Lögberg - 21.04.1955, Síða 6
6
J V.
GUÐRÚN FRÁ LUNDI:
DALALÍF
V- ...-r
En Lína bjóst við því, að hún kæmist á fætur næsta dag, þó
að hún hefði gengið utan frá Háakoti. En hún þakkaði Sillu
samt hugulsemina.
Silla bauð góða nótt og fór út fyrir dyrnar. Þar sneri hún
við og talaði við Línu gegnum hálfopnar dyrnar:
„Siggi Daníels kom hér í gær og í dag. Hann var að spyrja
eftir því, hvort þú værir ekki komin heim?“
„Siggi Daníels?“ sagði Lína snúðugt. „Hann er ekki vanur því
að gera sér ferðir til að vita, hvort ég sé heima eða ekki. Það er
líklega ráðlegast fyrir hann að sitja á sínum rassi, eins og hann
er vanur“.
Silla lét hurðina síga aftur og fór.
Lína sat ein niðri í eldhúsinu, eftir að allir voru gengnir til
hvílu. Hún var þreytt eftir ferðalagið, þó að það væri ekki langt,
og sárgröm yfir beiskyrðum og fáleik frúarinnar. En þó hafði
hún sig ekki upp til að hátta. Þá heyrði hún, að gengið var heim
að húsinu og eldhúsglugginn opnaður.' Siggi stakk kollinum inn
um hann og athugaði, hvort hún væri ein inni.
„Sæli nú, Lína!“ sagði hann.
„Sæll vertu!“ sagði hún þurrlega. „Hverjum á ég að þakka
þá virðingu, að þú skulir láta sjá þig og ekki vera búin að gleyma
hvað ég heiti?“
„Þessu“, sagði hann og lét sendibréf á borðið.
Lína leit á það, út undan sér, og þekkti rithönd Þórðar á
umslaginu. Hún roðnaði. „Hver kom með þetta bréf?“ spurði hún.
„Borghildur kom með það. Þekktirðu skriftina, fjandans
svikatófan þín?“ sagði hann gremjulega.
„Ertu svo kunnugur því, sem okkur hefur farið á milli, að
þú þykist mega dæma mig?“ sagði hún skjálfrödduð.
„Ég veit það bara, að Þórður er eyðilagður maður. Hitt þarftu
ekki að ímynda þér, að hann hafi sagt mér eitthvað. En ég býst
við því, að þú eigir eftir að sjá eftir breytni þinni“.
Lína greip bréfið og hraðaði sér inn í búrið, svo að hann sæi
ekki tárin, sem bituryrði hans orsökuðu.
„Ef þú svarar bréfinu, þá skal ég koma því til skila“, heyrði
hún hann segja um leið og hann gekk burtu.
Hún horfði á bréfið gegnum tárin. Hvað svo sem gat Þórður
verið að skrifa henni? Hún hafði búizt við því, að hann væri
búinn að skrifa sitt síðasta orð til hennar. Ólíklegt var, að hann
væri að bjóða henni sættir enn á ný. Hún reif frá endanum og tók
bréfið varlega í sundur. Það voru aðeins fáeinar línur. Hún las:
„Kæra vina! Ég hef frétt, að þú ætlir að fara til Ameríku í
vor, og þykir mér vænt um að heyra það. Nú langar mig til að
biðja þig að þiggja minn síðasta greiða. Ég hef hugsað mér að biðja
Lilju systur mína að taka á móti þér, þegar þú kemur þangað,
öllum ókunnug og vinum horfin. Hún verður þér góð systir.
Láttu mig ekki bíða lengi eftir svari. Mundu það, að hika er sama
og tapa. Þ. H.“.
