Lögberg - 30.12.1943, Side 4
4
LÖGBERG. FIMTUDAGINN 30. DESEMBER 1943
........Xögfaerg....................
Gefið út hvern fimtudag af
THE COLUMBIA PRESS. LIMITED
695 Sargent Ave., Winnipeg, Manitoba
Utanáskrift ritstjórans:
EDITOR UiGBERG,
695 Sargent Ave., Winnipeg^ Man.
Editor: EINAR P. JÓNSSON
Verð $3.00 um árið — Borgist fyrirfram
The “Lögberg” is printed and publishea by
The Columbia Press, Lámited, 695 Sargerit Avenue
Winnipeg, Manitoua
PHONE 86 327
Saga íslendinga í
Veálurheimi
Þorsleinn Þ. Þorsleinsson. Annað bindi.
VVinnipeg. 1943. Þjóðræknisíélag íslend-
inga í Vesíurheimi. Prenísmiðja Colum-
bia Press Ltd.
Þetta er mikil bók fyrirferðar og hin gagn-
merkasta um margt; hún tekur fyrra bindinu,
þótt margt væri vel um það einnig, í mörgu
fram, er yfir höfuð betur skipulögð og skemti-
legri aflestrar, og verður því ekki annað með
sanni sagt, en verkinu miði hið bezta áfram í
rétta átt; nú er þetta að verða “Sagan siálf”,
eins og Dr. Sig. Júl. Jóhannesson nýlega komst
að orði um bókina; aukaatriðin eru að gleymast.
Að flestum verkum mannanna, eða jafnvel
öllum, má eitthvað réttilega finna, þótt þau
engu að síður geti verið og séu, hin nýtilegustu;
því hefir meðal annars verið fleygt fram í
eyru vor, að of mikið væri af ættartölum í
þessari bók; að slíkt gerði hana að einskonar
markaskrá, en fáir entust til að lesa; aðfinslur
af þessu tagi eru út í hött, og hafa ekki við
nokkur minstu rök að styðjast; þær koma jafn-
framt úr hörðustu átt, þar sem ættvísin hefir
jafnan verið tallin til hinna menningarlegu
dygða íslenzku þjóðarinnar; en því aðeins vita
menn nokkur deili á sjálfum sér, að þeir verji
til þess nokkrum tíma æfinnar, að fræðast um
uppruna sinn og ætt; og án þess að persónur
þær, er við sögu koma, séu þannig svipmerktar
frá ættfræðilegu sjónarmiði séð, að eigi verði
um uppruna þeirra vilst, verður engin saga
skráð svo vel sé; ættarlýsingar í bók þessari,
verða því undir öllum kringumstæðum miklu
fremur að teljast til kosta, en vankosta; þær eru
heldur ekki það langdregnar, að þær stofni til
fjörráða við nokkurn sæmilega þjálfaðan les-
anda.
Bók þessi fjallar um nýbygðir íslendinga í
Utah, Brasilíu, Rosseau, Muskoka, Kinmount og
í Marklandi; eru lýsingar af íslenzkum frum-
byggjum og umhverfi þeirra á áminstum stöðum
hinar gagnorðustu, og -lausar að öllu við óþarfa
málalengingar; einna mestrar ánægju urðum
vér aðnjótandi við lestur kaflans um Mormóna-
byggð ættbræðra vorra í Utah-ríkinu; hefir sú
frásögn margháttaðan fróðleik til brunns að
bera, sem nauðsyn bar til, að forðað yrði frá
gleymsku, og gildir hið sama um marga aðra
kafla bókarinnar, sem að öðrum nýbyggðum
lúta; þetta eru eins konar fornaldarsögur ís-
lenzkra frumherja í vesturálfu heims; miðaldir
landnámsins og nýja sagan, eru að þokast nær.
Um bók þessa hefir þegar verið ritað svo
mikið og margt í vikublöðum vorum hér vestra,
að það væri í rauninni að bera í bakkafullan
lækinn, að bæta þar nokkru verulegu við að
öðru leyti, en því, að hvetja íslendinga almennt
til þess að kaupa bókina, og kynna sér innihald
hennar svo sem bezt má verða; því hún á það
í öllum meginatriðum skilið.
