Lögberg - 06.08.1953, Síða 6

Lögberg - 06.08.1953, Síða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN, 6. AGÖST, 1953 /=— ...V GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DA LALÍF „Ósköp sefurðu fast, Þóra mín,“ skrækti Magga. „Þú hefur verið orðin þreytt.“ Þóra rís upp með andfælum. Klukkan var orðin ellefu. Magga sagði henni, að Sigurður væri farinn að slá fram undir merkjum. Stundu seinna fór hún með hádegiskaffi í flösku frameftir. Sigurður stóð í öklableytu og sló rösklega. Ljárinn hvæsti og felldi „þúsundir þúsunda í einu,“ kastaði þeim frá sér og hlóð valköst, háar múgaraðir. En Sigurður var þungbúinn á svipinn. Hann gat ekki gleymt orðbragðinu, sem þeir nágrannar Þóru höfðu haft um hana, og lítilsvirðingunni, sem honum sjálfum hafði verið sýnd. Það hafði stungið hann eins og einiklær og hann logsveið ennþá. Hann var afbrýðissamur, þó hann hefði engan rétt til þess að vera það. Honum hafði fundizt síðustu dagana, að hann væri svona hérumbil giftur Þóru og ætti Hvamm og allt búið með henni. Þess vegna var það þungt rothögg á allar hans framtíðarvonir að heyra og sjá, hvað fram fór í lambarekstrinum. Hann , eins og flestir aðrir karlmenn, gat ekki hugsað til þess, að kona sín hefði verið hrifin af öðrum en honum — væri hrein og flekklaus mey, en eftir framkomu þeirra að dæma, var hægt að hugsa sér, að hún hefði verið tilleiðanleg við þá báða. Að minnsta kosti voru þeir báðir vitlausir í henni, og það ennþá. Ef hún drykki nú með þeim, þá var ekki að sökum að spyrja. En að eiga meðbiðil á næsta nesi að ástum konunnar er eitthvað, sem fáir kjósa, og það annan eins mann og Jón Jakobsson, — þvílíkt glæsimenni, þvílík söng- rödd. Þó tók út yfir að sjá hann á hestbaki, manndjöfulinn. Erlend var hann ekki neitt hræddur við. En þungt var að líða skipbrot og það áður en skipið var fullsmíðað — missa aðra eins jörð og annað eins konuefni og Þóra var. Þarna kom hún þá með hrífuna og strákurinn með henni. Það var skárra strykið á henni. Hann herti á slættinum. Þóra bauð góðan daginn. „Góðan daginn!“ sagði hann. „Þú ert vöknuð.“ Hún roðnaði. „Vöknuð. „Hélztu, að ég svæfi í allan dag og þú gætir kæft mig í ljá? Það er nú svona að eiga svefntímann sinn sjálfur.“ Hann litaðist um eftir þúfu til að tylla sér á, en hún var engin til. Það var ekki um annað að gera en að súpa kaffið standandi. „Þér hefðí verið óhætt að sofa lengur, ljáin er ekki svo mikil. Ég byrjaði nú hérna, það er svo vel sprottið. Þú heíðir kannske viljað láta byrja annars staðar,“ sagði hann. „Nei, það hefur vanalega verið byrjað hérna. Svo „vögum“ við upp á grundirnar.“ „Vögum,“ endurtók hann. „Það er verk, sem ég kann ekki.“ „Svo-o. Hvernig þurrkið þið heyið þar, sem blautt er?