Lögberg - 26.02.1953, Blaðsíða 7
LÖGBERG, FIMTUDAGINN, 26. FEBRÚAR, 1953
7
f —s
GUÐRÚN FRÁ LUNDI:
DALALÍF
N - r
Valgerður stóð upp, þung í skapi, og fylgdist með þessari ein-
kennilegu konu fram úr húsinu. Hún hafði orðið fyrir talsverðum
vonbrigðum. Hún tók vandlega eftir, hvað Önnu á Brekku liði og
sá, að Lísibet gerði henni bendingu að finna sig. „Og þó,“ hugsaði
Valgerður.
Anna fylgdi Lísibetu inn í hjónahúsið.
„Þú varst María á Hrafnsstöðum nýlega samferða neðan af
Ósi, Anna mín, byrjaði Lísibet samtalið. Anna játti því.
„Valgerður var að segja mér frá samræðum ykkar.“
Anna sótroðnaði og þorði ekki að líta upp.
„Hvernig datt þér í hug að gaspra þetta við hana?“
Anna leit á hana tárvotum augum. „Ég gerði það til þess að
Btríða henni. Hún hefur svo oft kvalið mig með því, að við séum
á sveitinni og höfum aldrei neitt að borða, og svo kallar hún
pabba minn alltaf svarta Pétur.“
„Er hún svona merkileg? En hvaða stríðni hélztu að henni
væri í þessu?“
»Af því að hún er vitlaus í Jóni. Valgerður heldur, að hún
verði konan hans. Ég heyrði hana vera að tala um það við Hannes
gamla.“
„Hvernig getur hún látið sér detta slíkt í hug?“
„Víst af því að hann á jörðina,“ svaraði Anna í barnslegri
einfeldni.
Þá brosti Lísibet. „Kannske hún ætli sér að láta hann hafa
Maríu í landskuldina eitthvað vorið?“
Anna fór að hlæja. Hún vissi vel, hvað landskuld var. „Bara
að hún sé þá ekki of horuð.“
„Þú skalt ekki, Anna mín, vera að segja svona lagaðar sögur.
Þó að engum komi þetta við, þá er óþarfi að láta fólk hafa það til
þess að masa um það,“ sagði Lísibet hlýlega og klappaði Önnu á
kinnina. En Anna grúfði sig inn í brjóst hennar og snökti. „Þær
hafa sagt þér þetta, svo að þú yrðir reið við mig.“
Þær gengu út á hlaðið tii gestanna.
Valgerður kvaddi Lísibetu með mörgum kossum og bauð
henni Maríu sína, ef henni lægi á stúlku. En Lísibet sagðist alltaf
hafa fleiri stúlkur en hún þyrfti. En hún lét í ljós, að sér litist
mjög vel á dóttur hennar og var ákaflega mjúkmál við þær
mægður.
Anna kvaddi fyrirfólkið með kossum og kærleikum. Jón gekk
við hlið hennar út túnið. Þau mösuðu og hlógu. Hann beizlaði
brúna folann og fékk lánaðan hnakk hjá pilti þar utan úr dalnum
og lagði á hann. Hann ætlaði að prófa, hvað hann væri vel taminn
hjá Önnu. Hún stóð uppi á réttarveggnum og horfði brosandi á,
þegar hann hleypti Brún út eyrarnar.
„En montið,“ hvíslaði María að Jóhönnu.
„Goít ef hún fer ekki að fljúga á eftir þeim,“ sagði Jóhanna
Jón kom bráðlega aftur. „Ég er alveg hissa, hvað hann er hjá
þér, Anna mín. Þú skalt senda mér hann. Ég skal hafa hann svo
sem hálfsmánaðar tíma,“ sagði hann, meðan hann spretti af
hnakknum og lagði gamla hnakkinn hans Péturs gamla á Brún í
staðinn. En honum datt ekki í hug að leggja söðulinn hennar
Maríu á Bleik hennar. Söðullinn var þó með nýja laginu og út-
saumað klæðissessa í honum.
