Lögberg - 23.09.1954, Blaðsíða 6

Lögberg - 23.09.1954, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 23. SEPTEMBER 1954 J —....... ..— GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DA LALÍF ^-------------— -----------r Borghildur kom fram með gestinum. Þær settust við borðið. Sigþrúður dáðist að prjónavélinni. „Það er nú meiri munurinn eða þegar maður er að prjóna í höndunum. En þetta hlýtur að vera erfitt. Alltof erfitt fyrir Borghildi, því að náttúrlega koma verkefni bæði frá mér og öðrum“. „O, ég hef vit fyrir mér“, sagði Borghildur. „Ég er farin að koma því á Línu svona öðru hverju“. „Hún er náttúrlega bráðlagin í höndunum eins og hún móðir hennar. Ég spyr svo sem ekki að því. Sú kona hefði getað mikið, ef hún hefði fengið nokkra tilsögn, en um það var nú lítið á þeim árum“, sagði Sigþrúður. Þá reisti Anna höfuðið dálítið þóttalega og sagði með kaldri lítilsvirðingu: „Það þarf víst ekki neina sérstaka handlægni til þess að geta lært verk, þegar staðið er yfir manneskjunni, eins og Borghildur gerir“. Þá varð henni ljóst, að augu allra horfðu á hana, og henni fundust þau öll segja hið sama: „Þetta er ólíkt henni Lísibetu. Hún hefði ekki talað svona, hún Lísibet“. Hún breytti því um málróm og sagði hlýlega: „Jú, náttúrlega er Lína bráðlagin stúlka í höndunum. Góða Sigþrúður, gjörðu svo vel að nota brauðið. Þú kemur alltof sjaldan til að skrafa við okkur. Þú ættir nú að koma fram eftir og baka til jólanna, eins og þú gerðir meðan mamma sáluga lifði“. „Þakka þér fyrir, góða“, sagði Sigþrúður. „Ég fer alltaf að Hvammi síðan Þóra fékk eldavél með ofni. Það er styttra. En þú færð líklega að sjá mig með band nokkrum sinnum hér eftir“. „Komdu með band svo oft sem þú þarft; Lína verður ekki lengi að prjóna það“. Næsti dagur var framúrskarandi erfiður fyrir Línu. Strax um morguninn, þegar hún að vanda var að þvo sér og laga sig fyrir framan spegilinn, kom Ketilríður þrammandi innan úr baðstofu og var á útleið. Hún kastaði fram vísuhendingu um leið og hún gekk fyrir búrdyrnar: „Um leið og þu fægir líkamann, líttu á hagi sálar“. Þetta var alvanlegt fyrir henni, og gat stundum verið eins og hnífsstunga í viðkvæmt kýli; svo reyndist það í þetta sinn. Lína fékk megnan hjartslátt og gleymdi algerlega rjómaþvottinum í það skipti. Samt gat hún ekki fundið, að húr\ þyrfti neitt að athuga sálarástand sitt. Hún var víst bara að verða eitthvað velluleg fyrir hjartanu. Þessi ólukku rekistefna í húsmóðurinni daginn áður varð ekki misskilin. En nú var hún orðin svo elskuleg og góð aftur. Hún hafði sjálfsagt iðrazt eftir þetta uppþot. En samt var Lína kvíðandi fyrir því, að eitthvað kynni að koma fyrir. Ekki var það betra, sem seinni hluti dagsins hafði upp á að bjóða. Þórður hafði farið fram að Seli til þess að gæta að úti- gangshrossum og kom ekki heim aftur, fyrr en allir voru fyrir löngu komnir inn. Hann var þreyttur, því að færðin var svo slæm, að ekki var hægt að koma við skíðum. Lína tók við vos- klæðum hans og lét hann fá heitan mat. Jón kom fram og spurði hann um hvernig