Lögberg - 25.08.1955, Blaðsíða 4
4
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 25. ÁGÚST 1955
Lögberg
Gefið út hvern fiimudag af
THE COLUMBIA PRESS LIMITED
695 SARGENT AVENUE, WINNIPEG, MANITOBA
J. T. BECK, Manager
Utanáskrift ritstjórans:
EDITOR LÖGBERG, 695 Sargent Avenue, Winnipeg, Manitoba
Ritstjóri: EINAR P. JÓNSSON
Verð $5.00 um árið — Borgist fyrirfram
The "L/ögberg” is printed and publjshed by The Columbia Press Ltd.
695 Sargent Avenue, Winnipeg, Manitoba, Canada
Authorize<l as Second Ciass Mail, Post Office Department, Ottawa
PHONE 743 411
Óvenjulega atbyglisvert ungfr skáld
Eftir prófessor RICHARD BECK
Unnendum íslenzkra bókmennta er það alltaf óblandið
fagnaðarefni, þegar ungt skáld, er einhvers verulegs má
vænta af, kveður sér hljóðs.
I þeim hópi yngri kynslóðarinnar stendur Gunnar Dal í
fremstu röð. Það er dulnefni höfundar; hann heitir skírnar-
nafni Halldór Sigurðsson og er frá Hvammstanga, sonur
Sigurðar Davíðssonar kaupmannas þar í bæ. En í þessari
umsögn um rit hins unga og óvenjulega athyglisverða skálds
þykir mér betur fara að nota rithöfundarnafn hans.
Gunnar Dal hóf rithöfundarferil sinn með kvæðabókinni
Veru (1949). Hún bar, að vonum, nokkurn byrjendasvip, en
ekki duldist það ljóðglöggum mönnum, að þar reið úr hlaði
skáld, sem átti yfir ríkri og ósvikinni ljóðæð að ráða, þó að
honum væri enn ábótavant um festu og fágun í ljóðagerðinni.
Hlutu kvæði þessi einnig að verðleikum vinsamlega dóma
ýmsra manna, er gott skyn bera á slíka hluti, svo sem þeirra
skáldsagnahöfundanna Kristmanns Guðmundssonar og Guð-
mundar Daníelssonar, en þeir eru báðir einnig ljóðskáld góð.
Síðan hefir Gunnar Dal gerzt afkastamaður á ritvellin-
um, og jafnvígur á bundið mál sem óbundið, því að hann
hefir þegar sent frá sér þrjár aðrar bækur, tvö rit heim-
spekilegs efnis, Rcdd Indlands (1953) og Þeir spáðu í stjörn-
urnar (1954) og ljóðabókina Sfinxinn og hamingjan (1953).
Bókin Þeir spáðu í sijörnurnar hefir höfundi þessarar
greinar enn eigi borizt í hendur, en lesið suma þætti hennar í
Lesbók Morgunblaðsins og góða dóma um hana, t. d. eftir þá
dr. Símon Jóh. Ágústsson prófessor og Jakob Kristinsson
fyrrv. fræðslumálastjóra. Hún fjallar um heimspekinga á
Vesturlöndum og kenningar þeirra frá Ágústínusi kirkju-
föður til Hegels. Er þar því auðsýnilega farið eldi mikið
víðlendi í sögu mannsandans, leit hans að algildum
sannindum.
Skal þá horfið aftur að bók Gunnars Rödd Indlands. Þar
færist höfundur í fang það veglega en vandasama verk að
fræða íslenzka lesendur um indverska heimspeki og lífs-
skoðanir. Hann hefir ekki, góðu heilli, látið sér það nægja að
lesa gaumgæfilega, eins og bók hans ber fagurt vitni, höfuð-
ritin, sem hér er um að ræða, og önnur rit varðandi þau,
heldur gerði hann sér ferð allar götur austur til Indlands og
dvaldist þar um hríð til þess að kynnast Indverjum og aust-
rænum fræðum í hinu upprunalega umhverfi þeirra og áhrif-
um þeirra í menningu og lífi fólksins. Hálft annað ár stundaði
hann nám í indverskri heimspeki við háskólann í Calcutta,
en áður hafði hann lagt stund á heimspekinám við háskólann
í Edinburgh.
Er og skemmst frá því að segja, að við það að drekka af
sjálfri uppsprettulind hinna djúpstæðu austrænu lífssann-
inda, hefir höfundur umræddrar bókar tileinkað sér þau í
svo ríkum mæli, að hann túlkar þau bæði af víðtækri þekk-
ingu og næmum skilningi, og jafnframt á svo ljósan hátt,
að hinn almenni lesandi getur haft fyllstu not af þeim mikla
fróðleik um þessi fræði, sem hér er á borð borinn. Fer þó
fjarri því, að höfundurinn liggi á neinum grunnmiðum; hann
leitar bæði vítt til fanga og kafar djúpt í sannleikssæ hinna
aldagömlu spekimála, sem hann hefir valið sér að viðfangs-
efni. Gerir það lesandanum einnig stórum léttara um vik að
glöggva sig á þeim lífssannindum, að höfundurinn hefir snúið
á íslenzku mörgnm köflum, bæði í bundnu máli 'og óbundnu,
úr hinum austrænu öndvegisritum.