„Heldurðu, að það geti skeð, að folinn sé hestefni?“ spurði einn
bóndi utan af ströndinni Jón.
„Það er ekki vafi á því,“ svaraði hann.
Anna reið á undan hópnum eins og fyrr. Nú dáðust allir að
Brún og töluðu um, hvað hann væri fallegur. Hann væri líka
hestefni. Það hefði vit á því.
En Hrafnsstaðamægður voru í slæmu skapi og langt frá því
að vera ánægðar með árangurinn af kirkjuferðinni.
RÓSA SKÁLDKONA
Þóra í Hvammi hugsaði að mestu leyti um heimili föður síns,
sem var orðinn gamall og farinn að heilsu. Þau höfðu vinnumann
og smala á sumrin. Gömul kona, sem Margrét hét, hafði verið
þar síðan Björn varð ekkjumaður og reynt að ganga Þóru í
móðurstað, eftir því sem hún gat. En Þóra var óstýrilát og gegndi
engum nema föður sínum í uppvextinum. Nú var hún orðin
dugleg stúlka, sem vann jafnt karlmannsverk sem konu. Skaps-
munirnir voru að sama skapi miklir.
Það var siður í dalnum og víðar á þeim tímum., að bændur
höfðu vinnumenn sína við sjó á haustin og framan af vetrinum.
Það gerði Björn líka. Þá hugsaði Þóra um féð heima, smalaði því
og hirti ær í húsi. Faðir hennar talaði oft um það, að heppilegt
væri fyrir hana að vera í karlmannsfötum, þegar hríðar væru, en
það vildi hún ekki, því að slíkur búningur þótti hlægilegur. En,
Björn gamli hélt, að rollurnar myndu ekki taka til þess, þó að
hún væri í buxum. Honum fannst hún stundum óskiljanlega lengi
að gefa fénu. Hann sá til hennar út um gluggann, meðan hún
smalaði fjallið.
Einn dag var hann óvenju órólegur út af henni. Það var
hríðarjagandi úti. Loks tók hann stafstaut, sem hann hafði sér
til stuðnings, og gekk til ærhússins, sem stóð syðst á túninu.,
Húsið var óhespað; auðséð, að Þóra var komin heim og búin að
hýsa féð.
Björn opnaði húsið og leit inn. Ærnar röðuðu sér á garðann,
sem var kúfaður með iðgrænu heyi. „Ekki sveltir hún rollurnar,“
sagði hann við sjálfan sig og gekk hægt inn með veggnum, svo
féð styggðist ekki. Þóra hlaut að vera uppi í tólftinni. Hann
heyrði líka til hennar, þó að heyrnin væri farin að sljófgast; en
hún var ekki ein. Það var skrafað og hlegið. Hann þekkti vel,
hver kominn var, þótt hann sæi engan. Hann staulaðist út aftur,
án þess að gera vart við sig, og gekk hugsandi til bæjar.
Hvort átti hann að hryggjast eða gleðjast? Það vissi hann
ekki. Hann var á förum úr heiminum. Það vissi hann vel, og oft
hafði hann hugsað um það, hvað yrði um Þóru, þegar hann væri
horfinn.
Það var víst óþarfi að kvíða, ef gæfan ætlaði að hossa henni
svona hátt. En hún hafði það til að lofa gulli, en gjalda með eyri.
Dóttursonur séra Helga væri ekki ólíklegur til að vera dálítið
fjöllyndur, en góður eiginmaður yrði hann sjálfsagt. Það var ekki
um annað að gera en tala við Þóru. Hann sat og rýndi inn í fram-
tíðina, en gat ekkert séð annað en sama hálfrökkrið og var í kring-
um hann í baðstofunni. Hann borðaði hljóðlaust eins og einhver
væri nálægur, sem ekki mætti heyra til hans.
„Mér þykir Þóra vera lengi úti,“ sagði Magga gamla.