“ spurði hún. - „Við bindum votband heim á tún. En við erum nú svo heimskir búskítir þar á ströndinni,“ svaraði hann og glotti. „Og, ætlið þið hafið ekki verksvit alveg eins og við hérna í dalnum,“ sagði hún og horfði ofan á fæturna á sér. Hann kastaði frá sér tómri flöskunni og fór að slá, en hún rakaði að múgunum, Jói saxaði og hlóð í sátur. Sigurður gaf henni auga út undan sér. Sú kunni að halda á hrífu. Honum var óhætt að herða sig, ef ljáin ætti ekki að ganga saman. Klukkan hálf- fjögur kom Magga út með hvítt línlak og breiddi á eldiviðar- hlaðann við fjárhúsin. Þá lagði Þóra hrífuna á eina sátuna og kallaði til Sigurðar, að bezt væri að fara heim og fá sér eitthvað að éta. Hann hafði hert sig við sláttinn, sem hann hafði getað, þó hafði ljáin minnkað talsvert. Þau voru ánægð með vinnu hvors annars. Hann stakk niður orfinu og gekk heim með henni. Jói gekk á eftir þeim og horfði á, hvað sporin þeirra voru fljót að hverfa í mosableytunni. „Þarna er þá Elli greyið á Hóli farinn að slá,“ kallaði hann allt í einu til þeirra, og benti yfir að Hóli. „Skyldi hann ekki vera með bólginn vangann eftir löðrungana, sem Jón gaf honum í nótt?“ bætti hann við. „Hann átti það skilið, þó þeir hefðu verið fleiri, bölvaður dóninn,“ sagði Sigurður hörkulega. „Nú það var víst ekki annað en sannleikur, sem hann sagði. En hissa er ég, ef Jón hefur ekki vitað það fyrr,“ sagði Þóra. Sigurður leit til hennar hornauga. ,jÞað eru óútreiknanlegar skepnur þessar manneskjur," sagði hann með sömu hörkunni í rómnum. „Fyrir níu árum, þegar Friðrik kaupmaður féll frá, ætluðu allir að bráðna af meðaumkvun með þessum vesalingi, henni Önnu litlu. En nú heyrist mér flestir reyni að kasta til hennar einhverri lítilsvirðingu, af því að því finnst hún víst vera af lánsörn." Þóra roðnaði og sleit upp stör og dundaði við að strjúka hana milli fingrana. Hún átti víst þessa sneið, ekki síður en Erlendur, en hún andmælti honum ekki. Hún vissi að hann hafði svipu, sem sig myndi logsvíða undan, ef hann beitti henni. Þau gengu þegjandi heim til bæjar. Það var þurrkur á hverjum degi. Það stóð hvert sætið við hliðina á öðru fram á grundunum. Skárri var það nú heyskapurinn. Það var heldur ekki undur. Aðrar eins slægjur hafði Sigurður ekki séð. Það var munur eða fjandans ræpurnar á Hvoli. Og svo þessi eftirvinna. Hún rakaði á eftir honum og kom heyinu á þurrkvöllinn. Strákurinn hjálpaði dálítið og klárinn, sem þau kölluðu Hæring gamla. Þó þurfti hún að mjólka með kerlingar- garminum. Ilmurinn af heyinu vakti á ný vonir hans og þrár. Hann gat ekki hugsað til þess að yfirgefa þessa jörð og Þóru. Hann brann af ákafri ástarþrá að hafa hana svona nærri sér allan daginn kafrjóða af ákafa og æskufjöri. Alls staðar var þurrkað og slegið. Köllin úr Sigurði gamla á Hóli heyrðust yfir til um þeirra, þegar hann var að tala við fólkið og reka á eftir því við vinnuna. Jó flissaði og hló að grimmdinni í karlinum, þegar þeir voru tveir einir Sigurður og hann, en forðaðist að láta Þóru heyra það. „Hvers vegna hlærðu aldrei að öskrunum í karlinum, þegar Þóra heyrir til?“ spurði Sigurður einu sinni. „Þykir henni svona vænt um það Hólshyskið, að hún þoli það ekki?“ „Nei, hún vill ekki láta mig hlæja að heyrnarleysinu í Sigurði gamla, vegna þess að Björn heyrði svo illa, en ekki þó neitt líkt þessum ósköpum,“ svaraði Jói. „Er mikil vinátta milli hennar og þess á Hóli?“ spurði Sigurður. „Það er nú fáum vel við það á Hóli, nema Ella, það er öllum vel við hann. Reyndar er Magga í vinfengi við Ragnheiði gömlu. En Þóra kemur þangað aldrei. Og það kemur heldur aldrei hingað.