Lögberg - 24.06.1954, Page 2
2
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 24. JÚNI 1954
Ræða Thor Thors sendiherra
lesin aí segulbandi á Lýðveldissamkomu deildarinnar „Frón"
í Fyrstu Sambandskirkju, 17. júní 1954
Góðir Islendingar:
I dag, 17. júní, fer heilög há-
tíð um hugi allra íslendinga
heima á Fróni — og hvar sem
íslendingar, eða fólk, sem Is-
landi ann, er statt í veröldinni.
Heima á Islandi ríkir almenn-
ur fögnuður um gjörvalt landið.
íslenzki fáninn blaktir við hún
á hverri stöng, guðþjónustur
eru haldnar í öllum söfnuðum
landsins. I Reykjavík munu
æðstu menn þjóðarinnar flytja
fólkinu boðskap sinn og útvarp-
ið mun láta mál þeirra hljóma
út til stranda og inn til dala —
inn á nær því hvert einasta
heimili við sjó og í sveit. Mikill
fögnuður mun vera í höfuð-
staðnum langt fram á nótt, svo
mun einnig vera alls staðar þar
sem byggð er fjölmenn og alls
staðar þar, sem því verður við
komið.
Hví fögnum vér?
Hið endurreista íslenzka lýð-
veldi hefir nú lifað sín fyrstu
tíu ár. Tíu ár er stuttur tími,
jafnvel í lífi flestra manna, en
tíu ár eru á mælikvarða eilífð-
arinnar og í lífi flestra þjóða að-
eins sem sandkorn á sjávar-
ströndu, og þó — við nánari at-
hugun verðum við að viður-
kenna, að fyrstu tíu árin á
mannsæfinni geta verið örlaga-
rík og mótað skapgerð, lífsvið-
horf og lífsferil hinnar ungu
veru um alla framtíð. Það býr
lengi að fyrstu gerð. Svo getur
einnig farið í lífi þjóða. Því
verður heldur ekki neitað, að
tíu fyrstu ár lýðveldisins munu
miklu ráða um framtíð vora alla
og hafa þar djúptæk áhrif. Þau
munu marka sporin, og sporin
hafa legið og munu liggja fram
á við.
„Ardegið kallar áfram liggja
sporin,
enn er ei vorri framtíð stakkur
skorinn".
Þess vegna er oss holt á þess-
ari hátíðar- og helgistundu að
líta ofurlítið yfir farinn veg, og
jafnframt að skyggnast nokkuð
inn í heima framtíðarinnar.
Láta blikljós minninganna fara
um hugi vora og líta í hrifningu
bjarma þess sem í vændum er
og koma skal.
Vér viljum þá minnast
þeirra manna, sem hafa á undan
förnum öldum háð baráttuna
fyrir frelsi þjóðarinnar og sjálf-
stæði, minnast leiðtoganna og
einnig allra hinna óbreyttu her-
manna, er fylgdu forustumönn-
unum fast að málum. Það er
mesta firra, þegar því er fleygt,
að vér höfum endurheimt frelsi
vort á nokkurrar baráttu, án
nokkurra fórna. Aðeins 7 alda
stríð gat fært oss sigurinn.
Leiðin var myrk og langsótt
gegnum hættur. Erlend yfirráð
og drottnun færðu afturkipp í
þjóðlífið og lágu eins og mara
yfir því. Leiðarnornir skópu
oss langa þrá. Því fór svo, að
jafnskjótt og oss gafst þess kost-
ur að standa einir og ráða einir
öllum vorum málum, þá greidd-
um við því fagnandi atkvæði
nær allir. Islendingar hafa alltaf
skilið það að:
„Þrælajörð þér veröldin verður,
verk þín sjálfs nema geri þig
frjálsan".
Því fór svo, að við gátum sagt
við oss sjálfa, og tilkynnt öllum
heiminum hinn 17. júní 1944, að
nú væri: Lýðveldið — Islands
stræri draumur — rættur.
Nú skulum við renna snöggv-
ast augum sögunnar yfir hin
fyrstu 10 ár okkar unga lýð-
veldis, og spyrjum sjálfa oss:
„Höfum við gengið til góðs,
götuna fram eftir veg?“
Við getum ekki neitað því að
framfarir og framsækni blasa
við á flestum sviðum.
