Lögberg - 06.08.1953, Blaðsíða 4

Lögberg - 06.08.1953, Blaðsíða 4
4 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN, 6. ÁGÚST, 1953 Ritstjóri: EINAR P. JÓNSSON Gefið Qt hvern fimtudag af THE COLUMBIA PRESS LIMITED 695 SARGENT AVENUE, WINNIPEG, MANITOBA J. T. BECK, Manager Utanáskrift ritstjórans: BDITOR LÖGBERG, 695 SARGENT AVENUE, WINNIPEG, MAN. PHONE 74-3411 Verð $5.00 um árið — Borgist fyrirfram The ' Lögberg” is printed and published by The Columbia ITess Ltd. 695 Sargent Avenue, Winnipeg, Manitoba, Canada Authorized as Second Class Mail, Post Office Department, Ottawa Einar Sturlaugsson. prófaslur: Minni íslands og Steph. G. Stephanssonar Mér þykir líklegt, að vér munum flest þá daga, er vér vorum börn, hversu gaman oss þótti að fletta myndabók ævintýranna, enda þótt ævintýrið væri stundum harla fjar- skylt veruleikanum, — eða kannske var það einmitt vegna þess, hve ævintýrið og veruleikinn voru miklar andstæður. Þótt ég leyfi mér að kalla ævintýrið og veruleikann andstæður, þá skeður þó stundum hið einkennilega, að veruleikinn getur orðið að ævintýri og ævintýrið að veru- leika. Er það ekki ævintýri líkast líf þess manns, sem vér höfum sérstaklega í huga í dag, á þessari fjölmennu sam- komu hins íslenzka þjóðarbrots hér í álfu, — líf fslendings- ins og skáldsins Stephans G. Stephanssonar? Og þó þekkjum vér líklega engan mann óskáldlegri í sjón og háttum, engan, sem hefur lifað meira í veruleikans heimi en hann. A þeim árum íslands, er náttúruöflin sjálf tóku hönd- um saman við erlenda stjórn og illa og þjökuðu mann- fólkið, sem enn hjarði á hólmanum norður í Dumbshafi, fæddist á örreitiskoti norður í Skagafirði sveinbarn, sem hlaut í skírninni nafnið Stefán Guðmundur. Á komandi hausti, eða hinn 3. október, er liðin ein öld síðan það gerðist. Kotið Kirkjuhóll, hjáleiga frá Víðimýri í Skagafirði, þar sem Stephan G. Stephansson fæddist, er fyrir löngu í eyði fallið og kumbl þess gleymd og gróin. Jarðirnar Syðri- Mælifellsá og Víðimýrarsel, þar sem bernsku- og æsku- heimili Stephans G. lágu, einnig í eyði komnar og mönnum gleymdar. Mjóidalur í Þingeyjarsýslu, þar sem Stephan gerðist vinnumaður 16 ára gamall, sömuleiðis löngu kominn í auðn. Á engum þessara staða er nokkuð það til, sem minni á sveininn fátæka, er smalaði þar ám og kúm fyrir 90 árum og las í hjásetunni rímur, sögur og riddaraljóð í bókum, sem góðviljaðir menn höfðu lánað honum, en gerðist síðar landnámsmaður í nýrri heimsálfu og hirðmaður tiginn í höllu Braga. Lyngmórinn ljúfi í lendum Víðimýrarsels, sem forðum leyndi hinum sama sveini, er hann grátinn horfði á eftir sveitungum sínum, er þeir riðu frá Arnar- stapa upp Vatnsskarð á suðurleið í skóla, er nú mönnum týndur. En sveinninn 12 ára gamli, sem vildi þá leyna móður sína tárum sínum og innstu hjartans löngun, vegna þess að hann vissi, að foreldrum sínum var fjárhagslega um megn að kosta hann í skóla, fær nú ekki leynst frekar en þá. Móðirin saknaði drengsins og tók að leita hans og gekk fram á hann grátinn í lautu ,eftir því sem Stephani segist sjálfum frá. Heimaþjóð hans og samlandar hér í álfu fundu hann síðar sem stórskáldið Stephan G. Stephansson. Skóla- piltarnir, sem forðum hillti undir við Arnarstapa á suður- leið eru nú, sumir hverjir, gengnir inn í skugga stapans og gleymskunnar, en smalasveinninn fátæki, sem leyndist þá grátinn utan við veginn, hefur nú gefið heimaþjóð sinni og Vestmönnum öllum, er móðurmál