Lögberg - 19.03.1953, Blaðsíða 6

Lögberg - 19.03.1953, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMTUDAGINN, 19. MARZ, 1953 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF Þá nálgaðist skynsemin hana, alvarleg og einbeitt. Hana hafði oft langað til að tala við Þóru nú upp á síðkastið, en ekki verið virt viðlits. Það var alvanalegt þar, sem ástin sat að völdum. Nú var hún flogin í burtu eins og flugan, þegar hún hefur satt sig til fulls á hunangi blómsins, en sorgin var komin í staðinn. Það var Kka vanalegt. En sorgin var líka óráðþægin svona í byrjun. Þóra grúfði sig ofan í hálfþurran þvott á borðinu og grét hægar en áður. Þá hvíslaði skynsemin í eyra henni: „Manstu eftir sjómannaballinu á Ósnum?“ Þóra hætti að gráta. Hugurinn flaug meira en fvö ár aftur í tímann. Allir piltarnir í sveitinni höfðu tekið saman ráð sín um að halda ball, áður en Jón færi í skólann í seinna skiptið. Ballið var haldið að Ósnum, því að hér um bil hver ungur maður var við sjó á haustin. Þess vegna var það nefnt sjómannaball. Þar var nóg vín, og hver og einn kom fram eftir eigin geðþótta. Jón dansaði mest alla nóttina við Lilju frá Seli. Þóru hafði aldrei verið eins illa við nokkra manneskju og henni var við Lilju þá nótt. Hún sá það, að dans þeirra var ekki annað en faðmlög. Hann hélt henni óviðkunnanlega fast upp að sér, og hún lagði vangann að brjósti hans. Enginn efaðist um, að þau væru harð- trúlofuð. Loksins, þegar dömufrí kom, gat Þóra náð honum frá henni. Lilja bauð öðrum herra upp, og það var lagt út á gólfið. „Þarna missti ég blessaða dalaliljuna mína,“ sagði Jón, þegar þau voru byrjuð að dansa. „Og hún er búin að fá sér annan,“ svaraði Þóra og hló kaldan storkandi hlátur. „Henni er líklega sama hver er, skepnunni þeirri, sem hangir utan í hverjum strák.“ Hún sá hann ennþá, hvað hann roðnaði og augun brunnu af reiði. „Segirðu þetta um hana Lilju litlu, sem hefur leikið sér með okkur eins og systir, síðan við vorum börn?“ Þóra varð enn æstari: „Ég hef skömm á henni.“ „Þetta er svívirðilegt! Hvað skyldi mamma segja um slíkan munnsöfnuð?" „Ég ætla hvorki að láta hana né aðra segja mér, hvað ég megi tala,“ svaraði hún fokreið. — Þá hvíslaði sú alvarlega að henni: ,JÞar skarstu sjálf sundur hamingjuþráðinn.“ Hún hafði líka iðrazt þessa, þegar henni var runnin reiðin. Næsta vetur skrifaði hann Lilju þrjú bréf, en henni ekki nema eitt. Kannske, kannske. — Og enn hvíslaði sú alvarlega: „Þetta var það bezta. Sambúðin hefði orðið sífellt stríð og kúgun fyrir þig. Þú hefðir aldrei getað beygt þig undir vilja Lísibetar; en engin manneskja getur verið hjá henni, sem ekki hlýðir, en það hefur þú aldrei lært. Anna verður alltaf sama hlýðna barnið. Lísibet verður húsfreyja, á meðan hún lifir.“ Þóra vogaði sér að spyrja þessa konu, sem sat við hlið hennar: „Heldurðu, að það fari vel, að Anna verði konan hans — þetta saklausa barn, sem ýmist grætur eða hlær og biður svo fyrir sér þess á milli, síhrædd og kvíðandi. En hann, sem hlær að hættun- um og hæðist að biblíulestri hennar. Hann, sem er svo djarfur og sterkur?