Lítum á atvinnuvegina.
Landbúnaðurinn, okkar elzta
og traustasta atvinnugrein, hefir
aldrei staðið í slíkum blóma sem
nú í dag. Kotin og moldarkof-
arnir eru að hverfa, og þokkaleg
og vistleg íbúðarhús rísa á flest-
um jörðum um allar Islands
byggðir. Ræktunin margfaldast,
tún og akrar hylja móa og mýr-
ar. Búpeningi fjölgar og hann
fær betri aðhlynningu. Og það
sem bezt er: Unga fólkið er
aftur að fá trúna á landið, það
vill margt vera kyrrt heima í
sveitinni, og sér nú og skilur,
að sveitirnar hafa frá upphafi
íslandsbyggðar megnað og kunn-
að og kunna enn í dag að fóstra
marga vaska syni — og dætur.
Kuldinn og myrkrið og einangr-
unin hafa hrjáð og hrellt fólkið
í sveitinni á undanförnum öld-
um. Nú streymir Ijós og ylur úr
fossa vorra skrúða inn á stöðugt
fleiri sveitabýli. Hitann úr
iðrum jarðar leggur um fjölda
heimila og útvarpið færir fólkið
daglega beint inn á svið vi?-
burðanna — heima og í hinum
stóra heimi.
Lítum svo til sjávar, til auðs-
linda okkar atvinnulífs, þangað
sem komið hefir afl þeirra miklu
hluta, sem við höfum gjört, ekki
aðeins síðustu tíu árin, heldur á
fyrri helmingi'þessarar aldar. —
Við sjáum þá að á fyrstu árum
okkar lýðveldis höfum við stigið
stór og djörf spor fram á við. —
Vér höfum eignast stærri og
fullkomnari flota fiskiskipa en
vér höfum nokkru sinni áður
átt í sögu vorri. Skipin bera af
um styrkleika, sjófærni og veiði-
hæfni. Þau mega heita fær í
allan sjó undir handleiðslu okk-
ar afburða sjómanna. Leitað er
á ný og fjarlæg mið. Aflamagnið
fer vaxandi, nýjum stöðvum
skýtur upp á landi til að verka
fiskinn og gjöra hann verðmæt-
ari með meiri tilbreytni og
meiri vandvirkni. Hraðfrysti-
húsum, þurkhúsum og hjöllum
fjölgar örar en unnt er að skrá.
Vér skiljum það, að við þurfum
að afla nýrra markaða fyrir
hinn aukna feng. Það hefir tek-
izt, og þótt sums staðar hafi ver-
ið skellt í lás fyrir okkur, þá
höfum við ratað í aðrar áttir og
allt gengið vel. íslendingar deyja
aldrei ráðalausir. — Við sjáum
ennfremur að við höfum eign-
ast nýjan verzlunarflota, marg-
falt stærri en við áttum fyrir
stofnun lýðveldisins, óendanlega
miklu stærri en nokkurn Islend-
ing gat dreymt um, þegar fyrsta
skipið okkar, gamli Gullfoss,
kom heim árið 1914. Ég nenni
ekki á þessari stundu að tilfæra
neinar tölur. Fögnuður okkar
allra yfir þessari framsækni er
öllum tölum æðri.
Vér höfum stigið það djarfa
heillaspor að færa út landhelgi
vora til að venda okkar dýrmæt-
ustu fjársjóði, fiskimiðin, sem
vér verðum að telja fátæka
mannsins einasta lamb. Vegna
þessa höfum vér sætt andúð og
andróðri, jafnvel frá svokölluð-
um vinum vorum. Vér höfum
eigi látið bugast, en haldið fast
við rétt vorn og málstað, og hinn
hógværi málstaður vor hefir
jafnvel unnið bráðabirgðasigur
meðal heimsins þjóða — á þingi
Sameinuðu þjóðanna, þrátt fyrir
andstöðu og andóf stórveldis.