„Hún fer að koma,“ sagði hann.
Rétt á eftir kom hún inn og fór að borða matinn, sem Magga
gamla var búin að hafa mikið fyrir að halda heitum.
Mér var farið að leiðast effir þér, Þóra mín, svo að ég lagði af
stað að vita, hvað þér liði.“
„Það getur ekkert orðið að mér í þessu veðri. Hvað fórstu
langt?“ sagði Þóra.
„Ég komst alla leið suður í ærhús; en svo þóttist ég heyra,
að það væri gestur hjá þér, svo að ég var ekkert að trana mér
fram,“ sagði hann og hló dálítið.
„Þótti þér ekki rausnarlega gefið á garðann?“ spurði hún og
hló líka.
„Jú; þær eru áreiðanlega ekki svangar hjá þér, blessaðar
rollurnar, ef þær fá alltaf svona vel útilátna gjöfina.“
„Ég gaf þeim ekki svona mikið.“
„Er það þá hann?“
„Já.“
„Ó-já; hann á það nú í ættinni, að skera það ekki upp á
neglurnar á sér, sem hann lætur úti. En svo er það líka fleira,
sem getur verið ættgengt.“
Þau þögðu bæði alllengi. Magga gamla var frammi.
„Kemur hann oft að finna þig í fjárhúsin?" spurði hann.
„Oftast nær, þegar eitthvað er að veðri, hjálpar hann mér að
láta inn og gefa.“
„Vel er það hugsað,“ tautaði hann í hálfum hljóðum, en hún
heyrði það samt.
„Eruð þið ennþá eins og systkini?” spurði hann næst.
„Nei.“
„Eruð þið þá trúlofuð?“
„Það höfum við verið síðan við vorum börn. Manstu ekki,
hvað hann sagði það oft, að ég ætti að verða konan sín, þegar við
værum orðin fullorðin?“
„Slíkt er nú barnahjal, sem ég legg ekki mikið upp úr. Hvenær
eiga hringarnir að komar?“
„Ekki veit ég það. Hann er ekkert farinn að minnast á það.
Við erum svo ung ennþá.“
„Ekki það. Hefur hann þá nokkurn tíma minnzt á það, að þú
yrðir konan sín. Er þetta bara ekki framhald af æskuvináttu
ykkar?“
„Mér þykir svo fjarskalega vænt um hann, pabbi, og honum
þykir vænt um mig. Hann er svo góður piltur. Þér dettur þó ekki
í hug, að hann bregðist mér?“ spurði hún hissa.
„Það er nú eitt af því illa, sem fylgir ellinni, að vera tortrygg-
inn. Gerðu það fyrir mig, Þóra mín, að spyrja hann að því, hvenær
hann ætli að setja upp hringinn, og segðu mér, hverju hann
svarar. Hann er svo líkur honum afa sínum. Hann þekki ég vel.“
Magga gamla kom inn með ljós í lýsislampa og athugaði sokk-
inn, sem Björn var búinn að prjóna alltof langan.
Þóra átti bágt með að spyrja Jón að því, sem faðir hennar
bað hana um. Samt lagði hún út í það einu sinni, þegar þau sátu
saman og hún hélt um hönd hans, heita og karlmannlega.
„Ætlarðu ekki einhverntíma að setja upp hring?“
„Hring? Heldurðu að höndin á mér yrði nokkuð fallegri fyrir
það?“ spurði hann hlægjandi.
„Já, mig langar til að eiga hring frá þér, engum öðrum.“
„Dálítið glysgjörn. Þætti þér vænna um mig, ef ég gæfi þér
hring?“
„Nei; mér gæti ekki þótt það,“ svaraði hún.
„Því trúi ég vel. Það er gott svona, Þóra mín. Þú verður
kærastan mín alltaf, hvað sem öllum hringum líður. En líklega
set ég upp hringinn næsta vetur. Þá verður karl orðinn nítján ára
og fer eitthvað að líta í kringum sig,“ sagði hann hlægjandi og
fór að tygja sig til ferðar. „Það er líklega ráðlegast að fara að
hafa sig heim. Pabba þykir ég vera lengi að ná hrossunum."