“ „Ekki Erlendur?" spurði Sigurður. Honum fannst sér létta svo mikið fyrir brjóstinu. „Hann kemur ósköp sjaldan.“ Þeir voru að rifja síðustu rifjinguna. Þóra var farin heim að mjalta. „Kemur Jón á Nautaflötum hér oft?“ spurði Sigurður eftir langa þögn. „Hann kom, þegar Björn var borinn fram í stofuna, og þegar hann var kistulagður,“ svaraði drengurinn hreinskilnislega. „Það var víst langt, frá því hann hafði komið; Magga sagði, að þeir hefðu eitthvað reiðzt hver öðrum, Björn og hann einhverntíma.“ „Vissirðu nokkuð, hvað þeim bar á milli?“ spurði Sigurður forvitinn. Nei, hann vissi það ekki, en Sigurði var talsvert rórra innan- brjósts eftir þessar upplýsingar. Þóru duldist það ekki, að Sigurður var breyttur. Hann var ókátari en hann hafði verið um vorið. Hann kallaði hana aldrei, góðu sína, eða talaði um neinar fyrirætlanir eða samvinnu eins og hann hafði stundum gert í gamni. „Þetta þarf að gera, þetta skulum við gera,“ hafði henni þótt viðkunnanlegt að heyra hann segja. Hún var þá ekki ein með ráðagerðirnar viðvíkjandi búskapnum,, og hún fann það, að honum var óhætt að treysta, sem bústjóra. Nú saknaði hún þess, sem var. Það kitlar hégómagirnd konunnar, að karlmaður, sem eitthvað er í varið, velur hana úr öllum öðrum fyrir ævifélaga, dáist að henni og hælir henni. Hún hafði tekið ákvörðun fram á eyrunum, þegar hún sá hann koma stilltan og rólegan til að skilja drykkjuvargana. Hún skyldi ganga að þessu einkennilega tilboði hans, draga sig út úr með honum, vinna með honum, henni hlyti að þykja vænt um hann með tímanum eins og öðrum konum. Hann var víst geðgóður og prúður, eða svo hafði hann komið fram þennan tíma, sem þau voru búin að vera, saman. Jóni ætlaði hún ekki nokkra hlýja hugsun framar, þessum ósvífna ofstopa, sem skapraunaði henni og kvaldi hana í hvert skipti, sem hún sá hann. Sjaldan hafði honum samt tekizt betur upp en núna, sagt að hún væri ekki þess verð að binda skóþvengi þessarar þá líka miklu manneskju sem Anna var. Ekki vantaði dálætið. En hvað svo sem kom henni það við, hún ætlaði sér ekki að hafa neitt saman við það Nautaflatafólk að sælda. Það gat ráðið yfir öðrum en henni. Hún hafði aldrei getað beygt sig fyrir vilja hvorki þess eða neins annars, nema föður síns. En innst í sál hennar andmælti einhver rödd, sem hún hafði heyrt til fyrr. ,JÞað eru ekki nema nokkrir dagar síðan þú sagðist aldrei gleyma honum. Manstu síðast fram á grundunum. Hefði honum ekki verið strítt, hefði hann aldrei farið í þennan ofsa. Þú varst ekki mikið betri en Elli.“ Þá herti Þóra á rakstrinum, svo hún heyrði ekki til raddarinnar, sem aldrei þagði — rödd æsku- astarinnar, sem gleymdi öllum yfirsjónum, öllu nema að elska og þrá. — Eftir vikuna var allt heyið komið í tóft. Svona stórt hafði ærhúsheyið aldrei verið fyrir tún í Hvammi. Þóra hafði komið því fyrir nema seinustu sátunum. Sigurður var jafn liðtækur við bandið og sláttinn. Magga gamla var í þriðja himni yfir hey- fengnum. Þóra var þreytt um kvöldið, þegar hún kraup við lækinn og þvoði mjólkurföturnar, eftir að allir aðrir voru gengnir til hvíldar. Hún hafði saknað föður síns svo átakanlega þennan dag, þegar hún var að vinna hans vanalega starf, að koma heyinu fyrir í tóftinni. Það