Lögberg - 16.07.1942, Blaðsíða 2

Lögberg - 16.07.1942, Blaðsíða 2
2 LÖGBERG. FIMTUDAGINN 16. JÚLÍ, 1942 Arsskýrsla forseta 1 942 flull af séra K. K. Olafson á Kirkuþingi í Selkirk 27. júní “Þá mun verða svo mikil þrenging, að engin hefir þvílík verið frá upphafi heims alt til þessa, né heldur mun verða. Og ef dagar þessir yrðu ekki styttir, kæmist enginn maður af.” Þessi og þvílík orð ritningarinnar ættu auðveld- lega að koma í huga kristinna manna þegar litið er yfir hvert árið, sem nú er yfir oss að líða. í þriðja sinn komum vér nú saman til kirkjuþings, síðan heimsófriðurinn yfir- standandi tók að geysa, og við hvern áfanga á leið tímans er það greinilegt að samtíð vor er að lifa við hækkandi skelfingu frá degi til dags. “Engin hefir þvílík verið frá upphafi” er ekki öfgar, heldur nákvæm staðreynd. Fyrir tveimur árum mátti virðast að hátindi skelfing- anna væri náð. Ljósin voru enn aftur að slokkna í Norður- álfunni með ógnahraða. Ein menningarþjóðin af annari varð hernumin við æstan hergný. . Friðsamar þjóðir er stóðu í broddi fylkingar í allri siðmenning og þroska og þráðu það eitt að fá að þræða leið sína í friði, voru bældar með ofbeldi undir ánauðarok. Þar á meðal frændur vorir Norðmenn og Danir. Það virtist gengið á röðina og áfram- haldandi hrun blasa við. Þó var þetta sem smáræði í samanburði við Armageddon þá er hófst meðan á kirkju- þingi voru hinu síðasta stóð, er logandi eldrák ófriðarins var dregin yfir þvert yfirborð Norðurálfunnar frá norðri til suðurs, frá íshafinu til Svartahafsins. Aldrei áður í mannkynssögunni hefir á jafn víðum vettvangi verið barist eða með slíkum kyngikrafti. Hörmungarnar, sem af því hafa leitt, eru eðlilega tilsvarandi. Þó var ekki hámarki náð eins og áframhaldið ber vott um. Síðan má segja að um heimshöfin öll og um megin þeirra landa er enn voru ósnortin, hafi ófriðurinn færst út og magnast. Það er orð og að sönnu að nefna þetta heimsstríð, því það áhrærir ekki aðeins þá tugi þjóða er beint taka þátt í honum, heldur alt mannkynið. Það innibindur alla í bræðralag eymdar og hörmunga, sorgar og kvíða, án manngreinarálits. í full- um mæli nær þetta nú til vor, sem að þessu kirkjufélagi stöndum, síðan Bandaríkin urðu í stríðið dregin og ættland vort ísland orðið fyrir ýmsum atverka af völdum þess við að eiga þátt í hinni ægilegu blóðfórn samtíðarinnar. Hinn logandi eldur ófriðarins er enn í sífeldum uppgangi og enginn veit hvar eða’ hvenær honum verða nokkur tak- mörk sett. “Ef þessir dagar ekki styttust, kæmist enginn maður af.” Það getur ekki dulist að slíkir atburðir minna ekki einungis á orð ritningarinnar og þá fyrirboða er þar geym- ast um það er yfir heiminn eigi að ganga, heldur hafa þeir og ættu að hafa hin víðtækustu áhrif á hugsun og líf kristninnar og alt andlegt líf mannanna. Það er ekki á- stæðulaust fyrir kristinn lýð að hugsa með ugg og ótta um áhrif ófriðarins mörg á velferðamál kristninnar og viðhorf og þá siðferðilegu hættu er vofir yfir þjóðum og einstaklingum í þeim staðháttum er slík feikna umbrot hafa í för með sér. Neyðin og angistin er einn þáttur í margþreyttum áhrifum er menn nú verða fyrir, en auk þess steðja að hættur úr öllum áttum fyrir öll hin helgustu verðmæti mannlegs lífs. Mér virðist að kirkjunni hafi yfirleitt tekist betur að varðveita jafnvægi og forðast öfgar í þessari styrjöld, en t. d. í heimsstyrjöldinni fyrri. Fyrir