Nokkrar villur höfum vér rekið oss á í bók
þessari, sem láta hálf óþægilega í eyra. Sagt
er frá presti í Hofteigi á Jökuldal, sem Þorvaldur
hét; söguritarinn telur hann Kristjánsson; sá
Þorvaldur var Ásgeirsson; styðst höfundur þar
auðsjáanlega við ranga heimild; hefði auðveld-
lega mátt úr þessu bæta, því góð rit eru fáan-
leg, sem skilgreina prestastétt Islands. Ekki
minnumst vér þess, að hafa heyrt getið um
Melstað í Hrútafirði; hitt var líka alveg óþarft,
að hola Skriðdalnum niður í Norður-Múlasýslu;
hann hefir að minsta kosti fram að þessu, talist
til Múlasýslu hinnar syðri; en gera má ráð fyrii
að þessar villur, og nokkrar aðrar hliðstæðar,
verði leiðréttar í næsta bindi, og verða þær þá
ekki lengur jafn meinlegar.
Eftir því, sem lengra líður á söguna, og fleiri
bindi hennar koma út, hlýtur áhuginn fyrir
henni að vaxa, því þá fer almenningur að verða
hnútum hennar kunnugri, því þá fer hún að
verða samtíðarsaga, og stendur einstaklingun-
um þar af leiðandi nær. Það er mikilvægt þjóð-
ræknismál, að styðja að útgáfu og útbreiðslu
“Sögunnar”, því þótt eitt og annað í sambandi
við hana kunni að valda lítilsháttar ágreiningi,
þá er málið í eðli sínu hafið yfir allan ágrein-
ing, og ætti að sameina íslendinga í óskipta
heild.
Þessu áminsta bindi af Sögu íslendinga í
Vesturheimi, lýkur með komu fyrstu frumherja-
fylkingarinnar til Gimli, og fer höfundur um
þann eftirminnilega atburð svofeldum orðum:
“Stefnt var sunnan við Víðines inn í tjörnina
þar og lent í dálítilli vík innarlega á tanganum,
þar sem skóglaus mjódd er á rifinu. Þar var
flotinn festur við land.
Um kvöldið gengu menn fram og aftur um
sandrifið til að rétta úr sér, og voru hinir
ánægðustu yfir því, að loks var þessi langferð
á enda. Um nóttina létu þeir fyrirberast á lang-
skipum sínum.
íslendingar voru lentir með heilu og höldnu
á eyðiströnd síns nýja lands. En fyrsti vetrar-
dagur var að morgni.”
Málið á bók þessari er yfirleitt þróttmikið,
og lýsingar víða sviphreinar og glæsilegar. Prent
un er ágæt, og prófarkalestur nokkurnveginn
viðunandi. Bókin er 347 blaðsíður að stærð, og
kostar í bandi $4.00, auk 15 centa burðargjalds.
Pantanir, ásamt andvirði, sendist til Columbia
Press Ltd., 695 Sargent Ave., eða J. J. Swanson,
308 Avenue Building, Winnipeg.
Afmœli
forsœtisráðherrans
Þann 17. yfirstandandi mánaðar, átti forsætis-
ráðherra canadisku þjóðarinnar, Rt. Hon. W. L.
McKenzie King, sextíu og níu ára afmæli; hann
er enn maður ern, og þrunginn af starfsfjöri;
hann lætur sér aldrei óðslega að neinu; hann
er enn hinn yfirlætislausi forustumaður flokks
síns, sem jafnaðarlega lætur hinar illkvitnustu
árásir úr herbúðum andstæðinganna sér eins
og vind um eyru þjóta. En Mr. King er annað
og meira en algengur flokksforingi, hann er
raunverulega þjóðforingi í þess orðs sönnustu
og beztu merkingu; hann hefir haft með hönd-
um stjórnarforustu í þessu landi, lengur en'
nokkur annar stjórnmálaleiðtogi, og hann hefir
hvergi nærri verið kveðinn í kútinn enn. Það er
athyglisvert, að sum helztu blöðin í Montreal,
sem verið hafa um langt skeið einna illvígust
í garð Mr. Kings, eru nú farin að verða nokkru
mildari í máli, og telja þjóðarskútunni allvel
borgið meðan hann sé við stýrið; þau meira að
segja telja það nú engan veginn óhugsandi að
svo geti auðveldlega farið, að hann eigi eftir að
vinna eina kosninguna enn, jafnvel að loknu
stríði. Ýmsir þeir, sem handgengastir eru Mr.
