinu aðlútandi sendist: Manager J. B. SKAPTASON 853 Sargent Ave., Winnipeg Ritstjóri STEFÁN EINARSSON Uitanáskrift til ritstjórans: EDITOR HEIMSKRINGLA 853 Sargent Ave., Winnipeg "Heimskringla” is published and printed by ' THE VIKING PRESS LTD. 853-855 Sargent Avenue, Winnipeg, Man. Telephone: 86 537 WINNIPEG, 14. JANÚAR 1942 “TÍMINN ER AUÐÆFI” Rœóa flutt í Sambandskirkjunni í Wpg. 4. janúar, af séra Philip M. Péturssyni. “Gætið nákvæmlega að, hvernig þér framgangið, ekki sem fávisir heldur sem vísir; hagnýtið tímann, því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsamir, heldur skynjið hvað er vilji drottins.”—Efesusbf. 5:14-17. Nýtt ár er nú byrjað. Gamla árið er farið. Saga þess er sögð, og alt sem á því gerðist, er nú partur af sögu, sem ómögulegt er að afmá eða breyta. Vér erum nú einu ári nær eilífðinni. Tíminn líður, og með honum liður æfi vor. Ekk- ert getur stöðvað hina stöðugu framrás. Vér berumst áfram á straumi tímans, og er hann er einu sinni liðinn, kemur hann aldrei aftur. Sú stund sem ónotuð er, líður hjá eins og hinar, sem vér not- um, hvort sem það er til góðs eða ills. Og oft er það tilfellið, ekki að vér sjáum eftir þeim ónotuðum stundum, en vér sækjumst oft eftir því að láta þennan dýrmæta tíma líða sem fljótast. Vér vit- um ekki, þ. e. a. s„ hvernig vér eigum að hagnýta tímann og oss finst oft og einatt, ekki að hann líði of fljótt, en heldur að hann líði of seint, og oss leiðist. Einu sinni hlustaði eg á prest sem ræddi um þýðingu eilífðarinnar og fram- haldslífsins. Og meðal annars, talaði hann um þetta, að mönnum leiddist oft vegna þess, hve tíminn héngi á höndum þeirra. Hann sagðist ekki skilja hvað sumir menn ætluðu sér að gera í eilífð- inni, því þeir vissu ekki hvernig þeir ættu að hagnýta sér tíma þessa lífs, sem, í samanburði við tíma eilífðarinnar, væri eins og eitt augnablik! Vér lifum, sagði hann, e. t. v„ 50 eða 60 eða 70 ár, en eyð- um meirihluta æfinnar í það, að reyna að láta tímann líða sem fljótast, en vitum ekki, eða sýnumst ekki vita, hvernig að hagnýta hann eigi, svo hann verði sem þýðingarmestur. Hann bætti svo við að margir af oss væru eins og bóndakerl- ingin, sem nefnd er í sögu eftir Stephen Crane. Þar er spurt: “Hvað gerir hún þegar hún öðlast eilíft líf? Hún verður að spila við sjálfa sig á hverju kvöldi til að eyða tíma í þessu lífi.” Hann hélt að margir af oss gætu ekki hugsað til eilífs lífs nema með kvíða, því þar verður aldrei endir á neinu. Þar lifa menn til eilífðar. Hvernig fara þeir þá að að eyða tímanum þegar hann er óendanleg- ur? Þessar hugsanir lagði presturinn fyrir söfnuð sinn, — ekki til þess að gera lítið úr hugmyndinni um framhaldslíf, — en heldur til þess að sannfæra menn um það, eins og sagt hefir verið, að þeir lifi þegar eilífu lífi og að framhaldslífið verði eftir því hvernig menn lifa þessu lifi, eða hagnýta sér það, að engin maður geti búist við, eða eigi heimtingu á því, að eilífðarlífið verði annað en það sem maður gerir úr því sjálfur, og'ef að maður gerir lítið annað en að láta tím- ann líða í þessu lífi, þá getur eilífðin ekki haft mikla þýðingu fyrir hann, aðra en þá, að hann verði einhvernvegin að láta óendanlegan tíma líða, sem honum tekst þó ef til vill illa. Vér getum í raun og veru ekki gert oss neina verulega hugmynd um það, hvað eilífðin sé, eða þýði, því allar hug- myndir vorar eru bundnar við eitthvað ákveðið, eitthvað takmarkað, í þessu lífi. En rithöfundurinn Hendrick Van Loon hefir reynt að gera sér grein fyrir eilífðinni með því að segja dálitla dæmi- sögu. Hún