það er hún að leggja þjóðunum meira lið í eldraun þeirri er yfir stendur. Kunnugt er að í hinum hernumdu löndum ýmsum er kirkjan og menn hennar aðalstoð þess að varð- veita heilbrigði og sjálfstæði fólksins undir hinum erfiðustu kringumstæðum. Hún mælir ekki aðeins með heilbrigðum manndómi heldur sýnir hann. Menn hennar fórna og leggja í sölurnar til að reynast trúir hugsjónum. Má þar til nefna prestastétt og biskupa norsku kirkjunnar undir forustu hins ótrauða Eyvind Berggrav biskups í Olso og kennarastéttina, sem fylgt hefir dæmi þeirra ósleitilega. Orð má hrekja en ekki slíka framkomu. Þessir menn kjósa sult og seiru fremur en að bregðast því að reynast trúir. Þeir eru ekki að sækjast eftir píslarvætti, en verður heldur ekki með því ógnað til þess, sem er á móti boði upplýstrar kristinnar samvizku. Þegar sagan verður skráð af óháðum söguriturum, mun lýsa af dæmi þeirra um aldir fram. Svipuð hefir verið sagan í öðrum hernumdum lönd- um, einkum á Hollandi. Kirkjan er að reynast börnum sínum sönn móðir með því að leggja þeim til hug og hjartalag til að bera og þola án þess að bugast, en vitna um leið um sigurmátt hins góða og sanna hvað lengi og með hverjum hætti sem það er fótum troðið og hrjáð. Kirkjan hefir á friðartímum haldið uppi merki þess sann- leika er aldrei mundi bregðast, en meðan lítið hefir á reynt hefir þetta fremur hljómað sem faguryrði en raunverulegur boðskapur, sem staðfesta mætti í ástæðum lífsins. En nú þegar í öll skjól er fokið fyrir þeim er hörmungin hefir vitjað, kemur í Ijós hvílíkur sigurmáttur mannanna börn- um er gefinn þegar þau halda dauðahaldi í fyrirheiti Guðs og leyfa áhrifum hans að komast að til fullnustu. Fylgir þessu ósegjanleg blessun fyrir þá er fá sjálfir að reyna hina dásamlegu hjálp Guðs í öngþveitum lífs og dauða, en er líka hin greinilegasta staðfesting þess fyrir öllum heimi, ef hann einungis vildi gefa því gaum, að andleg áhrif orka miklu fram yfir það er þeir ætla, sem ofbeldinu einu treysta til úrslita og telja alt annað fásinnu en dýrkun þess. Kristin kirkja hefir reynst hinum undirokuðu slík hjálparhella í eldraun 'þeirri er yfir stendur, að ekkert annað kemur til samanburðar. Þá má einnig vitna til kirkjunnar og kristninnar í þeim löndum, sem lengst hafa gengið í því að þjóna ofbeld- inu. Við það verður að kannast að þar eins og víðar var skortur á því meðan á aðdraganda þess stóð, sem yfir heiminn hefir gengið, að kirkjan væri rödd smavizkunnar hjá þjóðunum í þeim mæli, sem þörf hefði verið á. Hún sætti sig of mjög við ástæður og anda er þá ríkti og var ekki eins glöggskygn og við þurfti til að lesa úr táknum þess er var að gerast eða mæla þau kröftugu varnaðarorð, sem tímabær hefðu verið. En síðan í óefnið kom, hefir verið greinilegt hve lítið hefir á því borið að hin ráðandi völd gætu notað kirkjuna til að breiða blessun sína yfir öll tiltæki þeirra eða fóðra það alt, er þeir hafa gripið til. Á því hefir borið svo þráfaldlega í liðnum styrjöldum að kirkjan hefir verið einungis bergmál ríkisins og fegrað málstað þess í hvívetna dómgreindarlítið. En þrátt fyrir þá meir vakandi viðleitni að en nokkru sinni áður að halda á lofti hverju því er gæti verið málstað hlutaðeig- enda að liði, hefir aukheldur hinn alræmdi Göbbels haft Jitlu frá að segja um það hve ánægð kirkjan á Þýzkalandi sé með framferði Nazistanna yfirleitt eða einstök atriði þess. Því