Lögberg - 10.11.1955, Blaðsíða 6

Lögberg - 10.11.1955, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 10. NÓVEMBER 1955 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF „Ó, hvað hann á gott. Bara að hún lifi nú hjá honum. Er hún ekki indæl?“ „Jú, auðvitað er hún það, eins og öll lítil börn“. „Ertu svona daufur yfir því að þú átt ekki nýfætt barn sjálfur?“ spurði hún og hló dálítið. „Já“, sagði hann. „Finnst þér ekki, að það gæti verið gaman að ég ætti litla stúlku, þótt þú værir ekki móðir að henni? Börn eru jafnfalleg, þótt þau séu ekki hjónabandsbörn“. Hann beið óralengi eftir svari hennar. „Guð varðveiti þig frá slíkum hugsunum!" sagði hún. „Það gat nú verið, að hún svaraði svona“, hugsaði hann og klæddi sig úr jakkanum víst í þriðja sinn, hann hafði alltaf klætt sig í hann aftur. „Þetta hefur komið fyrir margan góðan mann, og honum hefur verið fyrirgefið það. Bæði konan og himnafaðirinn hafa tekið hann í sátt við sig“, sagði hann. „En ef það kæmi fyrir þig, þyrftirðu ekki að hátta hjá mér framar. Okkar sambúð væri þá lokið“, sagði hún. Hann þorði ekki að fara lengra út í þessa sálma. Svona myndi hún breyta, ef hún kæmist að sannleikanum. Hann varð að afneita barninu sínu, hversu þungt sem honum fyndist það. Hún mátti ekki fá hugmynd um það. En það lán, að Ketilríður var ekki ofanjarðar lengur til þess að flytja henni fréttir. En hann var kvíðandi samt. AUGUN HANS JAKOBS „Þá eru nú ærnar hennar Línu Sigurlínu komnar aftur“, sagði Steini og hermdi eftir Dodda, þegar hann kom inn einn daginn. Þá datt Dísu það í hug, að hún og Jakob fengju að reka þær yfir um, því að þá fengju þau að sjá litlu stúlkuna hennar Línu. Jpn og Þórður höfðu farið til hrossa. Anna gaf þeim leyfi til að fara, ef Steini fylgdi þeim yfir ána, og svo máttu þau ekki tefja lengi. Samt var það nú svo, að dagur leið að kvöldi, án þess að þau kæmu. Anna hljóp fram í bæjar- dyrnar, þegar hún heyrði til piltanna, og sagði þeim frá áhyggjum sínum. „Ég var svo mikið flón að láta það eftir þeim að fara yfir að Jarðbrú, og er svo orðin dauð- hrædd um að þau hafi farið í ána“, sagði Anna, þegar maður hennar hafði heilsað henni. „Ég hefði verið búin að senda aðra hvora, en þær voru í þvotti“. „Það er óhugsandi, góða mín, að nokkuð al- varlegt hafi skeð. Áin er á hestís“, sagði Jón. „Þau eru komin yfir ána fyrir þó nokkurri stundu. Ég sá til þeirra“, sagði Steini. „Þau hljóta að vera að dunda eitthvað". „Þau munu brátt koma, góða mín, vertu bara róleg. Við skulum koma inn“, sagði Jón hug- hreystandi. Anna fór síðan inn í hjónahúsið og kveykti. Henni fannst tíminn aldrei ætla að líða. Hún var í þann veginn að fara fram og biðja einhvern að fara að leita að krökkunum, en þá heyrði hún, að þau voru að tala frammi í eldhúsinu. Jón var kominn inn til konu sinnar og fór að kveikja í pípunni. Rétt á eftir komu þau Jakob og Dísa hálfskömmustuleg. „Elsku mamma“, sagði Jakob, „mér þykir mjög leiðinlegt að þú skyldir verða hrædd um okkur, en Elli á Hóli kom að Jarðbrú og vildi endilega að við kæmum við hjá sér til að heyra, hvað Siggi er orðinn góðUr að spila á hormoniku“. „Það er gott að þið eruð komin, þá verð ég róleg. En ég bað ykkur nú samt að tefja ekki lengi, svo að þetta var alls ekki rétt gert hjá ykkur“, sagði Anna með hógværri vandlætingu. „Það var Dísa, sem alltaf vildi tefja lengur“, sagði Jakob. „Þú ert nú orðinn svo stór, Jakob minn“, gegndi faðir hans fram í, „að þú mátt ekki láta Dísu ráða yfir þér, sem er yngri en þú og aldrei kemst úr sporunum“. „Hann er farinn að spila svo vel á harmónik- una, hann Siggi“, sagði Dísa. „Mér fannst það svo skemmtilegt, en samt spilar hann ekki líkt því eins vel og Jakob á