„Veit enginn, að þú ert að finna mig?“ spurði hún.
„Enginn nema mamma. Hún verður að vita allt; hún er
svo góð.“
Þóra sagði föður sínum frá svörum hans. Hann lét sér fátt
um finnast. Ekkert var á þessu að græða. En hann vildi ekki
hryggja Þóru með því að tala neitt frekar um þetta. Bezt að sjá,
hverju fram vindur.
Næsta var var mikið breytt til á Nautaflötum. Nýtt hjóna-
hús og baðstofa var byggt. En úr gamla húsinu var búið til búr og
eldhús úr frambaðstofunni. I það var sett ný eldavél og það var
alltaf kallað kokkhús. Borghildur var þar oftast nær hæstráðandi.
En í nýja hjónahúsið var keyptur nýr glansandi ofn, mannhæðar
hár, en litli ofinn látinn í vinnufólksbaðstofuna. Það var pískrað
um það í dalnum, að nú væri verið að búa í haginn fyrir nýju
konuna.
Um haustið var tekin kennslukona á heimilið' til að kenna
Önnu, því að hún vildi ekki fara í skóla. Margar stúlkur þar í
dalnum fengu að njóta góðs af þessum lærdómi Önnu. Nú stóð
einmitt svo á, að Þóra þurfti að hugsa um féð þetta haust, eins og
vant var; en Lísibet vildi sízt af öllu, að Þóra færi á mis við
tilsögnina.
Jón var sendur af stað til að tala við feðginin. Hann bar upp
erindið við Björn.
„Mamma er búin að taka útlærða piparkrukku til að kenna
Önnu ýmislegt, sem ómissandi er fyrir ungar stúlkur að kunna,
og það verða víst þó nokkuð rqargar stúlkur hjá henni. Okkur
finnst sjálfsagt, að Þóra fái að koma fram eftir. Ég skal útvega
þér strákangann frá Selinu til að hugsa um kindurnar. Ef tíðin
versnar, get ég litið eftir þeim með honum.“
Þóra tókst á loft af tilhlökkun og horfði biðjandi augum á
föður sinn. Hann þakkaði Jóni fyrir umhyggju hans og sagði, að
Þóra skyldi ráða, hvað hún gerði; en sér sýndist það á svipnum á
henni, að hún myndi taka boðinu.
Þóra fór í kaupstaðinn og keypti sér klæði í peysuföt og
ýmislegt fleira.
Nú komu skemmtilegir tímar, sem dalastúlkurnar hafði aldrei
dreymt fyrir. Allt var það Lísibet að þakka, eins og annað gott.
Fimm ungar stúlkur sátu inni í hjónahúsinu og saumuðu allan,
daginn. María á Hrafnsstöðum ætlaði að koma upp úr nýjárinu.
Engin þeirra var eins lagin og Anna Friðriksdóttir. Hún var þó
langyngst, rúmlega sextán ára. Þóra fór heim á kvöldin. Hinar
stúlkurnar fylgdu henni á leið, þegar gott var veður.
Á milli bæjanna var hár garður, sem sagt var að hefði staðið
frá landnámstíð og var alltaf kallaður Hleðsla. Vanalega sat Jón
þar á kvöldin og fylgdi Þóru það sem eftir var leiðarinnar.
Björn gamli var ekki í neinum vafa lengur. Þessi glæsilegi
maður ætlaði að gera dóttur hans hamingjusömustu konuna í
sveitinni og láta ævikvöld hans verða sólríkt og' áhyggjulaust.
Það leið til jóla. Peysufötin voru búin og héngu frammi í
stofu. Það var látið fara mjög vel um þau. Þóra saumaði rósir í
klæði, sem átti að verða sessá í söðul. Hinar stúlkurnar gerðu það
líka.
