Lögberg - 07.04.1955, Qupperneq 6
6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 7. APRÍL 1955
J'—*— ' ..^
GUÐRÚN FRÁ LUNDI:
DALALÍF
FJÓRÐA HEFTI
LAUN SYNDARINNAR
SVEFNLAUSI OG SAMVIZKUBIT
Dagarnir liðu og tíðin breyttist úr hlýjum haustdögum í kalda
og leiðinlega vetrardaga. Stjórinn, ^em hafði verið sléttur eins og
fágaður spegill í margar vikur, varð úfinn og rétti upp kryppur og
hryggi, og kvikurnar risu við lendinguna. Bátarnir voru settir upp
fyrir flæðarmál og sjómennirnir úr sveitinni fóru heim. Gæftirnar
voru búnar. Nú þurfti Lína ekki að búast við, að farið yrði ofan
eftir að sækja fisk til sjómannsins, eða honum færður matur. Hún
fengi sjálfsagt aldrei tækifæri til að tala við Þórð framar þetta
haust. Hann kærði sig víst heldur ekkert um það. Einn morgun-
inn varð henni gengið fram hjá einni sjóbúðinni, þegar hún var að
kaupa fisk í matinn. Gamall sjómaður bjástraði við lóðina sína
inni í búðinni. Hann sló höndunum utan í sjálfan sig til að fá í þær
hita, og raulaði fyrir munni sér: „Verður svalt, þá veðri er breytt,
vina- eins er -geðið.“ Á heimleiðinni rifjaði Lína upp seinni part
vísunnar. Hún hafði kunnað hana í æsku, en nú var hún alger-
lega gleymd. Samt kom hún fram í hugann seint og síðar meir:
„Þar, sem allt var áður heitt, er nú kalt og freðið.“ Var það ekki
einkennilegt — alveg eins og það væri kveðið um hana sjálfa og
tíðina! Þó voru tilfinningar hennar allt annað en kaldar, heldur
logheitar og svíðandi. Skyldu þær verða svona alltaf — sífellt
sálarstríð og andvökur? Skyldu hún ekki eiga eftir að verða glöð
og róleg, eins og hún var áður? Það var hræðilegt að lifa við þetta
lengi.
Hún las bréfið frá Þórði á hverju kvöldi, þegar hún var háttuð,
fyrst eftir að hún fékk það. Svo fór hún að hætta því. Hún kunni
líka hvert orð fyrir löngu. Samvizkan fór að verða vægari viðjiana.
Samt vaknaði hún með bláa andvökubauga undir augunum á
morgnana. Stundum voru augun döpur, og hún svaraði út í hött
því, sem frúin talaði til hennar. Húsmóðir hennar talaði um það
við mann sinn, að hún hræddist útlitið á Línu.
„Eruð þér eitthvað veikar, Lína?“ spurði læknirinn einu sinni,
þegar Lína kom inn með kaffið.
„Ég — ég — “ stamaði Lína. „Nei, það gengur ekkert að mér,
nema ég á bágt með af sofa,“ Svo flýtti hún sér fram aftur.
„Væri ekki reynandi a ðláta hana hafa svefnskammta?“ spurði
frúin.
„Ekki held ég það,“ sagði læknirinn stuttlega. „Það eru sjálf-
sagt einhverjar giftingargrillur eins og vanalega á þessum aldri.“
„Ég er hrædd um, að það sé eitthvað meira,“ sagði frúin.
„Þá getur hún sjálfsagt talað um það.“
Frúin rausaði um það við Línu, að hún talaði betur við læknir-
inn. En það vildi Lína ekki. Hún vissi bezt sjálf, að hann gæti ekki
bætt sér þetta kveljandi samvizkubit, sem varnaði þreyttum lík-
ama hennar að hvílast langt fram eftir nóttu. Þau voru ekki álitin
svo merkileg, meðulin hans. Það var tíminn einn, sem gæti bætt
henni með því ágætislyfi, sem „gleymska“ var kölluð. En hann
var víst oft seinn að laékna. Sumir urðu að þjást alla ævina. Máske
yrði hún ein af þeim.