birtist í byrjun bókarinnar “Story of Mankind” (Sögu mannkyns- ins) sem kom út fyrir nokkrum árum, og sem eg greip niður í aftur um daginn. Þar segir hann þessa dæmisögu, sem sum ykkar munu hafa heyrt áður. “Lengst upp í norðrinu í landinu sem kallað er Svíþjóð stendur gríðar hár klettur. Hann er hundrað mílur á hæð og hundrað mílur á breidd. Einu sinni á hverjum þúsund árum kemur lítill fugl til að skerpa nefið sitt á honum. Þegar kletturinn hefir þannig eyðst, svo að ekkert er eftir af honum, þá er liðinn einn dagur af eilífðinni.” Getum vér gert oss hugmynd um ei- lífðina af þessari sögu? Getum vér í- myndað oss hve óhugsanlega lítið augna- blik eins manns æfi er í samanburði við þessa hugmynd? Það er alveg ómögu- legt fyrir oss að bera þau saman, eða að öðlast nokkum verulegan skilning um það, hve örlítil stund æfi vor er í saman- burði við eilífðina. En samt eyðum vér mikið af æfinni í þýðingarlausum at- höfnum, og sýnumst vilja að tíminn líði sem fljótast, þó að hann sé ekki nema eins og augnablik, þegar hann er liðinn! En samt vitum vér, ef vér hugsum nokkuð um þessa hluti, að lífið, og þar af leiðandi tíminn, er vor dýrmætasta eign. Tíminn er vor dýrmætustu auð- æfi, en samt sóum vér tímanum og erum oftast áhyggjufyllri um margt, sem er þýðingarminna en tíminn. Því tíminn líður, og einu sinni liðinn, er aldrei hægt að kalla hann til baka, hvað mikið sem vér sjáum eftir því, að hafa eytt honum eða vanrækt hann! En oftast er það tilfellið að menn virða ýmislegt annað miklu meira en tímann. Stundum hafa menn hugsað t. d„ eða sýnast hafa hugsað, að gullið sé dýrmæt- ast allra eigna, og þýðingarmest, og að án gulls sé ekki hægt að lifa. Einu sinni heyrði eg dálitla sögu í þessu sambandi um Indíána hóp sem á að hafa fundist meðfram einhverri á í norðurhluta landsins á kreppuárunum, og sem var kominn alveg fram á grafar- bakkann af sulti. Sagt er að mennirnir sem fundu þá, undruðust þetta, og spurðu Indíánana hvers vegna þeir voru svona á sig komnir. En þeir svöruðu að þeim hafði verið sagt af hvítum mönnum að ómögulegt væri að lifa án peninga, og að pyngjur þeirra væru tómar, þess vegna yrðu þeir að svelta. Vér vitum auðvitað, að peningar hafa mikla þýðingu í lífinu. Þeir geta bætt úr mörgu böli og gert lífið ánægjuríkara að mörgu leyti. En ekki geta pening- arnir alt. Þeir hlutir eru til sem pen- ingar geta aldrei keypt, og meðal annars er tíminn. Hvað eru peningarnir í sam- anburði við tímann? Hann líður eins hjá hinum ríka og hjá hinum fátæka! Pen- ingarnir hafa þar alls ekkert vald. Og er lífið er komið á enda, eru peningarnir og valdið orðin þýðingarlaus eign, og eins og stendur í sálminum: “Hvenær sem kallið kemur kaupir sig enginn frí.” og aftur, í öðru versi: Hvorki fyrir hefð né valdi hopar dauðinn eitt strik; fæst sízt með fögru gjaldi frestur um augnablik. Þetta hefir maður nokkur skilið er hann hitti vin sinn einu sinni og sagði honum það í fréttum að hann væri milj- óna eigandi. Auðvitað trúði vinur hans honum ekki, því hann var alls ekki vel til fara, og leit mjög fátæklega út. En hann svaraði honum og sagði: “Víst er eg miljónaeigandi, því eg hefi vald yfir ó- mælanlegum miklum tíma. 1 hverjum sólarhring eru tuttugu og fjórar klukku- stundir, í hverri klukkustund eru sextíu mínútur, og í hverri mínútu eru sextíu sekúndur.” Og þá byrjaði hann að margfalda tölurnar, tuttugu og fjórum sinnum 60 o. s. frv., þar til hann sagði: “Meira en þrjátíu miljón sekúndur í einu ári, og enginn maður hefir eina einustu fleiri. Eg er eins ríkur og