Einn morgun viku fyrir jól, þegar Þóra kom frameftir, kom
strákangi, sem Sigurður hét og var þar í fóstri, á móti henni út á
túnið og sagði henni, að einn vinnumaðurinn hefði farið vestur
að öxl; sá bær var í næstu sýslu. Þóra hafði heyrt hann nefndan
vegna þess, að þangað sóttu allir trúlofunarhringa, sem þurftu
þeirra með. Samt hugsaði hún ekki út í það meira. Seinna um
daginn kom hún fram í eldhúsið, sem var frammi í bæ. Þar þvoðu
vinnukonurnar stóran þvott.
„Ósköp þvoið þið mikið,“ sagði Þóra.
„Það á nú kannske ekki að vera óhreinkan á tauinu um jólin,“
sagði önnur þeirra, sem var vel málgefin. „Það stendur nú sjálf-
sagt ofurlítið til, þegar dalaprinsinn ætlar að fara að setja upp
hringinn.“
Þóra sneri sér undan, svo að þær sæju ekki, hvað henni brá.
„Hvað ertu að rugla?“ greip hin fram í aðvarandi.
„Hún veit það líklega, hún Þóra,“ sagði sú, sem fyrr talaði.
„Nei, ég veit ekkert,“ svaraði Þóra hljómlausri röddu. „Hver
er annars vegar?“ bætti hún við. Henni datt í hug prófastsdóttinn.
„Hver skyldi það svo sem vera önnur en engilbrúðan, sem
hann Jakob kallar,“ svaraði vinnukonan hlægjandi.
Þóra stóð orðlaus. Hún trúði ekki sínum eigin eyrum. Það
var Anna Friðriksdóttir, sem Jakob nefndi þessu nafni, sextán.
ára, fallega kaupstaðarbarnið. Þetta hlaut að vera einhver vit-
leysa. Hún ráfaði út fyrir bæ og stóð þar dálitla stund, meðan hún
var a ðjafna sig eftir geðshræringuna, sem fréttin hafði orsakað.
Þóra kepptist við að ljúka við það, sem hún var að sauma,
áður en myrkrið kæmi. Hún var fátöluð, en hugsaði fleira en
hún var vön. Svo tók hún saman allt, sem hún átti ósaumað. „Ég
kem ekki aftur,“ sagði hún við Lísibetu. „Það er farið að nálgast
jólin.“
„Blessuð húsmóðirin. Nú þarf hún að fara að hugsa um að
búa heimilið sitt undir jólin. Þær fara líka á morgun eða næsta
dag, hinar stúlkurnar,“ sagði Lísibet.
Anna fylgdi henni út á túnið. Veðrið var orðið gott, en hafði
gengið á með hríðaréljum um daginn. Anna hoppaði kát og fjörug
við hlið Þóru. „Þú kemur fram eftir á jólunum, Þóra mín. Þá
dönsum við og leikum okkur.“
„Hvers vegna ætlið þið að dansa á jólunum núna? Það hefur
aldrei verið leikið sér neitt fyrr en á nýjárinu," sagði Þóra.
„Það verður svo gaman núna, Þóra mín. Ég skal segja þér
eins og er; év veit, að þú segir það engum. Það er verið að sækja
hringana handa okkur. Við setjum þá upp á jólanóttina. Pabba
þykir of snemmt vegna mín, en Jón vill ekki bíða lengur. Hann.
segir, að við getum verið lengi trúlofuð, áður en við giftum okkur.“
Hún hengdi sig um hálsinn á Þóru til að láta í Ijós gleði sína.
Helzt hefði Þóra kosið að vera laus við faðmlög hennar. Það var
ekki frítt við, að hana langaði til að kasta henni niður á frosna
jörðina; en hún stilti sig.
„Hvað er langt síðan þið trúlofuðust?" spurði hún.
„Það er nú orðið nokkuð langt síðan, þó að engum hafi dottið
það í hug vegna þess, hvað hann hefur alltaf verið góður við mig.