Nú var hún aldeilis hissa. Hvernig gat honum dottið það í
hug, að hún gæti þegið það, að Lilja tæki á móti sér og yrði sér
systir, eftir að hún var búin að eyðileggja bróður hennar, eftir
því sem Siggi sagði. Það kom heldur ekki til þess, því að hún
var alveg horfin frá því að fara vestur; hvað sem við tæki, ætlaði
hún ekki að leggja það á sig. En hún varð að hverfa burt úr
þessu umhverfi, þar sem allir þóttust hafa vald til þess að dæma
hana og þvaðra um hana. Hvað átti hún eiginlega að gera? Biðja
Þórð að fyrirgefa sér í annað sinn? Það var síðasta ráðlegging
móður hennar. Það var kannske bezt. Hann vildi þó gera henni
greiða eftir allt, sem hún hafði gert á hluta hans. Alltaf var hann
sami gæðamaðurinn. Hún stakk bréfinu undir koddann sinn, í
þeirri von, að sig dreymdi Þórð. En svo varð þó ekki.
Morguninn eftir var hún orðin svo hress, að henni fannst
hún geta hlegið að vesaldarskapnum í sér kvöldið áður. Að láta
rausið í frúnni og kaldranaháttinn í Sigga fá svona mikið á sig.
Þetta hafði bara verið makleg hefnd á hana fyrir að skilja við
móður sína hrygga og áhyggjufulla, án þess að segja henni sann-
leikann. Eitthvað hefði hún eflaust getað ráðlagt henni. Móður-
ástin hefði kannske getað séð, hvernig hægt væri að snúa við af
þeirri tæpu leið, sem barnið hennar var komið svo háskalega
langt út á.
Þegar hún hafði lokið við morgunverkin, fór hún upp á loft
og opnaði koffortið sitt. Þar í handraðanum var rauð kindarvala.
Það var spákona, sem engum sagði það, sem hún var spurð um.
Nú skyldi hún þó spyrja hana. Hún fór ofan aftur, tók sér stöðu
við eldhúsborðið og lét völuna ofan á hvirfilinn og hafði yfir
særingarþuluna: „Spáðu, spáðu, vala mín. Ég skal með gullinu
gleðja þig og silfrinu seðja þig, ef þú segir mér satt, en í logandi
eldinum brenna þig, ef þú lýgur að mér. Fer ég til Ameríku í
vor?“ Svo hristi hún höfuðið, og valan valt ofan á borðið og
setti upp hliðina. „Asninn þinn! Þú veizt það ekki“, sagði
Lína gröm.
Svo tók hún völuna í annað sinn, lét hana ofan á höfuðið og
hafði yfir sömu þuluna og spurði aftur, hvort hún færi til Ameríku.
Síðan hristi hún hana ofan á borðið. Hún setti upp kryppuna.
Það þýddi „nei“. Þá var eftir að spyrja síðasta sinn. Enn var
þulan lesin og höfuðið hrist langtum meira en áður. Valan skopp-
aði ofan á borðið og út um opinn gluggann. Lína stakk höfðinu út
og skimaði eftir henni. En«hún var hvergi sjáanleg.
Rétt í því kom frúin fram og bað hana að hita súkkulaði og
kaffi; það væru komnir gestir. Lína gerði það og valan gleymdist.
Daginn eftir sá hún, að tveir strákar voru í hörkuáflogum fyrir
neðan húsið út af þessari skrautlegu völu. Það var víst bezt, að
þeir fengju að njóta hennar. Hún var hvort eð var svo heimsk,
að hún gat ekki svarað einföldustu spurningum, hugsaði Lína.
Það var víst óþarfi að vera nokkuð að grufla út í framtíðina.
Sjálfsagt væru nógir möguleikar til að komast áfram aðrir en
þeir að fara að þiggja eitthvert náðarbrauð af Þórði. Hann vildi
líklega hafa eitthvað fyrir sinn snúð eins og fyrr. Sjálfsagt upp-
hitaða trúlofun. Hann ætlaði sjálfsagt að koma á eftir henni til
Ameríku, og vildi þess vegna eiga hana vel geymda hjá systur
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 21. APRÍL 1955
sinni. Ef hún aðeins gæti sofið rólega til vorsins, ætlaði hún engu
að kvíða. Kannske héldi hún áfram tæpu leiðina. Það er yndi
æskunnar, að leika sér að æsandi hættunni. Hana svimaði ekki
vitund, þótt gatan væri tæp og hún vissi af hyldýpi fyrir neðan
sig. Samt gat hún tæplega hugsað sér að verða í þessu húsi lengur
og þola hornaugu og sneiðar húsmóðurinnar.
