Lögberg - 18.03.1954, Side 6
6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 18. MARZ 1954
Hann rétti henni hjartað. „Geymdu þetta handa litlu dóttur-
inni, góða“.
„Ætlarðu ekki að taka myndina?“
„Nei, hann hefur sjálfsagt ekki ætlazt til þess“.
„Og ég gleymdi bara alveg að þakka honum fyrir þessa gjöf,
en það var vegna þess, að hann bara tekur svona utan um höfuðið
á mér og kyssir mig tvo kossa; hugsaðu þér, tvo kossa. Ég varð
svo hissa, að ég gat bara ekkert sagt eða hugsað, fyrr en hann
var farinn“.
„Nú, ekkert annað“, sagði hann glettinn. „Svo það er eftir allt
saman ég, sem hef ástæðu til að vera afbrýðisamur. Hér stendur
þú eða situr í faðmlögum við bláókunnugan mann inni í hlýjunni,
meðan ég bíð úti í kuldan, eftir því að hann sé ferðbúinn, og svo
gefur hann þér gulhjarta fyrir. Ég hef nú sjaldan heyrt hlægi-
legra“. Og hann brosti, og brosið breyttist í hlátur. Það var svo
langt síðan hann hafði hlegið, að henni þótti svo vænt um það,
jafnvel þótt hún vissi, að það væri víninu að þakka, að hún hljóp
brosandi í faðm hans og sagði:
„Hlæðu meira, mér finnst það svo indælt, þótt það sé kannske
syndsamlegt að hlæja hérna í þessum herbergjum, sem dauðinn
hefur gist undanfarna mánuði.'En ég gat ekkert gert að því, þótt
presturinn kyssti mig. Hvernig gat mér dottið það í hug, og það
var bæði tób'akslykt og vínlykt af honum. Svei, viðbjóðslegt“.
„Þú kysstir hann samt, góða mín, og þess vegna finnst mér það
hálf ómyndarlegt að taka myndina af honum úr hjartanu, þar sem
hún er búin að vera þar í mörg ár, undir eins og hann er búinn
að gefa þér hana“.
„Ég ætlá þá að lofa henni að. vera kyrri“, sagði hún og horfði
ánægjulega á gullhjartað.
„Heldurðu, að við eignumst aðra stúlku?“ sagði hún hálf-
fimnislega.
„Ekki efast ég um það. Við erum ekki búin að vera nema
þrjú ár í hjónabandi, og höfum þó eignazt tvö börn. Því skyldum
við þá ekki eignazt fleiri á svo og svo mörgum árum?“
„En Finni segir, að hér hafi aldrei lifað nema einn sonur,
svo lengi, sem menn muna“.
„Það var bara hjátrú. Ekkert annað en hjátrú“, sagði hann.
„Þú kallar allt hjátrú. Manstu eftir útburðarvælinu og öllu,
sem Sigga sá í bollunum í sumar og haust?“
„Hún hefur ekert séð, góða mín“, sagði hann, og horfði á,
hvernig hún bjó um gulldjásnið í öskjunum.
„Hvað skyldi hann vera búinn að geyma þetta lengi, aumingja
gamli maðurinn? Hann lifir víst í slæmu hjónabandi“, sagði hún
og andvarpaði af samúð með honum og öllum, sem ekki voru eins
ánægðir og hún í hjónabandinu. „Mig langar svo mikið til að
heyra eitthvað um hann. — Skyldi ekki Borghildur geta sagt
okkur af honum. Reyndar virtist mér hún ekkert hrifin af honum“.
„Borghildur er hrifin af fáum karlmönnum“, sagði hann.
„Nema þér sjálfum“, bætti hún við hlægjandi, og smeygði sér
úr faðmi hans, opnaði kommóðuskúffuna og dundaði lengi við
að koma litlu öskjunum fyrir. Hann horfði á hana með aðdáun.
En hvað allt var snyrtilega og vel fyrir komið í skúffunni.
Loksins var hún búin. „Nú skulum við koma fram og tala við
Borghildi", sagði hún. „Ég er svo forvitin".
BORGHILDUR SEGIR SÖGU
Borghildur sat á stólnum við eldavélina með Jakob litla í
fanginu. Hinar stúlkurnar voru í óða önn að koma öllu í lag í
stofunni og skálanum. Hún raulaði gamla þulu við hálfsofandi
barnið: „Hann rær og hann slær. Hann rekur fé. Upp í dal og ofan
á Sel, alla daga fer hann vel, hann gerir gagnið, hann er bezta
barnið“.