King, hafa að sögn, hvatt til þess að “lengja
líf” þingsins meðan á stríðinu stæði, eins og
telja má víst að gert verði á Englandi. Þessu
hefir Mr. King þverneitað, og nú alveg nýverið,
hefir hann afdráttarlaust lýst yfir því, að “líf
þingsins” yrði ekki framlengt einn einasta dag
umfram reglubundið kjörtímabil, hvort sem
stríðinu þá yrði lokið eða eigi; þá yrði hinn
rétti tími kominn til þess, að ráðgast um það
við þjóðina, hvort hún vildi skipta um stjórnar-
forustu eða það gagnstæða.
Á afmælisdaginn vann Mr. King venju sam-
kvæmt frá því árla morguns og langt fram á
kvöld; hann er enn hinn aðgætni vökumaður
canadisku þjóðarinnar, jafnt í stríði sem friði.
Sharnhorst úr sögunni
Þau góðu tíðindi bárust nýverið á öldum
ljósvakans vítt um heim, að í sjóorustu, sem
háð var undan ströndum Noregs, hefði brezki
flotinn sökt þýzka beitiskipinu Sharnhorst, og
hefði með því djöfladrekum Hitlers fækkað um
einn. Samkvæmt opinberri tilkynningu frá
flotamálaráðuneytinu í London, höfðu tvö brezk
herskip aðeins laskast lítið eitt í viðureign
þessari.
Sharnhorst var eitt hið allra rammbyggileg-
asta herskip, sem Þjóðverjar áttu til í eigu
sinni, og búið öllum þeim illvígustu morð-
tólum, sem nútímatæknin þekti; en á áminstri
örlagastund kom þetta alt fyrir ekki; djöfla-
drekinn sökk með allri áhöfn, og honum skýtur
aldrei upp aftur. Illur sjóræningi er úr sögunni
sem aldrei á afturkvæmt.
Hver verður næsti
forseti
Næsta haust fara fram forsetakosningar í
Bandaríkjunum, og er undirbúningur undir þær
þegar hafinn af kappi, þó flest sé með kyrrum
kjörum á yfirborðinu; að Roosevelt verði enn á
ný í kjöri af hálfu Demokrata, er ástæðulaust
að draga í efa; en að því er Republicanaflokk-
inn áhrærir, þykir líklegt að megin átökin verði
milli Willkie og Dewey’s, ríkisstjóra í New
York.
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun í Banda-
ríkjunum, hefir Roosevelt algerlega yfirhönd-
ina í flokki Demokrata, eii Willkie í flokki
Republicana; úr þeim flokki er nú einnig all-
mikið talað um Bricker ríkisstjóra í Ohio, sem
líklegt forsetaefni.
Kveðja tíl islands og
lslendingum,
Eflir Guðmund <
(Ávarpi þessu átti að útvarpa
til íslands 1. desember. en vegna
breyttra aðstæðna varð ekki af
því.) Ritstj.
Heiðruðu Íslendingar!