Nokkrum dögum seinna sá hún til ferða Sigga; hann ætlaði
auðsjáanlega að koma upp eftir til hennar. Hvað ætli hann sé
svo sem að erinda, kannske með annað bréf frá Þórði? Hún flýtti
sér inn í búrið og lét hurðina aftur. Siggi opnaði eldhúsgluggann
og nefndi nafn hennar hálfhátt, beið nokkra stund og bankaði
svo í eldhúsborðið, — beið enn og hallaði svo glugganum aftur.
Hamingjunni sé lof, nú er hann víst farinn, hugsaði Lína. En þá
var hann kominn að búrglugganum og horfði glettnislega á hana
gegnum rúðuna. Hún varð að opna gluggann og tala við hann.
Annað var ókurteisi.
„HVað er þér eiginlega á höndum?“ spurði hún fálega.
„Ertu búin að skrifa? Ég fæ ágæta ferð“.
„Með hverjum?“ spurði hún og leit yfir kaupstaðinn. Henni
d^tt í hug, að ef til vill biði Þórður sjálfur á næstu grösum eftir
því að fá frá henni línu eða að sjá hana tilsýndar.
„Elli á Hóli er hérna. Hann kemur því fram eftir strax í
fyrramálið“, sagði hann ánægður.
„Þú losnar algerlega við þá fyrirhöfn að bera bréf á milli
okkar Þórðar. Ég skrifa honum aldrei framar“, sagði hún
kuldalega.
„Rækallans tíkin þín“, sagði hann gramur. „Þess vegna
hefurðu verið að fela þig fyrir mér. Þú ert svipuð Evu gömlu,
felur þig, þegar þú ert búin að gera af þér skammirnar“.
„Hvaða svo sem skammir? Ég veit ekki til þess, að ég hafi gert
neitt, sem ég þarf að skammast mín fyrir“, sagði hún kæruleysis-
lega.
„Er það ekki skömm, að svíkja loforð sín?“
„Það var hann, sem skrifaði mér uppsagnarbréfið, og þú
komst meira að segja sjálfur með það“, sagði hún móðguð.
„Þú skalt segja öðrum en mér þetta“.
„Það geri ég ekki vegna þess, að það er enginn að sletta sér
fram í okkar sakir, nema þú“.
„Nú, jæja“, sagði hann og sneri til burtferðar. „Þú færð sjálf-
sagt að hafa frið fyrir mér, enda fer nú bráðum að verða vík á
milli vina, þar sem þú ert að hugsa um Ameríku. Ég óska þér til
heilla. En betur hefði ég samt kunnað við að vita þig verða hús-
móður í Seli. Og það situr í mér, að á endanum munir þú
verða það“.
„Þú ert víst ekkert spámannlega vaxinn“, sagði Lína. „En
þessi Ameríkuferð mín er ekkert annað en ráðagerð ennþá og
verður kannske aldrei annað“.
Hann gekk þungum skrefum burtu. En Lína hellti kaffi í
bolla og fékk sér vel út í. Það var alltaf hægt að fá einhvern
dreitil inni í skrifstofu læknisins. Vonandi gæti hún sofið rólega
í nótt, því að nú var hún þó áreiðanlega laus við heimsóknir Sigga
og bréfaskriftir Þórðar. Samt saknaði hún þar vinar og kunningja
frá ánægjulegri fortíð.
MÓÐIR OG SONUR
Þau hétu Jón og Hildur, hjónin sem fluttu að Jarðbrú vorið
eftir að Páll og Ketilríður flosnuðu upp af jörðinni. Þau áttu
þrjú uppkomin börn. Ketilríður hafði sagt það fyrir, að þau yrðu
varla lánsamari en hún á býlinu því, — þar þrifist enginn maður.
Það væru álög á kotræksninu. Þetta fannst dalbúum rætast, því
að eftir þrjú ár voru þau orðin ein í kofanum, konan og yngsta
barnið, sem hét Þóroddur, en alltaf kallaður Doddi. Taugaveikin
hafði komið upp á heimilinu og úr henni dó húsbóndinn og dóttir
hans, Björg að nafni, rúmlega tvítug. Hálfu öðru ári þar á eftir
drukknaði eldri sonurinn, Páll.