hefði áreiðanlega verið veifað ef það hefði verið til í ríkum mæli. Þvert á móti er kunnugt hve margir málsmetandi leiðtogar kristninnar eru eins og Martin Niemöller í varðhaldi fyrir það að mæla einarðlega gegn réttlausum yfirgangi valdhafanna og tilraun þeirra að svelgja undir sín yfirráð alt andlegt líf þjóðarinnar. Spé- mynd sú af kristindómi, sem kend er við Alfred Rosenberg og nefnd er þýzkur kristindómur, ber glögt vitni um að Nazistarnir telja sér lítils liðs að vænta frá sögulegum kristindómi eða boðberum hans. Það er að þakka trú- mensku þeirra. er haldið hafa uppi merki með þeim at- kvæðum að jafnvel miskunnarlaust ofbeldið hefir fundið til hiks í vissum tilfellum að bæla þá niður. — í ítalíu er rómversk-kaþólska kirkjan svo að segja einvöld, en það er eftirtektavert áð hún blessar ekki lengur vopn Mussolinis eins og í árás hans á Ethiópíu. Að einhverju leyti er hún að átta sig á því að það er ekki samboðið kristinni kirkju. Aukheldur í hinni fámennu kristni í Japan er leiðtogi eins og Kagawa, sem ekki er blindaður svo af skammsýnni og rangsýnni þjóðrækni að hann haldi taum hins æðisgengna hervalds, sem þar ræður nú lögum og lofum. Að þar séu fleiri, sem minna ber á, með sama hugsunarhætti er ekki vafamál. Þessi dæmi nægja til að sýna að súrdeig lifandi kristni er að verki í samtíð vorri með sjálfstæði- og heil- brigði einnig þar sem afstaðan er erfiðust. Síðast en ekki sízt er að minnast þess hlutverks, sem að kirkjan er að leysa af hendi hjá sambandsþjóðum þeim er vér tilheyrum, sem stöndum að þessu íslenzka og lút- erska kirkjufélagi. Henni hefir skilist það betur en ofl áður að á styrjaldartímum ekki síður en í friði er nauð- syn þess að kirkjan sinni sínu sérstaka hlutverki með sjálf- stæði, en láti sér ekki nægja að vera aðeins bergmál tíðar- andans eða ambátt ríkisins. Þegar styrjöld geysar eins og nú gegn tryltum leiðtogum hervaldsþjakaðra þjóða, sem einkis svífast og engan rétt meta, er auðfarið inn á þá leið fyrir kirkjuna að telja sér trú um að einkis við þurfi nema að vinna stríðið. Þá sé fram úr öllu ráðið og engu að kvíða. Bitur reynsla og nákvæm íhugun hafa leitt í ljós veilurnar í þessari afstöðu. Kirkjan í hinum ensku- talandi heimi Bandaríkjanna og brezka veldisins telur yfirleitt stríð óhæfa aðferð til að skera úr vandamálum mannanna. Sú skoðun hefif- ekkert veiklast við það að hlutaðeigandi þjóðir hafa nú á ný dregist inn í hringiðu hamslausrar heimsstyrjaldar. Fleiri en áður aðhyllast af- stöðu Kvekara, en meirihluti kirkjudeildanna telur skyldu að bera vopn eins og nú er ástatt til að bæla niður árásir þess hervalds, sem drukkið er af mikilleik og engu skeytir, svipað og þeir teldu sjálfsagt að bæla niður upphlaup í borg á friðartímum. En engu að síður er þeim ljóst að það að bæla upphlaupið eða vinna stríðið er engin fullnað- arúrlausn. Það eina, sem af hverju fyrir sig getur hlotn- ast, er nýtt tækifæri til að byggja upp mannlífið á heil- brigðara grundvelli gegn því að slík óhæfa ekki endurtaki sig. En til þessa meira, sem við þarf fram yfir það að stríðið vinnist, finnur kirkjan til að hún ætti að leggja ríkulegan skerf. Hún þarf að sinna hlutverki sínu að vinna að sálarheill hvers einstaklings innan vébanda mann- kynsins eftir því sem áhrif henhar og viðleitni frekast geta náð til. Því yll hún standa gegn öllu hatri á mönn- um eða þjóðum, hvað mjög sem fyrirlitleg