Þessi bók Gunnars er, í einu orði sagt, um allt hin gagn-
merkasta, og ágætur fengur íslenzkum bókmenntum; munu
einnig margir landar hans kunna honum þakkir fyrir hana,
því að það er bæði þarft hlutverk og mikilvægt að byggja
með þeim hætti brú milli fjarskyldra þjóða og tengja þær
menningarböndum.
Frá þessari prýðilegu bók Gunnars um austræn fræði
liggja þræðirnir beint til hinnar nýju ljóðabókar hans,
Sfinxinn og hamingjan, er kom út, eins og fyrr getur, árið
1953, og er þegar komin út í annari útgáfu; ber það því vitni,
að hún hefir fundið hljómgrunn hjá íslenzkum ljóðavinum.
' Hér kveður við nýjan tón í íslenzkum skáldskap. Gætir
hér með mörgum hætti austrænna áhrifa, og þá ekki sízt í
þeirri lífsskoðun, sem er hinn djúpi undirstraumur þessara
kvæða, sums staðar bæði uppistaða þeirra og ívaf, því að
höfundurinn er hvort tveggja í senn, heimspekingur og
skáld, hugsuður væri þó, ef til vill, betra orð í þessu sam-
bandi. Hann glímir við djúp rök tilverunnar, og þess vegna
er ekki að furða, þó að sumum kunni að virðast hann nokkuð
torskilinn á köflum. En það er svo mikill hreinn skáldskapur
í þessum kvæðum, að lesendur geta notið til fulls listarinnar
og fegurðarinnar einna saman.
Bókin, sem lætur lítið yfir sér um stærð (enda fer fjarri,
að list og lengd eigi alltaf samleið í ljóðagerð), hefst á kvæða-
flokkinum „Okíóberljóð", fimmtán kvæðum, sem eru sam-
felld heild, en jafnframt sér um svip, þrungið frjórri hugsun
og ósjaldan með mjög listrænu handbragði um málfar og
ljóðform.
Upphafskvæðið „Morgunn“ er glæsilegt dæmi þess:
Austurhimni á
Eygló hár sitt greiddi,
og rósalíni rauðu brá
hún rekkju sinni hvítri frá
og nýjan dag í nakta arma seiddi. *
Hann söng þér ástaróð.
Og sólregn féll á svarta jörð,
þar sáinn akur stóð.
Næsta kvæðið, „Dagur“, er einnig bæði fagurt og
heillandi:
Og jörðin vaknar, opnar augu sín,
um andlit hennar leikur daggarsindur,
um glóbjart hárið blómasveig hún bindur,
um brjóst og arma fellir himinlín.
Mætti þannig halda áfram, því að öll hafa kvæðin í
þessum flokki nokkuð til síns ágætis um efni og skáldlega
meðíerð þess. Kvæðið „Sær“ er eitt hið merkilegasta þeirra,
en þar skiptast á hreinræktaðar, ljóðrænar náttúrulýsingar
og dulúðugar íhuganir, sem eru þó myndríkar að sama skapi.
Þar grípa hug lesandans föstum tökum hinir táknrænu
töfrar margra þessara kvæða, sem njóta sín þó hvergi betur
en í hinu ágætlega samræmda og fagra kvæði, „Hrynur lauf“,
en það er á þessa leið í heild sinni:
Að fótum jarðar fellur nótt og grætur.
— Fegurð þín af leiði sínu stígur,
svipur hennar fornar leiðir flýgur,
flögrar inn í rökkurheima nætur.
Hrynur lauf í haustskóg minninganna,
horfið sumar rauðum blöðum þekur,
og yndi mitt, sem ekkert framar vekur,
undir sínum mjúka feldi grefur.
Stíga tregans ungu álfafætur
á allt, sem hér í þessum skógi sefur.
Að fótum jarðar fellur nótt og grætur.
Hrynur lauf í haustskóg minninganna.
Hálfur máni skín á blöðin auðu,
blöðin visnu, blöðin föllnu, rauðu,
sem blóði eru skráð úr hjörtum manna.
— Hvar er hlátur sumarsins og söngur,
sóldagar, er hvíldu á brjóstum þínum,
næturnar, er skýldu í skugga sínum
skarlatrauðri vör og augum ljósum?
— Laufin falla, dökknar draumaborgin.
