Lögberg - 22.10.1953, Blaðsíða 6

Lögberg - 22.10.1953, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN, 22. OKTyÓBER, 1953 Hann klæddi sig úr buxunum, braut þær saman og lagði þær á borðið hjá hinum fötunum, dró af sér sokkana og lagðist upp í rúmið hjá henni. „Dettur þér í hug, að ég láti þig reka mig úr rúminu?“ sagði hann sauðþráalega. „Þú færð „hann“ ekki á stokkinn til þín hvort sem er. Hún sleppir honum varla sú bjarthærða. Það fer víst ekkert illa um hana hjá honum. Þið hafið líklega keppt um hann til þrautarinnar." Hún færði sig svo nærri þilinu, sem hægt var, en hún vildi ekki fara í hávaða við hann, svo Magga yrði einskis áskynja. En Magga var vakandi, þó hún þættist sofa. FRIÐARSAMNINGUR Sigurður vaknaði á venjulegum tíma morguninn eftir, en Þóra steinsvaf. Hún hafði verið þreytt á sál og líkama, og þar til og með gekk henni ekki vel að sofna. Hann kom ekki inn til að drekka morgunkaffið, fyrr en hann var búinn að gefa bæði fénu og kúnum og láta í kvöldmeisana. Hann hafði hugsað mikið um það, sem gerðist síðastliðna nótt, og komizt að þeirri niðurstöðu, að það yrði hann, sem yrði að lækka seglin, ef hjúskaparfleytan ætti að geta flotið á réttum kili. Þóra myndi aldrei gera það. En að láta taka það frá sér, sem honum hafði gengið svo vel að hand- sama, það datt honum ekki í hug að láta viðgangast, fyrr skyldi hann taka til allra mögulegra ráða, illra og góðra. Þóra sat uppi í rúminu og drakk kaffið, þegar hann kom inn. Hann bauð henni góðan daginn með kossi. Það gera allir eigin- menn svona fyrsta misserið af hjónabandinu. Hann leit út alveg eins og hann var vanur og settist á koffortið við borðið. Magga vermdi höndurnar á kaffikönnunni. Það var komið frost og kalt fram í eldhúsinu. „Þér er kalt, Magga mín,“ sagði Sigurður óvenjulega nær- gætinn við gömlu konuna. „Það er notalegra að hafa eldavél inni í baðstofunni. Það fást ágætar litlar eldavélar á Ósnum, en þó með ofni. Ég pantaði eina í nýju baðstofuna.“ „Ætlarðu að fara að byggja?“ spurði Magga. „Já, auðvitað strax í vor.“ Hann leit til Þóru, hún drakk kaffið án þess að líta upp eða láta það sjást, að hún heyrði, hvað þau sögðu. „Ég hef glugga sunnan á stafninum og svo annan þarna hjá eldavélinni.“ Hann benti á, hvar eldavélin ætti að vera. Magga horfði í sömu átt. „Hvaða svo sem umturnun er þetta í stráknum? Hefur hann ekki nema rifið ofan af rúminu. Er ég nú aldeilis hissa,“ sagði Magga og lézt vera alveg forviða. Þóra gaut hornauga til rúmsins með sama svip og krakki til brotins bolla, sem hann hefur tekið tú hirtingu fyrir. Ef Sigurður hefði háttað í þetta rúm, hefði hún aldrei getað litið hann réttu auga, slíkt lítilmenni. Sigurður vogaði ekki að ávarpa konu sína í áheyrn Möggu, hann þóttist heyra á svörum hennar við gömlu konuna, að skapsmunirnir væru ekki komnir í samt lag aftur. Þegar hún var að enda við að mjólka, kom hann inn í fjósið. „Lætur kvígan alltaf jafn illa, þegar hún er mjólkuð? Varaðu þig, að hún meiði þig ekki,“ sagði hann mjúkur í máli. „En sú umhyggja," sagði hún önug. „Þú getur ekki sagt það með sanni, að ég hafi ekki hugsað sæmilega um þig og heimilið þessa mánuði, sem við höfum búið saman,“ sagði hann gramur. „Ég hef ekki þurft neitt á umhyggju þinni að halda,“ svaraði hún í sama tón. „Og kvíguna hef ég mjólkað, án þess þú hafir litið á hana nema fyrsta málið, svo það er ástæðulaust að vera smeikur um að hún meiði mig núna, þegar hún er orðin ágæt.“ Hann gekk fram og aftur um stéttina. „Þú leggur allt út á versta veg fyrir mér.“ „Það er ekki satt,“ svaraði hún, „en ég get ekki búið saman við þig, fyrst þú treystir mér ekki, og tortryggir mig eins og þjóf.