Lögberg - 04.03.1954, Síða 6

Lögberg - 04.03.1954, Síða 6
 ---v GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DA LALÍF S- ---------------r „Hallgrímur!“ sagði Sigga, aldeilis orðlaus af undrun. „Hvað ertu að fara með?“ „O, sona, sona! Það leynir sér ekki ættarmótið. Ég þekkti hana strax. Hún var þarna í kotinu hjá Felli, þegar ég var þar, svolítil telputryppa. Ég stríddi henni með því að kalla hana Helgu prests- dóttur og spyrja hana eftir, hvort hún ætlaði að finna pabba sinn. Hún var svo reið við mig stundum, að það var hlægilegt að sjá hana. Ég veit bara hreint ekkert, hvaðan hún hefur þennan dómarasvip, sem hún beitir allt of mikið. Að öðru leyti er hún víst mesta myndar manneskja“. „Já, það er hún, og ég vona, að hún verði hér áfram, að minnsta kosti meðan ég lifi. Lengra er óþarfi að hugsa“. „Þá er nú þetta loksins búið“, sagði Borghildur, þegar búið var að koma öllu leirtauinu þangað, sem það átti að vera. „Nú þarf að fara að koma gestunum í rúmið. Tommi verður að mjólka í þetta sinn, svo að við getum byrjað að búa um rúmin. Fólkið er þreytt eftir ferðalagið“. „Þú verður að ráða, hvernig það sefur“, sagði Anna. „Það er sjálfsagt-, að Fellshjónin sofi inni í húsinu og dreng- irnir þeirra“. „Já“, greip Anna fram í, „hjónin geta sofið í rúminu okkar. Ég sef hjá þér með Jakobi. Það verður þröngt, en við verðum að þola það. Bræðurnir frá Felli geta sofið í rúminu hans pabba sáluga, en hann þarna séra Hallgrímur í hinu rúminu. Er þetta ekki gott. Hinir sofa frammi í gestaherberginu“. Borghildur hló. „Og nú ertu sjálf búin að ráða fram úr þessu, alveg eins og hver önnur húsmóðir á að gera. En mér finnst bara ómögulegt að Hallgrímur sofi inni. Það getur enginn sofnað fyrir málæðinu úr honum“. „Þér finnst hann víst ekkert skemmtilegur, Borghildur mín?“ sagði Anna. „Nei, það er nú öðru nær, en það finnst víst flestum öðrum hann vera það“. Svo var farið að búa um í hjónahúsinu. Gestirnir færðu sig fram í baðstofuna á meðan, svo þeir yrðu ekki fyrir. Hallgrímur varð eftir og ræddi við Jón, sem sat með Jakob litla í fanginu. Drengurinn horfði á það ánægjulegur á svip, þegar Borghildur var að búa um rúmið, sem Lísibet hafði sofið í, en hafði verið óhreyft síðan hún var flutt burtu. „Babbo go Bag-ga búa um góu mömmu, góa mamma, mamma goma addur. Jagob sofa í essu rúmi“, sagði hann og brauzt ofan úr fangi föður síns, og hljóp að rúminu, stakk kollinum ofan í sængina og aflagaði allan þennan snyrtilega umbúnað, sem Borghildur hafði vandað svo mjög. „Ó, hamingjan hjálpi mér, að ég skyldi ekki vera búin að svæfa Jakob“, sagði Anna mæðulega. „Nú heldur hann að mamma ætli að sofa þarna í nótt, af því að búið var um rúmið“. Hún staklc höfðinu undir gluggatjaldið til að hylja tárin, sem þrengdu sér fram í augun. Jón tók drenginn og gældi við hann. „Jakob sofa hjá mömmu í nótt og vera ósköp góður“. „Nei, Jakob sofa jedda já góu mömmu“, sagði barnið og vildi ekki yfirgefa rúmið, en grúfði andlitið ofan í sængina. „Hann gleymir henni aldrei“, kjökraði Anna út við gluggann. „Það á hann heldur ekki að gera“, sagði séra Hallgrímur. „Enginn getur gleymt annarri eins konu. Þið skuluð iðulega segja honum af henni, svo hann muni eftir henni“. Hann lagði höndina á öxl Önnu og hélt áfram: „Á