Lögberg - 21.01.1954, Page 6

Lögberg - 21.01.1954, Page 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 21. JANÚAR 1954 „En mér fannst það betra, ef þú hefðir aldrei raknað við aftur“. „Þá hefði ég skilið við lífið eins og nokkurs konar sjálfs- morðingi, því það hlýturðu þó að vera farinn að skilja núna, að við berum ábyrgð á þessum lífdögum okkar, þótt þú færir nú ekki varlega í æsku, stundum". „Ójá, nokkrum sinnum klifruðum við Þórður í Fossagilinu og varð ekki að slysi“. „Kannske hefur það verið hefnd á mig fyrir að kaghýða ykkur ekki fyrir glannaskapinn. Og aldrei hefði mér dottið í hug að kenna guði almáttugum um það, þótt þú hefðir hrapað þar eða farið í ána, þegar þú varst að leika þér að því að sundríða hana“. „Kannastu nokkuð við þessar stúlkur, Hjálmar minn?“ spurði Jón og brosti ofurlítið. „Ójá, einhvern tíma mun ég hafa séð þær fyrr en nú. „Jæja, Hjálmar minn. Þú ert alltaf sami gáfu- og guðsmaður- inn“, svaraði Jón. „Aumingja gamli maðurinn“, andvarpaði Anna, „hvað hann getur borið þennan kross með mikilli þolinmæði". „Jón hefur áreiðanlega gott af því að tala við hann“, sagði Þóra. „Mér finnst sjálfsagt að koma fram í dyrnar og tala við hann. Einu sinni þekktum við hann þó vel, Anna mín“. Anna stóð upp og braut saman efnið í líkhjúpinn; gerði síðan krossmark yfir litla reifastrangann á borðinu. Svo gengu þær fram í dyrnar. Hjálmar hafði setzt á stóra kistu, sem alltaf stóð í bæjar- dyrunum. Hann rétti þeim mjúka, holdlausa höndina, án þess að standa upp. Það var orðið langt síðan þær höfðu séð hann, enda hafði hann breytzt mikið. Líkaminn var orðinn holdlaus og visinn og þjáningasvipur á andlitinu. Alls staðar var alvara og sorgir, hugsaði Þóra. „En mér þykir hún Þóra litla vera orðin stillt og konuleg. Hún gat þó hreyft sig hérna á árunum, bæði á hestbaki og sínum eigin fótum. En þetta blessað ljós hefur alltaf verið eins og hugur manns“, sagði gamli maðurinn, um leið og hann tók höndina á Önnu og klappaði henni. Jón stakk grátnu andliti konu sinnar undir vanga sinn og sagði blíðlega: „Hún er svo föl og tekin af þessum sífellda gráti — alltaf að gráta litlu stúlkuna okkar“. Þóra leit niður fyrir fætur sér og brá litum. „Hvernig skyldi hlutskipti þeirrar konu vera, sem er allskostar ánægð?“ „Aumingja mæðubarni£5!“ sagði Hjálmar. „Hún var ekki gömul, þegar hún þurfti að fara að gráta ástvini. En hann var nú góður við þig, þessi strákur, að gefa þér mömmu og pabba atrax aftur. Eins verður um dótturmissinn. Hann bætist fljótlega. En þetta er átakanlegt, meðan það stendur yfir. Það fannst okkur Helgu minni, þegar tvö elztu börnin okkar voru látin í sömu gröfina. Það var barnaveikin, sem tók þau með viku millibili“. „Tvö börn í sömu gröfina. Drottinn minn“, sagði Anna og horfði hissa á gamla manninn, sem búinn var að reyna svona mikið. „Ójá, okkur fannst dauflegt í kotinu næstu sex vikurnar, en þá fæddist Lilja mín og næsta ár Þórður, og svo öll hin á eftir. Hann hefur svo sem borgað okkur það, sem hann tók, blessaður himnafaðirinn. Og nú er vegferðinni bráðum lokið; þá koma þau á móti pabba sínum, þegar hann kemur staulandi „yfir Um“. Reyndar vona ég, að verða þá laus við prikið“, sagði hann og