“ „Ég veit ekkert, hvað ykkur hefur farið á milli, áður en við kynntumst," sagði hann hikandi. „Það kemur þér heldur ekkert við,“ flýtti hún sér að segja. „Við hittumst á vegamótum, óþekkt hvort öðru, sömdum um að verða samferða. Reyndar varst það þú, sem áttir þá uppástungu, hvort sem þú hefur gert það af hagfræði eða þér hefur þótt vænt um mig, veizt þú bezt sjálfur, en ég hefði aldrei gifzt þér, hefði ég ekki ætlað mér að vera konan þín í raun og veru.“ Hún ætlaði að segja meira, en hann greip fram í fyrir henni: „Hver hefur komið þeirri flugu inn í höfuðið á þér, að mér þyki vænna um eignirnar þínar en þig sjálfa. Líklega hann þessi djöfull, sem hefur komið öllu þessu sundurlyndi af stað, eða þá móðir hans, ekki er hún betri.“ — „Það hefur víst enginn komið því af stað annar en þú sjálfur," sagði hún. „Sízt af öllu Lísibet, hún er betri kona en svo, að hún spilli milli hjóna.“ Hann stikaði stéttina þegjandi stundarkorn, svo sagði hann ekki óhlýlega:' „Við skulum gera samning. Ég skal sættast við þig, ef þú lofar að fara aldrei fram að Nautaflötum.“ Hún sneri þóttalega upp á höfuðið. „Ég þarf ekki að kaupa af þér neina fyrirgefning, vegna þess að ég hef ekkert brotið.“ ,T*ví sagðirðu þá, að þú hefðir verið inni hjá Önnu, þegar ég heyrði ykkur tala saman í stofunni?“ spurði hann. „Ég sat inni hjá henni,“ svaraði hún einbeitt. „Svo er úttalað um það mál. Ég læt engan mann benda mér, hvar ég eigi að ganga eða elta mig eins og óvita. Fyrst að samfylgdin getur ekki gengið friðsamlega, er ekki um neitt að gera annað en að skilja. En að Nautaflötum kem ég varla fyrst um sinn.“ Hún fór með mjólkurföturnar út úr fjósinu og skildi hann eftir ráðalausan. Það var ekki gott að semja frið, meðan hún var í þessum ofsa, hann varð að láta hana fá tíma til að jafna sig. Þetta varð langur og þreytandi dagur, þó fjestum finnist hann helzt til stuttur þann tíma ársins. Rétt fyrir myrkrið kom Sigþrúður á Hjalla. Sigurði var vanalega lítið gefið um gesti. Þeir voru gestir Þóru, en ekki hans. Sjaldan gat hann tekið nokkurn þátt í skrafi þeirra. Þeir töluðu um fólkið í dalnum fyrr og nú við Þóru og Möggu, þær þekktu það eins og fingurna á sér, en hann kannaðist lítið við það. Vanalega sat hann því þegjandi og lagði ekkert til málanna, eða hann fór út. Gestirnir töluðu svo um það heima hjá sér, að hann væri dauðans þurrdrumbur. En nú varð hann feginn að sjá gest. Ekki var ómögulegt, að þunglyndið viðraðist af Þóru, ef hún stanzaði eitthvað. Hjallahjónin og Jakob hreppstjóri voru líka einu mann- eskjurnar, sem honum fannst ekki leggja kulda af til sín, og hann hafði komið nokkrum sinnum á heimili þeirra. Magga stakk upp á því strax, þegar Sigþrúður hafði fengið sér sæti, að það yrði spilað stundarkorn, henni fannst árið heilsa heldur dauflega. Það varð úr, að allir settust við spil. Sigurður græddi alltaf, móti hverjum sem hann spilaði. Hann var óvenju kátur og spaugsamur og sýndi konu sinni smá atlot, sem ekki var þó heldur vanalegt, klappaði henni á hendina, ef hún lagði hana ofan á „slagina“ á borðið og strauk niður bakið á henni, þegar hún sat í næsta sæti við hann, til að minna hana á, að hún „ætti að gefa“ eða væri í „forhönd“, "þó hún fylgdist vel með spilunum. Glöggt gestsaugað tók líka vel eftir því, en henni fannst Þóra láta lítið á móti. Það var spilað til fjóstíma, þá urðu hjónin að fara í fjósið. Jói hafði fengið að fara heim til foreldra sinna þennan dag; þau bjuggu utarlega í dalnum. Magga varð eftir hjá gestinum og átti að hafa til kaffi, þegar Þóra kæmi