ég að segja þér sögu, góða barn? Ég leyfi mér að kalla þig svo, vegna þess að þú ert líklega næstum því fjörutíu árum yngri en ég. Ég var ekki nema 16 ára, þegar móðir mín dó. Hún var falleg og elskuleg kona, systir séra Helga í Felli. Við vorum því systkinabörn, ég og Lísibet fóstra þín. Ég grét og barmaði mér, eins og lóa yfir helunguðu hreiðri, og fannst Drottinn vera harður og óréttlátur að taka hana burtu úr heimin- um, svona unga og fallega, fulla af áhuga fyrir lífinu, einkanlega minni framtíð, sem var eina barnið hennar. Nokkrum árum síðar lofaði ég þann sama Drottinn fyrir að hann lét hana deyja einmitt þá, áður en þessar miskunnarlausu klær ellinnar náðu að kremja líkama hennar og sál. Trúirðu þessu, Anna Friðriksdóttir, sem búin ert að sjá á bak tvennum foreldrum — rúmlega tvítug?“ „Nei“, kjökraði Anna. Hún stóð út við gluggann ennþá, og barðist við grátinn, „nei, ég skil þig ekki. Hvernig á nokkur maður að lofa Drottinn fyrir það, að móðir hans er dáin?“ „Þá skaltu heyra sögu mína. Móðir mín átti fóstursystir, sem Elín hét. Hún sagði mér margar sögur af henni og sér, þegar þær vöktu yfir túninu og stálu hestum nágrannanna, í stað þess að reka þá til baka, og þeystu á þeim sér til skemmtunar hálfu næturnar. Þá voru nokkrir réttatúrar, lambarekstrar og grasa- ferðir. Þetta voru nú aðalskemmtanir unga fólksins í þá daga, og hún átti mynd af henni, sérlega lagleg kona, leit hún út fyrir að vera. Þá var hún gift í Reykjavík. Og mamma sagði við mig stundum: „Ef þú kemur nokkurn tíma til Reykjavíkur, þá skaltu heimsækja þessa konu. Hún hefur skrifað mér, að sig langi mikið til að sjá þig“. Svo liðu árin. Ég kom til Reykjavíkur ókunnugur öllum, og þá finnst manni dýrmætt að geta eignazt einn kunningja, þótt ekki sé meira. Ég fór að reyna að grafast eftir, hvar þessi kona byggi. Einn bekkjarbróðir minn gat gefið mér dálitlar upplýsingar. Hún var orðin ekkja og var hjá dóttur sinni, sem var gift kaup- manni. Hann gat þess líka, að Elín ætti aðra dóttur ógifta, gull- fallega stúlku. Ekki var það nú lakara, að heyra það. Og svo fór ég á annan jóladag til þeirra. Þeim degi gleymi ég aldrei. Frúin var fjarska kumpánleg og sagðist kannast vel við móður mína. „Mamma hefur sagt mér svo oft frá henni. Þær voru víst fjarska samrýmdar“, sagði hún og fór svo að tala um allt annað. Loks spurði ég eftir, hvort móðir hennar væri ekki svo frísk, að ég gæti fengið að heilsa henni. Jú, það var hún nú, sagði hún, en samt var eins og hún hikaði við að fara með mig inn til hennar. Samt gerði hún það, fór með mig inn í lítið herbergi, þar sem gamla konan sat og prjónaði. En það var ómögulegt að hugsa, að þetta væri sama konan og ég hafði horft á dagsdaglega á þilinu yfir rúminu hennar mömmu sálugu. Þetta var ekki annað en sálarlaus líkami. Talað gat hún að vísu, en minnið var algerlega tapað. Ég reyndi að LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 4. MARZ 1954 að láta hana muna eftir móður minni, en það var algerlega ómögulegt. Hún sagðist aldrei hafa þekkt konu, sem hefði heitið Aðalheiður. En náttúrlega gat ég ekkert talað við hana, eins og þið skiljið. Dóttir hennar sagði, að hún hefði fengið slag — síðan sæti hún svona, prjónaði alltaf sama sokkinn, sem væri rakinn upp jafnóðum, og