hans skilja, gjafir gulli dýrri og gnæfir nú, eftir 100 ár, hátt yfir Arnarstapa og Albertafjöll. Þetta er ævintýrið, sem ég nefni svo, að skagfirzki pilturinn óskólagengni, er í dag einn þekktasti og dáðasti sonur Islands bæði austan hafs og vestan. Hann, sem um tvítugs-aldur yfirgaf ástmold og ættfólk og lifði til elli fram í annarri heimsálfu var og er, ef til vill, íslenzkastur allra Islendinga, — þjóðlegastur og þó alþjóðlegastur í senn allra íslenzkra skálda. Það er víst enginn sá, er þekkti Stephan G. Stephans- son, að hann efist um einlægni hans, er hann kvað: Svo ert þú, Island, í eðli mitt fest, að einungis gröfin oss skilur. Island sjálft, þjóðin og tungan, og um fram allt íslenzk menning, er Stephani sá aflgjafi, er kemur öllum strengjum sálarlífs hans til að titra og seyðir fegursta tóna úr hörpu hans. En minningin um ísland er honum meira en aflgjafi hárra hugsjóna, er hann hefur „fellt í lag og línu“. Að sínu leyti eins og Páll postuli mælti forðum: „Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið, því að það er kraftur guðs til hjálpræðis, hverjum sem trúir,“ svo gat og Stephan G. sagt um Island og íslenzka menningu. Islenzk tuga, ísl. menning og ísl. minning var honum kraftur til hjálpræðis, til mann- dóms og menningardáða. Mér er nær að halda, að þó að Stephan G. lifði meira en hálfa öld hér í álfu, hafi sá dagur vart liðið, að ekki minnt- ist hann íslands né sæi mynd þess í anda, en*sú hugarsýn og hlýja minning var þó aldrei slík, að hún fyllti hann angurværð og tilfinningavoli, er sliti hann frá lífsins önn og skyldum. Nei, öðru nær. Strengurinn að austan, sú ramma taug, er batt hann móðurjörð og menning íslands, þeirri menning, sem hann hafði drukkið í sig sem barn með móðurmjólkinni heima á Fróni, var honum engu síður áminning og aflgjafi sem almennum borgara og bónda hér á sléttum Canada en sem skáldi og andans stórmenni. Flestir Islendingar kannast við skáldið Stephan G. Stephans- son, en færri, minnsta kosti heima-íslendingar, þekkja mann- inn Stephan G. En kannske er engu ófróðlegra né minna í var- ið, að kynnast manninum og bóndanum Stephani, en skáld- inu. Að vísu er Stephan svo heil- steypt persóná og sjálfri sér samkvæm, að hann er allur, hvar sem hann birtist, en hvergi veill né hálfur. Hann er allur, þar sem hann stendur með öxi í hendi og heggur skóg, þar sem hann plægir akur og sáir og þar sem hann situr við skrifpúltið sitt og ritar kunningjabréf; og hann er allur og engum öðrum líkur, þegar hann knýr strengi hörpu sinnar og kveður sér hljóðs, hvort það er heldur í ein- faldri stöku eða stórbrotnasta ljóði. Hann er ævinlega sjálfum sér samkvæmur, er, ef ég mætti orða það svo, Stephanskur í hugsun og háttum. En bak við allt, og það sem knýr hann til átaka, jafnt í andans sem efnis- ins heimi, er ísland, minningin um burstalágan bæ í grænum túnkraga, minning um hamra- belti, hraun og sanda, gráar skriður og gróinn dal, þar sem „flissa á brotum bláar ár,“ — minning um land elds og ísa lengst í höfum austur, þar sem fátækt fólk, en hjartahlýtt, yrkir rímur, sálma og riddara- ljóð og segir sögur á löngum og dimmum vetrarkvöldum, en þar sem í aðra tíma ríkir Nóttlaus voraldar-veröld. Allt vakir þetta honum í sál og kyndir þá elda, sem jafnt bjarma sem yl leggur frá um víðerni Vesturheims, þar sem norræn tunga er numin. Skapgerð Stephans er svo heil og óskipt, hvort sem hann birt- ist oss í ljóði eða bús síns önn, að