framkoma kann að freista til hins gagnstæða. Hún vill aðhyllast þá hug- sjón að hata syndina en ekki syndarann. Hún telur það eitt hlutverki sínu samboðið að starfa í anda kærleikans, reiðandi sig á vitnisburð orðsins studdan. af vitnisburði upplýsts kærleika í verki og viðleitni. Þessi hugsunarhátt- ur hefir auðkent mjög afstöðu kirkjunnar hér í Ameríku og á Englandi í þessu stríði og verið hennar sómi. Hann hefir þrýst að því að líkna fram yfir það, sem stjórnar- völdin hafa viljað leyfa, og látið sér ant um að halda vakandi ákveðnu kristilegu takmarki í sambandi við frið- inn, sem þarf að vinnast. Malvern kirkjustefnan á Eng- landi og Delaware stefnan í Bandaríkjunum ásamt því róti er þær hafa komið á hugi manna og þeim frekari aðgjörð- um er þær síðan hafa orðið tilefni til, eru glöggur vitnis- burður um þá kristilegu framsýni innan kirkjunnar, sem nú lætur á sér bera. Hún vill forðast allan hefndarhug og miða að því að friðurinn, sem saminn verður stefni ótvírætt að því að vernda heill allra eftir því sem frekast verður við ráðið, en ekki eins aðila á kostnað annars. Húr. vill ganga langt í því að hverfa frá því sem verið hefir, í áttina til þess sem vera þarf, með það sífelt fyrir augum að sönn mannleg velferð þarf ætíð að sitja í fyrirrúmi. Kirkjan nálgast þetta hlutverk í anda sannrar auðmýktar, finnandi til þess að hún og þjóðirnar, sem hún er þáttur af, hafa með vanrækslu og verknaði átt hlut í því að leiða yfir heiminn þær hörmungar er nú þjaka að á alla vegu, án þess að þannig sé verið að leggja það að jöfnuði við árásar hermdarverk ofbeldisþjóða samtíðarinnar. — En jafnhliða því að kirkjan stefnir til hins ýtrasta í jafnaðar- áttina í sambandi við friðinn og það, sem á eftir fylgir, og vill gera sporin er tekin verða sem ákveðnust til verulegra umbóta, vill hún ekki vera blind fyrir þeim hættum er framundan eru. Því hærra sem markið er sett, því meiri hætta að vonbrigði geti orðið nema viturlega sé á haldið. Áttin þarf að vera ótvíræð og sporin, sem tekin eru, til áframhalds en ekki til málamynda eða áningar á ný. Sönn heilindi þurfa að liggja til grundvallar. Þetta vill kirkjan vernda um og einnig að vaka yfir því að lengd stríðsins ekki kæli og deyfi hugsjónirnar. Annars rætist að Orð, orð innantóm, fylla storð fölskum hljóm. Ekkert styrkir fremur heilbrigða >afstöðu kirkjunnar en það val á mönnum í atkvæðamestu stöður hennar, sem orðið hefir á seinni árum og síðustu tíð. Er það sérstak- lega eftirtektavert í ensku kirkjunni, sem venjulega hefir verið talin fremur íhaldssöm. Þegar William Temple var kjörinn erkibiskup í Canterbury á þessu ári og um leið höfuð ensku kirkjunnar — en sú staða hefir oft í enskri sögu gengið næst embætti stjórnarformenskunnar í áhrif- um — var stórt spor stigið í þá átt að áhrif ensku kirkj- unnar á friðinn yrðu heillavænleg. Hann hefir um langt skeið verið í broddi fylkingar hinna framsæknustu manna kirkjunnar í öllum löndum í því að útþýða merkingu kristinnar kenningar í mannúð og jöfnuð í garð allra manna án manngreinarálits. Mátti telja honum einnig forustu í því alsherjar sambandi kirknanna (World Council of Churches), sem er í myndun. Fáir menn njóta annarar eins tiltrúar. Það er heldur ekki án merkingar að Hewlitt Johnson er samtímis Dean of Canterbury. í sömu átt miðar forysta kirkjusambanda Ameríku (Federal Council of Churches). Jafnvel