minnti hana svo átakanlega á það, að sæti hans var autt ennþá. Skyldi hún nokkru sinni geta fengið mann í það, sem henni fyndist fylla það út. Sigurður var duglegur maður, en samt bjóst hún við því, að fólkið kynni ekki vel við hann sem húsbónda í Hvammi — kannske enginn ver en einmitt hún sjálf. Þó hafði henni dottið það í hug hvað eftir annað að minnast á það, sem hann hafði sagt í flaginu. En hún kunni ekki við það að brjóta upp á því að fyrra bragði. Hún lét föturnar upp á lækjarhelluna og baðaði handleggina úr kaldri bununni, sem féll fram af hárri hellubrúninni. Lækurinn var einn af æskuvinunum hennar. Lík- lega sá eini, sem ekki hafði horfið í burtu frá henni .Hér hafði hún setið marga stund í æsku og hlustað á, hvernig bunan hló og skríkti af galsa og gleði. Oft hafði hún sótt hefilspæni inn í skála til pabba síns, kastað þeim í lækinn fyrir ofan bununa, flýtt sér svo ofan að bununni til að horfa á, þegar hún kastaði þeim ofan í hringiðuna fyrir neðan. Þar snerust þeir dálitla stund, hurfu svo hver á eftir öðrum ofan straumhraðann. Og henni heyrðist bunan kalla: „Gaman, gaman!“ Nú var bernskan langt í burtu og æskan að hverfa. Hér sat hún ein hjá þessum eina vini, sem ekki hafði horfið frá henni. Hann var alltaf hreinn og tær, en henni heyrðist bunan vera hætt og hlæja og segja eitthvað allt annað en hún hafði sagt áður. Hún fór að hlusta: „Alvara og sorgir, alvara og sorgir!“ heyrðist henni hún segja. Það var áreiðanlegt, hún sagði þetta með þunglyndislegum hljómi. Hvað var lífið annað en alvara og sorgir, þegar fullorðinsárin voru komin. Hún hugsaði um vinkonur sínar, sem æskan hafði gefið henni. Nú voru þær báðar horfnar. Lilja, hreinskilna, trygglynda stúlkan, fyrir fullt og allt, — milli þeirra var svo mikið djúp, að hugur hennar gat ekki reiknað fjarlægðina. Anna, saklausa, veiklaða barnið, sem hún hafði verið beðin að ganga í systurstað. Nú var ekki langt frá því, að hún hataði hana. Hvað hafði Anna líka að gera með systurvináttu hennar. Voru ekki allir eins og systkini við hana, dáðust að henni og dekruðu við hana. Hún tæki víst ekki nærri sér að svara Lísibetu því, ef hún spyrði hana eftir Önnu, að hún ætti ekki að vakta hana. Svo grimma hafði rangsleitni forlaganna gert hana gagnvart fallegu, litlu leiksysturinni munaðarlausu. Henni heyrðist lækjarbúnan allt í einu breyta um tón. „Illa kona! Illa kona!“ heyrðist henni hún stagla í dimmum ásökunarrómi. Hún fjarlægðist lækinn svo hún heyrði ekki til hans. Hún fann, að hún var grimmlynd, það var öfundin og afbrýðin, sem hafði aðskilið þær. Samt gat hún ekki annað en hlýnað af ástúð Önnu í hvert skipti, sem þær sáust. Kannske var sú samlíking rétt: hrafn og svanur. En samt var tæplega hægt að þola hana. Hún stóð upp og gekk suður túnið. Hún þurfti að sjá heyið ennþá einu sinni, áður en hún fór að hátta. Sigurður hafði gengið sæmilega frá því, kembt það utan og rakað í kringum það, þó var það ólíkt nostrinu hjá föður hennar. Hún tók hrífuna og fór að bæta um. Aumingja pabbi, skyldi hann vita nokkuð um stóra heyið, sem komið var í tóftina hans? Líklega ekki. Það var líka gott. Hann sá þá ekki heldur, hvað hún var einmana og