“ „Það fer vel,“ svaraði konan. „Ég hef verið örlát við þann mann og vonast eftir miklu af honum. Ef hann aðeins hætti að drekka — drekka — drekka.“ Þóra hrökk upp; henni var hrollkalt. Grá morgunskíman gægðist inn um gluggann. Þetta var einkennilegur draumur, eða hvað það nú var. Henni fannst nú reyndar, að hún hefði verið vakandi,. En við hverju var að búast, að sitja hér og gráta eins og krakkagarmur, fullorðin manneskja? Þetta skyldi ekki henda hana aftur. Hún stóð upp og gekk hljóðlega inn í baðstofuna. En hvað það var notalegt að finna hlýjuna þar inni. 1 fremsta rúminu hraut Fúsi. Ef nú pabbi hefði vitað, þegar hann háttaði, hvað myndi hann hugsa um hana? Hún læddist að rúminu hans. Hann var steinsofandi. Það var gott. Ekkert var sárara en að honum dytti í hug, að hún gerði sig seka um eitthvað óheiðarlegt; en það myndi honum hafa dottið í hug, ef hann hefði saknað hennar. Aumingja pabbi! Hann var svo fátalaður tfg hugsandi síðan á jóladaginn. Hún afklæddi sig og lagðist ofan í mjúkt rúmið. Nú yrði þó gott að hvíla sig og sofna. Bara að hana gæti dreymt skemmti- lega. — Hún sofnaði fljótt. Baðstofuhurðin opnaðist og sú alvarlega kom inn og leiddi Þórð í Seli. Hana nú. Ætlaði nú Þórður að fara að marsjera með henni, þessari grafalvarlegu konu með háa ennið og fallegu augun? Hún leiddi hann að rúmstokknum til Þóru. Hún laut ofan að henni og sagði: „Hún Lísibet vill gefa þér hann.“ „Gefa mér hann?“ Þóra losaði svefninn og bylti sér á hina hliðina. „Engan nema hann! Engan nema hann!“ tautaði hún upp úr svefninum. Hún féll í svefnmókið aftur. Henni heyrðist konan staglast á þessum setningum: „Stríð og kúgun. Stríð og kúgun! Hætta að drekka, drekka.“ Svo hvarf hún ofan að Hjalla, inn í dansandi fólksiðuna. Hún sá Maríu og Ástu flissa og benda á sig. Henni var sama. Hún var svo sæl í faðmi hans, sem hún ætlaði aldrei að gleyma. Borghildur var nýlega búin að setja upp ketilinn, þegar Jón kom í kokkhúsið. „Ert þú ein komin á fætur?“ spurði hann. „Finnur er komin í húsin. Ég hélt, að þú svæfir frammi í stofu,“ svaraði Borghildur hlægjandi. Hann settist við borðið, hneppti frá sér kápunni og yppti öxlunum. „Ég átti víst að gera það. En svoleiðis pyndingar legg ég ekki á sjálfan mig.“ „Ég gat nú trúað því. Hvað gekk að Önnu í nótt?“ spurði hún. „Ég held, að hún hafi spilað of lengi og orðið þreytt. Hún er svo óskaplega fíngerð og viðkvæm, bl^suð stúlkan mín, alveg eins og köngulóarvefur. Gefðu mér svo eitthvað að éta, Borga mín. Ég er alveg að drepast úr hungri. Og svo nefnirðu þetta ekki við nokkurn mann, að ég hafi verið á þessu flökti í nótt.“ „Þú skyldir nú ekki vera frjáls að því að skemmta þér. Þá færi þér að bregða við. Reyndar gæti ég ósköp vel trúað því, að hún yrði hálfkeipótt við þig, blessuð stúlkan þín. En þú verður nú konugóður eins og pabbi þinn,“ sagði Borghildur kímin. „Já, víst skal ég verða það. Það eru andstyggilegir menn, sem eru vondir við konurnar sínar. Svo skal ég fylla bæinn með börn- um handa þér og mömmu að amstrast við. Ykkur þykir ekki að því.