brosti ofurlítið. Jakob litli kom vaggandi innan göngin, með hestinn sinn í fanginu. Athyglin beindist að honum. „Þetta er víst litli „Dalaprinsinn“,“ sagði Hjálmar. Drengurinn kom til hans og rétti honum höndina. „Guð blessi þig, Jakob litli Jónsson. Þetta er sá þriðji með því nafni, sem ég hef séð hér á heimili. Þetta er mömmu-barn, ósköp fallegur og elskulegur drengur“. Þóra tók drenginn á handlegg sér. Hann var svo átakanlega lítill að standa þarna hjá fullorðna fólkinu. „Hvaða ósköp ertu mömmuleg við barnið, Þóra. Það er auðséð, að þú ert orðin móðir, eða man ég það ekki rétt, að þú eigir son?“ hélt gamli maðurinn áfram. „Jú, ég á dreng á fyrsta árinu“, svaraði Þóra og kyssti Jakob litla. „Hann tók svo vel á móti mér, þegar ég kom, þessi blessaður drengur. Ég fann hann hér úti á túninu með hestinn sinn“. „Hann hefur verið gestrisnari en faðir hans“, sagði Jón dálítið kíminn. „Já, víst var han það, litli vinurinn“, sagði Þóra og kyssti hann aftur. „Þá er bezt að reyna að hafa sinn inn í kokkhúsið, Hjálmar minn“, sagði Jón og tók undir handlegg gamla mannsins og studdi hann inn göngin. Lísibet húsfreyja tók alúðlega á móti gestum sínum og bauð þá velkomna. „Þú hefur helzt til mikið fyrir mér eins og fyrr“, sagði Hjálmar, þegar hann var setztur við dúkað borð, og ný steik og rúsínu- vellingur var borið á borðið. „Hvaða tyllidagur er hjá þér, kona?“ bætti hann við. „Það eru bara engjagjöldin. Ekki má draga þessa glaðningu af vinnufólkinu, þótt sorgin hafi komið í heimsókn til okkar. Það er búið að vinna til hennar með dugnaði og árvekni. Okkur þykir vænt um, að þú ert orðinn svo hress, að þú getur setið til borðs með okkur“, svaraði Lísibet með sinni vanalegu stillingu og alúð. „Við höfum notið gæfu og gleði hér á þessu heimili í mörg ár“, tók Jakob hreppstjóri til máls. „Það ætti því ekki vel við að fjasast yfir fyrsta mótlætinu, sem mætir“. Svo tóku allir lystilega til matar síns af þessu góðgæti, nema Anna. Hún sagði, að sér byði við matnum og fór alein inn í bað- stofu. Jakob og Hjálmar fóru að tala um, hvernig hefði verið búið í dalnum, þegar þeir voru börn og unglingar, og yngra fólkinu þótti skemmti’egt að heyra, hvernig hefði litið út fyrir hálfri öld. „Þá var rólegra í blessuðum dalnum og minna um glauminn hjá unga fólkinu en núna“, sagði Jakob. „Þá bergmáluðu ekki fjöllin af harmonikugargi eða gólfin dunuðu undir danslátum“. „Nei, ónei“, sagði Hjálmar gamli, „en líklega hefði maður orðið feginn, ef sú nýbreytni hefði þekkzt“. „Því fór nú betur, að það þekktist ekki“, flýtti hreppstjórinn sér að svara. „Þetta er siðspillandi skemmtun, sem hefur í för með sér drykkjuskap, lausung og allslags ábyrgðarleysi". „O, það var nú eitthvað annað en það væri bindindisöld hérna í dalnum á þeim árum“, maldaði Hjálmar gamli. „Þetta voru drykkjusvolar, sumir karlarnir, og það tíðkuðust líka framhjá- tektir, þótt verið væri að reyna að klóra yfir þær, og það hjá betri bændum“. Þá brosti yngra fólkið til Hjálmars, en Lísibet gegndi fram í samtalið. „Það er víst alveg rétt hjá þér, Hjálmar minn. Mannkynið hefur víst alltaf haft sömu tilhneigingar, á hvaða öld sem það hefur lifað“. Hreppstjórinn ræskti sig snögglega og