En þegar hann ætlaði að fara í skólann í seinna skiptið, læddist
ég fram í stofu og fór að gráta út af því, að nú væri hann orðinn
svo stór og fullorðnislegur. Ég vissi, að hann myndi bráðum fara
að hætta að sitja með mig eins og systur sína. Það væri ekki
lengur viðeigandi. Það var svo sárt að hugsa til þess, að eiga
hann ekki alltaf fyrir bróður. Þá kom hann fram og spurði mig,
hvers vegna ég væri svona hrygg. Ég sagði honum það.“
Þóra tók utan um mitti hennar og spurði áfergjulega: „Hvað
sagði hann þá? Segðu mér hvert einasta orð.“
„Hann spurði mig, hvort mig langaði til að vera alltaf hjá sér
og pabba og mömmu. Ég sagðist hvergi annars staðar geta verið.
Þá hló hann. Þú þekkir, hvað hann hlær skemmtilega, og sagði:
„Það áttu líka að vera; það er að segja, ef þú vilt verða konan
mín. Það hef ég alltaf hugsað mér, að þú yrðir, og mamma og
pabbi vilja það líka.“ Ó, hugsaðu þér, Þóra. Ég gat ekki stillt mig;
fór að gráta af eintómri gleði. Ég veit, að enginn kærustupör
hafa elskað hvort annað eins mikið og við gerum. Ég gat ekki
hugsað til þess að fara í skólann í haust. Hvernig átti ég að yfir-
gefa hann svo lengi. Drottinn minn, hvað það er gaman að lifa!“
Þóra gleypti hvert orð um leið og þau sluppu út yfir varir
Önnu. „Svo þú hefur þá trúlofast, áður en þú fermdist?" sagði hún
og hló háðslega.
„Já. Er nokkuð ljótt við það?“ spurði Anna svo sakleysislega,
að Þóra iðraðist kaldhæðni sinnar.
„Nei, en það er víst óvanlegt og hálf óviðkunnanlegt," sagði
Þóra. „En það veit það enginn. Ég veit, að þú segir ekki frá því,“
sagði Anna.
Þá heyrðist rödd Lísibetar húsfreyju heiman frá bænum:
„Anna! Hvar ertu barn? Því ertu að fara út í kuldann fáklædd
úr ofnhitanum?“
„Ég ætla að fylgja' henni Þóru,“ kallaði Anna á móti.
„Komdu undir eins heim, góða mín. Þóra ratar fylgdarlaust."
Anna kvaddi Þóru í flýti og hljóp heim að bænum. Annað
þekktist ekki þar á heimili, en að hlýða, þegar húsmóðirin taláði.
Þóra gekk hart út grundirnar. Þó fundust henni fötin vera
svo þröng utan um brjóstið á sér, að hún gæti ekki náð andanum.
Hún tók krók á leið sína og fór ofan að á og út með henni. Þá
var hún viss með að mæta engum.
Faðir hennar stóð í dyrunum, þegar hún kom á hlaðið. Hann
hafði breytzt talsvert síðan um haustið. Hann var kvikari í hreyf-
ingum og glaðari í anda. Hún vissi vel, af hverju það stafaði. Það
yrði ekki einungis hún, sem liði skipbrot; hann gerði það líka.
„Hafði strákurinn allt féð í hríðinni?" spurði Þóra, þegar
hún hafði heilsað.
„Ójá; það var víst ekki hætt við, að það væri ekki litið eftir
því eins og fyrri,“ svaraði hann, og höfuðið vaggaði ánægjulega
fram og aftur.
„Var Jón hér í dag?“ spurði hún hissa.
„Já, hann var hér og spjallaði lengi við okkur og drakk kaffi
hjá Möggu. Mætti hann þér ekki? Hann er svo nýlega farinn."
„Nei; ég fór út með á,“ svaraði Þóra og hraðaði sér inn, svo
að hún þyrfti ekki að svara fleiri spurningum.