aftur .Hún varð fengin að geta talað í einrúmi við Sigþrúði um það, sem henni þótti mest um vert, það var nú líka altaf svo einstakt að rekja raunir sínar við hana þessa konu. , „Mér sýnist nú svona þér að segja, að það ætli nú svo sem eklci að verða neitt dásamlegt þetta hjónaband, sem hér var stofnað í sumar. Það var líka ekki svo lítið hissa á Þóru fólkið og spáði víst ekki sérlega vel fyrir því“ — sagði hún í hálfum hljóðum, þó enginn gæti heyrt til hennar. „Því miður,“ sagði Sigþrúður áhyggjufull, „mér sýnist hún ekki hlýleg við hann aumingja manninn„Þau voru svo ánægjuleg í gær við kirkiuna.“ „Þú hefir náttúrlega ekki verið á dansinum?" „Nei, ég fór strax og búið var að drekka.“ Magga drap tittlinga. „Þeim hefur líklega eitthvað sinnazt á leiðinni. Hún er nú stórlynd eins og þú þekkir og ekki’vön að láta sinn hlut hvorki fyrir einum né neinum. Hann hefði átt að kynnazt betur skaps- munum hennar, það hefði ekki gert neitt til, þó giftingin hefði dregizt eitthvað.“ / „Ósköp er það leiðinlegt, ef sambúðin verður erfið, því ég er alveg viss um það, að honum þykir mjög vænt um hana. Ég skal nú reyna að tala við hana, ef hún fylgir mér heim.“ Eftir að Sigþrúður hafði hresst sig vel á kaffinu, leiddust þær nágrannakonurnar ofan mýrarnar milli bæjanna. „Og nú ætlarðu að láta rífa baðstofuna í vor, Þóra mín,“ sagði Sigþrúður. Hún er líka orðin gömul þessi, svo það er varla von, að nýgift hjón geti hugsað til að búa í henni, nýtt með nýjum. Og svo verður hann búinn að gera allt túnið slétt á fáum árum, !ef hann heldur svona áfram. Það má nú segja, að þú fengir þér duglegan mann og þér samhentan.“ „Hver hefur sagt þér, að það eigi að rífa baðstofuna?“ spurði Þóra. Hún hafði aldrei heyrt hann minnast á það nema fyrsta kvöldið, sem þau voru í hjónabandipu og svo síðastliðinn morgun við Möggu. „Hann er búinn að biðja Þórarinn að verða hjá sér í allt vor. Ég tala nú ekki um, hvað mér þykir vænt um að hafa hann svona nálægt, og svo veit ég, að þú lætur honum líða vel,“ hún hló þessum skæra hlátri, sem þær konur, sem eru hamingjusamar og hrifnar af mönnum sínum, hlæja. „Ég býst ekki við, að neinum líði sérlega vel hjá mér,“ svaraði Þóra dauflega. „Ég get sagt þér meira, góða,“ hélt Sigþrúður áfram. „Hann er búinn að kaupa bæði eldavél og kommóðu í baðstofuna, geymir það niðri á Ós. Hann hefur áreiðanlega hug á áð láta þér líða sæmilega, býst ég við. En þú mátt ekki láta hann vita, að ég hafi verið svona lausmálg. Ég var bara að bregða upp mynd af nýju baðstofunni þinni.“ Þóra gekk hugsandi heimleiðis. Svo það voru þá meira en bráðabirgða ráðagerðir til að reyna að sættast við hana, þetta með baðstofuna, eins og henni hafði dottið í hug um morguninn. Hann hafði líka sagt henni það, að hann væri vanur því að reyna að koma því í framkvæmd, sem hann væri búinn að ráðgera. Það höfðu nú verið hennar heitustu óskir í mörg ár að fá nýja baðstofu og fækka þúfunum í túninu. Þá kom nú þetta upp á teninginn, einmitt þegar þær voru að því komnar að uppfyllast. Hjónaskilnaður, hvorki meira né minna. Reyndar hafði hann hótað því, að hún skyldi aldrei fá skilnað. Líklega var það ekki óvanalegt, að eitthvað slettist upp á milli hjóna, og hún hafði náttúrlega gefið honum tilefni að tortryggja hana. Hún hefði ekki átt að stanza neitt í stofunni hjá Jóni hálf- drukknum og láta hann stríða sér, hún var asni. Hann hafði alltaf lag á að stríða henni og láta hana fuðra upp, hlæja svo að henni fyrir bráðlyndið. Heima í bæjardyrunum stóð Sigurður og hoTfði á konu sína. Aldrei hafði honum fundizt hún eins myndarleg og einmitt núna, þegar