hrossin hefðu það; hvort hann héldi, að það þyrfti ekki að taka eitthvað af þeim inn fyrir jólin. Þórður bjóst við, að þess þyrfti ekki. Anna kom fram og settist á hné manni sínum og skrafaði einnig við Þórð. Hann var fátalaður að vanda. „Auðvitað ertu óskaplega þreyttur, að ganga alla þessa leið í ófærðinni sem nú er komin“, sagði Anna. „Já, það er ill færð“, sagði hann. „Þú hefur líklega kaffisopa þarna, Lína, til þess að hressa hann með eftir matinn“, sagði Jón. „Ónei, það er nú ekkert á könnunni, aldrei þessu vant“, sagði Lína. „Þá hellirðu bara á í snatri. Þú verður að læra að verða notaleg húsmóðir. Ég skal koma með svolítið út í kaffið“, sagði Jón og fór fram í stofu til að sækja vínið. Anna lítur kankvíslega til Þórðar og segir: „Lína verður góð húsmóðir. Hefurðu ekki tekið eftir því, Þórður, að hún er fyrirmyndar konuefni?“ „Jú, fyrir löngu“, svaraði Þórður og leit út undan sér til Línu. Lína var fljót að hella á könnuna. Eftir dágóða stund var kaffið komið í bollana, og þeir fengu sér vél út í og spjölluðu saman, fengu sér aftur í bollana og töluðu ennþá meira. Þórður hresstist við kaffið. Lína flýtti sér svo sem hún gat að ljúka við það, seiji hún þurfti að gera, svo að hún kæmist sem fyrst inn til að prjóna. En Jón fór inn á undan henni, svo að Lína og Þórður, sem fyrir nokkrum vikum voru hjónaefni, urðu ein eftir. Þá fékk Lína allt í einu hjartslátt og flýtti sér svo mikið ,að hún missti niður einn bollann og braut hann. „Hamingjan góða“, sagði hún. Þá sagði Þórður: „Sjaldan brýtur lánsmaður leir, Lína litla“, Það var hvorki gremja né ásökun í málróm hans, þegar hann bætti við: „Hugsarðu aldrei til blessaðrar konunnar. Hún hefur víst ekki verið þér slæm, sú góða kona“. Svo fór hann inn. Hún tíndi glerbrotin upp af gólfinu með óstyrkum höndum. Fátt hefði hann getað sagt, sem kom verr við hana en þetta: „Blessuð konan“ var venjulegt nafn á önnu af hennar ástríka eiginmanni. Og hún hafði verið Línu indæl mann- eskja, eins og öllum, sem hún kynntist. En hvað myndi koma upp á teningnum, ef hún kæmist að því, sem enginn mátti vita? Hún sá fyrir sér svipinn á Borghildi. Hún var heldur óvægin í dómum og ströng á svip, þegar eitthvað kom fyrir í sveitinni, sem hún taldi brot á velsæmi. Ketilríður sagði, að hún hefði verið trúlofuð manni, sem hefði brugðizt henni, og síðan væri hún svona örg út í alla, sem ekki pipruðu eins og hún ætlaði að gera. Hitt var svo sem auðvitað, að heimilið færi á annan endann, ef þetta kæmist upp. En það gerði það ekki. Þórður vissi ekkert, bara ímyndaði sér einhverja vitleysu, af því að hann hafði séð þetta einu sinni, sællar minn- ingar. En hvað svo sem kom honum það við? Það var allt búið, sem áður var á milli þeirra, og honum lá það víst í léttu rúmi, þó að svo hefði farið. En hvað framundan væri fyrir henni hugsaði hún ekkert um. Hún var lögð út á glerhálan ís og gat ekki snúið aftur og vildi það heldur ekki. JÓLANÓTTIN Jólanóttin var komin. Allir á heimilinu höfðu skipt um föt. Húsmóðirin var í upphlut, en vinnukonurnar voru í fallegum