„Ann er bedda baddið“, endurtók drengurinn með lokuð
augun.
„Blessaður vinurinn, hann er farinn að læra þuluna. Bara að
hann gæti talað svolítið skýrar“, sagði Borghildur.
„Finnst þér hann ekki tala ósköp seint?“ spurði Anna.
Reyndar var hún nú búin að bera þessa spurningu upp ótal sinnum
þennan vetur, fyrir Borghildi, og svarið var alltaf það sama:
„Það er fjarska misjafnt, hvað börn tala snemma“.
„Sigga segist aldrei hafa vitað barn tala svona seint“, sagði
Anna hálfkvíðandi.
„Hvað skyldi hún vita um það? Ekki átti hún svo mörg
börnin sjálf“, sagði Borghildur og hélt áfram að raula við barnið.
Jón settist á stól við innri endann á borðinu. Anna settist á knéð
á honum. Það var indælt sæti.
„Þekkir þú ekki séra Hallgrím, Borga mín?“ spurði Jón, og
notaði nú gælunafnið, sem hann hafði sjálfur gefið henni, þegar
hann réri á kné henni, álíka stór og sonur hans var núna.
„Nei, ég hef ekki séð hann, síðan ég var krakki heima í Koti,
þá var hann að læra undir skóla í Felli hjá afa þínum“, svaraði
hún og hélt svo áfram við þuluna.
„En hefurðu ekki heyrt eitthvað um hann talað?“
„Það vantaði víst ekki, að það væri talað um hann, manninn
þann, seint og snemma“, sagði hún hálf þurrlega.
„Segðu okkur allt, sem þú veizt um hann“, sagði Anna. )rÉg
er svo fjarska forvitin“.
„Er það af því, að þér þótti hann svo skemmtilegur, fyrir utan
skallann?“ sagði Borghildur glottandi.
„Það er af því, að hann kyssti hana“, sagði Jón brosandi.
„Þú ætlar þó ekki að fara að segja frá því“, greip Anna fr^jfi í
fyrir honum.
Borghildur brosti.
„Ég trúi því vel. Hann er sjálfsagt búinn að kyssa nokkrar
stúlkur um ævina“, sagði hún.
„Var hann ekki óskaplegt kvennagull?“ spurði Jón.
„Jú, hann yar það áreiðanlega. Þær voru víst ekki lítið hrifnar
af honum, stúlkurnar, enda var hann bæði fallegur og nógu glað-
vær, ekki vantaði það. En mér var svo voðalega illa við hann,
vegna þess að hann stríddi mér svo, þegar ég var send ofan að
Felli, að ég gat aldrei viðurkennt, að hann væri laglegur“.
„Með hverju stríddi hann þér?“ spurði Anna.
„Það þarf nú náttúrlega ekki mikið til, þegar maður er krakki“.
„Þá hefur mamma sáluga verið þar heimasæta“, sagði Jón.
„Þar hafa þau kynnzt“.
„Já“, svaraði Borghildur. „Það var víst álitið, að þau væru
trúlofuð. Ég heyrði vinnukonurnar í Felli vera að tala um það við
mömmu, þegar þær voru að fá sér kaffisopa í elclhúsinu hjá henni“.
„En hvað svo?“ spurði Anna forvitin. „Því urðu þau þá ekki
hjón?“
„Hann fór suður í skóla. Þær sögðu, að hann væri að skrifa
henni, fyrsta árið, svo fór þeim víst að fækka. Þá fór hún suður
og var þar einn vetur. Allir bjuggust við að hún kæmi aftur með
hringinn. En svo varð ekki. Hún kom hringlaus, og seint það sama
vor flutti hún alfarin hingað að Nautaflötum“.
Anna horfði á Borghildi stórum augum-, eins og hún hefði al-
drei séð hana fyrr, eða heyrt hana tala.
„Hvernig ætli hafi staðið á því?“ spurði hún.
„Ég heyrði það vera haft eftir séra Helga, að það væru ekki á
hverju strái aðrir eins menn og Jakob, enda buðust Lísibetu nógir
biðlar þar í sveitinni, en þeir voru fátækir“.
„Já, en sveik hún þá þennan mann?“ greip Anna fram í
fyrir henni.
„Nei, ónei, hann var tekinn saman við ríka ekkjufrú í Reykja-
vík, þegar hún kom suður, og hún hjálpaði honum til að halda
áfram við lærdóminn. Sjálfur var hann fátækur. Hún hefur nú
varla kært sig um að eiga hann með annarri, ef ég þekki hana
rétt“, svaraði Borghildur.