sverðið hékk yfir höfðum þeirra tilbúið að höggva sundur þetta heilaga band, sem séra Benedikt hafði tengt þau saman með kaldasta sunnudaginn, sem kom á sumrinu. Samt var bjartara yfir honum í endurminningunni en öllum öðrum dögum í lífi hans. Eftir því sem hún nálgaðist dyrnar, færði hann sig nær skáladyrunum eins og skip sem óttast árekstur. Þó var langt frá því að hann ætlaði sér að hopa af hólminum í viðureigninni. Hún straukst inn hjá honum án þess að verða hans vör. Hann fór inn í skálann og gekk þar um gólf stundarkorn með hendurnar í vösunum og hugsaði margt. Hann heyrði Þóru spyrja Möggu eftir sér, en hún vissi ekkert um hann. Þegar hann heyrði að Magga var farin að rausa við felhelluna, eins og hún var vön, gekk hann til baðstofu. Þóra var að draga upp gömlu klukkuna, hún stóð enn þá á hillunni yfir auða rúminu. Hann stanzaði á gólfinu og gaf henni gætur. Hún fór að taka ábreiðuna ofan af rúminu hægt og hikandi. Þá færði hann sig til hennar. „Ertu að hugsa um að fara að búa um mig þarna aftur?“ spurði hann fastmæltur. „Það þýðir ekkert fyrir þig. Ég gef þér aldrei eftir skilnað, og þú hefur mig aldrei burt af heimilinu, þó þú fáir þína góðu nágranna til að bera mig úr úr bænum, verð ég samt hérna einhvers staðar, sef í fjárhúsunum, ef ekki vill betur til.“ „Ég get sofið hérna sjálf,“ svaraði hún kuldalega. „Ef þig langar endilega til þess að láta fólkið fá söguefni, máttu það mín vegna,“ hreytti hann úr sér. Hún var horfin fram úr baðstofunni, áður en hann var búinn að tala út. Hann breiddi ábreiðuna yfir rúmið aftur. Þóra settist fram í eldhús, það var ekki mjög kalt þar. Hún þurfti að vera ein um hugsanir sínar. Þetta þýddi víst ekkert, hann léti aldrei undan. Hún þurfti ekki að hugsa það, að hann léti undan. Eigin- lega hafði það verið hún, sem alltaf hafði sigið undan, síðan hann kom á heimilið, nema þegar litli Rauður kom til sögunnar, þá lét hann þó af meiningunni. En ef hann færi nú í vor, hvað tæki þá við. Einhver vinnumaður, sem ekkert gerði heimilinu til góðs nema það, sem hún segði honum, og sléttaði ekki eina þúfu í túninu. Allt í einu var hann kominn fram í eldhúsið. „Því siturðu hér alein, góða mín, í kuldanum?“ spurði hann og reyndi að tala hlýlega. „Komdu inn í hlýjuna.“ „Ég er einstaklingur í lífinu,“ svaraði hún, „og á ekki samleið með neinum. Þess vegna er bezt, að ég sé ein. Við skulum skilja, við getum ekki gert hvort annað ánægt,“ það var raunablær í röddinni en ekki gremja. Hann tók undir handlegg hennar. „Komdu inn með mér, þetta lagast allt aítur. Ég skal ekki vera svona hranalegur og ósanngjarn við þig í annað sinn. Það gerði allt, að ég smakkaði vínskömmina hjá honum mannfjandanum. Þú verður samferða svolítið lengur — til vorsins.“ Það er betra að slíta samfylgdinni en lifa i ósamlyndi.“ „Það er nú alltaf svo, að þeim verður að sinnast, sem saman eiga að búa,“ sagði hann. „Sum hjón takast meira að segja á,“ bætti hann við og reyndi að bregða fyrir sig glettni. „Þú værir kannske ekkert óánægður með svoleiðis sambúð?“ sagði hún hranalega. „Það kemur ekki til, svo bágt verður það aldrei. En þú ferð ekki að geðjast nágrönnunum með því að skilja við mig eftir nokkra vikna samveru.'Þá yrði þeim þó líklega skemmt.“ Já, líklega yrði þeim það, hugsaði hún, en hana langaði sízt af öllu til að skemmta þeim eða gera þeirra vilja. Hún stóð á fætur og tók ákvörðun. „Ef við getum ekki lifað friðsamlega til vorsins, þá er ekki um annað að gera en skilja." Þau fylgdust að inn í baðstofuna. „Nú, jæja,“ tautaði Magga gamla við sængina, þegar hún var háttuð. „Skyldi hann geta kennt henni það, sem hún hefur aldrei getað lært, að láta undan. Hann fer það, sem hann ætlar sér þessi kauði, býst ég við. En hvort hann Björn heitinn hefði verið ánægður.