Frúin var þjáð af tæringarhræðslu, og var sífellt að spyrja
Línu, hvort hún væri ekki með þyngsli fyrif"hrjóstinu. Lína sagði
henni, að hún fengi varla nokkurn tíma svo mikið sem kvef. Hún
mætti vera róleg þess vegna. En Silla Jóhanns hélt, að Lína gengi
með magasár eða eitthvað, sem væri ennþá verra. En reyndar
sagði nú mamma gamla, að allar stúlkur litu svona út, þegar þær
voru trúlofaðar.
„Eða ertu kannske ekki trúlofuð lengur, elskan?“ bætti hún
við og kyssti Línu á vangann.
„Það efast ég mikið um,“ svaraði Lína og gerði sig glettnis-
lega á svipinn.
„Almáttugur! Það er þá ástasorg, sem að þér gengur, blessuð
manneskjan.“
„Nei, langt frá. Það er víst hægt að lífa, án þess að vera trú-
lofaður.“
Simmi var sífellt að tala um, hvað fönnin væri orðin mikil.
Það sæist ekki nokkur maður framan úr dalnum, enda væri hver
laut og hvammur upp með ánni troðfullur af fönn, ekki afdrep
fyrir hund, því síður stóra menn. Lína lét sem hún heyrði ekki,
hvað hann sagði, en helzt hefði hún viljað berja hann á snjáldrið
fyrir ógerðarháttinn.
Svo var það einn morgun, þegar hún var að enda við að hella
á miðdegiskönnuna, að hún sá mann ganga fyrir gluggann. Hjartað
tók snöggan kipp í brjósti hennar og blóðið þaut fram í kinnarnar.
Þetta var Jón. Hún var búin af fastráða það, að láta hann ekki sjá
sig, þegar hann kæmi næst. En nú gat hún ekki hreyft sig úr spor-
unum. Það voru drepin létt högg á hurðina og svo lokið upp.
„Góðan daginn, Lína mín! Takk fyrir síðast!“ sagði Jón bros-
andi.
Á næsta augnabliki hvíldi hún í faðmi hans og hvíslaði: „Mér
finnst hræðilega langt síðan.“
Hann kyssti hana hlæjandi og endurtók: „Takk fyrir síðast!
Ekki man ég samt neitt eftir því, hvernig það gekk á heimleiðinni.
Þórður hafði verið úrillur, sagði Borghildur. Ég hef sjálfsagt verið
erfiður við hann.“
Línu fannst eins og hárbeittum hníf væri stungið inn á milli
rifjanna og beint að hjartanu, þegar hún heyrði Þórð nefndan, og
hún hvíslaði lágt: „Ég þarf að tala svo margt við þig.“
„Við höfum nægan tíma til að tala. Ég verð hérna í nótt. Mig
var farið að langa til að gera mér glaða stund — fá mér í staupinu
og snerta á spilum. Bara að enginn fari nú að taka upp á því að
verða svo veikur, að það þurfi að sækja lækninn.“
Lína lét hann setjast á eldhússtólinn. Hún leysti af honum
skóna og klæddi hann úr utanyfirsokkunum. Það gerði ekki mikið
til, þó að hvítskúrað gólfið blotnaði. Henni var sönn ánægja að
þurrka það upp, fyrst það var af plöggunum hans.
Simmi kom vaggandi að utan, þegar Jón var búinn að setja
upp skóna og var að hverfa inn í stofuna. Lína fór að þvo bleytuna
af bólfinu. Simmi glennti sig og teygði úr efri vörinni.
„Hvað er að sjá þig, garmurinn. Hann hefur þó víst ekki gefið
þér sitt undir hvorn, mannskepnan? Skárri er það roðinn!“ sagði
hann kindarlegur á svip.
„Reyndu að hafa þig eftir kolum í körfuna,“ skipaði Lína.
„Mér sýnist þú ekki þessleg, að þér sé kalt,“ sagði hann og fór
hlæjandi út með kolakörfuna.