‘“ „Þá verður þú kynsælli en forfeður þínir hafa verið,“ svaraði Borghildur og hló glaðlega, meðan hún tíndi matinn fram á borðið. „Það er nú sagt, að ég líkist meir móðurættinni, heyrist mér, og þar hefur ekki vantað frjósemina." Næsta sunnudag var messað að Nautaflötum. Þóra fór til kirkju eins og hún hafði sagt. Anna var glöð og kát, eins og ekkert hefði í skorizt. Lísibet hafði alltaf svo mikið handa henni að snúast við, aldrei þessu vant, að Þóra gat ekki náð tali af henni, fyrr en hún ætlaði að fara að kveðja. Þá rakst hún á hana í bæjardyrunum. „Ég þarf að tala við þig, Anna mín,“ sagði Þóra. Þær fóru inn í stofuna. „Ertu reið við mig út af því, sem kom fyrir þarna á Hjalla um daginn?“ spurði Þóra hálf-feimin. ;!|Ónei. Ég get ekki sagt, að mér þætti það skemmtilegt, að sjá þig kyssa kærastann minn svona innan um allt fólkið; en aj því að það var gert fyrir hrósyrði um mig sjálfa, þá verð ég að reyna að gleyma því. Hann er nú svo sem búinn að friðmælast við mig fyrir þetta,“ sagði Anna. Það var auðheyrt, að hún var algerlega ánægð. „Þetta skal aldrei koma fyrir oftar; því lofa ég,“ sagði Þóra. „Ég veit, að þú skilur ekki það, sem ég ætla að segja þér. Þú ert svo ung ennþá. Ég hef alltaf álitið, að ég mætti fylgja honum alla ævina. Það er svo sárt að hugsa til þess, að hann sé mér algerlega tapaður.“ Anna brosti. „Það hafa víst fleiri en þú hugsað svona,“ sagði hún. Þá var stofuhurðin opnuð nokkur fljótlega. Lísibet kom inn og bað Önnu að koma inn og hjálpa Borghildi við kaffið. Þóra kvaddi. Hún hafði þó ætlað að tala meira við Önnu; en hún þóttist sjá, að Lísibet ætlaði sér að hafa gætur á, að þær töluðu ekki óþarflega mikið saman. Það var hún, sem ætlaði að sjá um hagldirnar fyrir son sinn. ÚTMÁNAÐASKUGGAR Eftir þrettándann byrjaði kennslan aftur. María á Hrafns- stöðum hætti við að koma fram eftir. Þóra hafði heldur engan tíma. Faðir hennar lagðist í lungnabólgu og lá lengi, en komst þó á fætur aftur. Vetufinn leið fram á einmánuð. Anna sat við sauma og ýmislegar hannyrðir inni í ofnhitanum, þegar Þóra, vinstúlka hennar, klæddi sig í karlmannsföt og tróð hárinu undir lambhúshettu, bar inn vatn og eldivið og smalaði fénu, þegar Fúsi fór eitthvað í burtu. Það var einn dag, að Fúsi þurfti að fara ofan á Ós. Þóra klæddi sig í buxur, því að talsverður snjór var. Hún var búin að smala fénu og farin að láta inn, þegar hún sér Jón kunningja sinn koma ríðandi neðan með ánni. Það var auðséð á reiðlaginu að hann var drukkinn. Hún flýtti sér að láta ærnar inn, því að hún sá, að hann sneri hestinum við og kom heim. Hún hespaði aðra króna að utan, fór inn í hina og lokaði henni að innan; síðan settist hún á hækjur sínar innan við hurðina. Hún heyrði hann ríða að húsinu og stíga af baki. Hann barði með svipuskaftinu í hurðina og kallaði: „Það er ég, Þóra mín. Þú þarft ekki að ver'a feimin, þó að þú sért í buxum.