Lögberg - 15.09.1955, Blaðsíða 6
6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 15. SEPTEMBER 1955
GUÐRÚN FRÁ LUNDI:
DALALÍF
Þegar hamingjuóskirnar voru um garð
gengnar, hraðaði Lína sér heim til bæjar. Hún
hafði verið á nálum um, að hún roðnaði allt of
mikið, þegar Þórður tæki í höndina á henni. En
hann hafði aldrei gert það. Skeð gat að fleiri
hefðu gleymt því, þótt hún hefði ekki tekið eftir
því. Að minnsta kosti hafði Borghildur sleppt
því alVeg.
Nú var farið að hugsa til að koma súkku-
laðinu og kaffinu í gestina, svo að hægt væri að
fara að skemmta sér. Þóra, Anna og Gróa báru
kaffið og annað fram. „Myndarlegustu konurnar
í dalnum fyrir utan brúðina“, sagði Hildur gamla
á Jarðbrú, ánægjuleg á svip, við konuna í Hákoti.
Doddi tók sig ágætlega út, og ekki talaði
hann orði við nokkurn mann að fyrra bragði.
Það vissi hann, að var það heppilegasta. Helga á
Hóli tók hann tali, þegar búið var að taka upp
borðin og allt var tilbúið undir dansinn, og sagði
honum, að nú yrði hann að dansa fyrsta dansinn
við konuna eða þá að biðja einhvern annan þess —
annað væri ókurteisi.
„Já, en ég, sem ekki kann neitt að dansa“,
sagði Doddi og setti upp vandræðasvipinn. En þá
datt honum allt í einu Siggi Daníels í hug, en
hann var hvergi sjáanlegur. Þá kom hann auga á
Þórð — hann sat hjá Erlendi á Hóli og harmónik-
unni út í horni. Hann flýtti sér þangað.
„Heldurðu að þú vildir ekki dansa við „hana“
fyrsta dansinn“, sagði Doddi vingjarnlega við
Þórð. „Ég nefnilega kann ekki neitt svoleiðis“.
„Nei, blessaður vertu ekki að fela mér svo
vandasamt verk. Ég er heldur enginn snilldar-
dansari“, sagði Þórður.
Það var eiginlega hann Siggi Daníels, sem ég
ætlaði að tala við um þetta, en hann er hvergi
sjáanlegur“, sagði Doddi alveg ráðalaus. Hann
hafði ekki búizt við þessu.
„Farðu til Jóns, Doddi minn“, sagði Erlendur,
„hann er hvort sem er bezti dansari sveitarinnar
fyrr og síðar“.
Doddi hikaði. „Ja, finnst þér það eiga við?“
spurði hann.
„Ekkert á eins vel við og það. Hann er svara-
maðurinn — „forlofarinn“,“ svaraði Erlendur.
Nú byrjaði brúðarvalsinn. í sömu andránni
sem Doddi hafði hugsað sér að tala við hrepp-
stjórann, sá hann þau Línu og hann líða út á
gólfið í faðmlögum. Lína var kafrjóð í framan og
langaði helzt til að fela andlitið við brjóst hans.
Henni leið illa vegna þess að hún vissi, að þau
voru eina parið á gólfinu og allra augu störðu á
þau. En Þórður var fljótur að bjóða Önnu upp,
svo að hún tæki ekki eftir því, hvernig brúðinni
var brugðið.
„Nú gat þó Þórður farið af stað“, sagði Doddi.
Erlendur brosti kankvíslega: „Já, hann hefur
ekkert á móti því að dansa við Önnu“.
Doddi hafði ekki augun af konu sinni. Hann
var óvanur að sjá fólk dansa, og honum fundust
þessi faðmlög óviðkunnanleg. Hann sat við hliðina
á Helgu á Hóli, en hún sat fast hjá manni sínum
og harmónikunni. Honum sýndist hún brosa háðs-
lega. Hún var alltaf dálítið út undir sig, sú kona,
hugsaði hann.
Næst var tekinn marz. Jón hafði ekkert fyrir
því að sleppa brúðinni, og nú urðu ennþá meiri
þrengsli og gauragangur. Meira að segja tók önnur
systirin frá Hákoti brúðgumann sjálfan og leiddi
hánn út á gólfið, hvað sem hann sagði. Hildur
færði sig fast að Helgu, sem var orðin helzt til
þung í dansi og hafði því góðan frið fyrir
herrunum.
Hildur var sæl og brosandi. „Ég vildi að Doddi
minn hefði lært að dansa“, sagði hún.
„Já, það hefði verið skemmtilegra fyrir hann“,
sagði Helga. Svo bætti hún við dálítið lymskuleg
á svipinn: „Hún er ekki sérlega ánægjuleg á
svipinn, hún móðir hennar Línu. Skyldi hún ekki
vera hrifin af tengdunum við þig, Hildur mín?“
„Hún er alltaf frekar fálát. Svo þekkir hún
líka fáa hér. Ég vona, að hún sé ekki óánægð með
tengdasoninn“, sagði Hildur, en brosið hvarf af
vörum-hennar við þessa athugasemd Helgu.