En lítum svo til fuglanna í
loftinu. íslendingar hafa viljað
vængjum berast. Á þessum
bernskuárum lýðveldisins höf-
um vér einnig eignast álitlegan
flugflota, sem fer um víða
geima, og stígur til jarðar um
allar álfur. Islendingar fara nú
til fjarlægra landa á sama tíma
og það tók fyrir aðeins fjórum
áratugum að ferðast frá Reykja-
vík til Þingvalla. Islenzkir flug-
menn, þessir víkingar alheims
geimsins, bera hróður og frægð
íslands til annarra landa, nær
og fjær. Vér sjáum að einnig á
því sviði fjölgar vængjum og
flugið er djarflega þreytt.
Lítum svo á iðnað og iðju. Þar
blasir við vaxandi framleiðsla
iðnaðarvara og stöðugt fleiri
vörutegundir, meiri vöruvöndun
og aukin fjölbreytni. Iðnaðurinn
er orðinn einn af hornsteinum
okkar atvinnulífs. Stpriðjan
hefir tekið hamskiptum, marg-
föld virkjun Sogsins og Laxár,
og nú síðast áburðarverksmiðj-
an, eru stórkostleg og stórvægi-
leg tákn þessarar miklu þróun-
ar, og stórhugur stjórnmála-
mannanna og raunar allrar þjóð-
arinnar boðar djarfhuga og stór-
felldar aukningar á þessum
sviðum. Rafmagn inn á hvert
heimili, út við sjó og inn til
dala, er markið. Þetta er engin
fjarlæg eða draumkennd hug-
sjón lengur, heldur takmark, sem
byrjað er að nálgast. Sements-
verksmiðja í byggingu. Það
boðar ný húsakynni um land
allt, útrýmingu heilsuspillandi
Ibúða og ný og glæst heimili
fyrir unga fólkið, sem vill eign-
ast sitt eigið athvarf.
Við þurfum ekki lengur að
spyrja:
„Hvað verður úr þínum
hrynjandi fossum?
Hvað verður af þínum flöktandi
blossum?“
Við sjáum það og finnum dag-
lega í okkar lífi, og þó getum
við enn með sanni sagt:
„Land mitt! Þú ert sem órættur
draumur,
óráðin gáta, fyrirheit“.
Allar þessar miklu tæknilegu,
verklegu framfarir eru vissu-
lega blessunarríkt fagnaðarefni.
En maðurinn lifir ekki á brauði
einu saman. Einnig á sviði menn-
ingar og menntamála hefir þró-
unin verið stórstíg. Myndarlegir
barnaskólar og unglingaskólar,
með nýtízku útbúnaði hafa risið
í Reykjavík og víðsvegar um
landið. Menntaskóli hefir verið
stofnaður í sveit og Háskólinn
hefir fært út starfssvið sitt við
stöðugt vaxandi aðsókn stú-
denta. Islenzkir stúdentar hafa
þó eigi hætt við að sækja sér-
menntun sína til mestu landa
menningar og tækni víðsvegar
um heim. Einnig á sviði listanna
hefir orðið bráð og björt vakn-
ing. Við höfum opnað þjóðleik-
hús vort upp á gátt. Leiklistin
blómgast fyrir atgerfi afburða
íslenzkra leikenda. Fólkinu er
færður boðskapur snjöllustu
höfunda íslenzkra og utan úr
heimi. Úrvals íslenzkt og erlent
söngfólk flytur okkur fegurstu
og frægustu óperur heimsins, og
íslenzk hljómsveit fyllir sali og
býli fegurstu tónum meistar-
anna. Margar snjallar bækur ís-
lenzkra höfunda færast inn á
hvert heimili, og skærustu gull-
korn heimsbókmenntanna má
finna jafnt í höll og hreysi.
Það er sem íslenzka þjóðin
hafi fengið vængi. Nú erum við
alfrjálsir og því alls megnugir.
Alltaf hefir saga vor sýnt að
aukið frelsi boðaði nýjan byr og
nýja landvinninga framfara og
menningar.