Mér er það sönn ánægja að
færa íslandi og íslendingum
bestu kveðjur og heillaóskir frá
Vestur-íslendingum á þessum
degi. Við erum enn nægilegt brot
af íslenzku þjóðinni til að geta
tekið verulegan þátt í öllu heima
á Islandi. Við sem erum af annari
kynslóð íslendinga í Norður
Ameríku, munum vel virðing-
una og ástina til íslands, sem
foreldrar okkar bæði vitandi og
ósjálfrátt innrættu okkur. Við
munum söknuð þeirra út af því
að fara á mis við íslenzka félags-
lífið og íslenzka útsýnið. Við
munum fögnuð þeirra þegar bréf
komu frá ættingjum og vinum,
sem eftir voru. Við munum hvað
vænt þeim þótti um fréttir af
framförum, bæði verklegum og
stjórnarfarslegum. Þó erfiðleik-
ar á íslandi á þeim tímum væru
aðallega ástæðan fyrir komu
þeirra hingað, var það aldrei
nefnt. aðfinnslur um Isiand
heyrðum við aldrei, aðeins það
besta var okkur sagt þegar ís-
landi var lýst fyrir okkur. ísland
varð ósjálfrátt okkar töfraland.
Tilfinningar okkar af þessari
kynslóð gagnvart Islandi eru því
auðskildar. Við getum fyllilega
fagnað yfir framförum og far-
sældum þar. Við hryggjumst yfir
erfiðleikum og öllu sem aflaga
fer.
Við höfum reynt að innræta
börnum okkar þessar sömu til-
finningar. þó tækifærin hafi ekki
gefið þess kost að það tækist eins
vel og fyrir foreldrum okkar. Þá
samt má eg fullyrða að allir sem
eru af íslenzku bergi brotnir
hvar sem þeir eru. eiga eitthvað
af þessum tilfinningum og allir
samgleðjast íslandi og íslending-
um á þessum degi yfir vel unnu
og þjóðlegu starfi og óska landi
og þjóð als hins besta 1 fram-
tíðinni.
Áður en foreldrar okkar fluttu
frá íslandi, var landið um marg-
ar aldir undir einokun erlendrar
stjórnar. Þar af leiðandi erfið-
leikar og hörmungar höfðu lam-
að allan vilja og allan kraft til
framfara bæði andlega og verk-
lega en byrjað var að ráða bót
á því. Ármann á Alþingi, Fjölnir
og Ný félagsrit höfðu glætt hugs-
unarhátt og elft hugrekkið. Jón
Sigurðsson afrekaði miklu með
sinni æfilanga og ötula starfi í
þágu frelsis og framfara Islands.
Fyrsta sporið var stigið þegar
stjórnarskráin fékst árið 1874. En
hún var mjög ófullkomin. Aðrir
góðir leiðtogar tóku við og þegar
örðugast sýndist vera voru altaf
einhverjir sem héldu á lofti hug-
sjóninni um fult frelsi. Ófull-
nægjandi sjálfstæðissamningum
var hafnað. Loks tókst að fá
grundvöll Gamla sáttmála við-
urkendan og ísland aðskilið frá
Danmörku með sambandslaga-
samningnum 1918, með honum
var endurreist sjglfstæði íslands
sem við minnumst í dag.
En með því var ekki alt full-
gert. Eftir var að flytja inn í
landið dómsvaldið. Eftir var að
takast á hendur strandgæzluna
og utanríkismál landsiná, þá var
einnig eftir að slíta konungssam-
bandinu. Samningurinn gerði að
vísu ráð fyrir öllu þessu, en það
þurfti áræði og kraft til að koma
þessu í framkvæmd. Þeir eigin-
leikar komu strax í !jós. Óhikað
var haldið áfram í frelsisáttina
og þessi mál útkljáð hvert eftir
annað.
Við höfum miklar mætur á
sögunum af hinum fornu íslenzku
hetjum. Eigi að síður ættum við
að viðurkenna hetjur nútímans,
þær hafa sýnt fult eins mikinn
hetjuskap, þær eiga alveg eins
mikinn eða meiri heiður skilinn.
íslendinga frá Vestur-
1. des., 1943
Irímsson dómara
Þessar nútíma hetjur íslands
hafa ekki barist sín á milli með
spjótum eða söxum og ekki farið
í víkingaferðir til útlanda sér til
fjár og frama. Baráttan á milli
þeirra hefur verið um hvað best
sé fyrir land og þjóð. Vopnin
hafa verið skynsamar deilur um
það, að þeim loknum hafa menn
gengið sem einhuga hersveit móti
útlendri kúgun. Einhuga hefir
líka verið starfað að því að nota
sér öfl náttúrunnar, svo sem foss-
ana, hveri og laugar í þarfir þjóð-
félagsins. Það er okkur hér mikil
ánægja að heiðra þessar nútíma
hetjur.