dagtreyjum með skúfhúfu við. Lína hafði saumað sér bláa flauels- treyju fyrir jólin, og prýddi hana með litlum silfurlitum hnöppum á brjóstinu. Þórður hafði gefið henni þá fyrir löngu. Verst var, ef hann skyldi þekkja þá. Henni var lítið gefið um það, að hann veitti henni athygli. Nálægð hans var henni kvalræði. Hún skoðaði sig í speglinum. Hann sýndi henni laglega stúlku, með lítinn munn, rauðar varir og hrokkið hár, sem allar stúlkur á hennar aldri öfunduðu hana af. Hún brosti ánægjulega til spegil- myndarinnar. Helgihaldið byrjaði með því, að allt heimilisfólkið fór inn í hjónahúsið til að hlýða á jólalesturinn. Anna spilaði á orgelið, en Jón las lesturinn. Allt heimilisfólkið söng, nema Ketilríður og Dísa. Lína blaðaði í sálmabókinni allan tímann og leit ekki upp. Hún fann, að Ketilríður horfði á sig, og hana sveið undan augnaráði hennar. Hún gat ímyndað sér, að fleiri gæfu sér auga. Um leið og búið var að bjóða „góðar stundir11, var Dísa komin upp í fangið á Línu, til að skoða hnappana á treyjunni. „Ósköp eru þetta fallegir hnappar. Ég vildi óska, að svona fallegir hnappar hefðu verið látnir á kjólinn minn. Hver keypti þessa hnappa fyrir þig?“ spurði hún forvitin. „Ég er búin að eiga þá lengi“, sagði Lína og leit flóttalega til Þórðar. En hann gaf því víst engar gætur, sem fram fór. „Á meyjunni skartar skírlífið bezt“, sagði Ketilríður glottandi og kleip Línu í kinnina, náttúrlega í gamni, en hana dauðkenndi til undan þessum stóru og hörðu fingrum. „Skírlífið er í þessum silfurhnöppum“, sagði Siggi. „Þeir eru þó nokkuð margir. Merkja þeir svona marga kærasta? Hvern á ég, og hvern á hann, þarna strákurinn utan af Ströndinni, sem þú varst svo glennt framan í síðastliðið haust, þegar hann gisti hér?“ „Þú ert alltaf jafn leiðinlegur, hvort sem það eru jólin eða aðrir dagar“, sagði Lína og hraðaði sér fram á eftir Borghildi, því að nú þurfti að fara að hugsa um kaffið. Litlu seinna sátu allir við dúkað borð í eldhúsinu og drukku súkkulaði og kaffi með margs konar gómsætu brauði. Ekki hafði Jón gleymt að setja flöskuna góðu á mitt borðið, svo að hægt væri að fá sér út' í kaffið. Annað fannst hbnum engin hátíð. Þegar búið var að drekka fór fólkið inn, nema Borghildur og Lína, sem voril að taka af borðinu og þvo bollapörin. Lína sagðist geta lokið því ein, svo að Borghildur gæti lagt sig út af; hún var ekki vel frísk. Hún tók boðinu fegins hendi og fór inn. Þá var það, að Þórður kom aftur fram og settist á stólinn, sem húsbóndinn var vanur að sitja á. „Hvað var hann svo sem að gera með að koma fram?“ hugsaði Lína. Hún hafði tekið eftir því, að hann lét vel út í kaffið, svo að nú færi hann sjálfsagt að rausa eitthvað eins og um daginn, eitthvað, sem særði hana. En hann ætlaði sér víst að sitja þarna á meðan hún væri að þvo öll þessi bollapör. Það yrði kveljandi tími. Hún reyndi að hraða sér. Það var eins og hann læsi í hug hennar. „Þér er líklega ekki vel við það, að ég sitji hérna, en ég ætla samt að gera það“, sagði hann með kaldri glettni. „Það er svo gaman að horfa á þig í þessari nýju treyju. En hvað það var heppi- legt, að ég skyldi gefa þér þessa hnappa, svo að þú gætir haldið þér til fyrir „honum“ með þeim“. Hún kafroðnaði, en svaraði engu. Hann hélt áfram, en í breyttum málrómi, og glettnin var horfin: „Öðruvísi áttu þessi jól að verða, Lína. Við vorum víst búin að ákveða að setja upp hringana einmitt á þessum jólum. Ertu búin að gleyma því?