breytti umtalsefninu, eins og vant var, þegar konu hans féll ekki rneira en svo það, sem rætt var um. Anna var háttuð, þegar Þóra kvaddi. Hún þakkaði henni fyrir komuna og spurði, hvort hún ætlaði ekki að koma fram eftir, þegar jarðað yrði. Hún bjóst frekar við því. Þóra kvaddi allt fólkið inni í baðstofunni og kokkhúsinu. Þegar hún kom fram í bæjardyrnar, greip hana sterk þrá eftir að sjá litla líkið, enn einu sinni. Það var óhætt, allir voru inni. Hún læddist inn í stofuna hljóðlaust, eins og þjófur, tók sveitadúkinn ofan af andlititiu. Henni fannst hún nyti þess betur að sjá hana núna, þegar hún var ein. Hárið var eins og rammi utan um vaxgult andlitið. Augna- lokin virtust næstum gegnsæ. Henni fannst hún sjá blá augun innan undir þeim. Nasirnar voru fallnar saman og varirnar blóð- lausar og þornaðar. „Elsku litla barn!“ sagði hún. „Því varst þú tekin burt frá auð og allsnægtum?“ Hún gaf tilfinningunum lausan tauminn. Nú sá hana enginn, þótt hún gréti. Tárin voru svalandi og sæl. Allt í einu heyrði hún einhverja hreyfingu nálægt sér. Hún var ekki ein lengur. Henni varð bilt við, þurrkaði af sér tárin og breiddi yfir líkið, en sneri sér ekki við. Hún vissi, hver var í stofunni, þótt hún sæi það ekki. Það var Jón. Hún þekkti andardráttinn. Kannske færi hann án þess að gera vart við sig. Það kaus hún helzt; en hann gerði það ekki. Hún beið dálitla stund. Þá var ekki um annað að gera en horfast í augu við hann, þótt það væri allt annað en skemmtilegt að láta hann sjá sig grátandi hér inni. Hún setti í sig kjark og sneri sér að honum. „Ég hélt, að ég mætti eiga þessa stund ein“, sagði hún gremjulega. „Það hefðir þú mátt mín vegna, en ég vissi ekki af þér hér. Sízt af öllu hefði ég trúað því, að þú ættir samúð með mér lengur“, sagði hann. „Manstu, hvernig við skildum hérna í stofunni síðast?“ „Víst man ég það“, svaraði hún stillileg. „En hvenær höfum við skilið öðruvísi, nú í seinni tíð, en þannig, að við höfum mátt skammast okkar fyrir framferði okkar. Þess vegna hefur sorgin verið okkur nauðsynleg“. „Konur eru óskiljanlegar. Þú sagðir þá —“. „Hvað sem ég sagði“, greip hún fram í fyrir honum, „þá er mér þá frjálst að elska börnin þín“. Hún bjóst til að ganga út, en hann rétti henni höndina, eins og síðast, og nú tók hún hlýlega í hönd hans. „Nú vona ég, að við verðum eins góðir vinir hér eftir og við vorum í æsku“, sagði hann og laut niður og kysti hana. „Vertu blessuð, vinkona. Þakka þér fyrir komuna“. Hún flýtti sér út. Henni fannst hún ætla að kafna, og kverkar hennar voru þurrar og sárar. Kvöldsvalinn vafði sig utan um hana, um leið og hún kom út á hlaðið, kældi kinnar hennar og hressti sál hennar, en minnti hana þá um leið á, að það væri orðið æði framorðið. Hún gekk hratt út túnið, ólíkt léttari í skapi en þegar hún kom. Þá var nú þessi kaldi veggur loksins horfinn, sem verið hafði á milli hennar og Nautaflata og valdið henni svo miklum óþægindum og gremju að öllu leyti. Það var litla, dána barnið, sem hafði komið henni til að leggja út í að reyna að bræða hann. En hart hafði það verið, að standa augliti til auglitis við Jón, kaldan og reiðan, og sjá hann loka stofunni, eins og hún væri þess ekki verðug að