Það var eins og húsið umbreyttist í gleðisal á svipstundu. Það
var sent eftir tveimur beztu spilamönnunmn, sem til voru í kaup-
staðnum, þeim Hinriki snikkara og Páli gamla í Lágubúð. Það
glumdu við hlátrar og ápaugsyrði. Svona var það alls staðar þar,
sem Jón var, hugsaði Lína. Hún gleymdi öllu sínu hugarvíli og
hlakkaði til að vaka við að hita kaffi handa spilafélögunum og
vatn í púns. Páll gamli sagðist tilheyra gamla tímanum — þá
hefði verið drukkið púns yfir spilunum, ekki þessi sterku vín, sem
brenndu innan kverkarnar. Það yrði mikill munur fyrir Línu að
vaka í heitu eldhúsinu heldur en að bylta sér andvaka í rúminu í
kuldanum.
Það var svo vakað fra mundir morgun og sofið fram á hádegi.
Næsta kvöld átti að spila og vaka, en þá var læknirinn sóttur, og
Jón fór því heim.
Um kvöldið, þegar Lína kom upp á herbergið sitt til að hátta,
tók hún uppsagnarbréfið frá Þórði undan koddanum ásamt súkku-
laðistékkinu. Hún hafði alltaf sofið á því allar þær nætur, sem
liðnar voru síðan Siggi rétti henni það inn um gluggann. Nú tók
hún eldsýtu og kveikti á henni, bar hana síðan að einu horninu á
bréfinu og kveikti í því, en blés á það jafnfljótt aftur. Hún gat
ekki brennt þetta bréf, sem gaf henni frelsi til að njóta þess, sem
hún elskaði. Aldrei hefði henni getað dottið í hug, að ástin væri
eins unaðsrík og hún hafði verið í þetta sinn. Hún hafði ekki getað
talað um Þórð, enda var það þýðingarlaust. Hún gat ekki hugsað
sér að bindast Þórði í þriðja skiptið, því að nú fann hún, hvað það
var yndislegt að vera frjáls. Það ætlaði hún sér að vera alla ævina,
en vera bara ástmey Jóns hreppstjóra, svo lengi sem hægt væri.
Hún hefði aldrei orðið sæl með Þórði. Það fann hún núna. Hvað
var hún eiginlega að vola? Það voru víst nógar aðrar stúlkur, sem
Þórður gat búið með í Seli. Hann hætti víst fljótlega að hugsa um
hana. Hún læsti kfréfið niður í kommóðuskúffu, slökkti ljósið og
lagðist til svefns óvenju hugrökk. Hún hafði fengið sér vel út í
kaffið, sem hún hitaði handa frúnni, og var ókviðin andvökum og
samvizkubiti. Hvað þurfti samvizkan að vera að minna hana á Þór?
Þetta var honum óviðkomandi. Það var líka óþarfi fyrir hann að
kvíða framtíð hennar. Hún yrði sjálfsagt ánægjulegri en hans
framtíð. Þannig hugsaði hún, meðan hún beið eftir sælu svefns og
drauma, sem hún vonaði. að framleiddu myndir frá síðustu nóttu.
En sú von brást. Hana dreymdi eintómt vandræða ferðalag, sem
hún komst aldrei áfram í. Svona gekk það nótt eftir nótt — sí-
felldar andvökur og draumarugl. Hún vaknaði þreyttari á morgn-
ana en hún lagðist til svefns á kvöldin. Vanalega var það eitthvað
um Þórð og búskapinn í Selinu. Stundum var hún farin að búa þar,
en gat aldrei kveikt upp eldinn- eða fundið Þórð til að biðja hann
hjálpar.
Loks tók hún þá ákvörðun, að flytja burt frá þessu öllu saman,
eitthvað þangað, sem enginn þekkti hana. Hún sagði Sillu, að hún
væri staðráðin í að flytja til Ameríku næsta vor. Þá vissi hún, að
það bærist um kaupstaðinn og hún hefði fríð fyrir sífelldu vista-
stagli.