maður gæti haldið, að honum hefði tekizt það, sem enginn er þó sagður geta, — að þjóna tveimur herrum og vera þó báð- um trúr. — Þjóna sínum arn- fleyga skáld-anda annars vegar, en skyldum og þörfum bús síns hins vegar. En er það svo, þegar að er gáð? Nei. Það er vísast ofmælt að segja, að hann hafi reynzt báðum trúr, skáldgyðj- unni og búsönninni. Minnsta kosti gerir hann Ijóðadísinni upp orð í einu kvæða sinna — Af- mælisgjöfinni — og lætur hana koma fram sem afbrýðissama ástmey, er ásakar skáldið fyrir ótryggð og skeytingarleysi við sig, en telur að heimilið og búið — vinnuskyldan — sé drottn- ingin, er í öndvegi sitji. Þú helgaðir stritinu hraustleik og dag, mér hríðar og nótt og þreytu — lætur hann hana segja. En sárs- aukalaust hefur það ekki verið fyrir skáldið að sniðganga svo sem hann gerði, hina göfugu dís. Hann veit og viðurkennir, að skáldgyðjan er, af honum, oftast sett á hinn óæðra bekk. En hann veit líka, að honum er svo mikið gefið, að hann getur leyft sér að hafa skáldskapinn sér til dundurs í hjáverkum, við gegn- ingar og á andvökunóttum og samt tekið sér sæti í höll Braga á innsta bekk. En menn skyldu ekki gleyma því, þegar þessa er minnst, að við arin skáldsins stóð hún jafna sterk og traust, drottning heim- ilisins, eiginkonan og móðir barna hans, — stóð þar eins og vættur til verndar og skjóls við- kvæmum anda hans og oft þreyttum taugum. — — Auk hinnar næmu skyldutilfinningar heimilisföðurins, sem á fyrir stórum hópi barna að sjá, er lund hans hins vegar svo stór, að hann getur ekki hugsað til að lifa við búsveltu og baslara- hátt. Til þess þekkti hann allt of vel eymdarkjör fátæklingsins heiman af íslandi og hefur án efa unnið sjálfum sér það heit, er hann hvarf af landi burt, að láta það aldrei um sig spyrjast, að hann, íslendingurinn, yrði verðgangsmaður með erlendri þjóð. Nei. Sannarlega stefndi hann hærra. Honum brann eldur í hjarta. Eldur metnaðar og hárra hugsjóna. Vísast ekki sjálfs sín vegna fyrst og fremst, heldur vegna ættlands síns og feðra- þjóðar. Það sér maður meðal annars á lokaerindi kvæðisins Heimkoman, þar sem hann vík- ur að heimanför sinni og vænt- anlegri afturkomu þangað, en sem geti þó dregist vonum leng- ur, — og hann segir við frænku sína, sem hann hefur í huga heima á Fróni, vísast gamla, fróða, sagnakonu: Þegar ég kem, svo þér sé fengur, það skal verða stærri drengur, frænka, en sá, sem frá þér gengur — annars hverf ég aldrei heim. Hann meinti ekki að fara til Vesturheims til að koma þaðan aftur sami fátæki nafnlausi drengurinn, Stefán Guðmundur Guðmundsson. — Nei: Það skal verða stæri drengur — annars hverf ég aldrei heim. Hann var af þeim viði vaxinn, að hann sætti sig aldrei við hlut hins smáa, án þess þó, að hann væri að trana sér fram sjálfur né hreykja sér upp. Ekkert var honum fjær skapi en það. Hann var óbrotinn erifiðismaður, sjálf- ur úr alþýðustétt og vann hörð- um höndum til elli fram. Bóndi, að stöðu, sem átti allt sitt „undir sól og regni,“ bóndi af lífi og sál með allt hið bezta úr ísl. bændamenningu horfinna alda í blóði sér: drenglund Illuga, vizku Njáls, snilli Snorra, anda- gift Egils og Ara mál á tungu. Með þrautseigju og þolgæði, sem þekkir ekki að láta undan kalli skyldunnar, — kotajarl og kóng- ur í senn, en umfram allt íslend- ingur, jafnt sem bóndi, verka- maður og sem höfuðskáld. En hvort sem hann vinnur á akri, heggur skóga, mokar flór eða hann rær á Boðnarmið, er