ríkasti maður- inn í heiminum.” Maðurinn sem segir þessa sögu segist hafa farið að hugsa um þetta eftir að hinn var farinn, og komist að þeirri niðurstöðu að hann segði satt, að hann hefði rétta skoðun á þessu máli, og að tíminn væri í raun og veru dýrmætustu auðæfin sem mennirnir eiga. Gamlárskvöldið s. I. las eg stutta hug- leiðingu þessa sama efnis, eftir enskt skáld, þar sem tíminn er talinn vera dýr- mæt eign. Þar var sagt: “Eg er nýárið, og eg kem til yðar hreint og óflekkað. Nýskapað frá hendi Guðs! Hvern dag verður þér gefin dýrmæt perla, sem að þú verður að þræða á silf- urstreng lífsins. Og þegar einu sinni er búið að þræða hana, verður aldrei hægt að draga þráð- inn úr, en hún verður þar til eilífðar sem vitni um trúmensku þína og hæfileika. Og mínúturnar verða eins og gull- hlekkir í keðju klukkustundanna, sem að þér verðið að gera heild úr, sem verð- ur þó eigi sterkari én veikasti hlekkur- inn. I þínar hendur er gefinn allur auður- inn og alt valdið til að gera úr lífi þínu það, sem þú vilt. Eg gef yður frjálsa og óháða tólf dýrðlega mánuði, með svalandi regni og gullfögru sólskini, með daga fyrir vinnu og hvíld, og nætur fyrir rólegan og frið- samlegan svefn. Alt sem eg hefi, gef eg yður í anda kærleikans. Alt sem eg bið yður er að þér sýnið trygð í lífi yðar.” Stundum finst mönnum það einkenni- legt hvað aðrir menn skoða sem auðæfi á meðal vor! Eins og eg gat um, skoða menn oftast gullið, sem dýrmætast allra hluta. Einu sinni, og fyrir mörgum öld- um, var auður manna talinn vera leður! Sá sem me9t leður átti, var ríkastur. Á pieðal fyrstu landnema þessa vestur- lands voru húðir og skinn skoðuð sem helztu og beztu eignirnar. Einu sinni töldu menn auð sinn í nautgripum. Eg er ekki mjög lærður í orðmyndunar- fræði, en mér finst eg sjá merki þess, að nautgripir hafa verið notaðir í viðskift- um í orðinu “nautpeningur” og einnig í orðinu “fé” þar sem það þýðir bæði kvikfé og peningar. Sumir villimenn skoða skeljar sem auð og nota þær í viðskiftum, og enn aðrir nota hauskúpur óvina sinna. Ríkasti maðurinn á meðal þeirra er sá, sem hefir safnað að sér sem flestum hauskúpum. Hver þjóð, éða hver flokkur hefir ein- hverja mismunandi hluti sem notaðir eru í viðskiftum þeirra, og á meðal siðaðra þjóða, notum vér gull, eða réttara sagt ef til vill, blaðaseðla, því vér fáum sjald- an eða aldrei að sjá gullið, og svo er ekki nærri því nógu mikið af því til á móti öllum seðlunum, sem út hafa verið gefn- ir, til þess að allir gætu fengið eitthvað dálítið af gullinu fyrir seðla sína. En þó að hver þjóð, bæði á meðal sið- aðra þjóða og á meðal villimanna, hafi sína peninga, eða það sem gildir sem peningar, er það verulega hægt að skoða þá, peningana, sem hinn raunveruleg- asta auð? Er það ekki heldur tíminn, sem er oss dýrmætastur, eins og maður- inn sagði? Og höfum vér ekki hver og einn af oss, eins mikið af honum og no£k- ur annar, jafnvel eins mikið eins og hinir auðugustu, í peningum? Hver og einn af oss hefir tuttugu og fjórar klukkustundir í hverjum degi. Enginn hefir meira en það og enginn minna. Vér erum því, að því léyti eins auðugir og hinir ríkustu. John Ruskin, hinn mikli rithöfundur og skáld Englendinga, sagði einu sinni: “Eini verulegi auðurinn er lifið.” Og ann- ar mjög merkur maður, einn merkasti allra, sem uppi hafa verið í þessari hiemsálfu, Benjamin Franklin, sagði: “Elskar þú lífið? Eyddu þá ekki tíman- um, því hann er efni lífsins!” En þrátt fyrir þetta eru menn út um allan heim, að sóa auði, raunverulegum auði, sem er tíminn, því að