“ „Það er líklega þú sjálfur, sem mest og bezt hefur eyðilagt þá ráðagerð“, sagði hún gremjulega. „Já, ég veit það, að ég lét eins og asni“, sagði hann. „Ég er alltaf svo seinn að átta mig á hlutunum. Ég skal hlusta á þig núna, og ég skal lesa það, sem þú skrifar mér. Ég sé, að ég hef komið illa fram við þig“. „En ég hef ekkert að segja þér framar — alls ekkert“. „Hvers vegna geturðu ekki sagt mér það núna, sem þú ætlaðir að segja mér þá?“ „Vegna þess, að þú sagðir að þú hefðir ekkert við mig að tala framar. Ég kem þér ekkert við og þú ekki mér. Svo langar mig til að þú farir inn. Ég hef enga ánægju af návist þinni; ég vil vera ein“. „Nei, ég fer ekki inn“, sagði hann þráalega. „Ég ætla að tala við þig, þó að þú viljir ekki tala við mig“. „En þá hlusta ég ekki á þig“, sagði hún gremjulega og óskaði þess af heilum hug, að eitthvað af heimilisfólkinu kæmi fram. En innan úr hjónahúsinu barst ómur af orgelspili og söng. Anna spilaði sálmasöng. Jakob söng einsöng. Allir voru hrifnir af því, hvað hann söng vel. Jafnvel þau í eldhúsinu hlustuðu, og voru þau þó um annað að hugsa. „Finnst þér hann ekki syngja yndislega, Lína?“ spurði Þórður. „Jú, auðvitað“, sagði hún, ánægð yfir því að bollunum fækkaði óðum og fjósatíminn nálgaðist. „Viltu ekki þiggja það, að ég gefi kúnum fyrir þig í kvöld?“ spurði hann því næst. „Nei, ég vil ekkert af þér þiggja, hvorki það né annað“. „Ertu svona reið við mig? Fyrir hvað?“ „Mest fyrir það, að þú situr þarna á stólnum. Það, sem áður hefur komið fyrir, ætla ég ekki að rifja upp“. „Þú ert líka óvenju rauð í andlitinu. Er það af því, að þér er svona illa við mig?“ sagði hann. „Hún vissi, að svona barnalega talaði hann af því, að vínið hafði stigið honum til höfuðs. Hann var óvanur því að bragða vín. „En þú, að fara að svolgra í þig vín, aldrei þessu vant“, sagði hún til þess að reyna að tefja fyrir honum með að bera það í mál, sem hún óttaðist að hún ætti eftir að heyra. „Ég gerði það vegna þess, að ég er eyðilagður maður út af því, hvernig komið er fyrir þér, Lína. Ég get ekki lifað þessu lífi lengur, að sjá þig á hverjum degi, en eiga þig þó ekki lengur“. „Þú verður nú samt að sætta þig við það. Það er ótrúlegt, að þú takir það ákaflega nærri þér. Ekki varstu svo lengi að hrinda mér frá þér. Þetta hefur líklega verið það bezta. Við hefðum víst aldrei orðið hamingjusöm. Það hefur víst vantað ástina í trú- lofunina okkar. Þess vegna vorum við — var ég — aldrei fullkom- lega sæl“. Hún ætlaði að segja eitthvað fleira, en hikaði, og hló vand- ræðalega. Þetta var allt svo erfitt. „Einmitt það. Þú heldur þetta“, sagði hann. „Þú skalt bara hlæja. Sá hlær bezt, sem seinast hlær. Heldurðu að þú verðir hamingjusamari í þessu nýja ástalífi þínu?