karl- mennska hans-slík og arfborinn manndómur, að allt, sem hann snertir við verður í raun og veru stórt og tigið. Hann, útlag- inn íslenzki, ávöxtur kynborinn- ar þjóðar, sem kaus heldur að flýja móðurjörð sína og leita nýrra heimkynna í ókunnu hrjóstrugu landi, en að selja frumburðarrétt sinn til frelsis, manndóms og menningarlífs, — ávöxtur þjóðar með þúsund ára stríð og þúsund ára menningu að baki, hann er, segi ég, að lýsa sjálfum sér, er hann í kvæðinu Kolbeinslag kveður svo: En eðli Kolbeins var yfirmennt hann orkaði því, sem er fáum hent, að lepja upp mola um lífsins stig en láta ekki baslið smækka sig. Hér fer hvorttveggja saman, þrautseigja og stolt hinnar fornu íslenzku höfðinglundar. Hann lék þá list, sem fáum öðrum er gefin, — að lifa langa ævi við aðstæður og kjör, sem í raun og veru fundu ekki hljómgrunn í sál hans — lék hana, segi ég, án þess að fyllast beiskju til lífsins og samferðamannanna. Fósturlandið, land hinna miklu möguleika hér í Vestrinu og kynni hans af þjóðum hér, hafa eflaust átt sinn stóra þátt í skap- gerðarþroska hans og víðsýni. Vér spyrjum hvaðan hann horfi yfir þau víðerni og veraldar- dýrð, sem við oss blasa í ljóðum hans. Er það ekki jafnan af eins- konar „Tindastóli“ einhverrar íslenzkrar minningar? Var ekki hvötin að mörgum beztu ljóðum Stephans íslenzk endurminning? Var ekki minningin að heiman, minningin um sögur og ljóð og fornar sagnir, minningin um landið sjálft og hið fátæka, en hjartahlýja fólk, sem þar bjó, sá strengur, er ómaði þýðast* en þó um leið sterkast, í hörpu hans? Hann viðurkennir, er hann kemur af hafi heim eftir 44 ára útivist og sér af skipsfjöl landið rísa úr sæ, að allur sá tími hafi verið ein „löng hungur-vöku- nótt.“ Og það er sem hann klökkni við og lyfti höndum til himins í bæn, er hann segir: Vitkað barn, með tveimur tómum mundum til þín sný ég, æskudrauma- grund. Það var stundum flónsgull, sem við fundum fyrir handan þetta breiða sund. Og þegar Stephan segir þetta, er hann kominn á efri ár og löngu viðurkenndur sem eitt mesta skáld á íslenzka tungu bæði austan hafs og vestan. Metorð hans og viðurkenning, er hann hlaut, fundust honum samt á þeirri stundu sem flónsgull eitt. Hann var eins og barnið, er finnur sig sælast og ríkast í faðmi móðurinn, hversu fátæk sem hún kann að vera og tötrum vafin. Þess vegna segir hann líka í hinu sama kvæði: Kom þú blessað óskaland og líður ljóða minna, hvernig sem þú ert. Hann dregur enga dul á til- finning sína og afstöðu til gamla landsins, móðurmoldarinnar. Þar er hjarta hans og hugur, enda þótt hann reynist fóstrunni trúr og nýtur sonur. Hann sér ofur- vel kosti fósturlandsins, viður- kennir auð þess og ágæti. En allt er það eins og goðheimur hinn forni, — ofurselt Surtarloga eyðingarinnar, sem brenndi heim allan, nema gulltöflur goð- anna; þær stóðust eldsins eyðing. Og eins og annað íslenzkt skáld segir: „Aldrei deyr þó allt um þrotni endurminning þess, sem var,“ — eins er í huga hans minningin um ísland. Hún er eins og gull- töflurnar forðum, er eyddust hvorki af eldi né aldanna ryki. Þegar skáldið hefur litið yfir sögu og farinn veg í landinu nýja, og minnist hinna mörgu gæða og alls þess ágætis, er hann hefur þar notið, eru álryktunar- orð skynsemi hans þessi: Gullið er fémætt og fjölmenni þarft, en fegursta þjóðeign er Sagan og Harpan. En síðan kemur tilfinningin með sín ályktunarorð og hennar dómur verður síðasta orðið, þetta: Hver gulltafla