“ Hún sat kyrr og hélt niðri í sér andanum, en hjartað lamdist innan um brjóstholið svo hart, að hún óttaðist, að hann heyrði til þess. Þá kallaði hann aftur, en fékk ekkert svar. Hann opnaði hina króna, vatt sér upp í garðann og bograði upp í tóttardyrnar. Þá beið Þóra ekki boðanna. Hún opnaði hurðina hljóðlega og fór út. Lokaði síðan báðum krónum að utan og lét nagla fyrir framan hespurnar. Nú skyldi hann vorkennast. Svo þaut hún í einum spretti heim til bæjar. Magga var nýbúin að leggja að í hlóðirnar, og eldhúsið var fullt af reyk, þegar Þóra kom inn, sprengmóð. Hún faldi sig bak við sauðskinn, sem héngu á slá innarlega í eldhúsinu. „Ef einhver spyr eftir mér, þá segðu, að ég sé við kindurnar,“ sagði hún við Möggu gömlu um leið og hún gekk fram hjá henni. Það leið löng stund, eða svo fannst Þóru að minnsta kosti. Hún hafði megnan hjartslátt, og hana sveið í augun undan svæl- unni. Þá voru barin stór högg í bæjarþilið. Magga fór út. Jón stóð við dyrnar. Hann hafði ekkert fyrir því að heilsa, heldur talaði til hennar í skapandi málrómi: „Segðu Þóru að koma út og standa fyrir máli sínu!“ „Hún er við kindnrnar,“ sagði Magga gamla hikandi. „Enga lygi!“ sagði hann æstur og barði með svipuskaftinu í bæjarþilið. „Hún er inni og ég þarf að tala við hana. Ef þú nennir ekki að finna hana, get ég gert það sjálfur. Ég er svo kunnugur í kofunum hérna, að hún skal ekki geta falið sig, þó að hún ætli sér það.“ Hann gerði sig líklegan til að ryðjast inn í dyrnar. Björn bóndi hafði verið í skála, sem var að sunnanverðu við bæjar- dyrnar, og séð og heyrt, hvað fram fór. Hann kom fram í bæjar- dyrnar, studdi höndum á dyrastafina og reyndi að gera sig svo breiðan sem hann gat, en skalf eins og hrísla af geðshræringunni, sem hann var kominn í. „Ég er húsbóndi hér ennþá, Jón Jakobsson," sagði hann hægt en skjálfraddaður. , Jón hikaði og fjarlægðist dyrnar. Honum rann til rifja breyt- ingin, sem orðin var á Birni, síðan á jólunum. „Ég þarf að finna Þóru og spyrja hana, hvað ég hafi unnið til að vera lokaður inni eins og flækingshundur,“ sagði hann svo stilltur sem hann gat. „Þú átt víst ekkert vantalað við hana. Ég get vel svarað þér í hennar st^ð. Þú hefur heimsótt hana óþarflega oft og notað þér saklausa æskuvináttu hennar til þess að vekja hjá henni vonir, sem aldrei geta rætzt, eða með öðrum orðum hagað þér eins og svívirðilegasti flagari.“ Hann tinaði ákaft með höfðinu eins og ævinlega, þegar honum var mikið niðri fyrir. „Segir Þóra þér þetta?“ spurði Jón, svartur af reiði. „Ég komst að háttalagi þínu, án þess að hún segði mér það.