íhaldssömustu kirkjuleiðtogar ýmsir hafa færst til skilnings á því að í lýðveldum þarf kirkjan að vekja iðrun út af sameiginlegum syndum alveg eins og hún fæst við einstaklingssyndir. Hún á að vera það súr- deig er sýrir alt deigið. Eg hefi af ásettu ráði lagt fyrir ykkur þessa drætti úr almennu viðhorfi kirkjunnar í samtíðinni, því þó vor deild kirkjunnar sé smá, þá er svo komið að kristnir menn hvar sem þeir eru settir félagslega, verða að hugsa um kristi- leg mál frá heildar sjónarmiði ef þau eiga að verða veru- lega lífræn í nútíðarlífi. Þjóðirnar hafa viljað hugsa um velferðamál sín hver fyrir sig, án tilits til annara, og einmitt vegna þess er komið í það óefni, sem raun er á. Nú eru þær neyddar til að hugsa frá heildar sjónarmiði ef hag þeirra á að vera borgið. Að það verði að halda áfram eftir að friður er saminn er álit hinna glöggustu og beztu manna. Annars færist alt aftur í ómögulegt horf — eða fremur: Annars helzt alt í ómögulegu horfi. Hið sama gildir um kristlieg mál. Hvert félag eða heild getur reynt að hugsa um kirkjulega heild sína sem sérmál, en rekur sig á það að þeir af meðlimum þess, sem nokkuð hugsa verða að hugsa um þetta sem heildarmál, sem snerti alt mannkynið. Þannig þarf það ekki síður að vera ein- staklingsmál — það hlýtur kristindómurinn ætíð að vera ef hann á að ná haldi.' En það er einstaklingsmál þeirra, er verða að nálgast kristilegar hugsjónir frá einingar sjónarmiði. Hver einstaklingur óskiftur er í samfélagi við óskertan Guð og föður er vér nálgumst í Jesú Kristi og óskerta heild mannlífsins. Þannig eignast hann það við- horf er þarf að koma til greina í smæsta verkahring í litl- um félagsskap og í einstaklingslífi. Þegar afstaðan er skert, bíður hann tjón á sál sinni. Mér virðist þannig að alt kristilegt sé okkur viðkomandi. Félagsleg og kristileg heill vor er undir því komin. Það er þá í samræmi við hið ofangreinda að vort helzta viðfangsefni á þessari tíð sem félag er að skipuleggja starf vort þannig að það falli inn í þá stærri heild er vér nú tilheyrum (U.L.C.A.) sem eðlilegast og þannig að það verði okkur til sem mests þroska. Þetta er vitanlega ekki vanda- laust. En með góðum vilja og staðfestu má miklu áorka. Á þessu ári hefir orðið byrjun til þess að leggja skerf til vorra sameiginlegu mála með frjálsum tillögum safnaðanna. Að sjálfsögðu verður þetta ekki eins mikið eða eins útbreytt og æskilegt væri, en ef haldið er í horfið af einlægni mun framför verða með hverju ári. Aðal heildin (U.L.C.A.) sýnir oss frábæra þollund, en það má ekki draga úr við- leitni vorri heldur hvetja oss. Framkvæmdarnefnd vor hefir til byrjunar talið heppilegast að beita sér sem allra mest að sýna rækt við hin reglubundnu tillög fremur en sérstakar innsafnanir. Fólk vort er enn svo ókunnugt sögu og starfi hins liðna meðal feðra þessarar miklu heild- ar, að afmæli sérstakra atburða sögunnar grípa ekki eins hugann hjá oss eins og þeim, sem lifað hafa með sögunni. Á þessu ári hafa tvenn merk afmæli verið haldin innan U.L.C.A. Annað er tveggja alda afmæli þess að hinn merki frumherji lútersku kirkjunnar í Ameríku, Henry Melchior Muhlenberg hóf starf sitt sem ungur prestur nýkominn frá Norðurálfunni. Hitt er aldarafmæli þess að hinn merki trúboði Father Heyer, sem ávann sér auk- nefnið með föðurlegri umhyggju fyrir hinurh vanræktu, byrjaði trúboð það á Indlandi, sem svo mjög hefir blessast