„Já, það er bara svona“, sagði Silla. „Náttúrlega ætlarðu þér
að vera ein af fínu frúnum í Ameríku. Það er engin hætta á því,
að þú giftist ekki fljótlega. Bara að ég gæti farið líka, en ég er
bundin yfir mömmu gömlu.“
„Ég er ekki orðin vonlaus um, að ég gangi út, Silla mín,“ sagði
Lína. „Mér datt þetta bara svona í hug í morgun. Svo ætla ég að
vita, hvað mig dreymir í nótt.“
Eftir þetta fóru draumarnir að verða þægilegri og samvizkan
vægari. Hún reyndi að hugsa sem minnst um Þórð, en það gekk
ekki vel. Oft var það, þegar hún var vel ánægð, að mynd hans kom
allt í einu fram í huga hennar — eins og hann leit út seinast, þegar
hún sá hann — þunglyndisleg og tortryggin — og þessi uggvænlega
spurning ómaði í eyrum hennar gegnum svefninn: „Hvaða endi
heldurðu að þetta hafi?“ Þann endi, að hún hyrfi í burtu á kol-
svörtum skipsskrokk, sliti algerlega sundur þráðinn, sem tengdur
var við fortíðina, og svo byrjaði nýtt líf eftir langt og kveljandi
ferðalag með hópi af ókunnugu, hryggu fólki, sem saknaði ást-
vinanna og ættjarðarinnar, alveg eins og hún sjálf.
Einu sinni dreymdi hana draum, sem hún hugsaði mikið um.
Hún var lögð af stað í þetta fyrirhugaða ferðalag. Hún var komin
um borð í stórt skip og horfði út yfir borðstokkinn ofan í græn-
golandi sjóinn. Skammt frá sér sá hún tvo menn vera að veiða
fisk. Það voru þeir Þórður og Siggi. Þeir sátu á stórum skeljum á
sjónum og höfðu fest öngla á þrjá lengstu fingurna á hvorri hendi,
dýfðu henni niður í sjóinn og komu upp aftur með spriklandi fiska
á hverjum öngli. Og eftir því sem fleiri fiskar voru innbyrtir,
stækkuðu skeljarnar. Loks voru þær orðnar að venjulegum fiski-
bátum. Hún heyrði Sigga kalla upp: „Nú er hann við, sá guli.“
„Ójá, það er hægt að lifa á gamla Islandi ennþá“, heyrði hún Þórð
segja um leið og stóra skipsbáknið seig áfram rétt hjá þeim. Lína
rétti hendurnar í áttina til þeirra, og kallaði svo hátt, að hún
hrökk upp: \
„Taktu mig til þín, Þórður! Það er nóg pláss fyrir okkur bæði.“
Það var þó gott að þetta var draumur, Samt fann hún, að hann
var ekki með öllu markleysa. Henni hafði verið sýnt, að það var
hægt að bjargast af heima á ættjörðinni. Hún átti nóg brauð handa
öllum sínum börnum. Ef hún hefði borið gæfu til að fylgjast með
Þórði, hefði hún engu þurft að kvíða. Hann hefði getað unnið
fyrir henni, bæði á sjó og landi. Jafnvel á kúskel mátti lifa með
svo duglegum manni. Og nú byrjaði samvizkan að jagast við hana
á ný. Hún dreif sig á fætur, þó að það væri fyrr en vant var,
kveikti upp í vélinni og settist við að hekla til þess að láta tímann
líða þar til aðrir færu að hreyfa sig.
Allt í einu var bankað í gluggann og kallað í málrómi Sillu:
„Það er bara ég, Lína mín. Þú skalt ekki verða hjartveik.“
Lína flýtti sér að opna húsið, dauðfegin að fá Sillu til að rabba
við.
„Ég vissi bara ekki hverslags þetta var, þegar ég sá ljós í
glugganum hjá þér,“ sagði Silla. „Eg vakti við að lesa. Hvernig
stendur á þér, manneskja, að vera búin að kveikja upp eld og farin
að hekla? Sér er nú hver dugnaðurinn eins og venjulega."