“ „Þóra getur staðið fyrir máli sínu. Ef hún segir, að ég hafi gefið sér táldrægar vonir, þá lýgur hún því. Ég skal tala við hana. Ef þú ferð ekki úr dyrunum, er sjálfsagt hægt að koma þér þaðan,“ sagði Jón hávær. „Það efast ég ekki um, að þú hafir í öllum höndum við mig, sem ekki er nú mikið. En hitt þykir mér ótrúlegt, að Lísibet Helgadóttir eigi slíkan son,“ svaraði Björn. • Þóra heyrði hvert orð í fylgsni sitt. Nú færði hún sig fram í dyrnar og stóð fyrir aftan föður sinn, án þess að húr^ sæist. Ef svo færi, að Jón legði hendur á hann, þá ætlaði hún að vera nálæg. Þau höfðu þá tekizt á fyrri, þó að langt væri síðan. Jón sneri frá bæjardyrunum, þungur á brún. „Ég býst við, að móður minni þætti það líka ótrúlegt, að ég fengi slíkar viðtökur hér. Hún hefur víst alltaf álitið, að þið væruð kunningjar sínir,“ sagði hann, gekk til hests síns og steig á bak. Hann leit heim í dyrnar, áður en hann reið úr hlaði. Honum sýndist bros á andliti Björns gamla. Átti hann að láta þetta hélu- strá hrósa sigri yfir því, að hann hefði látið undan síga? Nei, slíkt var óþolandi. „Það eru hærur þínar, sem hjálpa þér í þetta sinn, en við Þóru skal ég tala seinna. En ef tóttin þarna við húsin hefði mál, myndi hún geta sagt þér, að ég hef oft átt hlýrri móttökum að fagna hjá dóttur þinni en núna. Þú skalt ekki reyna að svíkja hana út í neinn sem hreina mey héðan af, því að hún er það víst ekki.“ Svo hló hann háan óviðfelldinn hiátur og hleypti Gáska suður túnið. Þóru létti við að heyra hófadyninn fjarlægjast. Hún litaðist um. Skyldi Magga gamla vera nokkurs staðar þar, sem hún gæti heyrt það, sem fram fór. Jú; það var ekki mjög hætt við öðru. Þarna húkti hún rétt fyrir innan eldhúsdyrnar og hlustaði eftir hverju einasta orði. Skyldi hún reyna að koma því til Sigþrúðar á Hjalla eða Ragnheiðar gömlu á Hóli. Og þetta var hún sjálf, sem kom þessu öllu í uppnám. Gat hún ekki beðið við húsdyrnar og tekið honum kurteislega, í stað þess að loka hann inni? Það hefðu öllum mönnum sárnað slíkar aðfarir. Björn sneri sér við og leit á Þóru. Hún stóð náföl með saman- bitnar varir. „Ekki kunna svona menn að skammast sín,“ sagði Björn harðneskjulega. „Hvað er að marka hvað hann segir, svínfullur og yfir sig reiður. Ég sé eftir því, að ég gerði hann svona reiðan,“ sagði Þóra; en þó var enginn iðrunarblær í rödd hennar. Magga gamla læddist fram úr eldhúsinu, hljóðlaust eins og köttur. Það er óskaplegt,“ vældi hún í mjóum skrækjum, „hvernig vínið getur gert mennina brjálaða. Hvað skyldi hún móðir hans segja og hugsa, ef hún vissi hvernig hann hagar sér, þessi geð- prýðispiltur og augasteinn allrar sveitarinnar. En það er nú ekki rétt að vera að stríða drykkjumönnum.“ Hún gaut hornauga til Þóru. „Það mætti kannske biðja þig að þegja yfir því, sem hér hefur verið4;alað í dag,“ sagði Þóra reiðilega. „Ég geri það nú líklega, eða dettur þér í hug, að ég fari að hlaupa með svona drykkjumannsraus, sem ekkert vit er í?