Lögberg - 10.11.1955, Blaðsíða 5

Lögberg - 10.11.1955, Blaðsíða 5
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 10. NÓVEMBER 1955 5 ViVVV AHIGAMAL rVENNA « Ritstjóri: INGIBJÖRG JÓNSSON Sorgarsaga prinsessunnar Hann var ein bjartasta stjarnan í flugsveitum Bret- lands, er verndaði landið frá innrás 1940; einn af „þeim fáu“, er Churchill átti við, er hann sagði: „að aldrei hefðu eins margir átt eins fáum eins mikið upp að unna“. Og Georg konungur VI. skipaði hann hirðmann sinn 1943. Þá var litla prinsessan 13 ára. Ekki er ólíklegt að Ijóminn, sem þá lék um nafn þjóð- hetjunnar, hafi snortið hana. Faðir hennar fékk brátt mikl- ar mætur á hinum unga flug- manni og lét svo um mælt, að ef hann hefði átt son, þá hefði hann óskað þess að hann væri h'kur Peter Townsend. Margaret prinsessa elskaði föður sinn mest allra manna; staða hennar einangraði hana að nokkru leyti frá jafnöldum sínum; það var því ekki að undra þó hin hrifnæma unglingsstúlka hændist að þessum manni, sem var heima gangur við hirðina og föður hennar þótti svo vænt um. Um ástir var þó ekki að ræða; hún var enn svo ung; hann var fimmtán árum eldri en hún og kvæntur maður. Svo liðu árin; litla prins- sessan varð glæsileg ung stúlka, er öll þjóðin dáði. Og nú hófust getgáturnar um væntanlegan eiginmann henn- ar. Hin glaðlynda og orð- heppna prinsesSa var hrókur alls fagnaðar í þeim félags- skap ,er hún kaus sér, en ekki festi hún ást á neinum af hin- um mörgu ungu aðalsmönn- um, er hún kynntist. Þessir áhyggjulausu hamingjudagar liðu fljótt undir lok; hún misti sinn ástkæra föður 1952. 1 sorg sinni leitaði hún hluttekningar hjá vini hans, Peter Townsend, og styrks hjá kirkju sinni og formanni hennar, erskibiskupnum af Kantaraborg, en Margaret prinsessa hefir jafnan verið mjög trúrækin. Systir hennar var nú gift, átti tvö yndisleg börn og var mjög hamingjusöm í hjóna- bandinu. Hún tók við rík- inu eftir föður sinn; varð Elizabet II. drottning brezka sambandsþjóðveldisins. Þær systurnar höfðu jafnan verið mjög samrýmdar, en nú flutt- ist Margaret prinsessa ásamt móður sinni úr konungshöll- inni til Clarence House. Peter Townsend hafði eftir sem áður umsjón með heimilis- haldi þeirra mæðgna í hinum nýja bústað. Hann hafði nú skilið við konu sína vegna þess að hún hafði fengið ást á öðrum manni. Þótt Margaret prinsessa í einstæðingsskap sínum hallaðist nú meir að þessum gamla vini fjölskyld- unnar heldur en áður, datt engum í hug, að hún hefði felt ástarhug til hans fyrr en við krýningarathöfn systur hennar. Þá var það, að einn fréttaritaranna, sem alls stað- ar eru á gægjum, tók eftir því, að prinsessan, sem beið í hliðarherbergi ásamt Peter Townsend offursta, strauk fis af kragahorni hans. Ekki þurfti nú meira til; blöðin fluttu þegar frásagnir af þessu atviki, fanst það í meira lagi ástúðlegt í garð Townsends. Winston Churchill ráðlagði drottningunni að fjarlægja Townsend frá Clarence House og var hann sendur í brezku sendisveitina í Brussel; og þar var hann í nokkurs konar út- legð í þrjú ár. Ekki var það þó á allra vit- orði, að um alvarlegan sam- drátt hefði verið að ræða milli prinsessunnar og offurst- ans. Hún lét á litlu bera og byrjaði að taka þátt í skemmt- unum vina sinna eins og fyrr meir, og leysti daglega af hendi opinber skyldustörf fyrir drottninguna, systur sína, og þótti gera það með prýði. Svo leið að tuttugu og fimm ára afmæli hennar, þá töldu allir að hún yrði sjálfráð að því hverjum hún giftist, svo framarlega sem hún afsalaði sér ríkiserfðaréttinum, en hún er þriðja í röðinni; syst- urbörn hennar, Charles og Anne, eru fyrstu tveir ríkis- arfar, og því harla ólíklegt að það kæmi í hlut Margaretar prinsessu að taka við því em- bætti. Var fólk almennt því fylgjandi, að hin vinsæla prinsessa fengi að ráða sér sjálf í hjúskaparmálum sínum. Afmæli prinsessunnar var í sumar, en um miðjan október kom Peter Townsend offursti til London og heimsótti hana að heimili hennar í Clarence House; höfðu þau þá ekki sést í þrjú 4r. Er skemmst, frá því að segja, að næstu vik- urnar voru þau í stöðugum heimboðum hjá vinum þeirra beggja og sáust svo að segja daglega. Bæði ljómuðu þau af gleði og var búist við því, að þá og þegar myndu þau opinbera trúlofun sína. Blöð- in og útvarpið fylgdust með hverju þeirra fótspori; ekki bar á öðru en almenningur gerði sig ánægðan með þetta. En nú þótti forustumönnum kirkjunnar nóg