fá að sjá það, sem þar var inni. Þá hafði hún sýnt mesta stillingu á ævi sinni. Og nú var hún búin að þýða kuldann með tárunum, sem hún hafði grátið yfir litla, saklausa'engilbarninu hans. Utarlega á túninu mætti hún Siggu gömlu. „Ég gat ekki stillt mig um að vandra eitthvað út í þessu blessaða veðri“, sagði hún og blés mæðulega. „Heimilisfólkið er heldur dauflegt, sem von er til. Það var sorglegt, að þetta barn skyldi ekki fá að lifa; það var lifandi eftirmynd hennar Lísibetar. Hún hefur víst fæðzt veik. Hvernig á svo sem að fæðast hraust barn út af þessari aumingja manneskju?" „Ojá, það var sorglegt“, endurtók Þóra. „Það hafa líka verið dökkleitir bollar á Nautaflötum í sumar“, hélt sú gamla áfram. „Ætlarðu nú að fara að koma með einhvern spádóminn“, sagði Þóra og brosti ofurlítið, til að lífga gömlu konuna, sem var svo ofboðslega alvarleg á svipinn. „Það er ekki vitleysa, Þóra mín, þótt þú reynir að halda því fram. Ég var búin að sjá þetta fyrir löngu, að eitthvað kæmi hér fyrir sorglegt, og gott ef ekki er eitthvað eftir, þótt barnið sé borið til grafarinnar. Hvernig lízt þér annars á stöllu þína? Held- urðu ekki, eins og ég, að hún lognist út af á eftir barninu?“ Þóra horfði á hana stórum, undrandi augum. „Lognist út af á eftir barninu?“ tók hún upp eftir henni. „Hvernig getur þér dottið þetta í hug, manneskja?" „Sérðu ekki, hvernig, hún lítur út, þessi vesalingur, alltaf grátandi. Það væri áreiðanlega það mesta lán, sem fyrir heimilið gæti komið. Hann verður ekki lengi að verða uppgefinn á að stríða við hana. Ef hún móðir hans væri ekki, þá fengi hann betur að vita af því. Ef hún mætti ráða, yrði hann að sitja fyrir henni lon og don allan daginn. Þetta er nú líka óskaplegt, hvernig hann Jakob lætur með þessa manneskju. í fyrradag fór Jón ofan í kaupstað og kom heim „slompaður“. Það var nú meira, sem gekk á fyrir hús- bóndanum. Hann lagði blátt bann við, að hann léti hana sjá sig. Til allrar lukku var Þórður í Seli staddur hér og hafði hann með fram eftir. Þar svaf hann úr sér vímuna. En henni var sagt, að það hefði verið veikur hestur í Seli, sem Þórður hefði beðið hann að líta á, svo hún yrði ekki vitlaus. Hvernig heldurðu, að hann geti lifað við þetta og annað eins. Þú þekkir hann svo vel. Og svo sat faðir hans með hann frammi í stofu morguninn eftir, þennan litla tíma, að lesa yfir honum. Er nú þetta nokkur skynsemi að láta svona við aumingja piltinn, þótt hann bragðaði vín til að gleyma sorgum sínum. Því það get ég sagt þér, að ekki sá hann minna eftir barninu en hún, þótt hann hafi látið minna. Hver skyldi nú hafa trúað því, að þetta ætti fyrir honum að liggja, öðrum eins glaðværðar- og gæðapilti?“ „Það var einmitt þetta, sem margir bjuggust við, að þau myndu aldrei geta búið saman, eins ólík og þau eru“, svaraði Þóra. „Já, aldrei hefði ég getað ímyndað mér, að það færi svona hörmulega. Þetta er mæðukyn að þessari manneskju; hún hefði aldrei átt að koma hingað á þetta heimili“, rausaði Sigga gamla. Hún átti eftir svo margt ósagt, en Þóra mátti ekki vera að því að hlusta á meira. Hún kvaddi því og fór; alveg laus við að finna til öfundsýki, sem var þó vanalegt, þegar hún kom á þetta allsnægta heimili. Það