En þó eru alltaf þeir menn til,
sem vilja væla og vola og telja
að eigi höfum við gengið til
góðs. Slíkt fólk talar jafnan um
allt stórtækt framtak sem glap-
ræði, og stökkbreytingar. Hve-
nær sem ýtt er frá landi sýnist
því kollsigling í vændum, það
talar um glatað siðferði, um
glapræði og gleiðgosahátt. Slík-
ar raddir hafa alltaf heyrzt á
öllum tímum. Einkum þykir
hlýða að tortryggja eða jafnvel
fordæma æskuna. En æska Is-
lands hefir alltaf vaxið upp til
að bæta landið og skapa þjóð-
inni betri tíma og bætt lífskjör.
Svo mun enn verða um æsku
landsins nú í dag. Gefum æsk-
unni aukið sjálfstraust, aukið
frjálsræði, aukinn trúnað. Þá
mun æskan taka við stjórnvöl
og stýra þjóðarknerri dýrum,
öruggar en vér getum fram til
fegurri landa, aukinnar velmeg-
unar, framfara og hamingju.
Trúin á æskuna er grundvöll-
ur gróandi þjóðlífs.
Ég hygg að segja megi með
sanni, að hin íslenzka þjóð hafi
aldrei lifað við eins góð kjör
eins og hin fyrstu 10 ár okkar
lýðveldis. Auðsöfnun og auð-
jöfnun hafa haldizt í hendur.
Síðast og ekki sízt ber oss að
líta á atburðina á sviði stjórn-
málanna. Ég á ekki við stríðið
milli flokkanna heima, eða per-
sónupatið, öfundina eða ásæln-
ina. Ég á við aðstöðu Islands
meðal annarra þjóða, og á sviði
alheims stjórnmálanna. Islenzka
lýðveldinu hefir um allan heim
verið vel, virðulega og vingjarn-
lega tekið, og víða fagnað. Þetta
hefir m. a. komið fram við heim
sóknir okkar tveggja fyrstu for-
seta til erlendra þjóðhöfðingja
og erlendra þjóða. Franklin D.
Roosevelt, voldugasti þjóðhöfð-
ingi veraldarinnar í síðustu
heimsstyrjöld, tók fyrsta for-
seta íslands, herra Sveíni Björns
syni, opnum örmum, og ræddi
við hann sem jafningja sinn, er
forsetl okkar gisti Hvíta Húsið í
Washington árið 1944. Allir
valdamestu menn Bandaríkjanna
í Washington voru kallaðir til
að heiðra þennan þjóðhöfðingja
vorn, og ræða við hann. Nú ný-
verið hafa konungar Danmerk-
ur og Svíþjóðar og forseti Finn-
lands sýnt forsetahjónum vor-
um, herra Ásgeiri Ásgeirssyni og
frú hans, allan sóma og þjóðir
þeirra hyllt og fagnað hinu
frjálsa, íslenzka lýðveldi. Til
þess fyllilega að skilja hið sögu-
lega mikilvægi þessarar at-
burða, skulum við líta aftur í
tímann. Haldið þið ekki að Jón
Sigurðsson — sem var, er og
ætíð verður okkar mikli Forseti,
hefði ekki átt erindi, og látið
ljós sitt skína við voldugasta
mann veraldarinnar. Og hvernig
haldið þið, að Jón Sigurðsson
hefði notað þá aðstöðu að vera
tekinn sem jafningi af Dana-
konungi, sem þjóðhöfðingi vors
sjálfstæða lýðveldis við fögnuð
og velvild dönsku þjóðarinnar.
Atburðir sögunnar og örlögin
skópu honum ekki þessa að-
stöðu, en hann ruddi brautirnar
fyrir þá er síðar skyldu koma
og fyrir fullkomnu sjálfstæði ís-
lenzku þjóðarinnar. Eða hvernig
skyldi Jóni Sigurðssyni og
öðrum foringjum og forystu-
mönnum okkar sjálfstæðisbar-
áttu á undanförnum árum hafa
líkað sú vitund að eiga á þjóð-
anna þingi, meðal allra þjóða
heims, sama atkvæðisrétt um al-
heims mál og örlög heimsins og
mestu stórveldin, að vita það að
lóð íslands var jafnþungt á meta
skálinni og lóð Bandaríkjanna,
Bretlands eða Rússlands. Og
hvernig hefði þessum foringjum
okkar fallið það að láta alheim-
inn hlýða á mál þeirra. Sam-
tímis því er vér fögnum hinni
auknu vegsemd Islands, hörm-
um við það, að foringjarnir
miklu gátu ekki notið hennar og
gjört hana glæsilegrí.