henni fenginn hann aftur. Ég man lítið eftir, hvernig yngri dóttirin leit út, hvort hún var falleg eða ekki, svo eyðilagður var ég yfir því, að þetta skyldi vera fallega, glaðlynda stúlkan, sem ég kunni svo margar skemmtilegar sögur af. Ég man það bara, að þegar ég kom heim í herbergið mitt, þá lofaði ég Guð af heilum hug fyrir, að ég átti endurminninguna um móður mína fagra og heilbrigða, nema aðeins nokkra síðustu ævidagana. Skiljið þið mig, börnin góð Hafið þið ekki séð hvernig ellin leikur mennina?“ Fullorðnu munaðarleysingjarnir störðu á þennan ljós- geisla, sem þeim var allt í einu bent á. „Jú, ég skil þig“, sagði Jón. En Anna sagði, vantrúuð: „Svona hefði mamma aldrei orðið. Hún var svo gáfuð kona. Svona verða engir hérna í dalnum“. En presturinn hristi höfuðið. „Enginn getur vitað ævina, fyrr en hún er öll, góða mín. En það hefði verið átakanlegt að sjá Lísibetu þurfa að beygja sig fyrir ellinni. Látið því huggast og geymið þessa fallegu konumynd í hjarta ykkar. En gleymið ekki að tala oft um hana við drenginn, svo hann muni alltaf eftir henni“. Enginn hafði tekið eftir Jakobi meðan presturinn talaði. Hann hafði náð sér í lítinn skemil og stóð á honum við rúmstokkinn og grúfði sig sofandi ofan í sængina. „Nei, sko, hvar barnið stendur sofandi“, sagði Anna, þegar hún sneri sér frá glugganum. „Við höfum alveg gleymt honum“. „Lofið honum að sofa þarna, annars fer hann að gráta“, lagði séra Hallgrímur til. „Ég vona, að þú lofir mér að sofa hjá honum. Það er langt síðan ég hef sofið hjá barni, litlu, saklausu barni“. KVEÐJUORÐ TIL ÞEIRRAR DÁNU Stúlkurnar risu snemma úr rekkjum morguninn eftir því margt þurfti að gera. Fyrst og fremst'að leggja í ofnana, því nú var skipt um veður, kominn froststormur með hríðaréljum. Anna húsfreyja hafði sofið illa, hugur hennar var alltaf hjá Jakobi litla, hvort honum myndi líða vel þarna hjá bráðókunnugum mannin- um, en hún hafði ekki kunnað við annað en gera eins og hann hafði óskað. Það var undarlegt, að maðurinn skyldi fara fram á það að sofa hjá barninu. Ef hann legðist nú ofan á barnið og kæfði það. Slíkt hafði svo sem komið fyrir, hafði hún heyrt fólk segja. Þessi hugsun gaf henni engan frið. Borghildur steinsvaf svefni hinna þreyttu og hreyfðist ekki. Hún hafði alltaf kerti og eldspýtur uppi á hillunni fyrir ofan rúmið. Anna seildist í það og kveikti. Hún þoldi ekki þessa óvissu lengur. Svo smeygði hún sér fram úr rúminu og gekk hljóðlaust á berum fótum gegnum sof- andi baðstofuna. Móðurástin hefur oft lagt meira á sig en það. Húshurðin gaf ekki frá sér minnsta hljóð og hún tiplaði inn að rúmstokknum, þar sem barnið hennar steinsvaf, með hálf opinn munninn og teygði frá sér handleggina. Guði sé lof! andvarpaði hún í huganum og sneri við og fyrirvarð sig fyrir óstillinguna. Ef eitthvað af gestunum hefði vaknað og séð hana á náttkjólnum. Það hefði verið óviðkunnanlegt. En þeir voru allir of þreyttir til þess að vakna við fótatak veiklaðrar móður. Eftir þetta gat hún farið að sofa. Nú var kominn bjartur dagur og morgunkaffið tilbúið. Hún ætlaði sjálf að færa gestunum það í rúmið. Það hafði fóstra hennar alltaf gert. Hún gat um leið séð hvernig drengnum liði. Hún setti bakkann á borð við rúmstokkinn hjá séra Hallgrími og bauð