vesældar- leg. Hvar var dugnaður hennar, að vaka og telja sér raunatölur? Skyldi hann nokkurn tíma hafa verið svona einmana í lífinu? Aldrei hafði hún skilið það á honum. Þó hafði hann fylgt tveim konum til grafarinnar eftir stutta sambúð. Aldrei hafði hann talað um það, að sér hefði leiðzt heima, þó hún væri fram á Nautaflötum heilu dagana, aðeins spurt hana að því, hvort hún hefði ekki skemmt sér vel. Magga gamla hafði rausað um það við hana, að hún strokaði á bæi, en hugsaði ekki um að vera heima hjá honum, sem hugsaði ekki um annað en hana. Aldrei yrði þó Lýsibet henni að föður hennar eða Jón sonur hennar, þó hún gæti ekki verið annars staðar en kringum þau. Hvað tók hún til greina? vonzkaðist bara við kerlinguna og sagði henni að skipta sér ekkert af því. Nú sá hún það vel að hún hafði verið ónærgætin við pabba sinn og óstýrilát við Möggu gömlu, sem vildi henni og föður hennar vel. Kannske var henni nú að hefnast fyrir þetta allt saman. Það var líklega bezt að fara að hátta og vita, hvort hana gæti ekki dreymt pabba. Ekki þýddi mikið að vera að iðrast eftir því, sem ekki var hægt að taka aftur, heldur að reyna að vera stillt, eins og hann hafði svo oft beðið hana, og búa vel við samferðafólkið, meðan tími var til. Hún þurfti að bæta Möggu svo margt upp. Hún sneri heimleiðis. Hvað skyldi lækurinn segja núna? Hún stanzaði og hlustaði. Niðurinn var ekki eins þunglyndislegur og áður. „Engu að kvíða! Engu að kvíða!“ heyrðist henni bunan kalla. Það glaðnaði talsvert yfir henni. Þetta skyldi hún segja Möggu. Það var hún, sem hafði sagt henni, að lækurinn gæti talað, og kenndi henni að þýða mál hans. Líklega uppgötvaði hún það á endanum, að Magga væri stórskynsöm manneskja. STÓRT SPOR I ÁTTINA Morguninn eftir, þegar Þóra var í kvíunum, gekk Sigurður beina leið inn í búr til Möggu gömlu og bað hana um mysu að drekka. Hún var að strokka. Hann settist á búrkistuna og beið eftir drykknum. Magga setti fyrir hann fulla pottkönnu af mysu. Hann horfði á strokkinn eins og hann hefði aldrei séð svo leiðis ílát áður. „Þið hafið þurft að borða þurrt allan sláttinn til að geta safnað í þessar leigur. Annars var nú erindið ekki beint það að fá sér að drekka,“ sagði Sigurður. „Nei, ekki þarf þess. Smjörið er lagt inn,“ svaraði hún. ,Ójá, það er dálítill munur eða á Hvoli. Maður át hálfþurrt allan sláttinn til að geta safnað í þessar leigur. Þ..ð eru bágu kjörin að vera leiguliði," andvarpaði hann. „Já, það er erfitt,“ samsinnti Magga gamla. Þau þögðu bæði dálitla stund. Hann átti ekki gott með að byrja, en þurfti að tala við Möggu, hann gat ekki lifað í þessari óvissu lengur. Loks herti hann upp hugann: „Voru þau trúlofuð einhverntíma Erlendur á Hóli og Þóra?“ spurði hann. „Trúlofuð? Ekki aldeilis," svaraði hún fljótt. „Hann var víst eitthvað að bera sig til við að skrifa henni bónorðsbréf. En hún var nú víst ekki lengi að hugsa sig um að gefa honum afsvar. Hvað skyldi hún líka hafa haft að gera með það að giftast inn í Hóls- fjölskylduna. En honum hefur sjálfsagt þótt vænt um hana, strákgreyinu, hann er sífellt að bulla eitthvað um hana, þegar hann er við vín.“ „En Jón Jakobsson, voru þau trúlofuð?