tíminn er þýðingarmesti auðurinn sem til er, eða verður nokkurntíma. Þeir eru að eyða því sem er dýrmætast allra eigna. Og það er án efa þeir sem orð textans eiga við: “Gætið nákvæmlega að, hvernig þér framgangið, ekki sem fávísir heldur sem vísir; hagnýtið tímann, því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsamir heldur skynjið, hvað er vilji drottiní.” Lík skoðun eða lík kenning og þessi finst víða í ritum og kvæðum! Flestir viðurkenna það, að maður eigi að nota tímann vel áður en hann líður, að nota vel þann auð, sem oss hefir öllum verið veitt, áður en hann er horfinn. Þetta sézt af sálminum, þar sem ritað er: Starfa því nóttin nálgast Nota vel æfiskeið, Ekki þú veizt, nær endar Æfi þinnar leið. . Starfa því aldrei aftur Ónotuð kemur stund, Ávaxta því með elju Ætíð vel þín pund. Og mörg önnur kvæði mætti vitna í, í þessu sambandi. En “hvað þýðir það”, munu sumir spyrja, að “nota lífið vel?” Vér tölum um það að “lifa vel”, að nota tíman vel. En er ekki eitthvað meira og ákveðnara nauðsynlegt, til þess, að menn geti hagnýtt sér tímann sem bezt? Vér höfum séð hve örlítið augnablik æfi mannsins er í samanburði við eilífðina. Og þó að vér höfum dag frá degi eins mikinn auð frá sjónarmiði tímans, á voru valdi og nokkur annar maður, þá ber oss að öðlast skilning um hvað sé gagnlegast og þarflegast hér á jörðu, og iðka það, því, eins og skrifað hefir verið: “Líf mannlegt endar skjótt”, og áður en vér vitum, erum vér að kveðja, og stefnum inn í eilífðina. Mismunandi skoðanir eru auðvitað á því hvað það þýði að nota lífið vel. En lang flest- ir sýnast hyggja að þýðingar- mest sé að safna að sér eign- um, en samt á sama tíma eru dæmi þess, umhverfis oss að nöfn þeirra sem áttu aldrei neitt, sem lifðu oft í eymd og fátækt, eins og til dæmis skáld, listamenn, mannvinir og fleiri, sem unnu þjóð sinni og sam- tíðarmönnum verulegt gagn, lifa í minni manna, þegar marg- ir hinna eru gleymdir. Þetta þýðir ekki að lífið sé misnotað þó að maður safni eignum að sér, né heldur að líf- ið sé notað bezt með því að lifa í fátækt! Það þýðir ekki held- ur, að menn eigi að forðast það, að eignast mikið, eða held- ur að menn eigi allir að leitast eftir því að verða skáld eða listamenn af einhverju tægi og lifa í fátækt. Það þýðir held- ur það, að þar sem hver maður hefir tilhneigingu til einhvers, sem hann getur unnið bezt, sem á bezt við eiginleika hans, þar sé verksvið hans. Ekki geta allir menn gert hið sama, eða unnið að hinu sama, því eins og Páll postuli ritaði: “Hann hefir gefið suma sem postula, suma sem spámenn, suma sem trúboða, suma sem hirða og suma sem kennara.” Hver maður hefir eitthvað starfsvið þar sem hann vinnur best og hann dæmist, ekki af því, hvort hann verður ríkur eða fátækur, en heldur af því, hve samvizkusamlega og ein- læglega hann vinnur verk sitt. Allir menn geta ekki orðið miklir menn í vanalegum skiln- ingi. En allir menn geta lifað lífi sínu þannig að það sýni mikilleika, að það birti öll ein- kenni mikilleikans. Þannig nota þeir fjársjóð sinn bezt, með því að vinna hvert verk, sem að höndum ber, með sam- vizku og einlægni, og að breiða út guðsríki á meðal manna, með því að sannfæra þá um gildi þeirra hluta sem eru mönnum mest sæmandi, og með því að framkvæma þá hugsun, sem felst í orðum kvæðisins ort af einu íslenzku kvenskáldinu. Þar er sagt: Hver hugsun hlý, hvert ástríkt orð Oss æðri fylling ljær, Sem fljót, er vex og fríkkar mest, Þá færist hafi nær. Ef rekjum skyldu af heilum hug, Þótt hart oss reyni á, 1 herrans augum háleitt starf, Vér