„Ég gat ekki sofið. Mig dreymdi svo óviðkunnanlega. Alltaf
þessir draumar í allan vetur. Ég veit, að mig hefur ekki dreymt
eins mikið alla ævina til samans eins og núna í nokkrar vikur.“
„Hvernig í ósköpunum stendur á þessu, manneskja? Þú ættir
að koma upp eftir til hennar mömmu gömlu; hún getur ráðið
draumana þína, skal ég segja þér. Hún er hreinasti snillingur,
gamla hróið.“
„Ég þarf ekki að láta ráða neina drauma,“ sagði Lína, „þeir eru
auðráðnir. Þeir eru bara mínar eigin hugsanir. En ég býst við, að
draumarnir stafi af því, að ég fæ mér svo oft út í kvöldkaffið, skal
ég segja þér, Silla mín. Þú mátt nú ekki gaspra um það. Það er
svo gott og gerir mann svo ánægðan með lífið.“
„Já, nú þykir mér þú segja mér tíðindi, Lína. Þú ert svei mér
lánsöm, að ráða þig þar, sem helzt er von á vætunni, hjá Halldóri
lækni og Jóni á Nautaflötum. En ég skal segja þér, Lína, að þetta
er ekki hollt fyrir þig. Það máttu vera viss um. En, svo að ég
byrji á erindinu, Matthildur segir, að þú setjir ekki upp svo hátt
kaup, að hún vilji ekki borga þér það. Hún hefur þetta álit á þér,
skal ég nú segja þér. Villa er ekki á nægð, og hún ætlar suður aftur.
Ég er hrædd um, að Helga fari líka.“
„Ég er búin að segja þér, að ég ætla til Ameríku í vor. Þangað
flýja allir þeir, sem hanmingjan hefur rekið hornin í, og ég er ein
af þeim. Kannske kemst ég þangað aldrei lifandi, en það er þá
sama hvar skrokkurinn liggur. Og þó,“ sagði hún, og hryllingur fór
um hana, „væri óskaplegt, að láta sökkva sér ofan í sjóinn og láta
hákarlana rífa sig í sundur.“
„Almáttugur! En-það tal, sem þú hefur um sjálfa þig!“ sagði
Silla.
TÆPAR LEIÐIR
Á höfuðbólinu fram á dalbotninum gekk lífið sinn vanagang.
Allir voru vel ánægðir, nema Þórður. Hann var svo breyttur, að
engum duldist það, að eitthvað gekk að honum. Enginn gat sér
þess rétta til um, hvað að honum væri, nema Borghildur. Hún var
líka elzt og hafði séð meira en aðrir. En hún lét það ekki uppi við
nokkurn mann. Hann lá uppi í rúmi allt kvöldið, ef hann þurfti
ekki að kemba fyrir stúlkurnar, án þess að mæla orð frá vörum.
Ef talað var til hans, heyrði hann ekki. Stundum gat hann staglað
sama vísuhelminginn hvað eftir annað, ef hann kembdi eða
fléttaði reipi. Oftast nær var það þessi vísa: „Myrkur er í minni
sál, myrkra hugrenninga.“ Þá var oft, að Borghildur stanzaði
prjónavélina eða rokkinn og spurði með áhyggjusvip, hvort hann
væri eitthvað lasinn.
„Hvað? Lasinn? Nei, ég er ekki lasinn. Hvað skyldi ég svo
sem vera lasinn?“ anzaði hann fálega.
„Ef Gróa og prjónavélin væri ekki í baðstofunni, væri stein-
hljóð alla kvöldvökuna,“ sagði Jón oft og að gamni sínu. „Nú
vantar Sigga minn til að lífga ykkur upp.“
Oft var það, að hjónin langaði til að spila. Þórður fékkst þá
til að vera með; en hann var venjulega svo annars hugar, að
hann tapaði.
„Ekki veit ég, hver rækallinn er í höfðinu á þér, Þórður,“
sagði þá Jón og hló dátt að hjárænuhætti hans.
Stundum kom Jón fram fyrir með sögubók og las upphátt.
Það þótti öllum skemmtilegt. En samt kom það upp úr dúrnum,
að Þórður fylgdist ekki með efninu.
„Þú tekur bara ekki eftir þessari fínu ástasögu, sem ég er að
lesa. Hvað ertu eiginlega að grufla?“ sagði Jón þá stundum í
aðfinnslutón.