„En hann hefur nú verið mikið fallegri maður en pabbi
sálugi“, sagði Anna brosandi.
„Já. Það er nú fæst fengið með fríðleikanum, en mannkost-
irnir hafa líklega verið ólíkir. Ég man hvað mér þótti vænt um,
þegar ég heyrði að það væri búið allt á milli þeirra. Mér þótti að
sama skapi vænt um hana, sem mér var illa við hann. Ég þekkti
líka andstyggðar ertnisglampann í augunum á honum, um leið og
ég sá hann, og ég held, að hann hafi þekkt mig líka“.
„Mamma hefði þó verið falleg prestskona“, sagði Anna.
„Heldurðu að hún hefði verið fallegri, ef maðurinn hennar
hefði 'verið prestur?“ sþurði Jón fálega. „En sá hégómi. Giftist
hann þessari ekkjufrú?“ spurði hann Borhildi.
„Nei, nei. Hann vildi ekki sjá hana, þegar hún var búin að
hjálpa honum að komast gegnum skólana. Hún hafði líka verið
orðin roskin“.
Jón hristi höfuðið. „En það var dauðan ólán að kasta mömmu
frá sér, annari eins konu. Hún var lánsöm, blessunin, að komast
til pabba, þessa indæla manns“.
„Já, hún var lángöm að losna við Hallgrím. Það hefði nú
sjálfsagt ekki átt vel við hana að berjast áfram í fátækt, aðra
eins rausnar manneskju“, sagði Borghildur.
„Prestarnir eru nú víst aldrei fátækir“, sagði Anna.
„Það er ólíklegt“, hnussaði í Borghildi. „Þú hefðir þurft að
heyra lýsinguna á þessu heimili hans í morgun, hjá henni frú
Helgu á Felli. Þvílíkur armóður. Hann tollir aldrei við heimilið,
og hún er ákaflega vanstillt, vesalings konan. Svo tollir þar engin
vinnuhræða. Því er ekki goldið kaup, og það er allt ómögulegt“.
„Aumingja maðurinn! Er hann svona fátækur?“ sagði Jón
með hluttekningu.
„Ég kenni meira í brjósti um hana“, sagði Anna. „Hann gæti
líklega goldið kaup, svo það tylldi á heimilinu hjá henni, þegar
hann er aldrei heima“.
„Ósköp ertu mikið barn, góða mín“, sagði Jón. „Það er enginn
fátækur, sem getur borgað öll sín útgjöld“.
„En launin, sem prestarnir hafa?“
„O, þau eru víst ekki svo há, að þeim sé ekki hægt að eyða“,
sagði Borghildur.
„Geturðu ekki sagt okkur meira?“ sagði Anna.
„Lítið er það víst. Hallgrímur fluttist víða eftir að hann var
útlærður, oftast nær var hann við verzlun. Einu sinni kom hann
hingað á Ósinn og var þar í búð. Þar veiktist hann, og Lísibet
sýndi það þá, eins og fyrr, hver einstök kona hún var. Hann var
fluttur hingað fram eftir og hún hjúkraði honum. Hann var hér á
heimilinu, meðan hann var að komast til heilsu aftur“.
Finnur gamli hafði komið inn í endi samtalsins, hægt og
hljóðlaust. Þannig hafði hann gengið síðan húsbóndinn sofnaði
langa svefninum um haustið. Hann settist á stól við fremri enda
borðsins og gaf hýrt auga kaffikönnunni, sem stóð á eldavélinni.
Hann var í hríðarúlpu með lambhúshettu ofan í augu. Gráleitur
skegghýungur þakti það af andlitinu, sem sást. Hann lagði vettl-
inga sína laumulega á eldavélina, þar sem hann áleit að þeir væru
í minnstri hættu.
„Ég er bara alveg hissa. Þessi maður hefur verið hér á heimil-
inu svo vikum skipti; þó hef ég aldrei heyrt nokkurn mann minnast
á hann einu orði, fyrr en nú. Þú hefur þó oft talað um það fólk,
sem hér hefur verið, Borghildur“, sagði Jón óþarflega hátt, eins og
hann væri að átelja hana fyrir þessa þagmælsku.
„Ég var ekki hér þá“, svaraði Borghildur í sama kuldalega
málrómnum, sem hún hafði byrjað samtalið með. „Hann var hér
veturinn, áður en ég fluttist hingað“, bætti hún við.
„En þú. Hefur þú verið hérna, Finni?“ sagði Jón þá og snéri
allri forvitninni að gamla manninum.