„Hún þarf þess víst ekki“, sagði Helga þá.
„Það er víst ekki ríkidæminu fyrir að fara þarna í
Háakoti. En ég heyri, að fólkið er alltaf að tala
um, hvað Do4di hafi verið lánsamur“.
„Lánsamur — já, víst er hann það. Hún er
svo góð og myndarleg stúlka“.
„Já, hún mannaðist svo vel hér á þessu
heimili“, sagði Helga .
„Það er nú svona“, andvarpaði Hildur, „að ég
hef frá því fyrsta borið miklar áhyggjur út af
Dodda mínum, en guð hefur látið rætast vel fram
úr fyrir honum. Sízt hafði mér dottið það í hug,
að Doddi yrði ellistoðin mín. En svona er nú lífið
óútreiknanlegt, Helga mín“.
„Ójá, það vill verða það stundum“, sagði Helga.
Anna Friðriksdóttir settist við hliðina á Hildi,
heit og rjóð af dansgólfinu.
„Þú ert bara alltaf á gólfinu“, sagði Helga.
„Það þyngja þig heldur ekki holdin. Mikið eigið
þið gott, sem eruð svona grannar og nettar“.
„Það er orðið svo langt síðan maður hefur
dansað. Ég er svo frábitin því að láta halda böll
hér; mér finnst eiginlega heimilið fara allt á annan
endann, og svo nenni ég ekki að fara ofan á Ós
eða út á Strönd á skemmtanir. Ég er svo gefin
fyrir rólegheitin“, sagði Anna.
Dísa litla dansaði fram hjá þeim rétt í þessum
svifum. Hún var í ljósleitum mússulínskjól með
hvíta borðaslaufu í hárinu, sem var mikið og
eldrautt.
„Það er nú meiri dragtin á henni Dísu hjá þér,
Anna mín“, sagði Helga.
„Þó maður reyndi að láta hana líta almenni-
lega út fyrst hún er hér á heimilinu“.
„Hún kemur sér víst heldur betur en systkini
hennar, sem flækjast úr einum staðnum í annan
og eru alls staðar ílla liðin. Þau þykja nú víst
heldur ómerkileg í höndunum“.
„Svo“, sagði Anna, „mér fellur hún vel í geð,
anginn litli. Hún er náttúrlega lítið gefin, en hún
getur ekki gert að því. En það er svo undarlegt
með það, að flestu vinnufólkinu er svo lítið um
hana gefið. Meira að segja hann Þórður, þessi
geðprýðispiltur, er bara kaldur við hana“.
„Sýnist þér ekki Þórður vera hálfþungur á
brúnina í nótt?“ spurði þá Helga.
„Því ætti hann að vera það?“
„Ketilríður sagði, að þau væru að draga sig
saman, Lína og hann“.
„Það hefur verið eintóm vitleysa. Það hefði
sjálfsagt einhver séð það annar en hún“, sagði
Anna.
Nú varð hlé á dansinum og bekkirnir fylltust
af kvenfólkinu. Næst átti að vera „dömumarz“.
Anna flýtti sér til Þóru í Hvammi.
„Nú skulum við taka Jón. Ég get varla sagt,
að ég hafi dansað við hann ennþá. Við höfum þá
keppt um hann fyrri“, sagði hún hlæjandi.
„Við verðum of seinar“, sagði Þóra. „Sko,
þarna tekur Lína hann og systir hennar“.
Anna settist niður.
„Hann er eftirsóttur eins og fyrri“, sagði Þóra
glettnislega. „Manstu eftir ballinu á Hjalla
forðum?“
„Jú, jú, þá var ég nú heldur viðkvæm og
barnaleg“, sagði Anna.
„Heldurðu að þú sért orðin dálítið sterk-
byggðari núna, ef þú til dæmis sæir hann kyssa
einhverja?“
„Ég veit ekki, Þóra“, sagði Anna og lagði
vangann að öxl henni. „Það er nú, þér að segja,
alltaf mín veika hlið. En mikið var hann nú góður
og eftirlátur við mig þá, eins, og hann er reyndar
alltaf, að fara heim með mér, jafn mikið og hann
hefur þó náttúrlega langað til að dansa lengur.
En svona er hann nú góður við mig“.
Þóra hló dátt.
„Því hlærðu, Þóra?“
„Þú ættir ekki að syngja honum mikið lof,
Anna mín. Hann kom út eftir aftur og dansaði
fram undir morgun. En enga kyssti hann nú samt“.
„Gerði hann það virkilega? Ólukku bragða-
refurinn. Sá skal þó fá eitthvað að heyra svona
við tækifæri“.