Sveitungarnir vorkenndu Hildi, að það skyldi nú endilega
vera Doddi, sem eftir var skilinn hjá henni. Hann var nú fyrst
og fremst unglingur, innan við tvítugt, og svo var hann ekki
líklegur til mikils. Hann var af flestum álitinn einfeldningur, en
hin systkinin höfðu verið vel gefin, og höfðu heldur ekki sparað
að láta í ljós, hvað yngri bróðir þeirra væri lítið gefið saman-
borið við þau. En Hildur bar sína miklu reynslu með undirgefni
og þolinmæði, og lofaði guð fyrir það hátt og í hljóði, að hún
fékk þó að hafa eitt barnið sitt hjá sér. Doddi hafði líka alltaf
verið langþekkastur við hana, og hún hafði alltaf borið hann
fyrir brjóstinu vegna þess, hvað hann var vangefinn, blessaður
drengurinn. Hana sveið undan hnýfilyrðum og aðhlátri systkin-
anna til Dodda meir en drenginn sjálfan, sem skildi þau oft ekki,
eða var þá svo utan við sig, að hann tók ekki eftir þeim. Þegar
hún hugsaði um framtíð barna sinna, hvíldi alltaf dimmt ský af
áhyggjum og kvíða yfir því, hvað myndi verða um Dodda aum-
ingjann, en hún vissi, að hinum systkinunum voru allir vegir
færir. Þau voru svo vel gefin og dugleg. En svona var nú komið,
að það var Doddi, sem átti að verða ellistoðin hennar, og milli
þeirra var svo innileg sambúð, að þau máttu varla hvort af öðru
sjá stundu lengur. Ef hann þurfti að fara út af heimilinu, gaf hann
sér sjaldan tíma til að koma inn og þiggja góðgerðir, eins og vana-
legt er í sveitinni, vegna þess, að hann bjóst við, að móður sinni
leiddist heima. Að sama skapi neitaði Hildur sér um að tefja hjá
nágrannakonunum og skrafa sér til skemmtunar, þá væri Doddi
einn heima og léti sér leiðast.
Þegar Hildur hugsaði um allt það armæðustríð, sem hún
hafði haft við þennan dreng í uppvextinum, undraðist hún, hvað
orðið var þó úr honum. Mestum framförum hafði hann tekið
síðan systkini hans og faðir höfðu dáið. Við þau hafði hann alltaf
verið hálfhræddur og kvíðinn, því að þau óvituðu sig og hlæju
að sér. Kannske hefði hann aldrei orðið annað en viðundur, ef
þeirra hefði notið lengur við. Reyndar hafði hún verið búin að
hugsa sér að koma drengnum í burtu af heimilinu, svo þreytt var
hún orðin, en þá var það forsjónin, sem réði fram úr.
Þegar hún sat ein inni að vetrinum til og hugsaði um liðnu árin,
kom oft beiskur kökkur í hálsinn og augun flutu í tárum. Líklega
hafði hún verið allt of meinlaus; hún hefði átt að tala alvarlega
við mann sinn og börn um það, hvort þau væru tilfinningalaus
og kaldlynd við þennan litla anga, sem forsjóninni hafði þóknazt
að gefa svona átakanlega lítið vit. Þá rifjaðist svo margt upp
fyrir henni. Hún minntist þess, þegar Doddi litli hafði stunið því
upp einu sinni, eftir að vera búinn að hugsa um það í marga daga,
hvort hún gæti ekki gefið sér vesti með tveimur vösum á, eins og
Palli ætti, og svo langaði sig að eiga blýantsstubb í öðrum vasan-
um, en hníf í hinum. Þetta var víst það fyrsta, sem hann óskaði
að gert væri fyrir sig. Næsta dag var vestið komið og drengur-
inn var himinlifandi yfir láni sínu. Þá var það bróðir hans, sem
sagði: „Hvað er nú að sjá montið í þessu gerpi“. En þá sagði
Hildur alvarleg: „Þú ættir nú heldur að gefa honum vasahníf og
blýantsstubb í vasana; það langar hann til að eignast. Það væri
bróðurlegra en að vera að hnjóða í hann“.