Dísir mínar safna bleikum rósum,
Minningin og systir hennar — Sorgin.
Áhrifamikið kvæði og hugsun hlaðið er „Sfinxinn og
hamingjan“, samnefnt bókinni, og hreint ekki út í bláinn,
því að óhætt mun mega segja, að þar sé að finna kjarna þess
boðskapar, er þessi kvæði höfundar hafa að flytja, færðan í
skáldlegan búning. Hér gætir mjög hinna táknrænu töfra,
og fer það að vonum, því að kvæðið er í rauninni ein sam-
felld táknmynd sannleiks- og hamingjuleitar mannsins,
lausnar hans úr steinrunnum álögum lægri hvata.
Það er hverju orði sannara, sem sagt hefir verið um
þessi „Októberljóð“ höfundar, að þau eru „eitt hið frum-
legasta og fegursta, sém ungt skáld hefir lagt til bókmennta
okkar“ (Kristmann Guðmundsson).
En mörg önnur kvæðin í bókinni eru með sömu ein-
kennum skáldlegrar fegurðar: „Gull að láni“, „Erfiljóð“,
„Perlan falda“, „Myndrím" og „Siglt að Sandi“, að nokkur
séu talin. Önnur eru með meiri ádeilublæ, svo sem „Betlari í
París“, „1 musterinu“ og „Tröllið og dvergurinn“, og bera
vitni friðarást höfundar og mannást hans, samúð hans með
þeim, er skarðan hlut bera frá lífsins nægtaborði.
Eitthvert allra heilsteyptasta og frumlegasta ljóðið í
seinni hluta bókarinnar er kvæðið „Hvert siglirðu, Karon?“
Lífsskoðun höfundarins lýsir
sér þar ágætlega, hugarfar
hans og skáldlegt orðaval:
Hvert siglirðu, Karon, hið
koldimma fljót?
Hverfurðu í rökkurheim
eilífrar nætur
frá þeim, sem á bakkanum
bíður og grætur?
Æ, barn mitt, lát huggast. —
Sjá stjörnunum mót.
Þær upp yfir dauða og
og djúpum þess brenna,
og demantar lífsins á myrkri
þess renna
sem ljóstár í auga vors
óþekkta guðs.
Nóg mun þá hafa sagt verið
þeirri fullyrðingu til staðfest-
ingar, að með þessari kvæða-
bók sinni hafi Gunnar Dal
sýnt, að þar er á uppsiglingu
skáld, sem vekur óvenjulega
miklar vonir. Er það einlæg
ósk velunnara hans, að þær
vonir rætist í sambærilegum
mæli, þegar næsta ljóðabók
hans kemur í höfn.
Mikilhæfur
braufryðjandi . . .
Framhald af bls. 1
merkingu; heimilislíf hans
var ástúðlegt sem þá, er bezt
getur, og gestrisni sat þar
jafnan í hásæti, gestrisni, sem
aldrei fór í manngreinarálit.
Þeim Jóni og frú Soffíu var
haldið fjölment og virðulegt
samsæti í salarkynnum Royal
Alexandra hótelsins hér í
borginni 7. apríl 1928 í til-
efni af silfurbrúðkaupi þeirra,
þar 'sem þau voru hylt af
þakklátri samferðasveit og
þeim þökkuð margbrotin og
giftudrjúg störf í þágu ís-
lenzka mannfélagsins, og þau
voru opinberlega heiðruð
oftar en það.
Jón J. Bíldfell hafði unun
af ritstörfum og vann hin síð-
ari ár allmikið að þýðingum
skáldsagna úr ensku; var
hann vandlátur í vali höfunda
og þýddi meðal annars sögur
eftir Thomas Hardy.
Síðustu árum ævinnar
varði Jón, að því er mér fanst,
til lesturs og fræðilegra iðk-
ana til að bæta upp fyrir það,
sem hann í þeim efnum fór á
mis við í uppvexti og fram
eftir árum; hann var að eðlis-
fari maður örgeðja, en hafði
manna bezt vald á skapi sínu,
og var jafnan skjótur til
alsátta ef eitthvað út af bar.
Útförin, sem um alt var hin
virðulegasta, var gerð frá
Fyrstu lútersku kirkju á
föstudaginn hinn 19. s. m., og
var að því leyti alveg sérstðeð,
að athöfnin öll fór fram á
íslenzku og var það vel til
fallið, þar sem verið var að
kveðja jafn heilsteyptan ls-
lending svo sem Jón J. Bíld-
fell frá vöggu til grafar var.
Hin fögru kveðjumál Dr-
Valdimars J. Eylands verða
birt í næstu viku.
Þökk fyrir langa og góða
samfylgd. Hérna er hendin.
Einar P. Jónsson
ry\sc£<syi