„Þú ferð þó ekki að atyrða hann alvarlega
fyrir þessa lausmælgi mína? Það er svo langt
síðan“, sagði Þóra, sem hálfiðraðist eftir að hafa
sagt frá þessu.
„Nei, nei, það geri ég ekki. Hann er búinn að
margbæta fyrir það. En við verðum að fara að
reyna að ná okkur í herra, ef við eigum ekki að
sitja eftir. Ég ætla nú bara að taka Dodda. Hann
situr þarna svo voðalega áhyggjufullur".
„Hann er sjálfsagt dauðhræddur um að Lína
dansi úr sér krakkann“, hvíslaði Þóra skelli-
hlæjandi.
Anna tók höndinni fyrir munn henni. „Svei-
mér ef munnurinn á þér er ekki alveg ómögu-
legur í nótt, Þóra Björnsdóttir“, sagði hún og
hristi höfuðið. Síðan fór hún til Dodda og bauð
honum upp.
„Blessuð vertu — ég kann ekkert — ekki
nokkurn skapaðan hlut“, sagði hann.
. „Þetta er enginn dans, bara að ganga svona
beint áfram. Lína tók manninn minn, svo að það
er rétt að við séum saman“.
Doddi lét hana svo leiða sig út á gólfið.
„Allir út á gólfið!“ klallaði spilarinn.
Bekkirnir ruddust á svipstundu. Helga á
Hóli fór líka. Gömlu konurnar tvær sátu eftir,
Hildur og konan frá Háakoti. Hildur færði sig
nær henni.
„Finnst þér þetta ekki nógu skemmtileg veizla,
góða mín?“ spurði Hildur mjúkmál.
„Jú, það er víst um það“, svaraði konan.
„Þið farið nú ekki lengra en til okkar á
morgun. Einu sinni var sú tíð, að við drukkum
kaffi hvor hjá annarri“, hélt Hildur áfram.
„Ég held að það séu varla húsakynni fyrir
okkur öll til að sofa hjá ykkur. En ég kem við
til að sjá, hvernig heimili Línu minnar lítur út“.
Hún reyndi að hlæja, en var langt frá því að
vera ánægð. Hún hafði verið áhyggjufull síðan
Lína heimsótti hana síðast. Hún sá, að það var
eitthvað, sem hún duldi fyrir henni. Og nú leit
helzt út fyrir, að hún forðaðist að vera nokkra
stund ein með henni. Henni féll þetta ekki vel.
Seinna um nóttina ranglaði hún inn í baðstofu.
Henni datt í hug, að kannske gæti hún fengið að
leggja sig fyrir svolitla stund.
Þarna í baðstofunni sat þá Þórður aleinn,
þegar aðrir hömuðust frammi á dansgólfinu. Það
leit út fyrir, að þeim yrði báðum hálfhvert við.
Hún rétti honum höndina. „Komdu sæll, Þórður!“
sagði hún.
Hann tók hlýlega í hönd hennar. „Komdu
sæl og þakka þér fyrir síðast!“ sagði hann.
„Já, vel á minnzt“, sagði hún, „þá leit út
fyrir, að það yrðir þú, sem ætlaðir að leiða dóttur
mína í dag. Kannske vilt þú segja mér, hvað
aðskildi ykkur? Ég þykist sjá, að hana langi ekki
til að útskýra það“.
„Það býst ég við að ég gæti“, sagði hann
dræmt, „en hún kærir sig sjálfsagt ekkert
um það“.
„En mig langar til að vita það“.
Hann hikaði dálitla stund. „Henni þótti ekki
nógu vænt um mig. Það var það, sem okkur bar
á milli. Ég býst við, að henni líði vel þarna á
Jarðbrú. Þau eru góðar og vandaðar manneskjur“.
„Heldurðu kannske að hún verði ánægðari
með þennan „vesaling“, því að það var hann álit-
inn, þegar hann var þarna út frá“.
„Hann er vandaður maður, eins og ég sagði
þér áðan, og það er líkt um aldur þeirra. Ég er
talsvert eldri en hún“, sagði han'n og stóð upp og
fór út úr borðstofunni.
Nú, þarna kom það sama og Lína hafði sagt
henni, þegar hún kvaddi hana síðast, að hann hefði
verið eldri en hún. Lína hafði verið búin að segja,
að það hefði verið Þórður, sem sleit trúlofuninni,
svo að eitthvað var þarna á milli, sem var ótalið
ennþá, enda fannst henni aldursmunurinn svo
lítilfjörlegt atriði, að það eitt gæti tæplega verið
ástæðan. Og út yfir allt tók þó, að hún skyldi
giftast Dodda. Hversu vandaður sem hann var
álitinn, gat þún ekki annað en litið niður á hann,
enda fannst henni allir tala við hann eins og
skilningslítinn krakka. Hún hefði helzt viljað tala
meira við Þórð, en hann kærði sig auðsjáanlega
ekki um slíkt.