“ Lína roðnaði enn meira. „Ég skil þig ekki. Þú hefur víst fengið þér helzt til mikið út í kaffið. Líklega væri ráðlgeast fyrir þig, að hafa þig inn og halla þér út af stundarkorn“, sagði hún og þóttist hafa komið vel fyrir sig orði í þetta skipti. „Þú losnar ekki svo auðveldlega við mig, að ég hlýði þér um- svifalaust eins og krakki og fari að leggja mig út af“, sagði hann með sama þráahreimnum í röddinni. „Það, sem ég meinti, var ástalífið í hesthúshlöðunni. Þú skalt ekki vera að hafa neitt á móti því, sem ég segi; það þýðir ekkert fyrir þig. Hættu bara við þessa vitleysu, og ég skal hjálpa þér til að komast í burtu, áður en það er um seinan“. „Hvernig svo sem dettur þér annað eins í hug, að fara í burtu á miðju ári, af öðru eins heimili og þessu, án allra orsaka. Það er meiri endaleysan í þér í kvöld. Það er varla hægt að segja, að þu talir orð af viti“, sagði hún loðmælt af geðshræringu. „Ég skal fá þig lausa“, sagði hann. „Ég skal tala við Önnu“, sagði hann. „Þetta tekur ekki svörum. Ég fer ekki eitt fet. Þú skalt ekkert vera að skipta þér af mér, heyrirðu það! Ég vil ekki hafa það! sagði hún reið. „Jæja, bíddu þá eftir því sem kemur fyrr eða síðar“, sagði hann. „Leiktu þér að eldinum þangað til allt logar upp. Það verður varla langt að bíða þess. Sannleikurinn verður alltaf að komast i dagsljósið. Hann þolir ekki myrkrið“. Sjaldan kom það fyrir, að Lína yrði glöð við að heyra til Ketilríðar. En nú lét skóhljóð hennar í eyrum Línu eins og engla- söngur, svo fegin varð hún, að geta slitið þessum kveljandi samræðum. „Ja, svona“, sagði Ketilríður glottandi. „En hvað þið eruð jólaleg“. „Nú er friður á jörðu", sagði Þórður, „og allir í jólaskapi, eða svo er tilætlazt". „En hvað hún Lína er rauð í vöngunum", hélt Ketilríður áfram. „Það er því líkast, sem þú hafir lagt hana undir vanga þinn eða þá slegið hana utanundir“. „En ég gerði nú samt hvorugt“, sagði Þórður, stóð upp og gekk til baðstofu. Dagarnir liðnu, án þess að neitt bæri til tíðinda. — Anna var orðin þess fullvís, að Ketilríði hefði algerlega skjátlazt. Hún reyndi að hafa sem allra minnst saman við hana að sælda. Hún vissi, að hún var illgjörn kona, sem tortryggði alla og vildi helzt koma af stað ófriði og úlfúð á hverjum degi, ef hægt væri að koma því við. En flestum var svo illa við hana, að þeir tóku ekki orð hennar trúanleg. En samt var hún ólíkt betri nú en hún hafði áður verið. Það hafði aldrei verjð talað um, að hún yrði þar á heimilinu nema fram að Jólum. En hún sýndi ekkert fararsnið á sér, og var heldur hvergi búin að útvega sér samastað. Líklega yrði hún til vorsins, ■— enda alveg árekstrarlaust af hennar völdum. Gamla árið endaði með balli á Hjalla. Hjónin, Siggi og Lína fóru þangað. En Þórður sagðist hafa rekið nagla upp í fótinn á sér. Samt var hann ekki haltur, en hann bjóst við að hann þyldi ekki að dansa. Hann sagðist ætla að spila við Jakob, svo að honum leiddist ekki. Það leit út fyrir, að sama þunglyndið hefði gripið hann aftur. Síðan á jólum