A sviði íslenzkra utanríkis-
mála er þetta til samanburðar.
Árið 1944 hafði ísland sendi-
herra erlendis aðeins á þrem
stöðum. Þeim hafði verið veitt
viðtaka af stórveldunum í þess-
ari tímaröð:
í Washington október 1941.
í London desember 1941.
I Moskva 1944.
Öll höfðu þessi stórveldi sent
sérstaka sendiherra til Islands
fyrir lýðveldisstofnun. Enn-
fremur hafði hin útlæga stjórn
Noregs í London sendiherra á
Islandi, og Frakkland og Sví-
þjóð áttu hér sendifulltrúa.
Nú hefir hið íslenzka lýðveldi
sendiherra eigi aðeins hjá fyrr-
nefndum þrem stórveldum, held-
ur einnig í Frakklandi, Dan-
mörku, Noregi og Svíþjóð. Hinir
íslenzku sendiherrar gegna og
störfum meðal allflestra þjóða
Evrópu, í tveim Asíulöndum og
um þvera og endilanga Suður-
og Norður-Ameríku. Islenzkir
kjörræðismenn greiða götu Is-
lendinga í helztu viðskiptaborg-
um íslendinga um víða veröld.
Þetta er þróun utanríkismál-
anna á tíu árum lýðveldisins.
Nær allar helztu vina- og við-
skiptaþjóðir Islands hafa einnig
skipað sendiherra til að sinna
íslandsmálum.
íslenzk þróun hefir á öllum
sviðum verið sem æfintýr. Vér
þökkum það og fögnum því. En
við látum eigi ofmetnast. Við
vitum að vandi fylgir vegsemd
hverri, og að öll æfintýri eiga
sér endalok, ýmist góð eða ill.
— Veldur hver á heldur. — Vér
vitum það og, að Fjallkonan
verður aldrei fegurri og kærari
en í ást og framtíðar vordraum-
um barnanna hennar.
Þessi orð eru töluð sérstaklega
í tilefni af hátíð dagsins meðal
Vestur-íslendinga. Ég vil því
snúa máli mínu með nokkrum
orðum beint til ykkar, góðu
vinir, íslands synir og dætur og
niðjar allir. Þið hafið tekið
ykkur bólfestu og gjörzt borgar-
ar í hinum miklu löndum Vest-
urheims, Canada og Bandaríkj-
unum. Þið hafið verið trúir og
dugandi þegnar ykkar nýja
fósturlands, en þið hafið aldrei
gleyma gamla landinu, fieðra
ykkar Fróni. Þið hafið vitað það
og skilið, að:
„Þeim, sem gleyma þjóð og ætt,
þeim, sem hafa misst sig sjálfa,
verður tóm og auð hver álfa“.
Tryggð ykkar við ferðranna
grund og forna tungu, við vort
tignríka mál, stuðningur ykkar
við okkar framfaramál, allt
þetta hefir verið okkur ómetan-
legur styrkur í okkar sjálf-
stæðisbaráttu og viðreisnarleit.
Og vér vitum, að þið hafið sjálf
öðlast styrk og hvöt við að minn-
ast feðranna frægðar. Vér
dáumst að manndómi ykkar og
afrekum í baráttunni hér í þess-
um miklu löndum harðrar sam-
keppni. Vér erum ykkur þakk-
látir fyrir þrek ykkar, dugnað og
dyggðir allar. Vér óskum og
vonum, að stórskáld vort, Einar
Benediktsson, hafi verið sann-
spár, er hann sagði:
„Standa skal í starfssemd
andans,
stofninn einn með greinum
tveim“.
Það voruð þið sjálfir, sem
sögðuð við okkur á lýðveldis-
hátíðinni 1944:
„Vér höldum allir hópinn,
þótt hafið skilji löndin“.
Undir það taka allir Islend-
ingar hjartanlegh.