voru ekki svoleiðis ástæður, að hún vildi skipta í þetta sinn. Svona var þá komið fyrir þessum hamingjusömu hjónum; þau voru óánægð hvort með annað, eftir því sem Sigga gamla sagði. Þó fann hún ekki til innilegrar samúðar með þeim. Kannske var þetta ýkjuraus úr kerlingunni. Hún hafði alltaf verið köld út í önnu. Ef hún yrði nú sannspá og Anna lognaðist út af á eftir barninu, þá breyttist margt. Líklega yrði Jón þá reiður himnaföðurnum. Eða gat það skeð, að hann yrði feginn að losna úr þessu hafti, sem Sigga gamla lét yfir, að hjónabandið væri honum? Nei, hann elskaði Önnu, á því var enginn efi, hvað sem kerlingin sagði. En að hugsa sér hann ekkjumann, áður en hann yrði hálf þrítugur. Skyldu þær fara að líta í kringum sig í annað sinn, heimasæturnar í dalnum? Og Lilja frá Seli ógift í Ameríku. Líklega kæmi hún heim aftur, ef hún frétti það, að hann væri orðinn frjáls, uppstrokin og óþekkjanleg, með háan fjaðrahatt. En hún sjálf? Hún herti gönguna. Hvað var hún svo sem að hugsa uA þetta hjátrúarraus úr kerlingunni. Það var víst nær að hafa sig heim og reyna að sætta sig við það, sem forlögin höfðu út- hlutað henni. ÞÓRA BUGAST Jói rölti þreytulega upp túnið til að ná í ærnar. Þær voru mjólkaðar ennþá, en Magga var að láta kýrnar inn, þegar Þóra kom heim. Hún gekk beina leið í bæinn. Líklega yrði nú fýla í Sigurði yfir því, að hún fór þetta. Það yrði þá að hafa það. Hann lá uppi í rúmi og var að rýna í eitthvert dagblað, sem komið hafði utan um eitthvað og leit ekki við, þegar hún kom inn. Björn litli hafði verið skilinn eftir á gólfinu við ýmislegt leikfangadrasl, en hafði flutt sig á fjórum fótum fram að eldavélinni og náð í öskuskúffuna, og sat yfir henni, útataður um andlit og hendur. Þóra hafði ætlað að heilsa manni sínum með kossi, en hætti alger- lega við það, þegar hún sá hvernig drengurinn leit út. „Hvað er að sjá barnið? Því læturðu hann líta svona út, maður?“ spurði hún alveg forviða. „Hvað er að honum?“ spurði hann án þess að líta upp, en málrómurinn gaf til kynna, að hann væri reiður. „Hvað er að honum? Þú þykist vera orðinn svona mikill bóka- maður allt í einu, að þú takir ekki eftir því, að hann situr með öskuskúffuna, og þú lætur hann éta öskuna og útverka sig svona fyrir augunum á þér“. „Er hann svona svangur, að hann þurfi að éta ösku? Þér hefði verið nær að vera heima og hugsa um, að hann fengi eitthvað annað ofan í sig, heldur en að vera að slarka á bæi“. Hann ætlaði henni að rjúka upp og ætlaði sér að taka mannlega á móti. En hún var ekki í því skapi núna, nýlega búin að sjá sorgina í sinni átakanlegustu mynd. Hún tók drenginn upp, en þá kom nýtt leik- fang í ljós upp úr öskuhrúgunni. Það var ein myndin af kommóð- unni. „Hver lánar barninu þetta? Ekki hefur hann náð því sjálfur“, spurði hún og tók myndina upp. Það var myndin af Jóni. „Fékkst þú honum þetta leikfang?" sagði hún, í svo breyttum málrómi, að hann þekkti hann varla. Hann glotti, þótt andlit hans væri rautt af reiði. „Hann þurfti að hafa eitthvað til að leika sér að“, sagði hann hás. „Er ekki farið að falla á snjáldrið á dýrlingnum þínum?