“ spurði hann með áherzlu. „Og líklega hefur hún nú haldið það og faðir hennar líka. Hann er nú brokkgengur, pilturinn sá,“ svaraði hún og brosti. „Heldurðu, að það sé eitthvað á milli þeirra ennþá?“ spurði hann ákafur og glápti á hana stórum augum. Hún hristi höfuðið. „Nei, það er ég viss um, að ekki er. Þóra er of stórlát til þess að halda við giftan mann. En hitt veit ég, að hún elskar aldrei annan mann. Reyndar veit ég það nú ekki. Ég hef nú ekki mikla reynslu í þeim sökum.“ „Heilsast þau alltaf með kossi?“ spurði hann. „Ekki hún. Hann heilsar henni oftast nær með kossi. Hann er ósköp blíðlyndur og mesti gæðapiltur, þó hann sé nú svona. Ég býst við, að hann hefði ekki á móti því, en hún lætut1 aldrei tilleiðast. Enda hefur líka faðir hennar lagt eitthvað niður fyrir brjóst á henni. Hann var nú svo heiðarlegur maður, hann Björn heitinn.“ Siguíður setti könnuna frá sér, það hafði lækkað ótrúlega lítið í henni, þakkaði Möggu fyrir drykkinn og uppfræðsluna og fór út. Svo þetta heldur sú gamla, að henni geti aldrei þótt vænt um annan mann, en samt forsvarar hún hana, hugsaði hann og hleypti brúnum. Þóra var á fótum eftir að aðrir voru háttaðir þetta kvöld. Hún var að gera ýmislegt, sem hún vildi ekki láta bíða morgundagsins, sem var sunnudagur. Hún hlustaði eftir því, hvað lækurinn segði, það hugsaði hún sér að gera á hverju kvöldi héðan í frá. En hann sönglaði einhverja endaleysu, sem ekkert var hægt að búa til úr. Þetta var nú líka meiri vitleysan að hugsa sér fullorðna mann- eskju að leggja trúnað á þetta, þó hún hefði trúað því, meðan hún var krakki. Hún gekk hægt inn í baðstofuna, svo fólkið skyldi ekki vakna. Sigurður svaf í rúmi föður hennar, og klukkan stóð á hillunni fyrir ofan rúmið, þar sást vel á hana. Þóra læddist að rúminu á millipilsinu og berfætt til að draga upp klukkuna, annars stansaði hún. Sigurður hafði losað svefninn, þegar hún kom inn í bað- stofuna, þá lét hann eins og hann svæfi. Þegar hún var að snúa frá rúminu leit hann upp, þau horfðust í augu nokkrar sekúndur. Hún varð hálfvandræðaleg yfir að standa þarna svona óviðkunnan- lega fáklædd. Hún ætlaði að fara að stama upp einhverri afsökun, þegar hann tók um hendur hennar og nefndi nafn hennar lágt og innilega. „Hvað ertu að gera, þegar aðrir eru farnir að hvíla sig. Því er þér svona kalt á höndunum?“ spurði hann. Hún dró ekki til sín hendurnar. „Ég var að þvo í læknum. Það er margt, sem húsmóðirin þarf að vinna fram yfir aðra. Sjálfsagt hefur mamma þín orðið að vaka oft frameftir með allan þennan barnahóp.“ „Ójá,“ var það eina, sem hann sagði. Honum hafði aldrei dottið í hug að vorkenna móður sinni vökurnar og baslið. Það var of vanalegt til þess, og honum hafði fundizt það réttlátt fyrir allar' hennar barneignir. Það var annað með Þóru, hún var svo ung, og hafði svo fallegar hendur. Hann tók þéttar utan um úlnliði hennar og sagði: „Á morgun kemur Manni. Ætlarðu að biðja hann að verða eitthvað hjá þér?“ „Ef þú ætlar ekki að koma frameftir með þínar kindur, þurfum við engan kaupamann. Þú ert svo duglegur," svaraði hún. „Það ert þú, sem átt að skera úr því. Ég bíð eftir svari þínu.“

x

Lögberg

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.