og nú er haldið uppi af U.L.C.A. Bæði þessi afmæli eru mjög verðmæt, en að nota þau til að vekja áhuga meðal fólks vors nú af nokkrum krafti virtist óráð. En þess má geta að Muhlenberg afmælið var nægilega markvert til þess að sjálfur forseti Bandaríkjanna tók þátt í því á þessu vori ásamt virðulégri nefnd úr Sambandsþinginu, vegna þess hve ríkan þátt Muhlenberg og synir hans og afkomendur áttu í byrjunarsögu Bandaríkjanna. Þetta eru aðeins dæmi þess marga í sambandi við U.L.C.A. bæði í liðinni tíð og nútíð, sem bíður vor að kynnast. Einungis hugur á að kynnast getur borið árangur, einkum ef félög innan safnaðanna ljá því lið. Einnig mundi útbreiðsla vikublaðsins Lutheran, sem er málgagn U.L.C.A., meðal fólks vors koma að gagni. Nú má það heita óþekt. Sömu- leiðis hin margþætta starfsemi U.L.C.A. Þetta opnar oss nýjan heim, sem maður lifir sig ekki inn í á stuttum tíma. Heimsóknir til vor á hverju þingi frá sendiboðum U.L.C.A. munu styðja mjög að kynningu. Á þessu þingi verður gesturinn einn af bezt þektu leikmönnum U.L.C.A. hr. J. K. Jensen frá Janesville, Wisconsin, sem unnið hefir frábært verk sem féhirðir um langt skeið í Synod of Ihe Noríhwest Er eg þess fullviss að koma hans til vor verður oss til fagnaðar og uppbyggingar. Með viðleitni frá beggja hálfu getur mikið áunnist. — Fyrir þessu þingi liggur að kjósa erindreka á þing U.L.C.A. í Louisville, Kentucky, á kom- anda hausti. Nokkrar breytingar hafa orðið í sambandi við starfs- krafta og starfssvið á þessu ári innan kirkjufélagsins. Mest af því kemur miklu nákvæmar í skýrslu trúboðsnefndar. Skal því fljótt yfir sögu farið hér. Séra B. Theodore Sigurðsson hefir komið til baka til starfs í. kirkjufélagi voru. Er það mikið fagnaðarefni að fá jafn hæfan og vinsælan starfsmann aftur á okkar víð- tæka svið. Bjóðum vér hann velkominn og vonum að samvinnan megi verða öllum hlutaðeigendum til ánægju og blessunar. Annar nýr starfsmaður hefir oss bæst á þessu vori er cand. theol. Lárus Sigurjónsson frá Chicago hefir tekið starf yfir sumarið í Langruth. Er hann mörg- um í kirkjufélaginu að góðu kunnur frá því liðna fyrir ritverk, ljóð og persónulega viðkynningu. Er það gleðilegt að hann eftir langvarandi heilsubilun treystir sér nú til starfs. Bjóðum vér hann einnig velkominn. Tveir úr kirkjufélagi voru eru við guðfræðinám. Harold Sigmar á eitt ár eftir af námi við Mt. Airy prestaskólann í Phila- delphia. En Skúli Sigurgeirsson hefir lokið námi í fyrsta bekk við prestaskólann í Saskatoon. Verða þeir báðir starfandi fyrir kirkjufélag vort í sumarfríinu. Er þar mikil og góð viðbót starfskrafta í vændum. Séra Martin Oygaard, af norskum ættum, hefir starfað að Lundar með góðum árangri og nýtur þar vinsælda. Of seint til meðferðar á síðasta kirkjuþingi barst mér umsókn um inntöku í kirkjufélagið frá enskumælandi söfnuði í Renton, Washington. Sömuleiðis beiðni um inn- töku og vígslu frá guðfræðingnum Sven J. Ristesund, er söfnuðinn hafði stofnað og hlotið hafði köllun þar ti) þjónustu. Eg lagði hvorttveggja fyrir framkvæmdarnefnd kirkjúfélagsins^ sem samþykti umsóknirnar báðar og legg- ur þær nú fyrir kirkjuþing til fullnaðarsamþyktar. Sam- kvæmt þessu vígði eg hr. Ristesund sunnudaginn 9. nóvem- ber í kirkju Hallgrímssafnaðar í Seattle með aðstoð þeirra séra Rúnólfs Marteinssonar og séra G. P. Johnson.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.