Eins er það mikið gleðiefni
fyrir okkur að næstum allir ís-
lendingar og allir stjórnmála-
flokkar landsins eru samtaka í að
neyta uppsagnar ákvæðis sam-
bandslaganna, undir eins næsta
ár og endurreisa þá lýðveldið.
Það er höfuðatriði þessarar 700
ára baráttu. Við munum fagna
yfir framkvæmd þess 17. júní
1944.
Og alt þetta hefir verið fram-
kvæmt af fámennri þjóð með
friðsamlegum samningum við
mikið stærri þjóð, það er fyrir-
mynd, sem stórþjóðirnar mættu
vel nota í framtíðinr.i.
Við fögnum því líka að þegar
örlögin settu ísland á umheims-
ins alfara braut og þessi mikla
styrjöld náði til íslands, þá voru
allir samhuga um að veita alla
mögulega aðstoð í frelsisbarátt-
unni og um leið vernda þjóðina
eftir mætti.
ísland og íslendingar eru nú í
meira áliti um víða veröld en
nokkurntíma áður.
Við erum stoltir af að vera
skyldir ykkur.
Lengi lifi ísland.
Úrval íslenzkra bóka
á ensku
Richard Beck, prófessor við há-
skólann í Norður-Dakota í Banda
ríkjunum, hefir nýlega gefið út
á vegum American-Scandinavian
Foundation úrvalssafn íslenzkra
nútímabókmennta, er hann nefn-
ir Icelandic poems and stories
(Princetown University Press).
Eru í safni þessu birtar enskar
þýðingar á kvæðum og sögum
(eða sögubrotum) eftir 28 skáld,
frá Bjarna Thorarensen til Hall-
dórs KiJjans Laxness. Islenzku
skáldin eru: Bjarni Thorarensen,
Jónas Hallgrímsson, Grímur
Thomsen, Ben. Gröndal, Páll Ól-
afsson, Steingr. Thorsteinsson,
Matthías Jochumsson, Kristján
Jónsson, Jón Stefánsson (Þorgils
gjallandi, Gestur Pálsson, Steph.
G. Stephansson, Einar H. Kvaran,
Þorsteinn Erlingsson, Hannes
Hafstein, Einar Benediktsson,
Þorsteinn Gíslason, Guðm. Frið-
jónsson, Jón Trausti,, Guðm.
Guðmundsson, Kristín Sigfús-
dóttir, Jóhann Sigurjónsson,
Hulda, Jakob Thorarensen, Jak-
ob Smári, Davíð Stefánsson,
Guðm. Hagalín, Kristmann Guð-
mundsson og Halldór Kiljan Lax
ness.
Er ljóst af þessu, að mörg
nöfn vantar fieirra manna, er
sæti eiga á skáldaþingi, en við
því má eigi búast, að í úrvals-
riti eins og þessu sé unnt að
birta þýðingar eftir öll þau ís-
lenzk skáld, er það ættu skilið.
Veldur m. a., að mjög erfitt er að
þýða kvæði og verður því að not-
ast við þær þýðingar, er gerðar
hafa verið, oft af handahófi, og
birzt hafa í tímaritum og blöð-
um vestan hafs. Hinsvegar ber
útgefandi ábyrgð á því að velja
þær einar þýðingai, er fram-
bærilegar mega teljast. Kvæðin
eru flest þýdd af Jakobínu John-
son, 24 samtals, eftir ýms skáld.
Næstur er Watson Kirkconnell,
er þýtt hefir 10 kvæði, Skúli
Johnson með 4 þýðingar, en aðr-
ir Ijóðaþýðendur eru Eiríkur
Magnússno (Sverrir konungur ,
Charles Wharton Stork, Kemp
Malone, Runólfur Félsted, Magn-
ús Á. Árnason og Vilhjálmur
Stefánsson (2 vísur eftir Stein-
grím Thorsteinsson). Sögurnar
eru flestar þýddar af Mekkin
Sveinson Perkins, samtals 12,
eina hefr Jak. Johnson þýtt,
aðra Rich. Beck, og 2 þýðingar
eru eftir Axel Eyberg og John
Watkins í sameiningu.