höfum unnið þá. Svo getum hlutverk göfgað smátt Við glæður kærleikans, Og þyrnisveigum sárum breytt I sigur-geisla krans. (Sigríður Jónsdóttir, sálm. 41 í sálmakverinu, 77 sálmar.) Tíminn, hann er oss og öllum mönnum óhugsandi dýrmæt eign. Hann er fjársjóður sem hver maður hefir í eigu sinni, og sem hver maður má gera við eins og honum sýnist, að eyða honum eða að hagnýta sér hann, sér og öðrum til góðs og uppbyggingar. Tíminn, veitir öllum mönn- um tækifæri til að öðlast speki, til að verða nytsamir, göfugir og góðir. Timinn, gerir alla menn að miljónaeigendum, og veitir þeim ótal gullnar mínút- ur, eða eins og á ensku er sagt, “golden moments” sem maður getur notað, eða eytt. Enginn er verulega fátækur, sem hefir vald á tíma, og nógu mikið vit og hyggindi til að kunna að nota hann vel. 1 gamalli dæmisögu er sagt frá konungi sem virti gullið umfram alt annað, og fékk ósk sína uppfylta að alt yrði að gulli, sem hann kæmi við. En þá fyrst skyldi hann fávizku sína, er hann sá það að með þvi að gera alla hluti að gulli, tapaði hann öllum hinum verð- mætum lífsins, öllu sem var þýðingarmest. En hygginn maður skilur það, að það, sem er raunveru- lega dýrmætast allra annara eigna er tíminn. Því án tíma verður alt annað þýðingarlaust. Án tíma, getur maður einskis annars notið. Þessvegna, hefir hygginn maður gætur á því, hvernig hann fer með tímann sinn, því þegar hann er einu sinni liðinn, er aldrei hægt að kalla hann til baka, eins og drepið er á í sálminum sem sunginn er á hverju nýári: “Nú árið er liðið í aldanna skaut, Og aldrei það kemur til baka.” Þess vegna hefir vitur maður það ætíð i hyggju sem getið er um 1 sálminum sem vér sung- um hér áðan: “Lærdómstími æfin er Ó minn drottinn, veit eg geti Numið alt, sem þóknast þér, Þína speki dýrast meti. Gef eg sannleiks gulli safni Gef í vizku og náð eg dafni. TIL SKILNINGSAUKA í ýmsum stórborgum hér í Canada, og þó einkum í Banda- ríkjunum, eru, eins og kunnugt er, heil hverfi bygð af sérstök- um flokkum innflytjenda, svo sem Kínverjum, ítölum og fl. Búa þessir flokkar þar, * að mestu leyti út af fyrir sig; iðka þá siði og venjur sem þeir höfðu í sínu föðurlandi, og hafa lítið samneyti við aðalþjóðina. Fjöldinn af þessu fólki skilur og talar aðeins mál sinnar eig- in þjóðar, fyrstu ár sín hér í landi. Af þessu leiðir, að aðal- þjóðinni er hætt við að líta niður á það og sýna því óvirð- ingu í orðum og athöfnum. Því stærilæti gagnvart þeim sem álitnir eru minna að manni, kemur daglega í ljós, í almennu félagslífi. En þjóðar^hrokinn, sem leynist í flestum þjóðum, eins smáum sem stórum, sýnir sig mest þegar vaknað hefir andúð einnar þjóðar gegn ann- ari. Eftir byrjun þessa striðs, ritaði engil-saxneskur maður um brezka og þýzka menningu; og hélt því fram, að Þjóðverjar hefðu aldrei átt afburðamenn er kæmust í hálfkvisti við hina brezku. Eftir hans dómi var lítið varið í tónsnillingana þýzku, skáldin, heimspeking- ana og efnafræðingana. Hver sanngjarn maður hlýtur þó að viðurkenna, að báðar hinar nefndu þjóðir hafa átt marga afburðamenn; jafnvel'þó skift- ar séu skoðanir um verðleika hv.ers eins. Þessir áðurnefndu flokkar innflytjenda, hér vestan hafs, hafa einnig átt afburðamenn meðal sinnar þjóðar, fyr eða síðar. En um það er öllum þorra af hinum hérlendu þjóð- um lítið kunnugt. Börn þess- ara innflytjenda, sem hafa að- eins lært mál foreldra sinna í

x

Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heimskringla
https://timarit.is/publication/129

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.