„Hann yrði sjálfsagt ekki lengi að týna því, sauðurinn sá“,
sagði bróðirinn háðskur.
En Hildur gat samt útvegað hvort tveggja, og Doddi var
alsæll lengi. Þá datt honum allt í einu í hug, að gaman væri að
eignast skíði. Hildur jagaðist í því í marga daga. Loksins var
sagað aftan af skíðum eldra bróðursins og Dodda fengin þau til
eignar, en hinn fékk ný skíði. Doddi var mjög ánægður með sitt
hlutskipti, en það var móðir hans ekki, þótt hún talaði ekki
um það.
En mestir urðu þó erfiðleikarnir, þegar drengurinn þurfti að
fara að læra að þekkja stafina, Dag eftir dag og viku eftir viku
reyndi hún að láta hann þekkja stafina og koma þeim saman í orð.
„Ekkert skil ég í þér, manneskja, að vera að reyna að troða
þessu í strákinn. Þú hlýtur þó að sjá, að hann getur ekki lært
neitt“, sagði Páll einu sinni, og faðir hans bætti við: „Það verður
að reyna að kenna honum fræðin og faðirvorið utanbókar og
ferma hann upp á það“.
„Ósköp er að heyra til ykkar“, sagði hún raunamædd, „heldur
reyni ég að koma honum eitthvað í burtu. Ég get ekki hugsað til
þess, að barnið verði ekki læst“.
„Þú verður nú sjálfsagt að sætta þig við það“, sagði faðirinn.
Doddi skellti aftur bó^inni, sárfeginn þessum úrskurði. Hann
vissi það, að hann gæti aldrei komizt fram úr þessari stafaflækju.
Þeir voru svo líkir hver öðrum, að það var ómögulegt að þekkja þá.
Næsta dag, þegar Hildur sat með drenginn yfir stafrófskver-
inu, bar gest að garði. Það var Jón hreppstjóri. Hildur þekkti
hann vel. Hann átti jörðina, sem þau bjuggu á. Hún sagði honum
frá þeim erfiðleikum, sem hún ætti við að stríða með kennsluna á
drengnum. Doddi stóð á gólfinu og einblíndi framan í gestinn
og sagði:
„Palli segir, að það þýði ekkert að vera að reyna að kenna
mér. Ég veit, að það er satt. Ég get ekkert lært“.
„Mikil ósköp“, sagði herppstjórinn, „það geta allir lært að
lesa. Ég skal taka drenginn af þér í nokkrar vikur og sjá, hvernig
tekst. Það má ekki telja börnunum trú um, að þau geti ekki þetta
eða hitt, þá leggja þau árar í bát og vilja ekkert hafast að“.
Nú þótti Hildi vænkast ráðið. Það eina, sem hún kveið fyrir,
var að drengurinn kynni ekki við sig hjá ókunnugu fólki. En
fram eftir fór hann samt og kom ekki heim fyrr en um vorið,
og var þá orðinn stautlæs, öllum til mikillar undrunar, og svo
var hann líka orðinn svo kátur og frjálslegur.
„Það talaði enginn um það, að ég væri heimskur og kjáni þar,
heldur sögðu allir, að ég væri duglegur“, sagði Doddi hreykinn.
Eftir það fór hann á hverjum vetri fram eftir. Hildur þurfti
ekki að hafa áhyggjur af kennslunni framar. Hann var fermdur á
réttum tíma og þótti sæmilega vel að sér.
„Það hjálpuðust allir að því að kenna mér“, sagði Doddi, „en
samt var enginn eins góður og Siggi“. Þeir voru jafn gamlir og
voru spurðir saman. Eftir það þótti Dodda fjarska vænt um allt
fólkið á Nautaflötum.
Nú létti öllum áhyggjum af Hildi í langan tíma — allt þangað
til dauðinn tók ástvinina frá henni og skildi hana eftir einmana
með Dodda, sem reyndi að hughreysta hana með því, að hann
ætlaði að reyna að vera duglegur. En hvað gat sautján ára ungl-
ingur gert? En þá kom hjálp frá nágrönnunum. Jón hreppstjóri
kom með alla sína pilta og sló einn dag. Þá var túnið búið og
meira en það. Það tóku fleiri sér þetta fagra dæmi til fyrir-
myndar og hjálpuðu til við heyskapinn. Erlendur á Hóli batt
hvern bagga, sem bundinn var, og heyskapurinn gekk eins og í
sögu. Á veturna leit Erlendur eftir fjármennskunni hjá Dodda.