orgelið“. „Svo fylgdi Siggi okkur yfir ána. Þar vildi Dísa fara að leita að steinum, og það tafði okkur svo lengi“, sagði Jakob. „Fyrirgefðu mér, mamma", vældi Dísa, „ég skal aldrei framar dunda við ána“. „Jæja, góða mín, mundu þá að gera ekki framar það, sem þér hefur verið bannað. Það vill æði oft koma fyrir. En nú skuluð þið fara fram til Borghildar og fá ykkur að borða. Þið hljótið að vera orðin svöng“. „Við borðuðum svið og mjólkurgraut hjá Línu“, svöruðu þau bæði einum rpmi. „Og svo fengum við súkkulaði og brauð á Hóli“, bætti Dísa við. „Jæja, skárri voru það góðgerðirnar, sem þið fenguð hjá nágrönnunum“, sagði Anna brosleit. „Er Lína komin á fætur?“ Börnin svöruðu því bæði játandi. Jakob settist á bekkinn við hliðina á föður sínum, sem horfði hugsandi fram fyrir sig og var hættur að reykja. Hann brosti, þegar Jakob settist hjá honum, strauk yfir kollinn á honum og sagði: „Jæja, vinur, hvað segirðu þá? Það er óvanalegt að þú farir á bæi. Var það dálítið gaman að heim- sækja Línu og sjá nýfætt barn?“ „Já, það var gaman“, sagði Jakob. „En mér datt bara ekki í hug, að barnið væri svona lítið. Var ég svona ^lítill fyrst?“ „Já, svona varstu nú lítill, góði minn, og svo smástækkaðir þú, þangað til þú varst orðinn þetta, sem þú ert núna, og svo átt þú eftir að bæta því við, sem ég hef yfir þig“. „Ég held að ég verði aldrei eins stór og þú, pabbi“, sagði Jakob og mældi föður sinn með augunum. „Ég býst ekki við, að hann verði eins stór og þú“, sagði Anna. „Líklega verður hann álíka og Jakob pabbi“. Dísa horfði gremjuleg á svip á það, að Jakobi var klappað og allt samtalið beindist að honum, en hún var ekki virt viðtals. Hún vildi því sýna, að hún hefði þó talsvert fram yfir hann og sagði mjög drýgindalega: „Ég hef nú séð nýfætt barn áður. Ég sá hann Einar litla í Hvammi, þegar hann var lítill. Hann var mikið stærri en stúlkan hennar Línu, en hann var ekki eins fallegur. Hún er svo falleg, litla stúlkan, og augun í henni eru alveg eins og augun í honum Jakobi“. „Dísa hefur alltaf verið að tala um þetta á leiðinni, að augun í litla barninu væru eins og í mér — þvílíkt flón, sem hún er“, sagði, Jakob hlæjandi. Anna leit snögglega til manns síns. Honum var auðsjáanlega brugðið. Hann stóð upp og dró gluggatjaldið til hliðar og horfði út í hálfrökkrið. „Það eru öll börn með svona blá augu, þegar þau fæðast“, sagði hann. Anna fann, að hjarta hennar fór að slá óvið- kunnanlega hratt, og hún bar fram í huga sér þessa þýðingarmiklu spurningu: „Gat það verið, að það hefði verið hrösun manns hennar, sem hún var að reyna að hylja með kyrtlinum sínum á brúðkaupsdaginn hennar Línu? Gat það verið, að það hafi verið talað í alvöru, sem hann sagði þarna um nóttina, þegar hann var svo undar- legur?“ Hún spratt upp úr sæti sínu og lagði titrandi höndina á öxl honum: „Jón“, sagði hún áköf, en gætti þess þó allt í einu, að krakkarnir voru inni og bætti við: „Á hvað ertu að horfa í' myrkrinu?“ „Á fjallið mitt“ ,svaraði hann, án þess að líta við. „Þú sérð það ekki, það er orðið svo dimmt“. „Jú, ég sé það vel, hvern klett og hvern geira og hvert gil. Þó að ég yrði blindur, sæi ég það alltaf í huganum“. Hann lagði handlegginn um mitti hennar og færði hana til sín, án þess að snúa sér við. „Sjáðu, Anna mín, þú hlýtur að viður- kenna það með mér, að ekkert fjall sé eins fallegt og fjallið okkar. Er það ekki satt?