Það er vitanlega ógemingur að
leggja nokkurn dóm á þessar
þýðingar án nákvæms saman-
burðar. Sumar ljóðaþýðingarnar
eru prýðilega gerðar, aðrar mið-
ur, eins og gengur. Úrval þetta
mun vekja forvitni margra bók-
menntamanna í enskumælandi
löndum, ekki sízt vegna þess, að
stutt æviágrip fylgir hverjum
höfundi, er Rich. Beck hefir sam-
ið. Skýrir hann þar frá helztu
ritstörfum hvers höfundar og ein
kennum hans. Eru þessar stuttu
lýsingar ritaðar af miklum hlý-
leik í garð íslenzku skáldanna
og tekst honum víðast prýðilega
að benda á sérkenni hvers eins.
I ítarlegum formála lýsir
Rich. Beck þróun íslenzkra bók-
mennta frá byrjun rómantísku
stefnunnar og fram á vora daga.
Eru þar dregnar glöggar marka-
línur og gerir hann sér far um
að sýna fram á samhengið við
fornbókmenntirnar og hversu
íslenzk skáld séu í sínu innsta
eðli þjóðleg, þrátt fyrir margs-
konar áhrif af erlendum tizku-
stefnum í nálægum löndum.
Richard. Beck er, eins og kunn-
ugt er, óþreytandi eljumaður til
allra starfa. Auk kennslustarfa
sinna og vísindalegra ritgerða
ritar hann blaðagreinar, flytur
fyrirlestra um ísland og íslenzk-
ar bókmenntir víðsvegar í Amer-
íku, er forseti Þjóðræknisfélags-
ins og nýlega skipaður íslenzkur
ræðismaður í Norður Dakota.
Hann er ekki síður ræðismaður
íslendinga í andlegum málum og
mega íslendingar bæði austan
hafs og.vestan vera honum þakk-
látir fyrir hans mikla og ötula
starf.
Alexander Jóhannesson.
Vísir. i
Hitt og þetta
Leikari (kemur inn í herbergi
sitt og sér vin sinn með hendurn-
ar niðri í peningakassanum og
miðar á hann byssu): “Láttu
peningakassann minn vera! Upp
með hendurnar, annars skýt eg-”
Vinurinn: “Láttu ekki svona,
maður. Kassinn er alveg tómur.”
Leikarinn: “Það er nú byssan
mín líka. Og þá er víst bezt, að
við séum sáttir.”
•
Kona: “Eg er 'hrædd um að
þú hafir verið nokkuð drukkinn,
þegar þú komst heim í nótt.”
Maðurinn: “Nei, góða mín. Eg
var svo ódrukkinn, að eg las
lengi í blaði í rúminu, áður en eg
fór að sofa.”
Konan: “Þú hefur víst haft lítið
gagn af þeim lestri, því að það
lá öfugt fyrir framan þig sofandi
í morgun.”
•
Frú A.: “Hefur þú vinnukonu
eða gerir þú húsverkin sjálf?”
Frú B.: “Já”.
Frú A.: “Hvernig á að skilja
það?”
Frú B.: “Eg svara báðum spurn-
ingunum játandi. Eg hefi vinnu-
konu og eg geri verkin sjálf ”
•
A: “Einn af aðalkostunum við
ferðalög er sá, að maður sér alt
af ný og ný andlit.”
B: “En eg þarf nú ekki að ferð-
ast til þess, því að konan mín
hefur oftast vinnukvennaskifti
mánaðarlega, svo að eg sé alt af
ný og ný andlit.”
•
A: “Hvernig líður honum
frænda þínum?”
B: “Það er nærri því ár síðan
hann dó.” í
A: “Nú, það er líklega aí því,
sem eg hefi ekki séð hann á
gangi svo lengi.”