Lögberg - 22.09.1955, Blaðsíða 6

Lögberg - 22.09.1955, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 22. SEPTEMBER 1955 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF DRYKKJURAUS ÞÓRÐAR Ljósin smáfölnuðu fyrir dagsbirtunni. — „Loksins var þetta búið!“ hugsaði Lína. Hún var dauðuppgefin og hefði viljað vera komin heim fyrir löngu, en fólkið langaði til að skemmta sér lengur. Þá átti illa við að draga sig í hlé, enda hafði hún varla setið nokkurn dans. „Þér líður ekki vel, Lína mín“, sagði Anna við hana, þegar hún var að taka af henni skautið. „Ég man, hvað ég var þreytt að vera með skautið alla nóttina, en mamma vildi ekki heyra annað“. „Ég er bara svo þreytt af að dansa“, sagði Lína. „Ég hef hamazt eins og kjáni á gólfinu í alla nótt“. Hún reyndi að harka af sér. „Leiðinlegast er þó, hvað kyrtillinn þinn er orðinn velktur. Ég vil fara með hann heim og þvo hann, svo að þú þurfir ekki að hafa fyrir því“. Þetta var líkt Línu, hugsaði Anna. Svona var hún alltaf. Vildi allt gera sjálf. „Það eru víst nógar stúlkur hérna, sem geta undið hann upp. Mér þykir vænt um að hann klæddi þig svona vel, Lína mín, og hvað allir hafa skemmt sér vel hér í nótt“. Áður en gestirnir fóru, urðu þeir að drekka kaffi enn á ný. Það var því kominn albjartur dagur, þegar Lína, er var með þeim síðustu, gekk ferðbúin milli heimilisfólksins á Nautaflötum og kvaddi það með miklum virtum. Hún bjóst ekki við að sjá það bráðlega aftur. Hún hafði hugsað sér að grafa sig í kofunum á Jarðbrú og reyna að láta sem minnst til sín heyra. Hún þóttist sjá, að álit og vinátta heimsins væri að verða heldur lítilfjörlegt í sinn garð. Vonandi bætti þetta ný- kviknaða líf undir hennar eigin brjósti það allt upp ásamt öðru, sem hún hafði orðið að líða fyrir yfirsjónir sínar. Fyrir það ætlaði hún að lifa í framtíðinni. Borghildur stakk tveimur sámanvöfðum seðl- um ofan með hálsmálinu á peysunni hennar, þegar þær kvöddust. „Þetta er óverulegt, Lína mín, ég átti ekki meira handbært11, sagði hún og þakkaði fyrir alla góða viðkynningu. En sjálfri hamingjuóskinni sleppti hún alveg — henni fannst hún ekki eiga við. Lína mætti Þórði í göngunum eftir að hafa kvatt Borghildi. Henni varð hálfbilt við. Hún var farin að vona, að hún slyppi við að þurfa að kveðja hann. Þau höfðu ekki talazt við alla nótt- ina, og tilviljunin hafði heldur ekki verið svo grálynd að láta þau dansa saman. Hún rétti hon- um þó höndina. „Veltu sæll, Þórður“, sagði hún lágt og hljómlaust. Hann tók þétt í hönd hennar og hún fann, að hann lét smápeninga í lófa hennar. „Þú getur keypt þér eitthvað þér til gamans fyrir þetta“, sagði Þórður, eins og þegar talað er við krakka, sem gefnir eru smáaurar. „Og vertu svo sæl. Líði þér vel í hjónabandinu“. „Þú áttir ekki að gera þetta, Þórður. Ég á ekkert nema slæmt af þér skilið“, sagði Lína. Þórður var horfinn inn í skála áður en hún hafði lokið við setninguna. Það settist harður kökkur í háls henni. Hún horfði á þrjá litla, fallega pen- inga úr dýrasta málminum, sem til er, gljáandi og soralausa eins og ást þessa trygglynda manns. Hún vafði þeim inn í blúndulagða vasaklútinn sinnn, sem var orðinn velktur af tárum hennar og svita — og flýtti sér út úr bænum. Doddi og hildur biðu hennar á hlaðinu. Foreldrar hennar og systkini voru stigin á bak út í tröðinni. Jón fylgdi brúðhjónunum þangað, sem hest- arnir biðu þeirra. „Er Gráni litli ekki þægiiegur?