„Já“, var það eina, sem heyrðist til Finná gamla. Hann starði
út í gluggann, eins og spyrjandinn sæti fyrir utan^hann.
' „Því hefurðu aldrei minnzt á það?“
„Ég veit það ekki. Jakobi var, held ég, ekkert um hann gefið.
Ég heyrði hann sjaldan tala til hans, eftir að hann fór að klæðast,
en Hallgrímur entist til þess að ræða við hann heilu og hálfu
tímana eða, réttara sagt, að tala við sjálfan sig í nálægð hans.
Þau minntust aldrei á hann, hjónin, eftir að hann var farinn, og
það gerðum við ekki heldur, vinnufólkið“.
„Var hann lengi hérna?“ spurði Anna.
„Hann kom um þrettándann og fór rétt fyrir krossmessuna,
og ég segi það alveg satt, að það var eins og annað heimili, eftir
að hann fór að frískast. Maður gat búizt við að vinnukonurnar
kæmu upp í fangið á manni æpandi og hljóðandi undan honum, í
hvert sinn, sem maður kom inn í bæinn. Hann var þá að klípa þær
eða kitla. Og svo alltaf áflogabendan. Þú getur nú nærri, hvort
honum föður þínum hefur geðjast að þessu. Bakkar, kambar og
hesputré, hugsa ég, að hafi verið eitthvað af sér gengið eftir
veturinn, þó lítið væri látið yfir“.
„Þetta hefur verið allra fjörugasti náungi", sagði Jón og hló
dátt. „Það hefur þó sannarlega verið gaman að sjá þig, þegar
stúlkurnar hlupu upp í fangið á þér, Finni minn. Var ekki Sigga
hérna þá?“
„Jú, jú, en hún var orðin svo fullorðin og ráðsett. Það voru
þær yngri, sem mest heyrðist til. En ekki held ég, að hún hafi
haft á móti honum“, sagði Finnur gamli og kímdi kindarlega.
„Það fannst öllum eins og bylur færi af húsi, þegar hann fór, en
þó var ekki hægt annað en þykja hann skemmtilegur“.
,Hvert fór hann svo héðan?“ spurði Jón.
„Ég flutti hann vestur að Felli á reiðhestinum húsmóðurinnar
einu sinni, þegar Jakob var ekki heima. Ég held þeir hafi aldrei
kvaðzt“.
„Datt mér ekki í hug“, sagði Anna í hálfum hljóðum.
„Varstu nokkuð að segja, Anna litla?“ spurði Jón dálítið
skrítinn í málrómnum. „Nei, ekkert, ekkert hérna“, sagði hún.
„Ég segi þér það seinna“.
Svo varð löng þögn. Það var eins og fjórmenningarnir væru
horfnir aftur í tímann fullkominn aldarfjórðung og hlustuðu á
það, sem þá var að gerast á þessu heimili, þegar Hallgrímur
stúdent var í blóma lífsins og kleip og kitlaði vinnukonurnar —
svo þær hlupu upp í fangið á Finna, sem aldrei hafði volgnað í
nærveru konu. Það var Jón, sem rauf þessa alvarlegu þögn, er átti
ekki vel við þetta broslega umtalsefni.
„Jæja, kona góð. Nú skaltu gefa Finna kaffi. Hann langar í það,
og mundu nú að þú ert orðin húsmóðir. Ég fer inn með Jakob
minn. Hann er sofnaður. Anna hellti í fjóra bolla. Þau biðu dálitla
stund eftir að Jón kæmi fram aftur; svo drukku þau kaffið, en
Borghildur hellti úr fjórða bollanum aftur í könnuna.
Anna gekk inn í húsið. Líklega hafði Jakob vaknað, fyrst Jón
kom ekki í kaffið. Jakob steinsvaf í rúminu sínu, en Jón stóð við
gluggann og horfði út í hríðarjagandann, og það var ekki hægt
að sjá, að hann tæki eftir komu hennar. Svona hafði hann staðið
svo oft, síðan sorgin kom í heimsókn, svona þögull og raunalegur,
og horft upp í fjallið. Það var ekki hægt að merkja, að hann vissi
af því, að hún væri komin inn. Hún tiplaði til hans hljóðlaust og
snart við öxl hans. „Því komstu ekki í kaffið?“ spurði hún,
glettin yfir því að koma honum á óvart.
„Mig langar ekki í kaffi“, svaraði hann úti á þekju. Þá tók
hún eftir því, að hann var alvarlegri en hún bjóst við. „Því ertu
svona raunalegur, góði?“ spurði hún. „Ertu að hugsa um mömmu?“
„Honum verður kalt yfir fjallið í þessu veðri, aumingja gamla
manninum“, sagði hann, en svaraði ekki því, sem hún hafði
spurt um.