„Það er nóg, að aðrir hlusti,“ sagði Þórður og hélt áfram að
flétta taglið sitt.
Þegar ekkert var til að lesa, kom Jón oft fram fyrir og sagði
Þórði að renna þarna tagl handa sér, „Svo skulum við reyna okkur
eins og í fyrri daga.“
Þórður gerði það og þeir byrjuðu að flétta. Krakkarnir stóðu
hjá og gættu að, hvor þeirra yrði á undan. Meðan þeir fléttuðu,
dró Jón upp einhverjar myndir frá æskudögunum. Þær voru það
helzta, sem hressti Þórð við.
„Manstu, þegar ég sundreið ána í fyrsta sinn og Lilja lagðist
niður, skælandi af hræðslu? Eða þegar við vorum að draga á
fram í Gljúfurá, og pabbi þinn taldi víst, að við værum stein-
dauðir?“
Þórður mundi það allt og margt fleira, sem hann minnti hann
á. Nútíðin, með öllum sínum erfiðleikum, hvarf. Jón var ekki
lengur keppinautur hans í ástmálum, heldur lífsglaði leikbróðirinn
í fortíðinni, sem hann hafði alltaf elskað og dáðst að. Og töglin
lengdust þangað til hankirnar voru orðnar að endum. Þá kölluðu
krakkarnir:
„Pabbi verður á undan eins og vant er.“
„Ég vissi það,“ sagði Þórður. Samt átti hann sáralítið eftir.
Hann var hróðugur yfir því, þegar hann var unglingur, að vera
svona hér um bil eins og hann; en að bera sigur úr býtum hafði
hann aldrei ímyndað sér, að gæti komið fyrir. Honum hafði
aldrei þótt neitt að því, að láta í minni pokann, nema í þessu eina
tilfelli — ástamálunum.
Stundum kváðu þeir vel ortar ferskeytlur um dalinn, sem
ungur piltur hafði sent Jóni frá Vesturheimi. Hann var fæddur
og upp alinn þarna í nágrenninu, og Jóni þótti ákaflega vænt um
þessar vísur.
„Það er eins og baðstofan fái nýtt líf, þegar blessaður hús-
bóndinn kemur fram fyrir,“ sagði Gróa oft og einatt við Borghildi.
Hún vissi, að henni kom vel að heyra hrósyrði um eftirlætið sitt.
Það var komið fram að jólum, þegar Jón talaði um það við
Þórð ,hvort hann yrði ekki hjá sér næsta ár, eins og hann væri
vanur.
„Jú, ég býst ekki við, að ég breyti um til batnaðar, þó að ég
færi að flytja burtu. Við erum orðin svo hagavön hérna í daln-
um, ærnar mínar og ég. Við þrífumst sjálfsagt illa annars staðar,“
svaraði Þórður.
„Ágætt! En hvaða duttlungar voru í þér í haust, þegar þú
vildir ekki ráða þig hjá mér, og varst jafnvel að hugsa um að fara
um veturnætur?“
„Það voru ekkert annað en túrar úr mér?“
„Varstu kannske að hugsa um að fara á eftir systkinunum til
Ameríku?“
„Já, mér datt það í hug. En ég get ekki fengið það af mér að
yfirgefa dalinn.“
„Þetta líkar mér að heyra,“ sagði Jón ánægður. „Eiginlega
finnst mér ég ekki geta hugsað til þess að þú farir frá mér.“
Þegar skammdegismyrkrið var horfið, fór Þórður að ná sínu
venjulega dagfari. Hann sá, að það þýddi ekki annað en að sætta
sig við það, sem orðið var. Hann fór á skemmtanir, sem haldnar
voru í dalnum og úti á Ströndinni, eins og hann var vanur; en
ofan á Ósinn fór hann aldrei. Að sama skapi forðaðist Lína að
fara á nokkra skemmtun, sem haldin var í dalnum, því að hún
vildi sízt af öllu sjá Þórð. Bæði vonuðu þau, að vorsólinni mundi 0
takast að dreifa myrkrinu úr sálum þeirra og þíða klakann, sem
veturinn hafði skilið þar eftir.