“ vældi Magga og læddist inn göngin. „Það var þá ekki nema það, sem ég vissi áður, og það fyrir löngu,“ tautaði hún við prjónana, þegar hún var setzt niður inni í baðstofunni. „Það er víst komið mál að gæta eitthvað að ánum. Þær eru komnar út um allt tún,“ sagði Þóra, til að leiða samtalið í aðra átt. Hún hljóp inn í skála og sótti hamar og nagla. Líklega þyrfti þeirra með. Þau gengu til fjárhúsa. Björn studdi sig við prikið og tautaði fyrir munni sér: „O-jæja; það eru ekki menn, sem verið hafa. Einhvern tíma býst ég við, með raupinu og öllu saman, að ég hefði getað varið honum dyrriar, oflátungnum þeim, sem finnst sjálfsagt, að allir sitji og standi eftir því sem honum þóknast. — Hér get ég nú hugsað mér að sé falleg aðkoma,“ bætti hann við, þegar þau komu að húsunum. Dyraumbúnaðurinn og hurðin lágu á húshlaðinu, hvoru- tveggja óbrotið. „Nú jæja. Ver hefði hann getað gengið frá því mannskepnan,“ sagði Björn og glotti við. Þau hjálpuðust að við að laga það. sem þurfti, og láta inn féð. En Jón kom ekki að Hvammi eftir þetta, meðan Björn lifði. Veturinn leið með gleði og glaumi. Mörg böll voru haldin á Nautaflötum og víðar, en Þóra fór aldrei á neitt þeirra; alltaf var sagt, að faðir hennar væri svo lasinn, að hún mætti ekki yfirgefa hann. Anna fylgdi unnusta sínum á allar skemmtanir, sem eðlilegt var; en hún var ekki að sama skapi ánægð. Þessi undarlegi stingur, sem hún hafði fundið til á Hjalla, gerði svo oft vart við sig, þegar hún sá hann hlæja framan í dömuna, sem hann dansaði við, og henni fannst hún aldrei mega af honum líta. Hún var óróleg og þreytt, en minntist þó aldrei á það, hvorki við hann né fóstru sína. En það var annað, sem henni lá ennþá þyngra á hjarta. „Mér þykir svo leiðinlegt, að hann skuli drekka. Það er svo leiðinlegt að sjá, hvernig hann verður til augnanna, og lyktin er svo voðaleg," sagði hún einu sinni við fóstru sína. „Ja, hvað er þetta, barn!“ sagði Lísibet. „Það er nú varla hægt að nefna það því nafni, að hann drekki. Þetta er ekkert, bara gerir hann ennþá skemmtilegri. Ekki held ég, að hún mamma sáluga minntist á það, þó að pabbi kæmi heim drukkinn. Það hefði nú líka verið óskaplegt, annar eins maður og hann var henni, og alveg eins verður Jón minn við þig, sömu gæðin og blíðan. Pabbi drakk nú svo mikið, að hann komst ekki heim hjálparlaust oft og einatt, en hún nefndi það aldrei á nafn, að það væri leiðinlegt.“ „Guð minn góður!“ sagði Anna. „Ég held, að ég gæti ekki lifað, ef ég sæi hann ósjálfbjarga af drykkjuskap.“ „Góða mín, segðu ekki þetta. Það er nú skylda okkar kvenn- anna að umbera mennina vel, þegar þeir eru góðir við okkur. Ég óskaði stundum, að Jakob drykki. Mér þykja drykkjumennirnir svo skemmtilegir.“ Anna stundi við; hún fann, að hún mátti ekki láta óánægju í ljós með neitt. Það höfðu allir verið henni svo góðir, og það var skammarlegt vanþakklæti að vera ekki ánægð. VORIÐ KEMUR Vorið kom á vanalegum tíma með nýjar vonir og nýjan gróður. Allir fagna vorinu, fjörgjafanum mikla. Hvað skyldi þetta sumar færa mönnum? Nýja gleði. Nýjar sorgir? Fyrstu tíðindin, sem þóttu þess verð að bera þau bæ frá bæ, var lát séra Helga á Felli. Vanalega kom Jón, ef einhverjum skilaboðum þurfti að koma milli bæjanna; en nú kom Borghildur. Hún var nýr gestur, bæði þar og annars staðar.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.