“ „Jú, það er satt“, sagði hún og tortryggni hennar hvarf eins og nýfallinn snjór fyrir heitua1 geislum sólarinnar. Hann kyssti hana hlýtt og ákaft og sagði, að Jakob þyrfti að fara að hátta, hann væri ferðlúinn maður. Anna fyrirvarð sig fyrir það, að sér skyldi hafa dottið þetta í hug, þó að stelpuanginn hefði verið að rugla þetta. Hún stakk upp á því, að það yrði farið að spila. Því var tekið vel, og svo var spilað allt kvöldið fram að háttatíma. En Anna gat samt ekki losnað við þau óþægindi, sem komu hjarta hennar til að slá örara, þegar Dísa minntist á augun hans Jakobs. Hún hugsaði sér að fara sjálf yfir um og sjá barnið með sínum eigin augum- Dísa var sífellt áð þvaðra um augun í barninu daginn eftir, þangað til Þórður talaði til hennar. „Hvað skyldirðu lengi geta staglazt á þessu?“ sagði hann önugur. „Þú lætur alltaf eins og kjáni, enda ertu það líka“. „Og þú ert líka alltaf andstyggilega vondur“, sagði Dísa gröm, en hætti samt að rugla um þetta. Anna sagði manni sínum, að hún hefði hugsað sér að fá sér reiðtúr ofan að Jarðbrú til þess að sjá, hvernig Línu sinni liði í hjónabandinu. Helzt ætti Borghildur að verða sér samferða. Það var nú bara það versta, að Stjarni var svo illa járnað- ur og engin betri járn til undir hann, sögðu þ^ir báðir, Jón og Þórður. „En ég get nú ekki meint annað en að það megi ríða flatjárnað núna, þegar hvergi er svell- glotti í laut og allt eins og á sumardegi“, sagði Borghildur. „Alltaf er þó ísinn á ánni“, gall þá Dísa við. „Það er nú víst hægt að komast yfir hana á vaðinu“, sagði Borghildur. „Það gerir þá víst ekki mikið, hvernig Stjarni er járnaður“, sagði Anna. „Við skulum bara gera okkur nýja skó, Borghildur, og fara svo gangandi. Þetta góða veður biður mann að fara eitthvað út af heimilinu“. Borghildur hló og sagði: „Það ætti víst ekki illa við að gefa Stjarna allan veturinn, en láta þig svo fara gangandi í þetta eina skipti, sem þér dettur í hug að ferðast“. Oft síðar óskaði Borg- hildur þess, að hún hefði aldrei lagt gott til þessa ferðalags, sem hafði svo örlagaríkar afleiðingar. „Það verða sjálfsagt einhver ráð með að laga járnin undir hestinum“, sagði Jón. Hann vonaði, að veðrið yrði sér hliðhollt^og hindraði þetta ferðalag, að hríðarél kæmi eða hvassveður. En nú leit út fyrir, að öll öfl væru farin að vinna á móti honum. Morgundagurinn var ennþá hlýrri en fyrir- rennarar hans. Jón var búinn að ákveða að fara ofan í kaupstað þennan dag. Borghildur lagði það til málanna, að Anna yrði honum samferða. Sjálf ætlaði hún sér að heimsækja Línu seirína, en sá dagur rann aldrei upp. Þá mundi Þórður allt í einu eftir því, að Þóra í Hvammi hefði verið að óska eftir að Anna kæmi út eftir einhvern daginn. En Önnu varð ekkí þokað frá áformi sínu. Seinna ætlaði hún að fara út að Hvammi. Nú komst ekkert annað að en það að heimsækja Línu. Það gekk í eintómum snúningum fyrir Jóni að komast af stað aldrei þessu vant. Hann hring- sólaði út í hesthúsið og heim aftur, án þess að koma reiðtygjunum á hestana. Borghildur raðaði fínu kaffibrauði í pappa- kassa og lét hann ofan í tösku. „Ég býst við að Línu langi til að gefa ykkur kaffi, en það er erfið- leikum bundið að hafa almennilegt kaffibrauð, þar sem engin vél er til með bakarofni“, sagði hún. Þetta var líkt Borghildi, hugsaði Anna. Aldrei hefði henni sjálfri dottið þetta í hug, og hafði hún þó oft séð fóstru sína fara með úttroðnar töskur af hinu og þessu, þegar hún var að heimsækja fátæklingana. Anna tók því ýmislegt upp úr kommóðuskúffunni og lét í töskuna, efni í sængur- ver og lakaléreft. Það gat komið sér vel. Borg- hildur kom með dökkleitt efni frá sér. Lína gat látið Hildi hafa það í kjól eða svuntur, ef henni þætti það óhentugt handa sér. En þá var taskan líka fulltroðin. Þórður kom heim úr fjárhúsunum, þegar hús- bóndi hans var að leggja söðul konu sinnar á Stjarna við skemmudyrnar. „Þú ætlar að fara að ríða út með konunni?“ sagði Þórður hálfsháðslega.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.