„Ert þú þá líka að hugsa um hann? Finni sagði þetta sama og
Sigga. Af hverju hugsa allir um hann frekar en hitt samferða-
fólkið?“ sagði hún.
„Það er af því að hann er orðinn gamall, og af þyí hann er
ólánsmaður“, svaraði hann.
Hún færði sig fram fyrir hann og horfði á hann með titrandi
bros á vörum:
„Þú ert eins og mamma, brjóstgóður við alla, sem bágt eiga“,
sagði hún.
En hann horfði fram hjá blíðunni og ástúðinni út í svellkalt
hríðarrökkrið, sem óðum færðist yfir. „Það hef ég alltaf verið“,
sagði hann. „En líklega hefur ástvinamissirinn gert mig eitthvað
þunglyndan og kannske hjátrúarfullan, því mér finnst eins og því
sé hvíslað að mér, að einhvern tíma verði ég eins og hann, einmana
og vinalaus, finnist það vera það eina, sem er nokkurs virði, að
drekka — það sagði hann mér frammi í stofunni, þegar hann var
að fara. Ég vildi, að hann hefði ekki þurft að fara héðan aftur“.
Hún vafði handleggjunum um háls hans og sagði:
„Hvernig getur þér dottið annað eins og þetta í hug? Þú eins
og hann. Heldurðu kannske, að þú þurfir að kvíða fyrir að koma
heim til mín, eins,og hann, eða ég útbúi þig svo, að þú sért með
götótta vettlinga og sokka á ferðalögum?"
„Ef ég týndi vettlingunum eins og hann, og þú hefðir enga
vinnukonu og gætir ekki prjónað aðra“, svaraði hann öllu glað-
legar.
„Ó, hún er víst ekki góð, konan hans. En svo er heldur ekki
von, að nokkurt lán fylgi svona mönnum. Að hugsa sér, að bregðast
annari eins konu og henni mömmu og narra svo hina konuna til
að kosta sig í skóla og hætta svo við hana. Þetta er svívirðilegt.
Manstu, hvað pabbi sagði, að það væri hver sinnar gæfu smiður“.
„Það er nú einmitt það, góða mín. Það eru svo fáir góðir
smiðir, þess vegna eru mistökin svona hrapalleg“.
„Ég skal verma þér svo vel, að þú verðir aldrei sköllóttur eða
gráhærður. Þú verður bara að vera alltaf heima hjá mér og ekki
drekka. Hefði hann ekki drukkið, þá hefði kannske allt farið
betur fyrir honum, þessum vesalingsmanni. En heyrirðu, hvað
hann Finni sagði, að honum pabba hefði verið svo lítið gefið um
þennan mann“. —
Hann flýtti sér að loka munni hennar með hlýjum kossi.
„Við skulum láta þann sið haldast, að nefna hann aldrei
framar“.
„En ef hann kemur, eins og hann var að tala um?“ spurði
hún hikandi.
„Nei, hann kemur sjálfsagt aldrei“, svaraði hann.
„Mér finnst ég ekki geta hugsað til þess, að hann sé hér, fyrst
pabbi kvaddi hann ekki. En því skyldi mamma hafa farið að lána
honum hestinn sinn, þegar pabbi var ekki heima?“ spurði hún
hikandi.
„Hvað? Átti hún að láta hann fara gangandi yfir fjallið? Það
var víst ekki henni líkt“, svaraði hann.
Anna stundi mæðulega. „Nei, auðvitað ekki. Ég vona, að
hann komi aldrei aftur, og þó kenni ég í brjósti um hann“.
„Líklega ekki. Þó væri það gaman að geta látið honum líða
vel síðustu árin. Hjónaskilnaður er óviðkunnanlegur, jafnvel þ°
sambúðin sé erfið“.
„Drottinn minn, að nokkur hjón, sem búin eru að búa saman i
tuttugu ár, skuli geta hugsað sér að skilja“, sagði Anna og þrýsti
sér fastar að manni sínum. „Hugsaðu þér, að við eigum eftir að
búa svo lengi saman“.
„Það er langur tími, góða mín, sem getur haft margar breyt'
ingar í för með sér. Einu sinni hafa þau verið nýgift og ham-
ingjusöm".'
„Kannske þér detti það líka í hug, að okkur langi til að skilja?'
sagði Anna og brosti.
Hann lokaði brosandi vörum hennar með kossi.
„Það er ómögulegt“.