er íslenzk endurminning. Svo haldgóð hafa þau reynzt honum hin heimafengnu fræði, þótt lítt væri um skólagöngu að ræða, að áranna eyðandi straum- ur fær ekki máð út úr minning- unni sagnir feðranna og mæðr- anna um fornar hetjudáðir og heillandi ævintýr. Hún lifir enn eins og meðan hann var ungling- ur heima í Skagafirði, minning- in um lóukvak og lækjanið, svanasöng og silungsár, brimgný og blómaangan. Allt eru þetta Stephani þeir vitaðsgjafar, sem halda lindum sálar hans þýðum og hreinum og sístreymandi. Hann er ekki leng- ur fátæki, skagfirzki smala- sveinninn, sem virtist fara snauður að heiman. Nei. Hann hefur, ef ég mætti svo segja, tekið með sér sál þeirrar sögu, er gerzt hafði í ættlandi hans um aldaraðir.. Og í þá sögu sækir hann jafna heilbrigða karl- mennsku og þor, er hann slær hörpu sína, en vísar allri angur- værð og tregakennd á bug, enda þótt honum hafi einhverju sinni hrokkið þessi hálf-tregablandna játning af vörum: Ég á orðið ein- hvernveginn ekkert föðurland. En hann geymir mynd íslands þeim mun skýrari í huga sér og er í raun og sannleika að þjóna Islandi, hvort sem hann syngur heldur um: Brávelli, brekkuhöll, Bláfell og Klettafjöll, — eða hann plægir akur vestur í Al- berta, eða kveður um Nóttlausa voraldarveröld, þar sem víðsýnið skín. Það er eins og ísland allt, sál þess og saga, speglist í söngvum hans, og jafnvel engu síður þá, er hann kveður um önnur lönd og aðrar þjóðir. Hann er íslenzkur hreimurinn í hörpunni hans eins og söngur smaladrengsins. Þau eru íslenzk litbrigðin í fjöllunum, sem hann lýsir og það er íslenzkt lands- lagið, sem hann n?álar í’kvæð- um sínum. í kvæðinu Móðurmálið minn- ist Stephan þjóðar sinnar og tungu með þessum orðum: Vor þjóð er smá og þrekað lið, en þér skal enginn dyggri en við. — Og hvort skyldi nokkur efast um, að smaladrengurinn skag- firzki hafi staðið við það heit? Er ekki ísland og íslenzk tunga auðugri í dag fyrir það, að Stephan G. var til og fyrir þá djúpsettu ást og lotning, sem hann bar fyrir íslandi og -öllu, sem íslenzkt var? Það var ekki til að sýnast, er hann sagði: En ættjarðarböndum mig grípur hver grund, sem grær kringum Islendings- bein. Nei, þar talaði sú rödd, sem var sönnust og sterkust í sál hans. Þar ómaði sá strengur, er traust- ast bindur son við móður. Ævintýrið um smaladrenginn, er síðar varð Andvökuskáldið Stephan G. Stephansson, er á enda. Hann jók ekki degi, held- ur vísast árhundruðum, í ævi- þátt sinn með því að temja sér, jafnt í önn sem hvíld: Að hugsa ekki í árum, en öldum, að alheimta’ ei daglaun að kvöldum. Hinn 19. f. m. var afhjúpaður á Arnarstapa í Skagafirði minn- isvarði um Stephan G. Stephans- son í tilefni þess, að á hausti komanda er liðin ein öld frá fæðing hans, og vestur í Alberta hafa honum verið reistir tveir aðrir varðar. Allir eru þeir eyð- ing háðir eins og önnur mann- anna verk. En sjálfur hefur Stephan reist sér með ljóðum sínum þann minnisvarða, er lengst mun standa, — reist hann á „Tindastóli" íslenzkra ljóð- heima og bókmennta. ’>0'' >c<->oc->oc=>oczz3Q4_—>o<rzz>o<rzDocm>oc=>o<mr>CK_mr—m<->n<->n<->o Verndið velmegun þjóðarinnar! Kjósið á þing æfðan, öfulon mann, sem gerþekkir þarfir kjördæmisins 1 Tryggið R. J. Wood kosningu í Selkirk 10. ágúst 0<=>0CZZ>0CZZ>0CZZ>0CZ=>0<=Z>0C=0CZr>0CZr>0CZ=0C=>0<ZrZ>0<=Z>0<ZrD0dZ>0C Published by authority of the Selkirk Liberal Election Committee.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.