komið. Brezka ríkiskirkjan hefir jafnan verið mótfallin giftingum fráskilins fólks, ekki sízt ef fólk af konungsfjölskyldunni á í hlut, eri kirkjan er öflug á Bret- landi. Sem dæmi þess, tókst henni með aðstoð íhaldsins undir forustu Stanley Baldwin að hrekja Játvarð VIII. frá konungdómi 1936, þegar hann ákvað að kvænast konu, sem skilið hafði við tvo menn. Þótt nú væri ekki um eins þýðingarmikið mál að ræða þar sem hin unga prin- sessa átti í hlut, þá þótti það viðsjárvert að leyfa henni að giftast manni, er skilið hafði við konu sína, því það myndi hnekkja áliti konungsfjöl- skyldunnar, sem á að vera al- menningi fyrirmynd í hví- vetna, ennfremur myndi kirkjuvaldinu þannig verða boðið byrginn og dregið úr áhrifum þess. London Times, eitt áhrifa- mesta dagblað Bretlands, sem þagað hafði um málið fram að þessu, birti nú langa rit- stjórnargrein, þar sem leitast var við að sýna prinsessunni fram á villu hennar vegar, en skriftafaðir hennar og vinur, erkibiskupinn af Kantaraborg á sæti í stjórnarnefnd þess blaðs. Varaði blaðið hana við að ganga í það hjónaband, er fjöldi af þegnum systur henn- ar teldu ekki verulegt hjóna- band; hún myndi þannig auka erfiðleika drottningarinnar og veikja brezka sambandsþjóð- veldið; hún myndi lækka mjög í tigninni; móðir hennar og systir gætu ekki verið við- staddar giftingu hennar, því drottningin er höfuð brezku ríkiskirkjunnar o. s. frv. Þessi grein mun hafa verið prinsessunni sem reiðarslag, ekki sízt, að hún myndi gera systur sinni illt með þessu, því sambandið milli þeirra hefir verið náið og ástúðlegt. Ekki vantaði að önnur blöð tæki málstað elskendanna, svo sem hið virðulega blað Manchester Guardian og Daily Mirror. Þau bentu á, að æðsti valdamaður Bretlands, forsætisráðherrann Anthony Eden, hefði skilið við konu sína og gifst aftur. Samt er það hann, sem skipar biskupa kirkjunnar í embætti. Fanst þeim tími til kominn að skerða að nokkru vald hinna afturhaldssömu kirkjuvalda yfir einkalífi konungsfjöl- skyldunnar, en þau öfl unnu þó sigur í þetta skipti. Hertog- inn af Edinburgh kvað og hafa verið mjög mótfallinn því, að tengdasystir hans tæki þetta spor. Loks þoldi ekki prinsessan mátið lengur og lét hún birta þessa tilkynningu á mánudaginn 31. október: „Ég vil kunngera, að ég hefi ákveðið að giftast ekki Peter Townsend offursta. Mér hefir verið það ljóst, að ef ég afsalaði mér ríkis- erfðarétti mínum, myndi mér mögulegt að ganga í borgar- legt hjónaband. En minnug á kenningar kirkjunnar, að kristið hjóna- band sé órjúfandi, og vitandi um skyldur mínar gagnvart sambandsþjóðveldinu (Com- monwealth) hefi ég tekið þær aðstæður til greina fram yfir aðrar. Þessa ákvörðun hefi ég tek- ið algerlega af sjálfsdáðum, en mér veittist styrkur til þess vegna öruggs stuðnings og ástúðar af hálfu Peter Towns- end offursta. Ég er innilega þakklát fyrir umhyggju þeirra, er hafa jafnan beðið þess, að ég mætti verða hamingjusöm.“ Allir dást nú að kjarki og skyldurækt prinsessunnar, þótt allir séu ekki sammála um að nauðsynlegt hafi verið, að hún fórnaði þannig lífs- hamingju sinni. Ekki er lík- legt, að hún giftist úr þessu, fyrst hún fékk ekki að njóta þess manns, er hún hefir borið tryggð til í fjölda mörg ár. Þannig lýkur sorgarsögu prinsessunnar. 1— Rétt þegar ég er að ljúka við þessa grein, heyri ég yfir útvarpið, að eitt helzta blað Frakklands segi, að kona, eins og Margaret prinsessa, er lætur skyldur sínar við ríkið sitja í fyrirrúmi fyrir tilfinn- ingum sínum, sé hæf til að skipa háa stöðu, svo sem land- stjóraembættið í Canada. Verkfræðingur nokkur við Kaliforníu-háskóla, — Gerald Hassler að nafni, — hefur fundið upp nýja aðferð við framleiðslu á neyzluvatni úr sjó, hefur hann tekið til fyrir- myndar aðferðir mannslíkam- ans við slíka efnaskiptingu. Segist hann brátt geta fram- leitt tæki, sem framleiðir 8000 lítra af ferskvatni á sólar- hring. Auðvelt að njóta sjúkrahúss umönnunar með BLÁA KROSSINUM Enginn veit nær sjúkdóm ber að — verið viðbúin með Bláa Krossinum. Aðal markmið Bláa Krossins er að veita nauðsynlega sjúkrahúss aðhlynningu — fremur en afla dollara. INNRITIST STRAX! Kostar nokkra skildinga á dag. Fullnaðar upplýsingar hjá næsta Blue Crss umboðsmanni eða næstu M.H.S.A. skrifstofu. MANIT0BA H0SPITAL SERVICE ASS0CIATI0N 116 EDMONTON ST. 201 SECURITY BLDG. WINNIPEG BRANDON Phone 92-2181 Phone 3563

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.