“ spurði hann Línu. „Alveg indæll“, svaraði hún án allrar að- dáunar. „Hún var alltaf á undan á honum“, gall í Dodda. Jón greip brúðurina í faðm sinn og lyfti henni í söðulinn, sletti flötum lófanum á öxlina á Dodda og sagði hlæjandi: „Svona á nú að láta konuna á bak, kunningi“. Doddi brosti sínu sakleysislega brosi. „Já, þú veizt víst, hvernig á að fara að því“ sagði hann. En heima í dyrun'um stóð Þóra í Hvammi og horfði með köldum tortryggnissvip á kveðjurnar. Svo gekk hún hvatlega inn í eldhúsið. Þar sat Anna húsfreyja á stól við borðið, þreytuleg á svip með hálflokuð augun og hallaðist aftur á bak í sætinu. Hárflétturnar náðu niður að stólsetunni. „Drottinn minn dýri“, andvarpaði hún, þegar hún sá Þóru. „Mér finnst eins og fæturnir á mér séu að soðna í sundur. Skórnir eru líka helzt til knappir“. Þóra beygði sig niður og losaði skóna af fótum hennar. „Þú þarft nú hreint ekki að taka þrönga skó á þessa litlu, fallegu fætur“, sagði hún og nuddaði mjúklega fætur hennar í hárfínum sokkunum. „Þetta er þó gott — hamingjan góða, hvað þetta er gott“, sagði Anna. „Þú hefur lagt heldur mikið á þig Línu vegna“, sagði Þóra og málrómur hennar var ekki að sama skapi hlýlegur og handtök hennar. „Hún hefði sjálfsagt getað haldið þessa veizlu einhvers staðar annars staðar en hér — eða þá að halda enga veizlu“. „Þetta er nú gamall og góður siður að halda veizlu, þegar maður giftir sig“, sagði Anna, „þótt þú værir svona stórlát að þiggja ekki að við héld- um svolítið upp á giftingardaginn þinn. Mömmu leiddist það“. „Já, mér þótti það leiðinlegt, en ég gat ekki hugsað til þess að fara að dansa. Það hæfir bezt svoleiðis hjónaböndum eins og okkar Línu að halda enga veizlu. Bað hún þig að lána sér kyrtilinn?“ „Nei, hún ætlaði að vera í peysufötum, en ég sá, að það var svo mikið betra að hún væri í kyrtlinum, þar sem hún var þannig á sig komin. Það er indæl stúlka, hún Lína“. „Já, víst er hún það“, sagði Þóra. Hún kyssti Önnu hlýlega. „Nú ferð þú aj5 hátta, Anna mín“, sagði hún. „Við Borghildur getum gengið frá þessu hér frammi. Þú ert víst orðin nógu þreytt*^ Rétt í þessu kom Jón inn í eldhúsið. „O, þarna kemur þú þá, blessðaur svika- hrappurinn minn“, sagði kona hans brosandi. „Þóra er nú búin að segja mér dálítið um þig, karlinn". Hann leit snöggt til Þóru. „Hvað skyldi það nú vera?“ „Það er dálítið, sem kom fyrir, þegar við vorum nýtrúlofuð“. „Nú-ú!“ „Þú hafðir, trúi ég, farið út að Hjalla um nóttina eftir að ég var sofnuð og dansað þar alla nóttina“. „Hvernig átti ég að fara að sofa og vita, að allir biðu með óþreyju eftir mér út frá, því að auðvitað voru allir hálfsofnaðir, þegar ég kom aftur. En hvað á það að þýða hjá þér, Þóra, að fara að klaga mig núna eftir öll þessi ár?“ „Ég þoldi ekki að heyra hana hæla þér fyrir gæðin að fara heim með sér og neita þér um að dansa“, sagði Þóra glettnisleg á svip. „Hann hefur líklega ekki verið mjög snarpur við þig um morguninn, Anna?“ Hún gerði sig kjassmjúka í málrómnum: „Hvernig líður þér, góða mín — ertu ekki farin að hressast?“ Anna skellihló. „Almáttugur minn, hvað þú getur verið lík honum. Ég man það núna, að hann var svo syfjaður, þegar ég kom fram til hans um morguninn. Ó, hvað þetta var gaman, að þú skyldir segja mér þetta, Þóra, svo að við gætum hlegið að því“. „Þú hlýtur að leggja það í vana þinn að herma eftir mér, Þóra, annars værirðu ekki svona lík mér“, sagði Jón, sem hafði skemmt sér eins vel og kona hans við að rifja þetta hálfgleymda atvik upp. Anna bauð manni sínum varirnar. Hann beygði sig niður að henni. „Hérna er fyrirgefn- ingarkossinn, góði“, sagði hún og hengdi hend- urnar um háls honum. „Þetta er nú líka svo ein- stakur eiginmaður, Þóra mín. Ég minnist þess varla, að okkur hafi borið neitt á milli nema kannske svona tvisvar sinnum í þessi þrettán ár, sem við erum búin að vera saman. Eins og hún mamma sáluga var þó óánægð með veðrið á