góðan daginn, og spurði hvernig hann hefði sofið. „Ágætlega! Hvernig á maður annað en sofa vel hjá svona saklausum og elskulegum rekkjunaut", svaraði hann. „Þú mátt trúa því, að það hefur farið vel um okkur báða þessa nótt“. Henni fannst hann einkennilega þreytulegur, til þess að hafa sofið vel. Gráíróttur, langur, hárlokkur hékk ofan með vinstri vanganum, og hvítur skalli kom í ljós upp úr úfnu hárinu. Eftir þessu hafði hún ekki tekið daginn áður. Augnaráðið var einkenni- lega dauflegt og svipurinn eitthvað raunalegur. Ósköp er maðurinn undarlegur, hugsaði Anna, og færði sig frá rúminu. Það var eitt- hvað ógeðfellt við hann. Líklega þessi andstyggilegi skalli. Henni hafði fundist hann svo myndarlegur í gær. Hann horfði á kaffið, en gerði sig ekki líklegan að drekka það. „ Þú ert kannske óvanur að drekka kaffi á morgnana?“ spurði Anna. „Nei, nei, góða mín. Ég drekk alltaf kaffi á morgnana", svaraði hann, en snerti þó ekki bollann. „Er Jón kominn á fætur?“ spurði hann svo. „Já, hann er kominn á fætur fyrir löngu“. „Já, náttúrlega árrisull eins og ættin. Nærri má geta“, tautaði hann og fór að tína sykurmola ofan í bollann, ákaflega letilega. Þá kom Jón inn og bauð gestum sínum góðan daginn. „Nú er komin frosthríð, hreint ekki skemmtilegt ferðalag fyrir þá, sem þurfa yfir fjöll að fara“, sagði hann. „Ja, hvað annað“, gegndi séra Hallgrímur. „Það eru nú kannske ekki alltaf blíður og stillur í lífinu“. Anna sá hann gefa Jóni bendingu, með augunum, að finna sig. Hún fór fram í kokkhúsið. Það var svo sem auðséð, að hann kæmi aldrei í sig kaffinu; bollinn var ósnertur ennþá. Jón kom fram rétt á eftir henni ðg fór fram í stofu; kom inn aftur með vatnsglas í hendinni, fullt af víni. „Hvað er þetta, maður?“ spurði hún. „Geturðu ekki látið gestina komast á fætur, áður en þú ferð að færa þeim vín? Ég man nú ekki eftir, að ég hafi séð vínflösku borna með morgun- kaffinu hérna fyrri“. Hún horfði með fyrirlitningu á glasið í hendi hans. „Séra Hallgrímur á svo bágt með að drekka morgunkaffið, ef hann hefur ekki bragð út í það“, sagði hann brosandi. „Vertu nú ekki sfona móðguð“. Anna hristi höfuðið alveg hissa. „Ekki er nú lítil löngunin í þennan óþverra. Yfir því hefur hann verið að híma“. „Það má nú með sanni segja, að þessir menn eru réttnefndir nautnaþrælar“, sagði Borghiídur æði fastmælt. Anna stundi mæðulega: „Og Jakob sefur hjá þessum manni“. „Þér dettur þó ekki í hug, að hann fari að hella ofan í hann einhverju úr glasinu?“ sagði Anna Pétursdóttir. Hún sat við borðið og sötraði morgunkaffið sitt ánægjuleg á svip. „Vertu óhrædd, honum veitir ekki af því sjálfum“, bætti hún við hlæjandi. „Ó, ég held það geti skeð, að þessir drykkjumenn smiti þá, sem þeir sofa hjá“, sagði Anna húsfreyja. „Þú mátt búast við, að þig fari að langa í dropann bráðum“, svaraði nafna hennar, og hló ertnislega framan í hana. Þegar gestirnir voru komnir á fætur, gengu þeir út að gá að ferðaveðrinu. Svo komu þeir inn aftur, kuldalegir í framan, dust- uðu snjóinn fínlega af fótum sér og töluðu um, að hann væri ansi svalur, og flýttu sér svo í ofnhitann aftur. Önnu fannst séra Hallgrímur vera breyttur, þegar hann kom fram í kokkhúsið. Þreytusvipurinn var algerlega horfinn og augun voru fjörleg, glampandi af káíínu. Langi hárlokkurinn var greiddur snyrtilega aftur höfuðið, svo hvíti skallinn, sem hafði hneykslað hana svo mjög, sást hvergi. Hann skrafaði góða stund við stúlkurnar, áður en hann fór að líta til veðurs. „Hvernig lízt þér á, Sigga mín?