“ GAMLA BAÐSTOFAN RIFIN Næstu dagana eftir þessa sundurþykkju var Sigurður stima- mjúkur og glaðvær við konu sína, svo varð allt eins og áður, kalt og friðsamt. En innst í brjósti þessa kaldlynda manns logaði eldur afbrýðinnar. Ef hann sá Jón þeysa út eyrarnar, og það var ekki sjaldan, fannst honum hann þurfa að fara heim, ef hann var í húsunum og aðgæta, hvort Þóra stæði ekki við stofugluggann eða í bæjardyrunum og horfði á hann. Slíkt þoldi hann ekki. Oft var hún eitthvað að dunda frammi í stofu. Þá fór hann inn í stofuna og stóð fyrir glugganum; svo hún sæi ekki til ferða Jóns. Eigin- lega gat hann ekki séð, að hún hefði verið neitt að gera þar í'rammi, ekki einu sinni að hún hefði verið að athuga handraðann og það, sem hann hefði inni að halda, ef það var þá nokkuð annað en vitleysan úr kerlingunni. Hann fann upp á einhverju umtals- efni, en hún fór vanalega fljótlega í burtu. Hann fann, að þetta var fyrirlitleg brjálsemiskennd, en hann gat ekki spornað á móti henni. Til allrar hamingju grunaði Þóru aldrei, hvað hann var að vandra. Það leit út fyrir, að bæirnir hefðu fært sig hvor frá öðrum. Nú varð aldrei ferð á milli, nema þegar Vigga kom að finna Jóa litla bróður sinn. Vanalega kom hún þá með skilaboð frá Önnu til Þóru að koma fram eftir til að sjá Jakob litla, hann stækkaði fjarska mikið. Og Þóra spurði ítarlega eftir drengnum og lét hana lýsa því nákvæmlega, hvernig farið væri með hann, bað hana síðan fyrir heilsan til önnu og bjóst við að koma bráðlega. Magga gamla fjargviðraðist yfir því, að hún skyldi ekki gera al- vöru úr þeirri ráðagerð. „Það var önnur tíðin, þegar þú trítlaðir fram eftir á hverjum sunnudegi, og voru þó fótlurnar á þér heldur minni en þær eru núna.“ „Þá var heldur ekki annað til að gera og lífið eintómur leikur,“ svaraði Þóra. „Þá hugsaði pabbi og þú um heimilið, nú er röðin komin að mér.“ „Ja, hvað að tarna. Það er nú ekki svo mikið um að vera á barnlausu heimili, að þú getir ekki brugðið þér fram eftir. Ég veit, að Lísibetu leiðist þetta, hún á líka annað af þér en þú gangir á snið við hana,“ sagði Magga. Þá þurfti Þóra að fara eitt- hvað fram, og ekki fór hún að heldur fram að Nautaflötum næsta sunnudag, þó Magga byggist við því. Það var komið fram í einmánuð. Þóra hugsaði oft um það, hvað margt gæti breytzt á einu ári. í fyrra hafði hún setið yfir föður sínum dauðvona, döpur og áhyggjufull yfir framtíðinni. Nú var ólíkt bjartara yfir, nýja baðstofan, þegar vorið kæmi með sól og yl, ný lítil mannvera með haustinu. Nú þurfti hún ekki að kvíða einstæðingsskapnum lengur. Skyldi hún verða eins sæl yfir sínu barni og Anna? Hún vonaði það. Þó dró talsvert úr gleði hennar, að hún gat ekki betur heyrt en Sigurði væri illa við þessa tilbreytni, og henni sýndist hann kaldari á svipinn oft og einatt, síðan hún sagði honum frá þessum væntanlega gesti. „Það er aldrei friður hvorki dag né nótt fyrir grenjum og gauragangi, þar sem þessir krakkar eru,“ hafði hann sagt einu sinni, þegar hún spurði hann glöð og sæl, hvort hann hlakkaði ekki til litlu maneskjunnar. Oft datt henni það í hug, sem Jón hafði sagt við hana fram á eyrunum um vorið: „Þú ferð þó líklega ekki að taka hann að þér þennan kaldlynda drumb, sem kreistir börnin, svo þau gráta undan honum.“ En þó hann væri kaldlyndur við unglinga, yrði hann öðru vísi við sín eigin börn. Við það reyndi hún að hugga sig.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.