Það var nú góði nágranninn. Hildur sendi Dodda með flösku í
sokkbol til hans þrisvar á ári. Það vissi hún, að honum kom bezt:
daginn fyrir gangnadaginn, aðfangadag jóla og síðasta vetrardag.
Það var eini maðurinn, sem tók við þóknun fyrir hjálp sína, en
hún var líka viss um, að það hefði ekki þýtt að bjóða honum aðra
borgun en þessa.
„Þeir hefðu ekki reynzt mér svona vel af Ströndinni, ef þetta
hefði komið fyrir það“, sagði hún oft við Dodda.
„Nei, það þarftu ekki að láta þér detta í hug. Þeir eru nú
heldur betri hérna í dalnum“, sagði hann, spekingslegur á svip.
Doddi var oft alvarlega hugsandi, eftir að húsbóndastörfin
ultu yfir á hans eigin herðar svona allt í einu. Það var eiginlega
tvennt, sem hann langaði mest til, að búa skuldlaust og geta
fyllt út sparijakkann af Páli heitnum bróður sínum, en jakkinn
hékk alltaf fram í skála. Nú var svo komið, að hann hafði fengið
báðar þessar óskir uppfylltar. Jakkinn var orðinn mátulegur og
búið skuldlaust, þótt lítið væri, og nú þurfti enginn að slá hjá
honum lengur gustukaslátt. Hann var orðinn rígfullorðinn maður
og flestir álitu hann gott búmannsefni. Sumir sögðu, að hann
væri hálfgerður „puðari“, og flestir höfðu gaman að einfeldnis-
legu tali hans og vandræðasvipnum, ef eitthvað kom fyrir, sem
hann treystist ekki að ráða fram úr. Þá leitaði hann alltaf til þeirra
hjónanna á Hjalla. Þar voru ætíð góð ráð í té látin.
Hildur var mjög ánægð með lífið. Þetta hafði allt gengið
vonum betur. Helzt var það, að það setti að henni hálfgerðan
kvíða, þegar hún frétti að ungu bændasynirnir í dalnum fluttu
nýtt konuefni heim til mæðra sinna, sem voru orðnar lúnar og
þurftu að fara að hafa rólega daga. Hver skyldi nú taka við
þessum verkum, þegar hún gæti ekki lengur hugsað um þau?
Líklega eignaðist hún aldrei tengdadóttur. Þær vildu sjálfsagt
ekki margar setjast að í þessum moldarkofum, og svo var hann
nú svona undarlega lítið gefinn hann Doddi auminginn. Þær,
sjálfsagt tækju eftir því, þó að hún væri hætt að finna til þess.
En það var óþarfi að kvíða því. Hún var heilsugóð og gat unnið
nokkur ár ennþá. Það legðist eitthvað til. Hún vonaði, að drottinn
gleymdi sér ekki.
Þannig hugsaði hún oft, þegar hún sat alein inni langa daga,
meðan Doddi var úti við gegningarnar.
Það var snemma á einmánuði, sama veturinn sem Lína
hnuplaði víni frá lækninum út í morgunkaffið, að Hildur þurfti
að fara ofan að fjárhúsum til að ná moði í poka. Hún þurfti að
reykja kjöt fyrir nágrannakonu sína. Hún fyllti pokann og fór
heimleiðis. Dalurinn var allur í glærahjarni og flughált á húsa-
hlaðinu. Henni skrikaði fótur og hún datt kylliflöt og hljóðaði
upp yfir sig. Þvílík ósköp, sem hún fann til. Og þegar hún ætlaði
að standa upp aftur, var henni það ómögulegt. Hvað gat hafa
komið fyrir, hugsaði hún örvingluð. Þetta hlyti að líða frá. Rétt í
sömu svifum kom Doddi út úr bænum og sá hana. Hann kom í
sprettinum ofan eftir.