hafði hann ekki komið heim úr húsunum fyrr en í vökulok, og þá oftast farið að hátta. Sjaldan var mögulegt að fá hann til að spila. Anna var ekki vel ánægð yfir ballinu. Samt reyndi hún að láta ekki á neinu bera. Henni fannst maður sinn dansa allt of mikið við Línu. Hún var líka ágæt „dama“. ÞRETTÁND AKV ÖLDIÐ Á þrettándakvöldið var alltaf drukkið kaffi og súkkulaði eins og á jólunum. Þar að auki voru alltaf heitar lummur á borðinu. Lína var í niðri-verkunum þann dag. Borghildur þurfti að prjóna peysu með útprjóni, en það kunni Lína ekki ennþá. Jón hafði riðið ofan í kaupstað til að sækja póstinn, — fyrsta póst ársins, — og var ókominn um það bil, sem átti að fara að drekka kaffið. * Lína var búin að sykra feiknin öll af lummum og dekka borðið. Anna var að taka fínu postulínspörin ofan úr búrskápnum, þegar heyrðist til húsbóndans frammi í göngunum. Það hefur löngum verið sagt, að köld væru kvennaráð. Svo vildi verða í þetta sinn. Anna lagði engum ráð öðrum en sjálfri sér. Hún slökkti ljósið í snatri, hallaði aftur hurðinni til hálfs og færði sig bak við hana. Þetta var dálítil snara, sem hún ætlaði að vita, hvort maður sinn gæti varazt. • Jón kom inn með tösku í annari hendinni, en svipuna í hinni. „Sæl, elskan“, sagði hann um leið og hann kom inn og sá að Lína var í eldhúsinu. „Það er ekki leiðinlegt að koma heim til þín, allt flóandi í lummum, og kaffið heitt á könnunni“. Lína hafði ekki orðið þess vör, að ljósið var slökkt inni i búrinu, og varð hverft við þessar kveðjur í áheyrn húsmóðurinnar. Hún reyndi að gefa honum bendingu um, að hætta væri á næstu grösum, en hann tók ekkert eftir því. Annað hvort var sjón hans hálfdauf, af því að hann hafði bragðað vín, eða þá af ljósbirtunni, sem sker óþægilega í augun, þegar komið er inn úr myrkri. Þá ætlaði Lína að gera það skynsamlegasta, sem hægt var, og flýta sér til baðstofu. En hann tók hana í faðfn sér og kyssti hana, áður en hún kom því í framkvæmd. Henni varð svo mikið um, að hún bað Guð almáttugan að hjálpa sér, og horfði á ljóslausar búrdyrnar, eins og hún mundi hafa horft í opna gröf, sem draugur hefði verið væntanlegur upp úr. Það birtist líka fljótlega kvenvofa í dyrununfi, náföl, og studdist við dyrastafinn, eins og henni lægi við að detta. Hún hló tryllingslegum, skjálfandi hlátri. „En hvað þetta tókst vel“, sagði hún og kom varla upp orðunum fyrir óstyrk. „Þú ert svona góður við Línu, en hvað þú hlýtur að hafa kysst hana fast, hún er svo rauð í framan!“ Faðmlögin leystust fljótlega í sundur. Jón hló, konu sinm til samlætis. „Þú ert þá þarna, góða. Ég er hissa á því, að Ketilríður skuli ekki vera búin að svæfa þig“, sagði hann og lét .sér hvergi bregða. „Þá hefur þú ætlað að nota tækifærið og kyssa Línu. Það ma segja, að þú ert dásamlegur eiginmaður“, sagði hún og hló lægra en áður. „Já, auðvitað er ég það, elskan mín“, sagði hann blíðmáll- „Þér dettur þó líklega ekki í hug, að þessu hafi fylgt nokkur alvara. Ég gef þér nóga kossa, þó að þessir færu forgörðum“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.