“ sagði Anna Pétursdóttir. „Gamli kærastinn þinn hleypur berskallaður ofan í kirkjugarð. Heldurðu hann fái ekki heilaköldu?“ „Kærastinn?" tók Sigga upp éftir henni. „Hver segir, að hann hafi verið kærastinn minn? Þið, þessar ungu stelpur, haldið að allir hafi verið trúlofaðir, sem einhverntíma hafa þekkzt, af því að þið eruð vitlausar í að trúlofast". „Já, auðvitað. Það hefur þú nú líka verið, þegar þú varst ung, þótt þig langi kannske ekki mikið til þess núna. Að minnsta kosti hefurðu yerið vitlaus í honum þessum, og sofið hjá honum marga nóttina“. Þá var Siggu nóg boðið, ef svona ætti að kasta skugga á hreinleik hennar. „Þú mátt skammast þín fyrir munninn á þér, eins og fyrr, ef þú hefðir nokkra sómatilfinningu“, sagði hún skjálfrödduð af reiði. „O, taktu þetta ekki svona nærri þér, Sigga mín“, sagði Anna með ertnisglotti, sem Sigga þoldi ekki. Borghildur sá þann kostinn vænstan að reyna að stilla til friðar. „Hættu þessu rugli, Anna“, sagði hún alvarlega. „Sigga hefur nú líklega verið of varkár til þess að fara að sofa hjá öðrum eins „flosa“ og honum Hallgrími. Farðu svo inn og gættu að ofninum“. Hún ýtti Önnu inn í baðstofuna, til að binda enda á þessa deilu. En Sigga gamla rölti inn á rúmið sitt og settist þar allt annað en ánægjuleg á svipinn. Henni fannst að Borghildur hefði getað lagt sér liðsyrði, án þess að kasta þessari hnútu til prestsins. En hún var nú alltaf eins í garð þeirra, sem lausir þóttu á kostunum, konan sú. En niðri í kirkjugarðinum stóð séra Hallgrímur berhöfðaður í kuldastorminum við stóra leiðið, sem í gær var nýtt. Nú var það næturgamalt, með þykku, hvítu mjallarlagi, sem stormurinn skóf lausamjöllina saman við. í gær hafði hann langað til að tala fáein orð yfir kistu frændsystur sinnar, en ekki verið nógu vel „fyrir kallaður“. Nú hafði innihald flöskunnar hresst hann svo, að hann ætlaði að tala það, sem honum bjó í brjósti, þótt enginn heyrði til. Það var það bezta. Hann ætlaði að tala við hana og engan annan. Hvað svo sem varðaði heiminn um þetta eintal. Það kom honum ekki við, síðasta kveðjan til æskuvinkonunnar. Kannske gat þessi helkaldi vindur borið hana inn á land eilífðarinnar. „Enginn veit, hvaðan hann kemur eða hvert hann fer“. Presturinn sneri sér undan veðrinu og fór að tala: v „Lísibet! Ertu búin að lesa þessa ómerkilegu kveðju frá mér? Já, ég veit, að þú ert búin að því. Það er ekki dimmt hjá þér, þarna niðri. Aldrei verður dimmt eða kalt í kringum þig, ekki heldur í heimkynnum dauðans. Lísibet! Þú bannaðir mér að skrifa þér. Þess vegna hef ég aldrei getað látið þig heyra neitt um mínar til- finningar, fyrr en nú, þegar þú heyrir ekki lengur til mín. En ég get ekki hugsað mér annað en þú heyrir. Þú hlýtur að vera nálæg þessu heimili. Ég hef þráð þig alla ævina, í vöku og svefni. Ef ég ætti eina ósk, þá skyldi ég óska þess að mega sofa hjá þér þarna niðri. Það væri betra hlutskipti en eiga fyrir höndum langt ferða- lag í kuldastormi, og næðir inn að hjarta, og svo viðtökurnar á 1 manns eigin heimili. „Þú ert eins og flækingur, Hallgrímur, flækist um hálft landið, eins og þú eigir ekkert heimili. Ert fullur og hugsar ekkert um, hvernig búskapurinn gengur hérna heima. Og svo þessi sífelldu messuföll. Þeir fara að afsegja þig sem prest, og á hverju ætlarðu þá að lifa?