Er vér nú reynum að skyggn-
ast inn í lönd fortíðarinnar, og
hugleiða hvar mun framtíð Is-
lands, þá getum við með sanni
sagt, að við íslendingar vitum
sjálfir hvaða verkefni vér vilj-
um helga krafta okkar á næstu
áratugum. Ég hefi nokkuð vikið
að því í framansögðu. Oss er
það ljóst, að þar sem nú búa
150,000 manns á íslandi, þá munu
íslendingar vera orðnir um
300,000 í lok þessarar aldar með
eðlilegri og sambærilegri fólks-
fjölgun. Þjóðin mun tvöfaldast.
Öllu þessu fólki þarf að sjá fyr-
ir menntun, vinnu og heimilum.
Vér þykjumst vita og kunna
verkefnin framundan. Við trú-
um á æskuna, sem landið á að
erfa. Þess vegna látum vér bjart-
sýni leika sem hressandi golu
um hugi vora og vit, en ábyrgð
og gjörhygli skal ráða hverju
fótmáli.
Oss er þó einnig ljóst, að ver-
öld öll lifir nú í eilífum ótta.
Óttinn við þriðju heimsstyrjöld-
ina grúfir eins og mara yfir al-
heimi. Þessi tilfinning er ægileg
og hryllileg. En þó er það svo,
að óttinn mun afstýra styrjöld.
Ótti valdamanna heimsins við
hefndir óvinarins mun ráða því,
að enginn óbrjálaður maður
mun þora að hefja styrjöld. Öll-
um viti bornum mönnum er
ljóst, að í nýrri styrjöld gæti
enginn slgrað. Lyktirnar yrðu
aðeins rústir, eyðing menningar
og útrýming mikils hluta mann-
kynsins. Enginn þorir að leggja
slíka eymd yfir sína eigin þjóð
eða aðrar. Vér trúum því að
friður haldist. Líklega kaldur
friður, en ekki slátrun.
Að lokum aðeins þetta:
I dag ómar allt af söng og
ljómar af gleði heima á Islandi.
Allir ungir og gamlir jafnt munu
syngja:
„Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dali og bláan sand“
svo að undir tekur í fjöllunum.
Og „ísland ögrum skorið" mun
hljóma langt út á haf. — Þér
sem hafið fest rætur erlendis og
eigið þar yðar fósturland og.
framtíð, munið samgleðjast ís-
lenzku þjóðinni og óska þess af
hjarta, að hennar háleitu óskir
megi rætast. — Vér hin, sem
eigum í huga og hjarta heima á
Islandi — við sem lifum í útlegð
— munum einnig vera heima á
Fróni í dag með lífi og sál, og
hylla og dá Fjallkonuna minnug
þess að:
,,Sá er beztur sálargróður,
sem að vex í skauti móður,
en rótarslitinn visnar vísir,
þótt vökvist frjórri morgun-
dögg‘.
Öll óskum við hér vestanhafs,
að allir fegurstu draumar ís-
lenzku þjóðarinnar megi rætast
á öllum ókomnum tímum.
Kaupið Lögberg
VIÐLESNESTA
ISLENZKA BLAÐIÐ
TILKYNNING
Þeir lögfræðingarnir LAMONT og BURIAK, 510 Childs
Building hér 1 borg, hafa ákveðið að setja á fót lögmanns-
skrifstofu í Árborg, Man., snemma í júnímánuði næstk.
Mr. Arthur Kristján Swainson, L.L.B., sem er meðlimur
áminsts lögfræðingafélags, mun veita þessari nýju skrif-
stofu forstöðu, eða ef svo ber undir, annar starfsmaður
félagsins. Lögfræðinginn verður að hitta vikulega í Arborg
á föstudögum og laugardögum og ef þörf gerist aðra daga
vikunnar.
KAUPENDUR LÖGBERGS
Á ÍSLANDI
Gerið svo vel að senda mér sem fyrst greiðslu fyrir
yfirstandandi árgang Lögbergs, kr. 75.00. Dragið
ekki að greiða andvirðið. Það léttir innheimtuna.
Æskilegt að gjaldið sé sent í póstávísun. Þeir sem
eiga ógreidda eldri árganga, eru vinsamlega beðnir
að snúa sér til mín.
SINDRI SIGURJÓNSSON
LANGHOLTSVEGI 206 — BEYKJAVIK