“ bætti hann við, og bjóst við að þetta hrifi. En Þóra hafði lært mikið þennan dag og tók að fægja glerið á myndinni. Lagði hana svo hjá sér á rúmið og fór að tína fötin utan af syni sínum. Svo sagði hún: „1 mínum augum fellur aldrei blettur á hann“. Þá þoldi Sigurður ekki meira. Hann stóð upp með kreppta hnefana og gekk fast að konu sinni. Glottið var algerlega horfið. „Ég veit, að þú dáist að honum, þessu svíni, þótt hann svívirði þig í orðum. Manstu, hvað hann sagði við þig í lambarekstrinum forðum, hérna frammi hjá stekknum? Ég hef ekki gleymt því“, hreytti hann til hennar. „Ég man það líka“, svaraði hún. „En hann særði mig sízt meira en þú gerir nú. Það er víst siður ykkar karlmannanna, að klappa með annarri hendinni en klóra með hinni. Sú kona hlýtur að vera sæl, sem getur lifað án þess að hafa kynnzt ykkur. En Jón er maður, sem hægt er að fyrirgefa. Svo skaltu reyna að koma því í verk að berja mig, fyrst þig langar svona mikið til þess, eða hafa þig eitthvað í burtu, svo ég geti náð í vatn til að þvo barninu“. Hann sneri sér frá henni og gekk fram úr baðstofunni, en stanzaði fyrir framan hurðina og reyndi að jafna sig eftir ofsann. Hann heyrði, að hún fór að þvo drengnum, sem volaði yfir því að vatnið var kalt. „Elsku drengurinn minn“, heyrði hann hana segja, „ósköp yrðirðu munaðarlaus, ef mamma færi frá þér“. Og hann heyrði meira — þungan grátekka. Svo ómannlega hafði honum farizt, að þessi kjarkmikla kona grét undan hrottaskap hans. Honum fór líkt og valnum, hann iðrast þegar hjartanu blæðir. Nú sá hann eftir öllu saman. Þetta hafði verið kjánalegt af honum, en það var þessi logandi afbrýði, sem kom honum til að haga sér þannig; hugsunin um að hann væri sífellt borinn saman við annan mann, sem væri fyrir honum í öllu. Honum datt í hug að snúa við og reyna að blíðka hana, en hvarf frá því jafnskjótt aftur. Hann var víst ekki sá maður, sem hægt væri að fyrirgefa. Nú fór í hönd eitt þetta óskemmtilega tímabil, þögn og afskorin svör dag eftir dag. Sigurði gat ekki dottið neitt í hug, sem væri til bóta, 3/ínað en reyna að vera góður við Björn litla. En hún lét, sem hún sæi það ekki, enda vissi hún, að það var ekkert annað en sáttatilraun. Hann yrði jafn afskiptalaus og áður, þegar hún yrði eins og hún var vön í sambúðinni við hann. Það hefur alltaf þótt sjálfsagt, að hver manneskja, sem gæti, riði í réttirnar. Þóra hafði líka ætíð gert það, nema síðasta haust. Nú spurði Sigurður hana að því brosandi, hvort hún ætlaði ekki að liðka Mósa með því að ríða í réttirnar. „Ég sé lömbin, þegar þau koma heim“, var hennar stutta svar. Og hún sat heima og saumaði bláar hálfklæðisbuxur handa Birni litla og festi gyllta hnappa utan í skálmarnar. Röndótt peysa var niðri í kommóðuskúffu. Hann varð að vera eins klæddur og fallega engilbarnið, Jakob litli. Daginn, sem litla stúlkan var jarðsungin, fór Þóra fram eftir án þess að kveðja mann sinn. Hún ætlaði með því að sýna honum, að hún færi sínu fram, hvað sem hann segði. En hann sagði ekkert. Daginn eftir voru seinni göngurnar. Þá fékk Björn að fara í buxurnar og peysuna. Hann var farinn að standa með fram stokkunum. Sigurður gaf fötunum hálfgert hornauga og spurði Möggu, hvort honum hefði verið gefin þessi föt.

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.