“ Hann er svona, pistillinn hjá frúnni — þetta eru viðtökurnar, þegar ég loksins er kominn heim. Og svo hefur hún komið því inn hjá drengnum að lítilsvirða mig líka. Getur þú skilið þetta, góða skyldurækna kona? Það þarf ekki annað en sjá heimilið þitt, til að sannfærast um mannkosti þína, enda voru þeir mér kunnir áður — þó að leiðirnar yrðu að skilja. Einhvern veginn hefðir þú getað lifað með mér í fátæktinni. Vertu sæl, Lísibet! Heldurðu þú verðir ekki frjáls að því að koma á móti mér, þegar þessari köldu vegferð er lokið?“ Hann signdi sig yfir leiðið með skjálfandi höndinni. Kuldinn vax óþolandi bitur. Það lá nærri, að hann væri farinn að skjálfa. Hárlokkurinn feyktist aftur og fram um kulsæla blettinn, sem honum var ætlað að hylja. En samt flýtti hann sér ekkert burtu, heldur fór að lesa grafskriftina á ryðgaða járnkrossinum yfir tengdaforeldrum Lísibetar — stautaði eins og illa læs krakki: „Jón Jakobsson. Ingibjörg Sigurðardóttir“. „Ójá, þetta geta þeir ríku látið kaupa yfir sig“, sagði hann gremjulega. „Þetta er keypt fyrir Nautaflata-auðinn, hann er ekki svo lítill. Einu sinni sagði ég við séra Helga: Ef þú hefðir ekki látið Nautaflata-auðinn blinda þig, þá hefði Lísibet orðið konan mín, og við hefðum bæði verið ánægð. Það var hann, sem skildi okkur. — „O, það var þitt eigið gæfuleysi, en ekki hann, sem var orsökin. Hún hefði aldrei orðið ánægð hjá þér“, sagði hann, sá góði maður. „En þar hafði hann ekki á réttu að standa. Það var auðurinn og ekkert annað“. Hann greip í grindurnar og reyndi að hrista þær í gremju sinni. En þær voru helkaldar og óbifanlegar. Þá þrammaði hann álútur og skjálfandi- heim til bæjar. „En sá blessaður ylur, sem hér er“, sagði hann, þegar hann kom inn í kokkhúsið. „Ósköp hlýtur þér að vera kalt, séra Hallgrímur, að vera úti svona fáklæddur“, sagði Anna húsfreyja og horfði á hann með samúð. „Já, ég er alveg að sálast“, svaraði hann. „Ég hef staðið niðri í garði og suðað eins og fluga, þangað til ég þoldi ekki lengur við. Annars hefði ég sagt meira“. „Má ekki bjóða prestinum kaffi?“ spurði Borghildur og benti með augunum á fyrirferðarmikla kaffikönnu á sjóðheitri elda- vélinni. „Jú, takk, það væri fínt, hérna við borðið". Hann settist við borðið. Anna sótti bollapör og sykur, hellti kaffinu í bollann. „Þið farið ekkert í dag. Þetta er vonzkuveður“, sagði hún. „Ekki er nú ráðlegt að bíða eftir fannkomu, fyrir þá, sem eiga jafn langt heim og ég á. Það eru nú bráðum fimm vikur síðan ég fór að heiman, svo það fer nú líklega að verða mál að hugsa til heimferðar“, sagði presturinn. „Herra trúr! Ósköp hlýtur konunni þinni að vera farið að lengja eftir þér. Fimm vikur! Skárri er það tíminn“, sagði Anna. Prestur yppti öxlum og glotti háðslega. „Já, ég býst við því> að henni finnist ég vera búinn að vera nokkuð lengi í burtu. Hún verður áreiðanlega búin að taka saman nokkra fyrirlestra handa mér, allan þennan tíma“, sagði hann.

x

Lögberg

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.