giftingardaginn okkar. Það er víst ein bábiljan“. „Svoleiðis var hjónaband foreldranna ykkar“, sagði Þóra. „Það var mikið betra“, sagði Jón, „þeim bar aldrei neitt á milli. Það kemur fyrir, að það detta fýluköst í þessa blessaða konu, en slíkt þekktist ekki í þeirra sambúð“. „En nú skal ég segja þér nokkuð“, greip Anna fram í. „Ég fer beina leið í rúmið og fer að sofa, hvað sem þú gerir. Þóra ætlar að ganga frá öllu þessu leirtaui með Borghildi. Svona er að eiga góðar vinkonur. Ég verð að sauma fyrir hana síðar í staðinn“. Hún kyssti Þóru og tiplaði inn í baðstofuna með skóna í hendinni. Jón horfði á eftir henni með aðdáun: „Alveg er^hún eins indæl og þegar við giftum okkur. Það sýnir, að ég hef verið henni góður eiginmaður. Svo er hún nú líka kornung ennþá, blessunin“. En Þóra leit kuldalega á hann og endurtók það, sem hún hafði sagt við hann fyrsta daginn, sem hann var með trúlofunarhringinn: „Hún er’ allt of góð og falleg handa öðrum eins slarkara og þér“. En nú gerði hún sér ekki upp hlátur eða kleip hann í eyrað. Þau voru líka tvö ein. Hann horfði ofan á skóna sína gráa af ryki. „Hvaða della er nú í höfðinu á þér, Þóra? Mér finnst nú reyndar, að þú hafir sagt þetta einhvern tíma áður, en þú meinar það ekki. Ég hef alltaf haldið, að þér fyndist Anna öfundsverð kona“. „Áreiðanlega ekki núna. Aldreá hefði ég trúað því, að þú gætir hagað þér eins og þú gerðir, að halda þessa veizlu hérna“. „Ég held, að ég skilji þig ekki vel. Þér er þá líklega ekki ókunnugt um, að mér þykir gaman að dansa. Þú ert sjálfsagt orðin þó nokkuð syfjuð, get ég hugsað“. „Ég er ekki svo syfjuð, að ég sjái ekki, hvað er að gerast í kringum mig, sérstaklega þar sem ég var þá heldur ekki alveg ókunnug þessum málum áður“. „Hvað á ég að borga þér fyrir allt stappið og vökurnar?“ spurði hann þá. „Ég gerði það fyrir Önnu, en ekki þig“, sagði Þóra önug. „Ég hef aldrei viljað sjá peningana þína og vil það ekki enn“, sagði hún. „Og víst hafa þér þótt þeir álitlegir og víst gerðirðu það fyrir mín orð að vera hérna“, sagði ' hann og hló ertnislega. „Og víst hefur þér oft fundizt Anna öfundsverð kona. En nú sé ég, að það munar mjóu, að þú reiðist við mig, eins og hérna í gamla daga, en svoleiðis vil ég ekki launa þér hjálpina“. Jón rétti henni höndina í kveðju- skyni. Þóra sagði bara, þegar hann fór inn: „Þú skrökvar þessu öllu, eins og þú ert vanur“. , Nú var mikið verk fyrir höndum, að þvo allt leirtauið og koma því fyrir. Það voru þær Borg- hildur og Þóra, sem það gerðu. Gróa og Manga þurftu að fara í fjósið. Þóru var þungt í skapi- Borghildi fannst hún handleika leirtauið allt of harkalega, en kunni ekki við að finna að því við* hana, og sagði bara: „Það verður að fara varlega með þessi bollapör — þau eru svo veik“. „Ég er að vona, að þau komizt heil úr hönd- unum á mér“, svaraði Þóra stuttlega og reyndi að melta með sér þykkjuna. > Þórður kom inn með vasaglas í hendinni og settist við eldhúsborðið: „Hefurðu ekki heitt kaffi á könnunni, Borghildur?“ spurði hann. „Ég var að hugsa um að slá botninn í þennan skrípaleik með því að drekka þennan leka, sem eftir er í glasinu því arna, en mér þykir betra að hafa kaffi saman við það“. „Jú, það er víst nóg kaffi handa þér þarna á könnunni. En ég vildi helzt ekki hafa þig hérna innan um leirtauið“, sagði Borghildur. Hún var önnum kafin við að koma leirtauinu þangað, sem það átti að vera. Sumt fór hún með fram ^ stofu og annað inn í búrið, og enn annað lét húíi ofan. í kössa, sem var hjá eldavélinni. Það var fra Ásólfsstöðum. „En ég verð nú hvergi annars staðar en hérna“, sagði Þórður þráalega.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.